14.02.1966
Neðri deild: 40. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 619 í B-deild Alþingistíðinda. (415)

19. mál, eignarréttur og afnotaréttur fasteigna

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Allshn. hefur á nokkrum fundum sínum athugað og rætt frv. til l. um eignarrétt og afnotarétt fasteigna, en nm. hafa ekki orðið að öllu leyti sammála um afgreiðslu frv. Meiri hl. n. mælir með því, að frv. verði samþ. með smávægilegum orðalagsbreytingum, sem á engan hátt raska efni frv., og eru brtt. þessar á þskj. 136, og stendur öll n. að þeim. Minni hl. n. hefur gefið út tvö nál., annars vegar Björn Fr. Björnsson og Skúli Guðmundsson og hins vegar Karl Guðjónsson, og vilja þeir gera á frv. nokkrar efnisbreytingar, sem ég mun víkja að síðar.

Á síðasta þingi var lagt fram stjfrv. um sama efni, en það varð ekki útrætt. Í þessu frv., sem hér liggur fyrir, hafa verið gerðar nokkrar breytingar á 1. og 5. gr. frá því frv., sem fyrir lá á síðasta þingi. Þessar breyt. á áðurnefndum greinum frv. eru gerðar með hliðsjón af brtt., sem fluttar voru við frv. í fyrra af meiri hl. og 1. minni hl. allshn. Á 4. tölulið 1. gr. þessa frv. er gerð sú breyting frá fyrra frv., að nú er það skilyrði sett fyrir, að hlutafélag geti öðlazt réttindi yfir fasteign, að 4/5 hlutar hlutafjár skuli vera eign íslenzkra ríkisborgara í stað einfalds meiri hl. hlutafjár. Breytingar á 5. gr. frv., miðað við frv. í fyrra, eru orðalags- og tilvitnunarbreytingar, en ekki efnisbreytingar.

Í báðum frv., bæði því, sem hér liggur fyrir til umr., og því, sem lagt var fram í fyrra, er gert ráð fyrir því í 1. gr., að heimild ráðh. haldist til að veita undanþágur frá þeim skilyrðum, sem sett eru í 1.—4. tölul. 1. gr. frv. fyrir því, að útlendingar geti öðlazt réttindi yfir fasteign, ef sérstaklega stendur á. Út af þessari undanþáguheimild ráðh. hefur ágreiningur risið í n. við afgreiðslu frv. Vill minni hl. n. takmarka mjög eða fella niður með öllu þessa undanþáguheimild, en meiri hl. n. telur ekki ástæðu til slíks, enda eru sams konar eða hliðstæðar leyfisheimildir til handa ráðh. eða þjóðhöfðingja í hliðstæðum lögum allra hinna Norðurlandanna, og er ekki til þess vitað, að slík leyfisheimild eða undanþáguheimild hafi hingað til komið að sök hér á landi, en í íslenzkum lögum hefur hún verið a.m.k. frá árinu 1919.

Frv. þessu, ef að lögum verður, er annars ætlað koma í stað gildandi laga um eignarrétt og afnotarétt fasteigna hér á landi, en þau lög eru nr. 63 frá 1919. Felast í frv. þessu aðallega þær breyt., miðað við gildandi lög, að tekin eru upp í það ákvæði, sem miða við ríkisfang sem skilyrði fyrir réttindum yfir fasteign í stað heimilisfangs samkv. gildandi lögum. Jafnframt er ákvæði í frv. um, að mikill meiri hl. eða 4/5 hlutar hlutafjár í hlutafélögum skuli vera eign íslenzkra ríkisborgara, ef félögin eiga að geta án ráðherraleyfis átt fasteign hér á landi, en slíkt ákvæði er ekki í gildandi lögum.

Eins og ég áður tók fram, herra forseti, leggur meiri hl. allshn. til, að frv. verði samþ. með þeim breytingum, sem n. gerir till. um og fyrir liggja á þskj. 136.