14.02.1966
Neðri deild: 40. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 621 í B-deild Alþingistíðinda. (418)

19. mál, eignarréttur og afnotaréttur fasteigna

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Ég þakka n. fyrir meðferð málsins. Það er megintilgangur þessa frv. að þrengja rétt erlendra manna til eignar- og afnotaréttar á fasteignum hér á landi, og ég sé, að það virðist, að hv. þm. virðist heimild ráðh. vera of rúm til þess að veita undanþágur frá þeim reglum, sem settar eru í l., og það er í sjálfu sér skiljanlegt, og það er rétt, að l. ákveða viss skilyrði og gefa ráðh. meira og minna opnar hendur til að falla frá öllum þessum skilyrðum. Er ekki óeðlilegt, að hv. þm. vilji setja þrengri skorður þarna. En þó spyr ég: Hefur það nokkurn tíma komið til, er nokkurt einasta tilvik þess frá því 1919, að lögin voru sett, að menn hafi þurft að kvarta undan þessari heimild, sem ráðh. hefur? Ég held, að það sé ekki til nokkurs staðar, að það hafi verið þarna af hálfu íslenzks ráðh. farið þannig að, að þm. hafi þurft að kvarta undan því. Ég vil hins vegar athuga þetta svolitið betur og mundi vilja mælast til þess nú, að hæstv. forseti frestaði atkvgr. um málið, og þá mundi ég helzt ekki vilja, að málið yrði tekið á dagskrá á morgun, heldur eftir miðvikudaginn, en þá er fundur í sameinuðu þingi, og gæfist þá tími til að huga að því betur.