07.03.1966
Efri deild: 46. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 627 í B-deild Alþingistíðinda. (427)

19. mál, eignarréttur og afnotaréttur fasteigna

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Eins og hv. alþm. er kunnugt, var þetta mál lagt fyrir síðasta þing, en náði þá ekki afgreiðslu, en er nú komið hingað til Ed. eftir afgreiðslu málsins í Nd.

Það hefur borið á góma nokkrum sinnum á seinni árum, að það væri ástæða til að endurskoða þau íslenzku lagaákvæði, sem gilda um eignarrétt og afnotarétt fasteigna, enda eru þau komin nokkuð til ára sinna eða frá 1919. Og á Alþ. 1963—64 var til meðferðar þáltill. um þetta efni, sem var vísað til ríkisstj. Ég hafði síðan samráð um það í þeim rn., sem málið helzt snerti, að endurskoða löggjöfina frá 1919, og þetta frv. er árangur þeirrar endurskoðunar, sem var gerð af samráði ráðuneytisstjóra og einnig í samráði við tvo hæstaréttardómara.

Það felast aðallega í þessu frv. þær breytingar frá núgildandi löggjöf, að tekin eru upp ákvæði, sem miða við ríkisfang sem skilyrði fyrir réttindum yfir fasteign í stað heimilisfangs eða búsetu, sem er skilyrði núgildandi og hinna eldri laga. Jafnframt eru í frv. ákvæði um, að meiri hl. hlutafjár eða 4/5 hlutafjár, eins og nú er orðið, skuli vera eign íslenzkra ríkisborgara, ef félögin eiga að geta án ráðherraleyfis átt fasteign hér á landi, og slíkt ákvæði er ekki í núgildandi lögum.

Undir meðferð málsins í Nd. sætti nokkurri gagnrýni sú rúma heimild, sem ráðh. hefur samkv. þessu frv. til þess að veita undanþágur frá þeim skilyrðum, sem sett eru í 1. gr. Ég held, að það sé lítil hætta á misnotkun þeirra heimilda, en til þæginda að hafa þær í löggjöfinni, enda held ég, að það hafi aldrei komið fyrir á þeim tæplega 50 árum, sem l. frá 1919 hafa gilt, að það hafi sætt nokkurri gagnrýni um meðferð nokkurs ráðh. á slíkum heimildum.

Þessu frv. fylgja nokkur fskj., sem aðallega voru hugsuð til þess að verða til styrktar eða leiðbeiningar fyrir þá n. fyrst og fremst, sem málið fær til meðferðar. Það er yfirlit um réttarstöðu útlendinga með tilliti til fasteigna og atvinnurekstrar á Íslandi, sem tekið var saman af Halldóri Jónatanssyni fulltrúa í stjórnarráðinu og lögfræðingi. Það er fskj., sem felst í yfirlit um lagaskilyrði fyrir eignarrétti og afnotarétti útlendinga á fasteignum á Norðurlöndum og lauslegt yfirlit yfir gildandi lagaákvæði yfir rétt útlendinga til að stunda atvinnurekstur í Danmörku, Noregi og Svíþjóð. Þegar athuguð er löggjöf nágranna okkar, Norðurlandaþjóðanna, kemur í ljós, að hún er yfirleitt nokkuð frjálsleg og kannske frjálslegri en gert er ráð fyrir í þessum l., en sennilega er það eðlilegt miðað við sérstöðu og smæð okkar þjóðar. Það má einnig hafa í huga, að það virðist nokkuð sameiginlegt álit um það, að ef um er að ræða veruleg eignarréttindi og afnotaréttindi fasteigna hér á landi í sambandi við atvinnurekstur, sé eðlilegt, að slíkt mál. þrátt fyrir hin almennu ákvæði l., komi sérstaklega fyrir Alþ. Þetta hefur átt sér stað bæði í sambandi við frv. til l. um kísilgúrverksmiðju, þar sem ráðgert var, að útlendingar yrðu aðilar að væntanlegum rekstri kísilgúrvinnslu við Mývatn, og einnig hefur verið ráðgert, að slík sérstök löggjöf verði lögð fyrir þingið í sambandi við hugsanlega álbræðslu hér á landi, sem útlendingar ættu og rækju.

Ég vil leyfa mér að leggja áherzlu á, að n. sú, sem fær þetta mál til athugunar, hraði nokkuð afgreiðslu þess með tilliti til þess, hversu áliðið er þings, og vona, að um málið verði ekki úr þessu mikill ágreiningur hér á þingi. Ég vildi mega leyfa mér að leggja til, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. allshn.