21.03.1966
Efri deild: 53. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 632 í B-deild Alþingistíðinda. (432)

19. mál, eignarréttur og afnotaréttur fasteigna

Frsm. meiri hl. (Friðjón Skarphéðinsson):

Herra forseti. Það eru aðeins örfáar aths. út af ræðum hv. frsm. 1. og 2. minni hl.

Þeir eru sammála um það, að undanþáguheimild, sem gert er ráð fyrir í frv. að ráðh. fái, sé óheppileg og því beri að fella hana niður að mestu, en í stað þess beri að leggja hverja og eina umsókn um undanþágu til handa erlendum ríkisborgara fyrir Alþingi í frumvarpsformi. Um þetta má að sjálfsögðu deila eins og aðra hluti. En það er skoðun mín, að það sé með öllu ástæðulaust að fella niður þessa heimild, enda ætla ég, að engum ráðh. mundi haldast uppi að misnota þennan undanþágurétt.

Það má einnig undirstrika það, eins og hér hefur komið fram, bæði í framsöguræðu hæstv. ráðh. við 1. umr. málsins og eins í ræðu hv. 3. þm. Norðurl. v., að það er ekki vitað til, að undanþáguréttur ráðh. hafi komið að sök hingað til né að sá réttur hafi verið misnotaður. Hið sanna í málinu mun líka vera það, að eftirsókn útlendinga til þess að eignast fasteignir hér á landi hafi verið næsta lítil eða a.m.k. á engan hátt óeðlileg, og gildir það síðan núgildandi lög voru sett um þetta efni 1919, en fyrir þann tíma munu hafa verið nokkur brögð að því í sambandi við vatnsréttindi.

Ég fæ ekki séð, að neitt bendi til þess, að á þessu muni verða breyting um sinn, og því sé ekki efni til að fella niður þessa undanþáguheimild, enda sýnist vera óþarflega fyrirhafnarsamt, að fjallað verði um hvert einstakt undanþágumál. hve smátt í sniðum sem það kann að vera eða verða, við sex umr. hér á hv. Alþingi.

Ég fæ ekki heldur séð neitt varhugavert við ákvæðið um hlutafélög, sem hv. 9. þm. Reykv. (AG) ber fram brtt. um. Ákvæði frv. eru, að mér sýnist, eins og samsvarandi norskar reglur, og öll rök mæla með því að mínum dómi, að fasteignir þar í landi og á hinum Norðurlöndunum muni verða eftirsóknarverðari en fasteignir á Íslandi, og sé einhver sérstaða okkar um þessi efni, þá held ég, að hún sé einna helzt í því fólgin.

Þá sýnist mér það muni vera misskilningur hjá hv. 9. þm. Reykv., að hlutafélög, þar sem einhver hluti hlutafjárins er eign útlendinga, slik félög megi ekki skv. gildandi lögum eiga fasteignir eða hafa afnotarétt fasteigna hér á landi. Ákvæði laganna, sem nú gilda, eru í 1. gr. 3. tölul. og eru á þá leið, að ef félag er og bera sumir fulla, sumir takmarkaða ábyrgð á skuldum félagsins, þá skuli þeir, er fulla ábyrgð bera, allir vera hér heimilisfastir, enda skal félagið hafa hér heimili og varnarþing og stjórnendur allir vera hér heimilisfastir. Skilyrðin nú eru aðeins heimilisfang stjórnar og varnarþing hér á landi, en alls ekki, að enginn hluti hlutafjárins megi vera eign útlendinga.

Af þessum ástæðum treysti ég mér ekki til þess að mæla með því, að brtt. þær, sem fram hafa verið bornar, verði samþykktar.