07.03.1966
Neðri deild: 51. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 635 í B-deild Alþingistíðinda. (445)

108. mál, kosningar til Alþingis

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Mál þetta hefur hlotið afgreiðslu í Ed., en það er smávægileg breyting, sem í því felst á l. um kosningar til Alþ. Eins og kemur fram í grg. hafa með tilkomu nafnskírteina, sem hagstofan gefur út, skapazt möguleikar á því að láta alla kjósendur gera grein fyrir sér á þann hátt, að fullnægjandi verði talið. Þess vegna er lagt til í þessu frv., að 2. málsgr. 81. gr. l. um kosningar til Alþ. verði breytt þannig, að kjósandi geti, ef kjörstjórn óskar þess, sannað, hver hann er, með því að framvísa nafnskírteini sínu. Það er að sjálfsögðu gert ráð fyrir því, að kjósandi geti eftir sem áður fært sönnur á það, hver hann er, með ýmsum öðrum hætti, þ. á m. þeim, sem lögin hafa gert ráð fyrir til þessa, en skv. núgildandi l. er kjósanda heimilt að fá inn með sér tvo kjósendur, sem kjörstjórn þekkir, og ef þeir lýsa því yfir að viðlögðum drengskap, að maðurinn sé sá, sem hann kveðst vera, er það næg sönnun til þess, að hann fái að neyta kosningarréttar síns. Þetta virðist eðlileg breyting á l. og mundi, eins og gerð er grein fyrir í grg., koma til framkvæmda í sambandi við væntanlegar sveitarstjórnarkosningar, ef að lögum yrði.

Ég vil leyfa mér að leggja til, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. allshn.