02.12.1965
Sameinað þing: 15. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 83 í B-deild Alþingistíðinda. (45)

1. mál, fjárlög 1966

Frsm. meiri hl. (Jón Árnason):

Herra forseti. Svo sem fram kemur í nál. meiri hl. fjvn. á þskj. 112, hefur ekki náðst samkomulag innan n. um afstöðu til fjárlagafrv. Það á að heita svo, að öll n. standi sameiginlega að þeim brtt., sem fluttar eru á þskj. 111. Fulltrúar Framsfl. og fulltrúar Alþb. í n. hafa þó þann fyrirvara þar um, að fyrrnefndar till., sem fluttar eru í nafni n., njóti ekki allar stuðnings þeirra. Áskilja þeir sér einnig rétt til þess að flytja eða fylgja brtt., sem fram kunna að koma við einstaka liði frv. eða hinar sameiginlegu till.

N. hóf umr. og athugun á frv. þegar á 2. fundi sínum þann 14. okt. s.l. Má segja, að n. hafi síðan starfað samfellt að athugun málsins og því æðimikið mætt á nm. undanfarnar vikur. Vinnubrögð innan n. hafa verið með sama hætti og áður, þannig að hún hefur skipt með sér verkum og unnið milli funda að athugun sérstakra málaflokka. Hefur það létt nm. störfin og flýtt fyrir afgreiðslu málsins.

Ég verð að segja, að mér kom nokkuð á óvart sú yfirlýsing, sem minni hl. n. lét bóka varðandi afstöðu sína til þeirra till., sem n. flytur sameiginlega. En till. höfðu allar verið samþykktar samhljóða í nefndinni. Hverjar þær till. eru, sem minni hl. styður ekki, er mér því algerlega ókunnugt um.

Ég vil nota þetta tækifæri til þess að þakka meðnm. mínum öllum fyrir ágætt samstarf í n. Ég vona, að enda þótt afgreiðsla málsins af hendi meiri hl. hafi skipazt nokkuð á annan veg að ýmsu leyti heldur en fulltrúar stjórnarandstöðunnar í n. hefðu kosið, telji þeir sig ekki hafa verið órétti beitta í sambandi við vinnubrögð innan nefndarinnar.

Það má svo öllum verða ljóst, eins og bezt verður séð af nál. 1. og 2. minni hl. í n. og þeim brtt. um auknar fjárveitingar, sem þeir hafa flutt á sérstökum þskj., að n. gat ekki átt samleið um margt, sem um var að ræða, og reyndar ekki við því að búast.

Auk fjárlagafrv. hefur n. haft til athugunar um 440 erindi, sem til hennar hafa borizt frá ýmsum aðilum. Hefur n. leitazt við að setja sig inn í mál þessi, eftir því sem kostur hefur verið á. Þótt hér hafi í mörgum tilfellum verið um fjárbeiðnir að ræða, sem ætlaðar voru til þjóðnýtra framkvæmda og til stuðnings við margvísleg góð málefni, hefur n. því miður ekki nema að mjög litlu leyti séð sér fært að verða við þeim óskum, sem hér er um að ræða. Hefði n. vissulega kosið að geta verið ríflegri í till. sínum um auknar fjárveitingar, en hér hefur orðið að sníða stakk eftir vexti og horfast í augu við þær staðreyndir, sem fyrir liggja.

N. tók sérstaklega til athugunar þær breytingar, sem í frv. felast miðað við fjárlög yfirstandandi árs. Þá kynnti n. sér afkomuhorfur ríkissjóðs á yfirstandandi ári, eftir því sem tök eru á. Í því sambandi fékk n. sundurliðað yfirlit hjá ríkisbókhaldinu um tekjur og gjöld ríkissjóðs á yfirstandandi ári allt fram til 1. nóv. s.l. Af þessu yfirliti verður að vísu ekki séð, hver hin raunverulega afkoma ríkissjóðs verður í lok ársins, en margt virðist því miður benda til þess, að um nokkurn greiðsluhalla verði að ræða. Þá átti n. fund með settum forstöðumanni Efnahagsstofnunar ríkisins, herra Torfa Ásgeirssyni. Lét hann n. í té nýja og endurskoðaða áætlun um tekjur og gjöld ríkissjóðs á komandi ári. Þær upplýsingar, sem þar er að finna, benda ekki til þess, að tekjur ríkissjóðs á árinu 1966 muni reynast ríflegri en gert er ráð fyrir í frv. Að vísu telur Efnahagsstofnunin, að nokkrar breytingar kunni að eiga sér stað varðandi einstaka tekjuliði, en heildarmyndin er sú, að tekjur ríkissjóðs verði sem næst því, sem í frv. segir. Þó kann svo að fara, að einhverra minni háttar breytinga sé þörf: Mun n. að sjálfsögðu taka það til nánari athugunar fyrir 3. umr.

Jafnhliða athugun n. á rekstri hinna ýmsu stofnana, sem fé er veitt til á fjárl., ræddi n. við forstöðumenn þeirra, svo sem venja er, og fékk hjá þeim ýmsar upplýsingar varðandi reksturinn. Ég tel, að það hafi yfirleitt verið álit forstöðumanna, að fjárlagafrv. sé í samræmi við óhreyttan rekstur og starfsmannafjölda stofnananna. Hins vegar er því ekki að leyna, að mikil ásókn er um aukið fjármagn til fjölgunar starfsliði og aukins rekstrar á ýmsum sviðum. N. hefur yfirleitt ekki séð sér fært að verða við slíkum óskum. Þó hefur hún í smáum stíl reynt að bæta úr brýnustu þörfum í sumum tilfellum.

Hjá n. eru enn til athugunar nokkrir málaflokkar, sem bíða afgreiðslu til 3. umr., þ. á m. eru nýbygging skólahúsa og skólastjóraíbúðir, till. um fjárveitingar í fyrirhleðslur og svo sem venja er brtt. n. við 18. gr. Þá eru enn til athugunar nokkur erindi frá ýmsum aðilum, sem n. hefur ekki enn sem komið er tekið endanlega til afgreiðslu. Ég mun því ekki ræða þau mál við þessa umr.

Samvinnunefnd samgöngumála mun skila sínum till. varðandi styrki til flóabáta og vöruflutninga á landi, svo sem jafnan áður.

Á 3. gr. A í fjárlagafrv. eru ýmsar ríkisstofnanir, sem hafa sjálfstæðan fjárhag. Þar á meðal er póstur og sími. N. átti samtal við forstöðumann stofnunarinnar og fékk hjá honum ýtarlegar upplýsingar um rekstur stofnunarinnar. Telur póst- og símamálastjóri, að ekki verði hjá því komizt að hækka gjaldskrár pósts og síma, eigi ekki að skerða verulega þá þjónustu við almenning, sem nú á sér stað, og þá uppbyggingu, sem fyrirhuguð er í sambandi við sjálfvirka símakerfið í landinu. Gjaldskrár pósts og síma hafa nú um tveggja ára skeið staðið óbreyttar, en á sama tíma telur póst- og símamálastjóri að allur tilkostnaður við stofnunina, svo sem launagreiðslur og annað, hafi stórhækkað. Fjvn. ber ekki fram neinar brtt. varðandi tekjur eða gjöld pósts og síma. Ríkisstj. mun hins vegar hafa til athugunar, hvort á það verður fallizt, að gerðar verði breytingar til hækkunar á gjaldskránum.

Ég mun þá víkja nokkuð að einstökum brtt. n. Er þar fyrst till. um 1 millj. kr. hækkun vegna þátttöku Íslands í heimssýningunni í Kanada. Sýning þessi verður haldin árið 1967. Í fjárl. yfirstandandi árs er fjárveiting í þessu skyni að upphæð 500 þús. kr., og nú er fyrir í frv. sama upphæð. Við nánari athugun kom í ljós, að ekki verður hjá því komizt að hækka framlagið sem þessu nemur.

2. till. við 10. gr. er að upphæð 30 þús. kr., sem er nýr liður vegna þátttöku í fundi Alþjóðafuglaverndunarsambandsins og alþjóðaþingi fuglafræðinga. Ísland er aðili að Alþjóðafuglaverndunarsambandinu, og á dr. Finnur Guðmundsson sæti í stjórn þess. Svo sem kunnugt er, fara nú fram hér á landi þýðingarmiklar rannsóknir á rjúpnastofninum, og á mörgum öðrum sviðum er Ísland talið þýðingarmikið fyrir fuglafræðinga. — Alls eru því till. til hækkunar á 10. gr. 1 millj. og 30 þús. kr.

Þá eru næst till. um breyt. á 12. gr. Kemur þar fyrst till. til hækkunar á liðnum: Styrkir til byggingar sjúkrahúsa, sjúkraskýla og læknisbústaða. Nemur sú hækkun, sem þar er um að ræða, 334 606 kr. Er þá miðað við, að fjárveitingar til umræddra framkvæmda séu í samræmi víð þá reglu, sem upp var tekin á síðasta þingi, að greiða hluta ríkissjóðs í byggingarkostnaði sjúkrahúsa og sjúkraskýla á 8 árum og læknisbústaða á 5 árum. — Styrkur til lækningaferða sérfræðinga er hækkaður um 30 þús. kr. — Á síðasta þingi voru samþ. ný læknaskipunarlög. Felur þessi löggjöf í sér vissar fjárhagslegar skuldbindingar á hendur ríkissjóði. Eru því teknir upp nýir liðir í samræmi við það, sem þar er ákveðið: Í fyrsta lagi samkv. 16. gr. l. 100 þús. kr. Í öðru lagi stofnframlag til bifreiðalánasjóðs héraðslækna samkv. 14. gr. 500 þús. kr., og er það fyrri greiðsla, en samkv. l. skal stofnframlagið vera alls 1 millj. kr. Loks er till. um 300 þús. kr. til námslána læknastúdenta gegn skuldbindingu um læknaþjónustu í héraði að loknu námi en það er samkv. 13. gr. læknaskipunarlaganna. Í undirbúningi er reglugerð um námslán þessi. Er þar gert ráð fyrir, að lán til hvers stúdents geti orðið 75 þús. kr. á ári í allt að 3 ár. — Þá er lagt til, að styrkur til ýmissa sjúklinga eftir úthlutun tryggingaráðs gegn tvöföldu framlagi frá Tryggingastofnun ríkisins hækki um 100 þús. kr. og styrkur, sem veittur er samkv. till. landlæknis til sjúklinga, sem leita þurfa læknishjálpar erlendis, hækki einnig um 100 þús. Styrkur þessi er einungis veittur í þeim tilfellum, þegar um læknisaðstoð er að ræða, sem er ekki fyrir hendi hér á landi. Umræddar læknisaðgerðir eru nær undantekningalaust mjög kostnaðarsamar og í flestum tilfellum ofviða þeim, sem í hlut eiga. — Þá er að lokum till. um fjárveitingu að upphæð 110 þús. kr., sem verja skal til þess að hafa eftirlit með notkun deyfilyfja. — Samtals eru till. til hækkunar á 12. gr. 1 574 606 kr.

Í fjárlagafrv. á 13. gr. B er styrkur til rekstrar Skipaútgerðar ríkisins að upphæð 24 millj. kr. Er það sama upphæð og í fjárl. yfirstandandi árs. N. átti fund með forstjóra Skipaútgerðarinnar og ræddi við hann um vandamál stofnunarinnar. Eins og fram kom í fjárlagaræðu hæstv. fjmrh., en hann vék nokkuð að rekstri Skipaútgerðar ríkisins og þeim uggvænlega halla, sem þar hefur skapazt á síðari árum, mun hallinn 1964 hafa numið tæplega 38 millj. kr., og það er talið, að á yfirstandandi ári verði um álíka halla að ræða hjá Skipaútgerðinni. Samkv. áætlun forstjórans um rekstrarafkomu Skipaútgerðarinnar á komandi ári telur hann, að hallinn verði 35 millj. 622 þús., nema því aðeins að fært þyki eftir nánari athugun að gera einhverjar þær ráðstafanir, sem dregið geti úr hallanum, en á því telur forstjórinn að séu margþættir örðugleikar. N, hefur að svo komnu máli ekki borið fram brtt. við þennan lið fjárlagafrv. Henni er þó ljóst, að fjárveiting sú, sem hér um ræðir, nægir hvergi nærri til þess að standa undir óbreyttum halla. Eins og hæstv. fjmrh. gat um í framsöguræðu sinni fyrir frv., verður vart hjá því komizt að gera skipulagsbreytingar á rekstri þessa fyrirtækis. Enn einu sinni hefur nú verið skipuð n. til að athuga úrræði til lausnar þessu vandamáli. Þess er að vænta, að n. takist að finna úrræði, er að gagni megi koma, enda óviðunandi, að haldið verði áfram með slíkan hallarekstur um alla framtíð.

Á 13. gr. C eru fjárveitingar til vitamála og hafnargerða. N. átti tvo fundi með vita- og hafnarmálastjóra. Gerði hann n. ýtarlega grein fyrir viðskiptum hafnanna við ríkissjóð, framkvæmdum á yfirstandandi ári og fyrirhuguðum framkvæmdum á næsta ári. Eins og ég gat um við 2. umr. fjárl. á síðasta ári, taldi ég, að staða ríkissjóðs gagnvart greiðslum til hafnanna hefði ekki um langan tíma staðið jafnvel og þá. Átti ríkissjóður ógreitt í árslok 1964 22 millj. 628 þús. — og þó nokkru minna, þar sem 5 millj. 953 þús. var ýmist geymt fé eða fyrir fram greitt. Var því skuld ríkissjóðs raunverulega 16 millj. 625 þús. kr. í árslok 1964. Á yfirstandandi ári eru heildarframkvæmdir í hafnarmálum utan landshafna og Þorlákshafnar 104 millj. 950 þús. kr. Þar af er hluti ríkissjóðs 42 millj. 123 þús. Á sama hátt er þá ógreitt ríkissjóðsframlag í árslok 1965 41 millj. 251 þús., en þar frá dregst geymt fé og fyrir fram greitt, 8 millj. 476 þús. kr. Nettómismunur verður því í árslok nú 32 millj. 775 þús. kr. Í frv. eru fjárveitingar til þessara hafnarframkvæmda samtals að upphæð 25.2 millj. kr. Þar við bætist samkv. till. n., ef samþ. verða 1 millj. kr., og til viðbótar má segja að bætist um 7 millj. kr., sem eru hlutur Þorlákshafnar í 16.8 millj. kr. liðnum, sem er greiðslur af hafnarlánum. Nú hefur hafnarmálastjóri lagt fram áætlun um framkvæmdir á næsta ári. Er þar að vísu um óskalista að ræða. Áætlaður heildarkostnaður nemur 215.7 millj., og þar til viðbótar til landshafnanna í Rifi og Keflavík 35 millj., eða samtals 250.7 millj. kr., sem gert er ráð fyrir að unnið verði að í hafnarframkvæmdum á næsta ári. Að sjálfsögðu er hér um óskalista að ræða, sem engin tök væru á að framkvæma sökum vinnuaflsskorts, þó að fé væri fyrir hendi. En þetta talar sínu máli um þörfina á þessum fjárfreku framkvæmdum. Eins og nú er komið, eru mörg sveitarfélög í miklum fjárhagslegum erfiðleikum með að standa að sínum hlut undir byggingu hinna ýmsu hafna. Ég er sammála hæstv. fjmrh., þar sem hann sagði í framsöguræðu sinni varðandi þessi mál, að hér væri um vaxandi vandamál að ræða, sem ekki verður lengur á frest skotið. Hefur þetta ástand leitt til þess, að hafnarlán með ríkisábyrgð hafa í vaxandi mæli fallið á ríkissjóð, vegna þess að sveitarfélögin hafa ekki reynzt fær um að standa undir sínum hluta af byggingarkostnaði hafnanna. Hafnarlögin, sem nú eru í gildi, hafa um alllangan tíma verið í endurskoðun. Það virðist augljóst mál, að hér verður að gera einhverja breytingu á í þá átt að auka aðstoð ríkisins, a. m. k. á vissum stöðum, þar sem framkvæmdir eru dýrar og óhjákvæmilegar, en tekjumöguleikar hafnanna ekki nægilegir til þess að standa undir kostnaðinum. — Á 13. gr. C er einnig lagt til að hækka laun, sem nemur 145 008 kr. Er það vegna ráðningar á nýjum starfsmanni við stofnunina, aðalbókara. — En samtals hækkar 13. gr. C um 1 195 008 kr.

Þá koma næst brtt. n. við 13. gr. D, sem er um flugmál. Lagt er til, að liðurinn viðhald húsa og flugvallarsvæðis hækki um 500 þús. kr. Þá eru till. til leiðréttingar varðandi fjárveitingar til alþjóðaflugþjónustunnar. Þegar fjárlagafrv. var samið, lágu ekki fyrir endanlegar upplýsingar um það, hver hlutur Íslands yrði í þessum kostnaði. Hann hefur nú verið ákveðinn 7.83% á komandi ári. Á þskj. 111 er till. um 208 945 kr. hækkun á þessum liðum. Skv. nýjum upplýsingum, sem fjvn. bárust á þriðjudag s.l., hækkar liðurinn til flugþjónustunnar þó enn meira, eða um 28 365 kr., eins og fram kemur á þskj. 129. — Þá hefur komið í ljós, að tekjur Reykjavíkurflugvallar í sambandi við millilandaflug hafa minnkað verulega frá því, sem áætlað var. Leggur n. því til, að tekjur Reykjavíkurflugvallar lækki í frv. um 500 þús. kr. Jafnhliða hefur verið um tekjuaukningu að ræða hjá Keflavíkurflugvelli, að því er flugmálastjóri tjáði n. Er því lagt til, að tekjur Keflavíkurflugvallar hækki í frv. um 1 millj. kr. Hér verður því jöfnuður á, að öðru leyti en því sem nemur hækkun alþjóðaflugþjónustunnar, en hún verður, eins og áður segir, 237 310 kr.

Lagt er til, að nokkrar breyt. verði gerðar á fjárveitingum á 13. gr. E. Er það til veðurþjónustunnar. Aukavinna hjá yfirstjórn og skrifstofu hækkar um 20 þús., annar kostnaður hjá veðurfarsdeild hækkar um 140 þús. kr. og aukavinna hjá áhaldadeild hækkar um 45 þús. Loks eru nýjar till. á þskj. 129. Er þar um leiðréttingu að ræða vegna hinnar nýju áætlunar alþjóðaflugþjónustunnar, en veðurstofunni bárust ekki upplýsingar um hana, fyrr en eftir að fjvn. hafði gengið frá brtt. sínum. Skv. upplýsingum veðurstofustjóra hækkar endurgreiðsla vegna flugveðurþjónustu um 47 137 kr. Enn fremur verða hækkanir á ýmsum líðum veðurþjónustu vegna millilandaflugs, sem nemur hækkun flugveðurþjónustunnar. — Brtt. n. varðandi 13. gr. E valda samkv. þessu 157 863 kr. til hækkunar.

Á 13. gr. F eru fjárveitingar til ýmissa mála. Lagt er til að tekinn verði upp nýr liður hjá skipaskoðun ríkisins, til áhaldakaupa, ætlað til kaupa á nýju mælitæki, en í grg. fyrir umsókn sinni segir skipaskoðunarstjóri svo m. a., með leyfi forseta:

„Með tilkomu æ fleiri stálskipa færist í aukana eftirlit með tæringu og sliti á stálbyrðingi þeirra. Til þessa hefur slík skoðun farið fram á þann hátt, að boruð eru göt á bolinn og þykkt platnanna síðan mæld í gegnum þau. Er þetta bæði seinlegt og kostnaðarsamt. Með últrahljóðbylgjutækjum er unnt að mæla plötuþykktir án þess að bora göt á plöturnar. Tel ég nauðsynlegt, að skipaskoðunin eignist slíkt tæki.“

Eins og fyrr segir, telur n. rétt að verða við beiðni skipaskoðunarstjóra og leggur til, að veittar verði 100 þús. kr. í þessu skyni. — Þá er lagt til, að liðurinn til áhaldakaupa hjá Stýrimannaskóla Íslands hækki um 195 þús. kr. og verði samt. 350 þús. Þar eru sérstaklega höfð í huga kaup á asdic-fiskileitartæki til kennslu í skólanum. Nýjasta gerð af slíku tæki kostar nú 700 þús. kr. Er því þetta fyrri greiðsla af tveim. — Þá er nýr liður, vegna námskeiðs í mælingatækni 175 þús. kr. En í Bandaríkjunum er nú maður við nám í mælingatækni. — Að lokum er lagt til, að tekinn verði upp nýr liður, til umferðarmiðstöðvar í Reykjavík 500 þús., eða sama upphæð og er í fjárlögum yfirstandandi árs. — Samtals eru till. til hækkunar á 13. gr. F 970 þús. kr.

Á 14. gr. A eru kennslumál. Lagt er til, að launaliður hjá Háskóla Íslands hækki um 44 340 kr. Er það vegna aukakennara í Íslandssögu fyrir stúdenta í BA-námi fyrsta stigs. Þá er till. um, að liðurinn til námskeiðs fyrir norræna stúdenta hækki um 48 þús. — Reiknistofnun háskólans hefur ekki áður verið í fjárlögum. Forstöðumaður stofnunarinnar telur allmikið skorta á, að stofnunin standi undir nauðsynlegum rekstrarkostnaði. N. leggur því til, að tekinn sé upp nýr liður, 250 þús. kr., í þessu skyni. Þá er lagt til að hækka eftirtalda liði við fræðslumálastjóraembættið: c-lið, húsaleiga, ljós, hiti og ræsting, um 50 þús. og e-lið, símakostnaður burðargjald og auglýsingar, um 35 þús. kr. Þá er till. um styrk til tímaritsins „Heimili og skóli“ að upphæð 15 þús. Þetta tímarit hafði áður 10 þús. kr. styrk í fjárlögum, en af vangá mun það hafa fallið niður. — Vegna alþýðuskólans á Eiðum hækkar rekstrarkostnaður samtals um 150 þús. — Viðhaldskostnaður Reykholtsskóla hækkar um 175 þús. — Vegna endurbóta á íþróttahúsi Íþróttakennaraskóla Íslands er lagt til að hækka viðhald um 65 þús. kr. — Á komandi sumri er ákveðið, að fram fari Evrópumeistaramót í frjálsum íþróttum í Búdapest í Ungverjalandi. Slík mót sem þessi eru haldin fjórða hvert ár. Ísland hefur jafnan verið þátttakandi í mótum þessum, eða allt frá 1964. N. leggur til, að fjárveiting verði 120 þús. kr. — Þá er enn fremur nýr liður, til fræðslu- og kynningarmóta skólastjóra 30 þús. kr. — Hækkun á 14. gr. A nemur samkv. brtt. n. 982 340 kr.

Á 14. gr. B er lagt til að tvöfalda fjárveitingu til Árbókar landsbókasafnsins, úr 35 þús. í 70 þús. kr. — Liðurinn til samningar og prentunar íslenzkrar bókaskrár hækkar um 60 þús., en Pétur Sigurðsson fyrrv. háskólaritari hefur unnið að samningu hennar um margra ára skeið. Hefur hann í laun mismun eftirlauna og fastra launa eða 5 þús. kr. á mánuði, og miðast till. n. við það. Handrit bókaskrárinnar er tilbúið og bíður prentunar. — Fjórir liðir hækka hjá þjóðminjasafninu: til aðstoðar, tímavinnu o. fl. hækkar um 40 þús., til rannsókna og ferðalaga hækkar um 25 þús., til hljómplötusafns um 10 þús. og til þjóðháttadeildar um 20 þús. — Tekinn er upp nýr liður, til listasafns Ísafjarðar 25 þús. kr. Breytt er orðalagi á 2. lið hjá fræðslumyndasafni ríkisins skv. ósk forstöðumanns þess, og annar kostnaður hækkar um 50 þús. kr. vegna vaxandi viðgerðarkostnaðar á filmum. — Þá er lagt til að taka upp nýjan lið, vegna flutnings náttúrugripasafnsins 50 þús. kr. Er það til að skapa 2 sérfræðingum við stofnunina viðunandi vinnuaðstöðu.

Sú breyt. er nú í fjárlfrv. frá því, sem áður hefur verið, að styrkir til ritstarfa, útgáfustarfsemi og rannsóknarstarfa eru teknir upp í einum lið, en síðan verður upphæðinni ráðstafað skv. ákvörðun menntmrn. Er lagt til, að þessi liður hækki um 150 þús. Er þar gert ráð fyrir, að 100 þús. kr. renni til Sögufélagsins til útgáfu Alþingisbóka frá 1570–1800, en stjórn Sögufélagsins hefur ákveðið að reyna að gera alvarlegt átak til að ljúka útgáfu þeirra, og er stefnt að því, að útgáfunni verði lokið á 1100 ára afmælinu 1974. 50 þús. kr. munu renna til útgáfu á Stöðufræði og þolfræði eftir Ásgeir heitinn Bjarnason, fyrrum rafveitustjóra á Siglufirði, en Samband ísl. rafveitna hefur annazt útgáfuna. Hér er um að ræða útgáfu fyrra bindis í þessari fræðigrein, en Ásgeir hafði einnig lokið hreyfifræði fastra og fljótandi hluta, sem sambandið hyggst einnig gefa út.

Rekstrarstyrkur tónlistarskóla hækkar um 228606 kr. samkv. nýjum upplýsingum og tilmælum menntmrn. — Styrkur til tónlistarstarfsemi er nú í fyrsta skipti tekinn upp í fjárlfrv. undir einum líð. N. leggur til, að þar verði hækkun, sem nemur 140 þús. kr. Er þá gert ráð fyrir, að 40 þús. kr. renni til tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar, en Jón Þórarinsson tónskáld og menntmrn. mæla með því, að styrkur verði veittur til tónskólans utan við sameiginlega fjárveitingu til tónlistarskóla. — 25 þús. kr. styrkur er veittur Sybil Urbancic til þess að ljúka fullnaðarprófi úr orgeldeild tónlistarakademíunnar í Vínarborg. Loks er lagt til að veita Lögreglukór Reykjavíkur 75 þús. kr. til greiðslu kostnaðar við söngmót lögreglukóra frá höfuðborgum Norðurlanda, sem halda á í Reykjavík næsta sumar.

Styrkur til lúðrasveita hækkar um 15 þús. kr., en það er vegna lúðrasveitarinnar „Svanur“, og nemur þá heildarstyrkur til hennar 50 þús. kr.

Á undanförnum árum hafa 2 heimildarliðir í 22. gr. fjárlaga verið um greiðslu úr ríkissjóði. Annars vegar er um Sinfóníuhljómsveit Íslands að ræða, en hinn liðurinn er vegna þjóðleikhússins. Þar segir, að heimilt sé að greiða úr ríkissjóði kostnað þjóðleikhússins vegna launahækkana skv. úrskurði kjaradóms, að svo miklu leyti sem aðrir tekjuliðir hússins hrökkvi ekki til. Varðandi Sinfóníuhljómsveit Íslands segir: „Að greiða úr ríkissjóði það, sem á kann að skorta, til að 10% skemmtanaskattsálag og 2/5 hlutar af hagnaði Viðtækjaverzlunar ríkisins, sbr. ákv. til brb. í l. nr. 52/1962, hrökkvi til að greiða hluta ríkissjóðs af rekstrarkostnaði Sinfóníuhljómsveitar Íslanda.“

Skv. upplýsingum, sem nefndinni hafa borizt frá fjmrn., hefur ekki verið unnt að komast hjá verulegum greiðslum úr ríkissjóði vegna þessara heimilda. Þannig hafa verið greiddar á árunum 1963 og 1964 alls rúmlega 5 millj. kr. vegna þjóðleikhússins. Enn verður ekki séð, hvaða upphæð verður greidd fyrir yfirstandandi ár. Sömu sögu er að segja varðandi sinfóníuhljómsveitina. Þar eru kröfur ríkisútvarpsins, sem hefur með höndum rekstur hljómsveitarinnar, á hendur ríkissjóði fyrir árið 1964 og 1965 ekki undir 5 659000 kr. Það er því augljóst mál, að notkun þeirra heimilda á 22. gr. fjárlaga, sem hér um ræðir, er þegar orðin árviss og með henni er miklu fé ráðstafað árlega.

Fjmrn. hefur gert áætlanir um rekstur þessara stofnana fyrir árið 1966. Eru till. nefndarinnar byggðar á þeim upplýsingum og lagt til, að teknar verði upp fjárveitingar á 14. gr. B: hluti ríkissjóðs af rekstrarkostnaði Sinfóníuhljómsveitar Íslands 2 millj. 850 þús. og til þjóðleikhússins, rekstrarhalli, 1 millj. 652 þús. kr., enda falla þá heimildargreinarnar að sjálfsögðu niður.

Þá er lagt til að hækka fjárveitingu til Leikfélags Reykjavíkur um 100 þús. Verður sá liður þá í frv. 300 þús. kr.

Lagt er til, að liðurinn til ísl. stúdenta í Kaupmannahöfn hækki um 5 þús. — Til kaupa á íslenzkum bókum og hljómplötum til kennslu við háskólann í Osló er nýr liður, að upphæð 10 þús. kr. — Loks er liður að upphæð 50 þús. til Nonnasafns á Akureyri. — Samtals nema hækkanir nefndarinnar á 14. gr. B 5 515 606 kr.

Á 15. gr. eru fjárveitingar til kirkjumála. Lagt er til, að liðurinn skrifstofukostnaður við biskupsembættið hækki um 35 þús. — Til endurbóta á gömlum íbúðarhúsum á prestssetrum hækkar um 500 þús. — Styrkur til að gefa út ársskýrslu þjóðkirkjunnar er lagt til að hækki um 3 þús. og styrkur til útgáfu Kirkjuritsins um 13 þús. kr. — Annar kostnaður hjá eftirlitsmanni með prestssetrum og umsjónarmanni með kirkjugörðum er lagt til að hækki um 5 þús. kr. hjá hvorum. — Samtals eru till. um hækkun á fjárveitingum á 15. gr. 561 þús. kr.

Við 16. gr. A, landbúnaðarmál, eru ýmsar brtt. Þar er lagt til að hækka fjárveitingu til Búnaðarfélags Íslands um 85 þús., en það svarar til helmings launa garðyrkjuráðunautar, en Samband garðyrkjubænda tjáir sig fúst til að greiða hinn helminginn, enda telur það mjög brýnt, að aukin leiðbeiningastarfsemi verði tekin upp á sviði garðyrkjunnar. — Þá er tekinn upp nýr liður, lífeyrissjóðsframlag til gamalla starfsmanna hjá Búnaðarfélagi Íslands, fyrsta greiðsla af þrem, 158 þús. kr. Er það gert til þess, að umræddir starfsmenn öðlist rétt til lífeyris úr lífeyrissjóði ríkisstarfsmanna, enda greiði þeir þá til sjóðsins það, sem þeim ber. — Svo sem áður hefur n. skipt niður fjárveitingu til sjóvarnargarða. Er það eftir till. hafnarmálastjóra 1 280000 kr. eða óbreytt fjárupphæð frá því, sem er í fjárlagafrv.

Launaliður landgræðslunnar hækkar um 190350 kr. vegna ráðningar fulltrúa landgræðslustjóra, en hann annast um gróðurvernd skv. lögum þar um, sem samþykkt voru á síðasta þingi. — Launaliður skógræktarfélaga hækkar um 20 þús. Er það vegna skógarvarðar í Ásbyrgi, sem fær nú hálf laun skógarvarðar, en hafði áður 1/3 hluta af launum skógarvarðar.

Viðhald og annar kostnaður húsmæðraskólanna að Varmalandi og Laugalandi hækka um 180 þús. kr. hjá hvorum skólanum um sig vegna of lágra kostnaðaráætlana. — Lagt er til að hækka styrk til Heimilisiðnaðarfélags Íslands um 15 þús. kr.

Þá er loks nýr liður, til Efnarannsóknarstofu Norðurlands 150 þús. kr. Verður efnarannsóknarstofan rekin sem sjálfstæð stofnun undir stjórn Ræktunarfélags Norðurlands og hefur þegar tekið til starfa. Aðalverkefni hennar verður að annast jarðvegs-, áburðar- og fóðurefnagreiningar, auk skyldra efna, er til falla og unnt verður að leysa af hendi, eins og segir í greinargerð stjórnar Ræktunarfélags Norðurlands. Brtt. fjvn. við 16. gr. A fela þá í sér samtals 978 350 kr. hækkun frá því, sem er í frv.

Á 16. gr. C er lagt til að hækka fjárveitingu til Landssambands iðnaðarmanna um 300 þús. kr. Við 16. gr. D eru þrjár till. Eru það leiðréttingar við gjöld og tekjur rafmagnsveitna ríkisins. Hafa þær ekki áhrif á niðurstöður fjárlaga. Till. eru skv. upplýsingum raforkumálastjóra.

Á 16. gr. E er lagt til að taka upp nýjan lið hjá rannsóknastofnun fiskiðnaðarins, til rannsókna vegna rotvarnar bræðslusíldar með natrium nitrit 280 þús. kr. Í grg. rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins segir svo m. a., með leyfi hæstv. forseta:

„Natrium nitrit er almennt notað til þess að rotverja bræðslusíld hér á landi, en það er banvænt eiturefni, sem kunnugt er. Hafa rannsóknir þessar hjá rannsóknastofu Fiskifélagsins verið við það miðaðar, að þær leiddu í ljós, hvort efni þetta væri notað í óhófi. Eru framleiðendum sendar árlega fjölritaðar skýrslur um niðurstöður mælinganna, en auk þess gerir rannsóknastofan hlutaðeigandi aðilum aðvart tafarlaust, verði hún vör við misfellur í notkun þeirra á natrium nitrit “

Nú er komið í ljós, að þessar rannsóknir veita ekki fullnægjandi öryggi, og þarf nauðsynlega að herða mjög á eftirliti með notkun þessa rotvarnarefnis. Þá þyrfti að taka upp fóðurtilraunir í samvinnu við tilraunastöðina á Keldum. Hér er um sameiginleg vandamál iðnaðarins að ræða, því að mistök hjá einum aðila bitna óhjákvæmilega á iðnaðinum í heild. Nefndin telur, að hér sé um mikið alvörumál að ræða, og leggur því til, að umrædd till. verði samþ.

Þá er lagt til að lækka launalið rannsóknastofnunar landbúnaðarins um 140 350 kr. Er það vegna þess, að einn af sérfræðingum stofnunarinnar færist yfir til landgræðslustjóra. Hann mun þó taka að sér nokkurt aukastarf fyrir stofnunina í framtíðinni. Hins vegar hækkar annar kostnaður um 60 þús. kr. vegna rannsókna á kalskemmdum á Austurlandi.

Styrkur til Verzlunarskóla Íslands hækkar um 203 500 kr., en það er vegna fjölgunar nemenda skólans.

Samtals hækka fjárveitingar á 16. gr. E, verði till. nefndarinnar samþ., um 403 150 kr.

Á 17. gr. er nýr liður, til vatnsöflunar fyrir vatnsveitu í Melasveit 25 þús. kr. — Lagt er til, að Iðnnemasamband Íslands fái 50 þús. kr., svo sem í fjárlögum yfirstandandi árs, og er hér nánast um leiðréttingu að ræða. — Fjvn. hefur skipt byggingarstyrkjum milli dagheimila og leggur til, að fjárhæðin verði hækkuð um 200 þús. kr. í frv. — Tekinn er upp 100 þús. kr. styrkur til Bandalags ísl. skáta til kaupa á húsnæði. Er það önnur greiðsla af þremur, en sá liður féll niður af vangá úr fjárlagafrv.

Þá er lagt til að veita Æskulýðssambandi Íslands 150 þús. kr. til þess að standa undir kostnaði við framkvæmd söfnunar Herferðar gegn hungri. Að herferðinni standa 11 landssambönd æskufólks hér á landi, og starfar hún á vegum FAO, Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna. Þar sem herferðin hlaut svo góðar undirtektir hjá þjóðinni sem raun ber vitni, þótti ekki óeðlilegt, að nokkur styrkur væri veittur til að standa undir rekstrarkostnaðinum.

Teknir eru upp tveir nýir liðir, til hjálparsveita skáta í Reykjavík og á Ísafirði, 50 þús. kr. til hvorrar sveitar, en það er sama upphæð og hjálparsveit skáta í Hafnarfirði hefur skv. frv. Hjálparsveitir skáta hafa starfað hér á landi um áratuga skeið. Hefur starfsemi þeirra einkum verið fólgin í sjúkraflutningum, slysavörzlu og leit að týndu fólki. Starf sveitanna verður æ umfangsmeira með hverju árinu sem líður. Glöggt dæmi um starf sveitanna er, að um miðjan október s.l. höfðu félagar í hjálparsveit skáta í Reykjavík lagt af mörkum hátt á níunda þúsund vinnustunda án endurgjalds frá síðustu áramótum. Hins vegar hefur það háð starfsemi hjálparsveitanna, að þær hefur skort fjármagn til að koma upp nauðsynlegum útbúnaði, og hefur fjvn. því tekið upp brtt. þær, sem hér um ræðir. Hins vegar er nefndinni ljóst, að hjálparsveitir eru starfandi víðar en á þessum þremur stöðum. Það er því mjög til athugunar fyrir samningu næstu fjárlaga, hvort ekki sé rétt að styrkja þessa þjóðþrifastarfsemi frekar en orðið er og fela þá Bandalagi ísl. skáta að skipta fjárveitingunni, enda hefur bandalagið bezta aðstöðu til þess að þekkja þörf hjálparsveitanna. Þess skal að lokum getið, að fjvn. bárust ekki erindi frá öðrum hjálparsveitum en Þessum tveim til viðbótar.

Þá er loks nýr líður, til rekstrar sjómannaheimilis í Neskaupstað 25 þús. Er það sama upphæð og var á s.l. ári. — Samtals nema hækkanir samkv. till. fjvn. á 17. gr. 650 þús. kr.

Á 20. gr. eru tveir nýir liðir. Tekin er upp fyrri greiðsla til byggingar íbúðarhúss fyrir forstöðumann vinnuhælisins á Kvíabryggju 250 þús. kr. og 140 þús. kr. til byggingar jarðskjálftastöðvar á Akureyri. Veðurstofan hefur greitt Akureyrarbæ áður 345 þús. kr. Hins vegar er ágreiningur milli veðurstofustjóra og Akureyrarbæjar um eftirstöðvarnar. Veðurstofan hefur hins vegar óskað þess, að sem fyrst verði greiddur sá hluti skuldarinnar, sem hún getur viðurkennt, eða 140 þús. kr., og hefur fjvn. orðið við þeirri beiðni. Það kann samt að vera rétt, að þessi liður verði tekinn nánar til athugunar milli umr. og verði þá afgreiðslu um hann við þessa umr. frestað til 3. umr. — Hækkun á 20. gr. nemur skv. framansögðu 390 þús. kr.

Við 22. gr. eru fimm breytingar og hef ég þegar gert grein fyrir tveimur þeirra, en þær varða rekstrarhalla þjóðleikhússins og sinfóníuhljómsveitarinnar.

Þá er lagt til að taka þrjár nýjar heimildir inn í frv. Hin fyrsta er að ábyrgjast lán, allt að 18 millj. kr., til byggingar fyrir rannsóknarstofnun landbúnaðarins að Keldnaholti.

Í grg. rannsóknaráðs ríkisins voru gefnar upplýsingar um greiðslugetu byggingarsjóðs rannsóknastarfseminnar, sem mun eiga að standa undir umræddri ríkisábyrgð. Þar segir m. a., með leyfi forseta:

„Í byggingarsjóðinn renna þau 20%, sem Happdrætti háskólans ber að greiða til ríkisins sem einkaleyfisgjald. Þessi upphæð hefur farið stöðugt vaxandi. Gjaldið nam fyrir árið 1963 um 1½ millj., en fyrir árið 1964 nemur gjaldið 2½ millj. kr., enda var happdrættið aukið mjög á því ári.“

Þá segir enn fremur, að óhagstæðara lán muni ekki koma til greina en 15 ára lán með 9% vöxtum, en að öllum líkindum muni lánið verða töluvert hagstæðara. Afborganir og vextir af slíku láni á annuitets-grundvelli nema 2 233 000 kr., og er því sýnilegt, að byggingarsjóður getur vel staðið undir því láni, sem hér um ræðir.

Þá er lagt til, að tekin sé inn heimild til að selja eignarhluta Landssmiðjunnar í húseigninni Hagamel 21 í Reykjavík ásamt tilheyrandi lóðarréttindum.

Að lokum er svo till. um að heimila vita- og hafnarmálastjóra að festa kaup á sanddælingartækjum. Slíkur sanddæluútbúnaður sem vitamálastjóri hefur í huga mundi kosta um 10 millj. kr. Afköstin verða um 400–500 þús. rúmmetrar á ári, en um 100 rúmmetrar við lélegar aðstæður á dag og allt upp í 400 rúmmetra, þegar aðstæður eru ákjósanlegastar. Rekstrarkostnaður verður um 8 millj. kr. á ári með afskriftum eða 18 kr. á rúmmetra, en það er innan við 50% af því verði, sem sanddælingarskip tekur í dag.

Verði brtt. fjvn., sem ég hef nú lýst, samþykktar, leiðir það af sér, að á rekstraryfirliti 21. gr. lækkar rekstrarafgangur um 14 555 233 kr. og á sjóðsyfirliti sömu gr. út hækkar liðurinn afborganir lána og til eignaaukninga um 390 þús. Á rekstraryfirliti verður því rekstrarafgangur 194 298 156 kr., en á sjóðsyfirliti greiðslujöfnuður út 10 460 661 kr.

Herra forseti. Ég hef þá lokið við að ræða þær brtt., sem nefndin hefur leyft sér að flytja við þessa umr. Till. nefndarinnar og sú athugun, sem nefndin hefur gert varðandi afgreiðslu málsins, eru grundvallaðar á því sjónarmiði, að fjárlagafrv. beri að afgreiða greiðsluhallalaust. Ég vænti þess, að þrátt fyrir þann ágreining, sem fyrir hendi virðist vera í einstökum atriðum um afgreiðslu málsins, þá séu allir hv. alþm. sammála um þetta grundvallaratriði og nauðsyn þess fyrir þjóðarbúskapinn.

Ég vil svo, herra forseti, vænta þess, að till. nefndarinnar hljóti samþykki og að frv. að lokinni þessari umr. verði vísað til 3. umr.