02.12.1965
Sameinað þing: 15. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 93 í B-deild Alþingistíðinda. (46)

1. mál, fjárlög 1966

Frsm. 1. minni hl. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Fjárlfrv. speglar að jafnaði þá stefnu, sem hæstv. ríkisstj. fylgir í fjármálum ríkisins og efnahagsmálum þjóðarinnar. Þetta fjárlfrv. ber glöggt einkenni þeirrar stefnu, sem núv. hæstv. ríkisstj. fylgir. Það er dýrtíðin og aftur dýrtíðin, sem setur sinn svip á þetta fjárlfrv., eins og ég mun sýna í ræðu minni hér á eftir. En áður en ég vík að því að ræða stefnu núv. hæstv. ríkisstj. svo og fjárlfrv., þá ætla ég að víkja nokkrum orðum að því, hvaða möguleika hæstv. ríkisstj. hefur haft til þess, að stefna hennar í efnahagsmálum þjóðarinnar og fjármálum ríkisins fengi að njóta sín.

Í upphafi valdatímabils síns á árinu 1960 beitti hæstv. ríkisstj. sér fyrir því að breyta lögunum um Seðlabanka Íslands og taka í sínar hendur stjórn á peningamálum þjóðarinnar og bankamálum. Í gegnum þær ráðstafanir, sem hún hefur látið stjórn Seðlabankans síðar gera, hafa verið hækkaðir vextir í landinu, bundinn verulegur hluti af sparifjáraukningunni og styttur lánstími fjárfestingarlána. Þetta hefur verið sú stefna, sem hæstv. ríkisstj. hefur fylgt í peninga- og bankamálum þjóðarinnar, og hún hefur komið henni í framkvæmd.

Árin 1964 og 1965 hefur hæstv. ríkisstj. svo að segja staðið í beinum samningum um kaup og kjör við verkalýðsfélögin í landinu. Hún hefur á þann hátt getað mótað eða komið vilja sínum að í þeim málum. Hæstv. ríkisstj. réð um verðlag á fiski á s.l. vertíð og síldarverðið á s.l. sumri. Ríkisstj. hefur því átt kost á því að koma í framkvæmd stefnu sinni, er þessa málaþætti varðar.

Allt það tímabil er núverandi stjórnarflokkar hafa setið að völdum, hefur verið einmuna góðæri í landinu, og til þess að sýna fram á, hvaða munur hefur verið á þeim afla, er á land hefur verið dreginn þessi ár og 1958, þá vil ég nefna um það tölur, en árið 1958 var heildarfiskmagn landsmanna 500 038 tonn, en árið 1964 var það 971 514 tonn. Aukningin á þessu tímabili hefur verið 92%. Það sýnir því, að árferðið á þessu tímabili hefur verið eins gott og á verður kosið. Því til viðbótar má svo geta þess, að verðlag á útflutningsafurðum Íslendinga, sjávarafurðunum, sem ráða þar mestu um, hefur verið hagstæðara nú s.l. ár en nokkru sinni fyrr og allt hefur selzt, er á land hefur komið. Í samræmi við þetta hafa tekjur ríkissjóðs farið verulega fram úr áætlun fjárl. þetta tímabil. Á árunum 1960–1964 fóru tekjur ríkissjóðs í heild 1021 millj. kr. fram úr áætlun fjárl. Það hefur því allt lagzt á eitt til þess, að stefna hæstv. núv. ríkisstj. fengi notið sín, það að hún hefur ráðið stefnunni í fjármálum ríkisins, í stjórn banka- og peningamála, verulega ráðið stefnunni í kaupgjalds- og verðlagsmálum og árferðið verið með eindæmum gott. Hæstv. ríkisstj. hefur því ekki við neinn að sakast nema sjálfa sig um það, hvernig komið er í efnahagsmálum þjóðarinnar og fjármálum ríkissjóðs. Þar er það hún og hennar stefna, sem hefur ráðið því, hvernig þau mál standa nú.

Eins og ég sagði í upphafi máls míns, er það dýrtíðarstefnan, sem hæstv. ríkisstj. hefur fylgt á valdaferli sínum, og hún hefur komið þessari stefnu sinni í framkvæmd með því, að hér hefur verið ofsköttun í landinu allt þetta tímabil og farið árvaxandi og það orðið til þess að magna dýrtíðina mjög. Ríkisstj. hefur hækkað skatta- og tollatekjur til ríkissjóðs um 380% síðan 1958, en auk þess eru svo ýmsir skattar, sem hafa verið verulega hækkaðir, sem eru fyrir utan niðurstöðutölur fjárl., eins og benzínskattur, þungaskattur á bifreiðum, sem hefur verið margfaldaður á þessu tímabili, og það má með sanni segja, að það sé nú svo komið hér á hv. Alþingi, að hæstv. ríkisstj. beri varla fram nokkurt mál, án þess að því fylgi nýr skattur, og það er fullt orðið af sérsköttum, sem eru innheimtir og ekki koma fram í þessu fjárlfrv.

Hæstv. ríkisstj. hefur á þessu tímabili lagt á launaskatt, hún hefur lagt á bændaskatt, hún hefur lagt skatt á þá, sem fara inn á veitingahús eftir kl. 8 á kvöldin hún ætlar sér að leggja á farmiðaskatt, ef fólk fer út úr landinu, hún hefur lagt á vegaskatt, ef borgarar Reykjavíkur og aðrir fara til Keflavíkur, hún ætlar sér að leggja á skatt til þess að breyta um í hægri handar akstur hér frá vinstri handar akstri, hún leggur skatt á steypustyrktarjárn, sement og timbur, hún hefur lagt á sérstakt gjald, sem kallað er iðnlánasjóðsgjald, annað, sem heitir ríkisábyrgðarsjóðsgjald, og hún hefur enn marghækkað eignarskattinn. Þetta er undirstaðan undir þeim þætti í dýrtíðarvextinum, er ég kenni við ofsköttun. Þegar svo er komið, að allir almennir skattar eru margfaldaðir og svo lagðir á ótal sérskattar, þá er orðin ofsköttun í landinu, eins og greinilega er orðin hér á landi.

En annað höfuðatriðið um, hvernig stefna ríkisstj., dýrtíðarstefnan, hefur blómstrað hér, er það, hvernig fjárfestingin hefur verið látin leika hér lausum hala. Það er vitanlegt, að þeir, sem hafa náð til fjármagnsins, bæði eigin fjármagns og með aðgangi að bönkum, þeir hafa verið í kapphlaupi við að koma áfram sínum fjárfestingum, enda hefur þeim verið það ljóst, að slíkt hefur jafnan borgað sig, því að þótt þeir hafi hlaupið hratt, hefur þó dýrtíðin hlaupið hraðar. Þess vegna er það vitanlegt, að hér hafa átt sér stað stórfelldar yfirborganir á vinnumarkaðinum hjá þeim, sem að þessu kapphlaupi standa, og þeir vinnusamningar, sem gerðir hafa verið, hafa venjulega komizt það lengst að staðfesta þær yfirborganir, sem orðnar eru; og kannske tæplega það, og síðan hefur kapphlaupið hafizt á nýjan leik. Hæstv. ríkisstj. hefur svo dregið úr fjárfestingu ríkisins, til þess að þeir, sem fjármagnið eiga og ná til þess, hafi getað notið sín í kapphlaupi við dýrtíðina með þeim verðbólguframkvæmdum, sem átt hafa sér stað hér á landi.

Hver er svo árangurinn af þessari stefnu hæstv. núv. ríkisstj.? Ef við snúum okkur að því að virða hann frá sjónarmiði fjárhags ríkissjóðs, þá er það staðreynd, að á árinu 1964, þrátt fyrir það þótt tekjur ríkissjóðs færu þá 313 millj. kr. fram úr áætlun fjárl., þá var halli hjá ríkissjóði á rekstrar- og eignahreyfingum um 256 millj. kr. Þetta sýnir glögglega, hvernig verðbólgan er búin að leika ríkissjóð og koma afkomu hans út í ófæru. Ríkissjóður, sem hafði haft um 450–460 millj. kr. í greiðsluafgang fjögur ár á undan, var orðinn skuldugur við Seðlabankann um síðustu áramót um 220 millj. kr., og ég hygg, að þessi staða hafi heldur versnað á árinu 1965, þrátt fyrir það einmuna góðæri, sem hér hefur verið.

Hver voru svo viðbrögð hæstv. ríkisstj. við þeim vanda, sem blasti við á árinu 1965, þegar hún gerði sér grein fyrir því, að halli var á ríkissjóði árið 1964? Viðbrögðin eru kunn, en þau voru fólgin í því að skera niður um 20% fjárveitingar ríkissjóðs til verklegra framkvæmda. Það var farið í það að lækka til byggingar sjúkrahúsa, skóla, hafna, rafveitna, vega og fleiri slíkra uppbyggingarmálaflokka til þess að reyna að mæta hallanum á árinu 1965. Ég mun síðar í ræðu minni víkja nokkru nánar að þessu og sýna fram á, hvaða afleiðingar þessi ráðstöfun og stefna ríkisstj. hefur fyrir þessa málaflokka og afkomu þjóðarbúsins, en mun nú þessu næst snúa mér að því að ræða það fjárlfrv., sem hér liggur fyrir til 2. umr., og vil þá fyrst gera grein fyrir því, að við þessa umr. flytjum við ekki, fulltrúar Framsfl. í fjvn., nema eina brtt. við þessa 2. umr. fjárlfrv.

Ég vil taka það fram um þessa afstöðu okkar í fyrsta lagi, að ástæðan er ekki sú, að við teljum, að fjárveitingum til nauðsynlegra málaflokka sé fullnægt með því fjárlfrv., sem hér liggur fyrir til umr. Það er síður en svo, að svo sé gert, eins og ég mun síðar skýra, ástæðan er ekki heldur sú, að við teljum, að nægjanlega hafi verið sýnd ráðdeild og sparnaður í sambandi við þetta fjárlfrv. Það er öðru nær, eins og ég mun síðar víkja að. En ástæðan fyrir því, að við flytjum ekki nema þessa einu brtt., er fyrst og fremst sú, að óðaverðbólgan, sem ríkisstj. hefur magnað, hefur leikið ríkisbúskapinn svo grátt, að ekki er rúm fyrir nauðsynleg verkefni á fjárlfrv., sem er hartnær 4 milljarðar.

Á þessari staðreynd viljum við vekja athygli þjóðarinnar sérstaklega. Við viljum undirstrika, að ástandið í fjárhagsmálum þjóðarinnar verður ekki lagfært með einstökum brtt., heldur að ráðast verður að orsökinni sjálfri, þ. e. dýrtíðinni. Þar þýða engar blekkingar. Rót dýrtíðarinnar er, eins og ég hef sýnt fram á, ofsköttun og stjórnleysi í fjárfestingarmálum þjóðarinnar. Það sýnir sig bezt, þegar það er haft í huga, að kaupmáttur tímakaupsins er nú minni en hann var 1959. Aðeins stefnubreyting getur átt við til þess að rétta fjárhag ríkisins. Nánari grein fyrir þessum atriðum mun ég gera hér í ræðu minni á eftir, en vil undirstrika það, að á þessum atriðum byggist afstaða okkar til afgreiðslu fjárlfrv. hér við 2. umr., sú afstaða, að við flytjum aðeins eina till., sem ég mun siðar gera grein fyrir.

Það hefði mátt ætla það, að þegar ríkisstj. var ljóst á s.l. vori, að halli var á ríkissjóði 1964, þá hefði hún gert sér grein fyrir því, að stefnubreyting þurfti að verða um afgreiðslu fjárl. og í efnahagsmálum þjóðarinnar. En þetta fjárlfrv. sýnir enga stefnubreytingu, því að það er með öllum þeim einkennum, sem fyrri fjárlfrv. hæstv. núv. valdhafa hafa verið. Fjárlfrv. er hærra en nokkru sinni fyrr. Þar er nýjum sköttum bætt ofan á þá, sem fyrir eru, eins og fylgt hefur verið undanfarin ár. Það er minna varið til uppbyggingar í landinu en áður. Það er engan sparnað að finna í fjárlfrv. Kostnaðurinn er meiri en áður og eyðslan fylgir eftir. Þetta fjárl.-frv. mun vera um 260 millj. kr. hærra en fjárlfrv. yfirstandandi árs. Það er tínt saman í skatta til þess að ná saman endunum. Eignarskatturinn á að hækka um 40 millj., og til þess að það hafi ekki áhrif á niðurstöðutölur fjárlfrv., þá er fundin upp sú regla að bæta ekki þessum 40 millj. inn á tekjur af tekju- og eignarskatti, heldur eru þær settar inn á 17. gr. fjárlfrv. og þar sem frádráttarliður, svo að þær koma hvergi fram í niðurstöðutölu fjárlfrv. Það er afleiðing af þessu fjárlfrv., að hér hefur verið flutt frv. um að hækka benzínskatt og þungaskatt um 60 millj. kr., til þess að hægt væri að ná saman endunum í fjárlfrv., eins og hefur verið skýrt hér áður á hv. Alþingi. Það á að leggja á 40 millj. kr. skatt á raforkuverðið eða hækka hjá ríkisrafveitunum verð á rafmagni, sem 40 millj. kr. nemur og þó sennilega betur en það. Það á að leggja á nýjan farmiðaskatt upp á 25 millj. kr. Um það afkvæmi hæstv. ríkisstj. er þó það að segja, að það virðist ætla að flokkast undir feimnismál, eins og sum þeirra mála hafa gert, því að nú er fjárlfrv. komið hér til 2. umr. með þessum tekjulið á forsíðu, en það er ekki enn þá farið að sýna hér á hv. Alþingi frv. að lögum um þennan farmiðaskatt, sem þessi tekjustofn á að byggjast á. Það mun nú samt verða í reyndinni, að hæstv. ríkisstj. mannar sig upp í það síðustu dagana fyrir afgreiðsluna að setja fram frv. eða þá að finna annan nýjan skatt til þess að mæta þessari greiðslu. Það á að tína saman hjá aukatekjum ríkissjóðs 22 millj. kr. og ná svo á áfengi og tóbaki um 40 millj. kr. Þannig á að reyna að ná saman endunum á fjárlfrv. því, sem nú er til 2. umr., með því að tína lítið hér og hærra annars staðar, og þannig er þetta nú orðið að einni heild.

Ég gat um það hér áðan, að það væri ekki á þessu fjárlfrv. neinn sparnað að finna. Nú var nokkur ástæða til að ætla, að það mundi samt vera. Hæstv. ríkisstj. hefur verið óspör á að gefa fyrirheit um sparnað, og hæstv. núv. fjmrh. hefur einnig lýst sinni afstöðu til sparnaðarfyrirheita og sparnaðar í framkvæmd. Við 1. umr. fjárl. 1959, á haustdögum 1958, talaði hv. 2. þm. Eyf. f. h. Sjálfstfl. í þeirri umr. Ræða hans er í þingtíðindum frá því ári, á bls. 553 í hefti þingtíðindanna. Þar er m. a. að finna þessa setningu viðvíkjandi sparnaði, — með leyfi hæstv. forseta fórust þá hv. 2. þm. Eyf. svo orð: „Það er áreiðanlega hægt að spara á mörgum sviðum, en það þarf í senn réttsýni og kjark til þess að gera slíkar ráðstafanir á viðunandi hátt. Án einbeittrar forustu fjmrh. á hverjum tíma er ekki að vænta, að andi sparnaðar og hagsýni ráði í ríkisrekstrinum.“ Þetta er að finna í ræðu hv. 2. þm. Eyf. árið 1958, núv. hæstv. fjmrh. Magnúsar Jónssonar. Nú skal ég taka fram, að ég hef alltaf talið, að hann mundi hvorki skorta réttsýni né kjark, en forustuna fyrir sparnaði skortir samt enn þá.

Nú vil ég taka það skýrt fram, að mér er það ljóst, eins og ég lýsti yfir hér áðan, og okkur fulltrúum Framsfl. í fjvn., að fjármálum ríkissjóðs verður ekki breytt með smásparðatíningi eða sparnaði, eins og það venjulega hefur verið orðað í fjárlagaafgreiðslunni, heldur ræður þar stefnubreyting ein. En ég vil benda á það, að hæstv. ríkisstj., sem hefur oft talað um það í sambandi við till. stjórnarandstöðunnar, að sparðatíningurinn mætti sín lítils, að hæstv. ríkisstj. hefur gripið til þessa ráðs að fara í sparðatíning til þess að draga úr útgjöldum fjárlaga.

Eins og ég tók fram áðan, fór hæstv. ríkisstj. í það að lækka greiðslur til fjárfestingar, eins og hún orðaði það, um 20%. Það þýðir, að hún tók 160 þús. af íþróttakennaraskólanum að Laugarvatni, það þýðir, að hún tekur frá 100 og kannske upp í 500 þús. og jafnvel af stærstu fjárveitingunum upp í milljón af hverri skólabyggingu á landinu. Það munar lítil sveitarfélög og þá aðila, sem eru að byggja skóla, hvort þeir fá 100 þúsundunum meira eða minna, og það er ekki undarlegt, þó að það muni þá, fyrst það munar ríkissjóðinn og hæstv. ríkisstj. að tína þetta saman. Hæstv. ríkisstj. tók 400 þús. kr. af vatnsveitunum, en ástandið þar er nú svo, að ríkissjóður skuldar í vangreiddum ríkisstyrk um 8 millj. kr. Samt lét hæstv. ríkisstj. sig hafa það að tína þarna 400 þús. Hún fór meira að.segja svo langt niður, að hún tók 40 þús. kr. af stofni þeim, sem á að vera til þess að lána þeim, sem reisa einkarafstöðvar, á 20. gr. Það var talið ómaksins vert að fara í þann sparðatíning að hirða þar 40 þús. kr. Og hún lét sig hafa það, hæstv. ríkisstj., að taka 100 þús. kr. af sjúkraflugvöllunum í landinu. Fjárveitingin var 500 þús., en það munaði ríkisstj. og ríkissjóð hundrað þúsundin. En það var ekki verið að hugsa um, hvað það munaði sjúkraflugvellina, sem höfðu aðeins 500 þús. úr að spila. Að maður nú ekki tali um það, að hún greip til þess ráðs að lækka fjárveitingar til landsspítalans um 7 millj. kr. á yfirstandandi ári, þó að læknarnir gangi út, vegna þess að þeir telja sig ekki geta unað við þá starfsaðstöðu, sem þeir hafa.

Þegar svo er komið, að hæstv. ríkisstj. er farin að taka þannig á málum sem hér er lýst, að hún er farin að fara í sparðatíning til þess að tína saman fjármuni vegna útgjalda ríkissjóðs, þá hefði verið eðlilegt, að hæstv. ríkisstj. hefði litið sér nær og litið á fleiri útgjaldaliði fjárl. en þá, sem hér hafa verið greindir. Ég vil benda hæstv. ríkisstj. á það, að á sama ári sem hún fór í það að taka 100 þús. kr. af sjúkraflugvöllunum og smátölurnar af þeim, sem ég hef hér greint, þá bætti hún við sig einu nýju sendiráði úti í Washington eða New York. Hæstv. ríkisstj. taldi, að þar væri ekki þörf á að spara. Það er þó liður upp á 31 millj. kr. í núv. fjárlfrv., utanríkismálin, til utanríkisþjónustunnar eru um 31 millj. kr. Hefði nú ekki verið hugsanlegt, að það hefði líka mátt finna 100–500 þús. kr. á þeim liðum þar eins og þeim, sem ég hef verið að benda á?

Ég vil benda á það, að á árinu 1964 var annar kostnaður ráðuneytanna áætlaður 4 millj. kr. Hann varð 8.4 millj. kr. Hann hækkaði meira en 100% í framkvæmdinni. Mér er fullkomlega ljóst, að það er miklu skemmtilegra húsnæði í Arnarhvoli eftir endurbætur, sem þar hafa verið gerðar, og það er í alla staði viðfelldnara, þegar búið er að setja þar inn ný húsgögn og annað því um líkt. En þegar verður að gera ráðstafanir eins og þær að draga úr fjárveitingum til sjúkrahúsa, til skóla, til sjúkraflugvalla, þá verður hæstv. ríkisstj. líka að velta fyrir sér, hvað hún getur leyft sér að eyða umfram fjárlög á því heimili, þar sem hún er allsráðandi. Ég vil líka benda á það, að á s.l. ári átti að verja 350 þús. kr. í kjarasamninga. Það var varið í það 1.8 millj. kr. Það má vel vera, að það hafi ekki verið hægt að komast hjá þessum kostnaði, en það hefur ekki heldur verið sérstakur sparnaður viðhafður þar, svo að ríkisstj. hefði getað velt þeirri útgjaldahlið fyrir sér eins og þeim atriðum, sem ég nefndi hér áðan.

Í sambandi við útgjöld vil ég benda á það, að í ferðalög, veizlur, ráðstefnur, þátttöku í ráðstefnum, bifreiðakostnað ríkisstj. og fleira af þessu tagi, þá eyðum við á árinu 1964 13½ millj. kr. Hefði ekki verið hugsanlegt, að þarna mætti finna 500 þús. kr. til sparnaðar eins og á þeim liðum, sem ég nefndi áðan? Þátttökugjald okkar í ýmsum alþjóðaráðstefnum og samtökum er um 12 millj. kr. Mér er það fullkomlega ljóst, að margt af því verður að vera. En ég er ekki jafnviss um, að allt sé nauðsynlegra en það, sem fé er skorið niður til hér. Við notuðum 1.6 millj. kr. í að semja lagafrv. á s.l. ári. Hvað haldið þið, að búið sé að eyða miklu í að semja lagafrv. um breyt. á l. um tekju- og eignarskatt og tekjustofna sveitarfélaganna? Það er búið að endurskoða þessa löggjöf þing eftir þing, og nú fyrir nokkrum dögum, þegar sveitarfélögin voru hér á ráðstefnu um fjármál. óskuðu þau eftir því, að lögin um tekjustofna sveitarfélaganna yrðu enn á ný endurskoðuð. Af hverju er þetta? Það er af því, að þessi mál eru það flausturslega unnin, að það verður að fara að endurskoða þau, undireins og þau koma til framkvæmda, og það kostar sitt, endurskoðunin, enda kemur það fram á útgjöldum ríkissjóðs, þar sem það að semja lagafrv. er að verða 2 millj. kr. á hverju ári.

Hagsýslan og Efnahagsstofnunin áttu að verða til þess að bjarga fjárhag ríkissjóðs og koma þar öllum málum í gott lag. Þessar tvær stofnanir kosta á árinu 1964 um 2 millj. kr. Nú vil ég ekki halda því fram, að það hafi ekki eitthvað komið til baka í sambandi við Efnahagsstofnunina. Ég hef hins vegar orðið afar lítið var við það, sem frá hagsýslunni hefur komið, og það má vel vera, að með það hafi allt verið farið sem leyndarmál, en svo virðist, því að það hefur hvergi komið fram, að það hafi verið neitt innlegg frá hennar hendi, sem hefur verið talin ástæða til að hampa á opinberum vettvangi. Hins vegar er það svo um Efnahagsstofnunina, að hæstv. ríkisstj. leitar mikið til hennar, a. m. k. ber hún hana fyrir sig, þegar í ljós kemur, að skýrslur hafa ekki reynzt eins öruggar eða útreikningar eins og þeir vildu vera láta. En kostnaðurinn við þetta er orðinn um 2 millj. kr.

Vistheimili á Kvíabryggju kostaði 1½ millj. kr. og á að kosta um 2 á næsta ári. Ég er ekki viss um það, að þeir, sem til þekkja, telji, að þessi stofnun, með allri virðingu fyrir henni, sé nauðsynlegri en það að þeir þar vestra fengju að byggja bústað yfir skólastjóra sinn, en þeir misstu skólastjóra á s.l. hausti, vegna þess að þeir höfðu ekki skólastjórabústað. Nú sækja þeir á að fá að byggja skólastjórabústað, og vonandi stendur ekki á þeirri fjárveitingu frekar en fjárveitingu til Kvíabryggju. Ég held hins vegar, að það sé ekki ofsögum sagt, að árangurinn af þeirri stofnun hafi verið harla lítill.

Hv. þm. muna eftir því, þegar var verið að kynna hér breytinguna á álagningu skatta Þá var mikill sparnaður talinn í því fólginn af hálfu hæstv. ríkisstj. að leggja niður 500–600 nefndir í landinu og skattstofurnar mundu verða miklu ódýrari í framkvæmd en allar þessar skattanefndir. En hver er reynslan? Áður en breyting er gerð, kostuðu þessar skattanefndir 7 millj. kr. Nú er gert ráð fyrir, að þær kosti 27 millj. kr., og mér þætti gaman að vita, hver sá hv. þm. væri, sem vildi halda því fram, að árangurinn af þessari breytingu væri svo hagkvæmur, að það borgaði sig að greiða 20 millj. þarna í milli, og við skulum segja, þótt ekki væri nema 15 millj. kr., kostnaðurinn við skattanefndirnar hefði eitthvað hækkað á þessu tímabili. Ég er samt sannfærður um það, að þjóðin almennt vildi ekki greiða þessa fjárhæð, og ég er líka sannfærður um, að það mundi notast þjóðinni betur að verja þessu til hafnarmála eða slíkra framkvæmda heldur en að greiða þetta í skattstofurnar.

Áður en núv. hæstv. ríkisstj. eða núv. valdhafar tóku við völdum hér og á fyrstu árum þeirra var það eitt mál, sem þeir ræddu sérstaklega og átti að sýna fram á, að hæstv. þáv. fjmrh., Eysteinn Jónsson, héldi ekki nógu vel á fjárhag ríkissjóðs. Og það var það, hve miklar greiðslur væru vegna ríkisábyrgða. Og það var sérstaklega boðað hér á hv. Alþ., að það skyldi verða á því breyting og sett sérstök löggjöf til þess að tryggja það, að fé ríkissjóðs yrði ekki varið svo til ríkisábyrgða eins og áður hefur verið. Nú höfum við nýlega hér á hv. Alþ. fengið reikning ríkisábyrgðasjóðsins og skýrslu um þessar ríkisábyrgðagreiðslur ríkissjóðs. Hvað sýnir þessi skýrsla, og hvað á að verja vegna ríkisábyrgða á næsta ári? Það á að verja 50 millj. kr. af ríkisfé þá. Og hvað verður svo um þetta fé, sem varið er til ríkisábyrgðanna? Samkv. þessari skýrslu eða reikningi ríkisábyrgðasjóðsins fyrir árið 1964 eru þær greiðslur, sem hann þurfti að inna af hendi, hartnær 50 millj. kr. eða milli 40 og 50 millj. kr. Vegna hafnarlána var þó ekki greitt á því ári nema 3.4 millj. kr. Það eru, má segja, lán, þar sem um er að ræða, að almenningur standi að, því að það eru hafnirnar, sem þessi greiðsla er innt af höndum fyrir. En samkv. þessum reikningi ríkisábyrgðasjóðs voru á þessu ári greiddar vegna fiskiðnaðarins 16.4 millj. kr., sem voru útistandandi, þegar reikningnum var lokað. Og ég tel mig muna það rétt, að hér áður fyrr var yfirleitt ekki greitt vegna fiskiðnaðarins, án þess að fljótlega þætti of langt gengið. Og það eru greiddar vegna togaranna 13.4 millj. kr., eða um 30 millj. kr. eru greiddar vegna fiskiðnaðarins og togaranna af greiðslum ríkisábyrgðasjóðs á s.l. ári. Og ef maður fer að kynna sér þetta betur, eru orðnir þarna aðilar, sem skulda allmyndarlegar fjárhæðir. Bæjarútgerð Hafnarfjarðar mun skulda þarna um 35 millj. kr. Það mætti nú eitthvað gera fyrir þá fjárhæð annars staðar. Guðmundur Jörundsson skuldar vegna Narfa 18½ millj. kr. og Einar Sigurðsson vegna Sigurðar 19.4 millj. kr. Þetta sýnir þróunina, sem hefur orðið í þessum málum, og ég held, að það sé ekki ofsögum sagt, þó að því sé haldið fram, að batinn hafi komið hægt, ef hann hefur komið, því að þessi ábyrgðarlán, sem hér um ræðir, eins og vegna Sigurðar og Narfa, eru tekin eftir að Framsfl. fór úr ríkisstj., og það eru engar hliðstæðar tölur um þessi lán frá því tímabili. Ég held, að hæstv. ríkisstj. þurfi að gera sér grein fyrir því um þær 50 millj., sem varið er úr ríkissjóði til ríkisábyrgðarlána, að þjóðina varðar einnig um það, hvernig með það fé er farið.

Ég skal ekki um það deila sérstaklega, þótt ég drepi á nauðsyn þess að endurnýja bifreiðar ríkissjóðs eða eignir ríkisins. Það eru 4 millj. kr., sem á að verja til þess á næsta ári. Og það verður a. m. k. að halda vel á þeim málum, ef á að verja réttmæti þess, að sú fjárveiting gangi fyrir þeim öðrum nauðsynjum, sem ríkissjóður synjar um.

Ég vil líka leyfa mér að víkja að því, að á síðari árum hefur farið mjög í vöxt kostnaður ríkissjóðs vegna embættisbústaða. Nú má um það deila, hversu nauðsynlegir embættisbústaðir eru. Í mörgum tilfellum verður ríkið að eiga sína embættisbústaði, til þess að viðkomandi starfsmenn geti starfað. Hins vegar lít ég svo á, að það eigi ekki við í þéttbýlinu, þar sé bæði hægt að fá leigt og enn fremur selja hús aftur. En það verður í þessum málum sem öðrum að gæta hófs, og á s.l. sumri, dagana, sem var verið að skera niður fjárveitingar til skólabygginga, til hafnarframkvæmda, til sjúkrahúsa, stóð ríkisstj. í samningum um að kaupa embættisbústað suður í Hafnarfirði. Það var keyptur embættisbústaður af fyrrv. utanrrh. á 4.7 millj. kr. En hvað haldið þið? Það á að verja til byggingar nýrra gagnfræða- og héraðsskóla á Íslandi á árinu 1966 samkv. fjárlfrv. 4.8 millj. kr. eða svipaðri fjárhæð og embættisbústaðurinn í Hafnarfirði kostar.

Hæstv. ríkisstj. verður að gera sér grein fyrir því, að hún verður að meta þau verkefni, sem hún veitir fé til, og hin, sem hún synjar um. Hæstv. ríkisstj. hefur fundið það fangaráð í sambandi við þetta mál að vitna í bréf, sem hæstv. fyrrv. forsrh., Hermann Jónasson, hafði skrifað 1958. Ég hef nú ekki orðið var við það hér á hv. Alþ., að það, sem Hermann Jónasson hv. 1. þm. Vestf., ákvað, þegar hann var forsrh., ætti alltaf að gilda. En þessi vörn er lítilfjörleg og lítilmannleg, því að það er aðeins eitt atriði, sem skiptir máli í þessum kaupum hæstv. ríkisstj., og það er það, að hún hafði rétt til þess að láta málið ganga til yfirdóms. Sá dómur er skipaður af hæstarétti og reglur ákveðnar í lögum um framkvæmdina. Þann rétt notaði hún ekki. Öll vörn og öll viðleitni til þess að koma málinu á aðra er ekki nema út í bláinn og lítilmannleg. Svo skuluð þið vera vissir um, að það verður eytt 1–2 millj. kr. í að breyta þessu húsi, áður en bæjarfógetinn í Hafnarfirði flyzt inn í það. Það er regla hæstv. ríkisstj., og ríkisstj. verður að gera sér grein fyrir því, að þegar hlutirnir eru orðnir þannig, að hún stendur fyrir því, að einn embættismaður á að búa í húsi, sem kostar 5–6 millj. kr., munu fleiri kalla á þessi hús, og þá mun þjóðin líka fara að meta, hvað það er, sem hæstv. ríkisstj. synjar um fjárveitingar til. Enda þótt ég haldi því fram, að fjárhag ríkissjóðs verði ekki komið í lag með brtt. einum, heldur með stefnubreytingu, held ég því líka fram, að þannig megi ekki halda á fjárhag ríkissjóðs, að það sé gengið í að skera það niður, sem nauðsynlegast er, en svona verk nái fram að ganga.

Í framhaldi af þessu vil ég svo víkja að því, hvernig hæstv. ríkisstj. stendur að þeim verkefnum, sem nauðsynlegust eru. Eins og ég hef tekið fram hér, var 20% niðurskurður á fé til verklegra framkvæmda á s.l. ári. Og ef við tökum þann málaflokkinn, sem ég hygg að þjóðin almennt hafi mestan áhuga á, skólana, skulum við gera okkur grein fyrir því, hvernig stjórnarstefnan kemur fram gagnvart þeim og hvernig hún leikur þann málaflokk. Í barnaskólum eru 25 framkvæmdir, sem Alþ. hefur samþ. og veitt fé til, sem ekki er farið að hefja framkvæmd á enn þá, vegna þess að ríkisstj. með reglugerð 1964 og með brbl. sumarið 1965 hefur stöðvað þessar framkvæmdir. Og það eru sex gagnfræðaskólabyggingar, sem einnig bíða eftir því að fá að hefja framkvæmdir. Ef fjárlfrv., sem nú liggur hér fyrir til 2. umr., er tekið og sú upphæð, sem er veitt til þessara málaflokka, er lögð til grundvallar, vantar hvorki meira né minna en 58 millj. kr., til þess að fjárveitingin dugi, til þess að ríkissjóður greiði 1/5 af þessum framkvæmdum, sem búið er að samþykkja, og nauðsynlegar leiðréttingar. Og hvernig haldið þið, að fyrir þessum málaflokkum verði séð í framtíðinni, þegar svona er að þeim búið og fjárhæðin, sem á að vera til nýrra skóla samkv. fjárlagafrv. nú, er til barnaskóla 6½ millj. og gagnfræðaskóla 4.8, sem er, eins og ég gat um áðan, eins og bæjarfógetahúsið í Hafnarfirði? Þetta þýðir það, að það er hægt að samþykkja þrjár nýjar skólabyggingar og eina skólastjóraíbúð í barnaskólum. Ef samþykktar verða fleiri, er það ekki nema til þess að auka enn þá á þann hala, sem er í skólamálunum. Og það er hægt að taka 1–2 gagnfræðaskólabyggingar.

Þegar þetta er haft í huga, skulu hv. þm. vera minnugir þess, þegar hæstv. menntmrh. hélt því fram hér í haust, að það stæði á þröngsýni sveitarstjórnanna úti um landið, að ekki væri hægt að koma því fyrirkomulagi á kennsluna, sem lög geri ráð fyrir. Það er beðið nú um 26 framkvæmdir í barnaskólabyggingum og 10 í gagnfræða- og héraðsskólabyggingum fyrir utan íþróttamannvirki. Og þegar það er haft í huga til viðbótar þeim 30, sem búið er að samþykkja og ekki er farið að hefja, geta hv. þm. séð, hvað það er, sem stendur á, til þess að það sé hægt að koma skólaskyldunni í framkvæmd á Íslandi eins og lög mæla fyrir. Það er ekki hjá sveitarstjórnunum, sem ganga hart eftir því að mega hefja framkvæmdir. Það er hjá hæstv. ríkisstj., sem hefur með reglugerð og lögum stöðvað framkvæmdir og nú með fjárveitingum ætlar að halda því áfram. En halda hv. alþm. og hæstv. ríkisstj., að það sé í raun og veru hægt að þola, að það sé eytt í einn embættisbústað 5–6 millj. kr., á sama tíma og það vantar 60 millj. í þá barnaskóla, sem Alþ. er búið að samþykkja að skuli hefja framkvæmdir á? Þjóðin mun ekki sætta sig við það, enda er ekki ástæða til þess.

Ef athugaðir eru áfram fleiri málaflokkar, verður það sama í framkvæmdinni. Í sambandi við hafnirnar upplýsti vitamálastjóri á fundi í fjvn., að miðað við þá áætlun, sem hann gerði um framkvæmdir á næsta ári, sem var svipuð og framkvæmd væri á yfirstandandi ári, en langtum minna heldur en sá listi, sem hann lagði fyrir n. og eftir var sótt að fá að framkvæma, gerði ráð fyrir, mundu skuldir ríkissjóðs í hafnirnar vera um 60 millj. kr. í árslok 1966.

Hvað er að segja um flugmálin? Það er á allra vitorði, að flugmálin hafa verið óskamál hjá íslenzku þjóðinni, enda hafa þau leyst mikinn þátt í atvinnulífi og samgöngumálum þjóðarinnar. Í hvert sinn, sem nýr flugvöllur er tekinn í notkun, er mikill fögnuður yfir því og mikill áhugi fyrir, að fleiri fylgi á eftir. Hvernig ætlar hæstv. ríkisstj. að búa að framkvæmdum flugmála og flugöryggismála á næsta ári? Hún ætlar að verja til þess 14 millj. 580 þús. kr. Þá var upplýst, að nú er búið að eyða um 10 millj. kr. af þessari fjárveitingu. Þá eru eftir 4½ millj. kr. En í sambandi við þetta fjárlagafrv., sem hér liggur fyrir, er gerð sú breyting, að niður er felld af 13. gr. frv. fjárveiting, sem var á yfirstandandi fjárl., upp á 3.3 millj. kr., til þess að lengja flugbrautirnar á Reykjavíkurflugvelli og malbika völlinn og endurbæta hann. Þetta taldi hæstv. ríkisstj., að ætti ekki að gera með þessum lið, heldur á 20. gr., því að hér væri um fjárfestingu að ræða. Og þangað er þeim vísað, flugmálamönnum hér, með þessa fyrirgreiðslu. Þá er eftir 1.3 millj. kr. til þess að byggja upp flugvelli og flugöryggistæki á Íslandi á árinu 1966. Hvað haldið þið, að íslenzku þjóðinni hefði sótzt í flugmálum sínum undanfarin ár, ef þannig hefði verið að málunum staðið? Haldið þið, að Íslendingar væru nú orðnir svo virkur þátttakandi í alþjóðaflugi og flugmálin væru orðin virkur þáttur í lífi þjóðarinnar, ef fjárveiting hefði ekki verið rausnarlegri en hér á að verða? Þetta sýnir ástandið, þegar farið er í handahófskenndan niðurskurð og það ónauðsynlega er látið vera í fyrirrúmi um fjárveitingar. Það er hins vegar upplýst, að fjárþörfin hjá flugmálastjórninni vegna flugvalla og flugöryggistækja er 24 millj. kr. — 1.3 millj. á að mæta þessari 24 millj. kr. þörf.

Þá er í sambandi við 20% niðurskurðinn, sem er haldið áfram á þessu ári, eins og áður er fram tekið. Honum á að beita í sambandi við nýjar rafveitur út í sveitir landsins þrátt fyrir fyrirheit um aukinn hraða í lagningu rafveitna út um landsbyggðina. Raforkumálastjóri skýrði fjvn. frá því, að fjárhagur jarðhitasjóðs, eins og hann er samkv. fjárlagafrv. fyrir árið 1966, væri með þeim hætti, að það væri ekki hægt að gera ráð fyrir því, að jarðhitasjóður gæti á árinu 1966 tekið að sér neinar jarðboranir, til þess skorti hann fjármagn, og það litla fjármagn, sem hann hefði yfir að ráða á því ári, yrði að notast í rannsóknir. Jarðhitasjóðurinn er stofnun, sem landsmenn hafa mikinn áhuga á og gæti skapað mikil verðmæti, ef starfsemi hana væri með eðlilegum hætti. En hæstv. ríkisstj. hefur ekki rúm á sínu 4 milljarða fjárlagafrv. fyrir þessa starfsemi.

Þá vil ég geta þess, að austur á Laugarvatni starfar skóli, sem heitir Íþróttakennaraskóli ríkisins. Þessi starfsemi er búin að vera þarna á annan tug ára eða nær tveim tugum, og hefur með henni verið komið á þeim áhuga í íþróttamálum, sem hér hefur verið í sambandi við skóla landsins, og þaðan hafa komið íþróttakennarar, sem hér hafa starfað á seinni árum. Nú er að verða mikill kennaraskortur, og það hefur verið mjög sótt á það frá þessum skóla að mega byggja heimavist fyrir nemendur sína. Ástandið þar eystra er þannig, að piltarnir búa í skúr, sem byggður var fyrir verkamenn, þegar skólastjóraíbúðin var byggð fyrir um það bil 10 árum. Alþ. hefur tekið undir þessa málaleitun með því, að veitt var fé til þessarar framkvæmdar árin 1963 og 1964. Á árinu 1964 hófust framkvæmdir þarna, og var þá byggður kjallari að skólahúsinu, og skólinn undirbjó sig að halda áfram frekari framkvæmdum. Á árinu 1964, þegar var verið að afgreiða fjárlög fyrir árið 1965, sóttu forráðamenn skólans mjög fast á það, að aukin yrði fjárveitingin, svo að þeir gætu á árinu 1965 byggt upp þennan skóla. En þá gerðist það, að það fékkst ekki samþ. í fjvn., og niðurskurðinum var svo beitt á fjárveitinguna og honum svo haldið áfram. Nú er svo komið, að þessari stofnun er stefnt í hættu. Starfsemi hennar er stefnt í hættu, ef ekki verður nú brugðið við, og það mun vanta 1½ millj. kr. til þess að koma þessum málum þannig fyrir, að húsið verði byggt upp eða fokhelt á þessu og næsta ári. Hæstv. ríkisstj. hefur a. m. k. ekki enn þá séð rúm fyrir 1½ millj. kr. til þess að ala upp íþróttaæsku þessa lands. Piltarnir eru látnir búa í timburskúr, sem er enginn mannabústaður, og timbrið látið grotna niður, sem átti að fara að nota til þess að byggja heimavistarhúsið, en ekki til þess að vera í geymslu austur á Laugarvatni.

Þeir málaflokkar, sem ég hef hér lýst, sýna ekki neina reisn af hendi hæstv. ríkisstj. og sýna einnig, í hvaða óefni er að koma með ýmis nauðsynjamál okkar. Mun þó eitt mál á þessu fjárlagafrv. slá allt annað út, og það er afgreiðslan á vegamálunum. Það tekur nú fyrst steininn úr, þegar að því er komið. Þegar greiðslur ríkissjóðs voru árið 1958 um 900 millj. kr., þá var rúm á fjárl. til þess að verja til vegamála 83 millj. kr. En nú, þegar fjárl. eru tæpir 4 milljarðar, er ekki rúm fyrir einn einasta eyri. Svo hefur nú verið breytt um stefnu, og svo er nú komið fjárhag ríkissjóðs í góðærinu, að það er enginn eyrir til þjóðveganna á Íslandi. En þetta mál er miklu víðtækara þó en að vera fjárhagsmál, eins og fram kom hér í umr. um daginn um vegaskattinn. Þá sýndi ég fram á það með því að lesa úr ræðum hæstv. samgmrh., og formaður Framsfl. staðfesti það og sýndi fram á með rökum í sinni ræðu þá, að það var eitt af samkomulagsatriðum í sambandi við lausn vegamálsins 1963, að þessi fjárveiting yrði aldrei minni en þá var á fjárlagafrv., heldur en 47 millj., og hæstv. samgmrh. gaf öruggar og skilmerkilegar yfirlýsingar um það, að fyrir því yrði séð, að þetta yrði aldrei minna, slagurinn í framtíðinni yrði um það, hvað þetta ætti að hækka mikið, en að það yrði lækkað, það yrði ekki til umr. hér á hv. Alþ. Hver hefði trúað því, að að tveimur árum liðnum yrði þessi fjárveiting algerlega þurrkuð út? Ég tel mig hafa í þeim umr. sýnt svo ljóslega fram á þessi fyrirheit ráðh., að ég þurfi þar engu við að bæta, en get aðeins endurtekið það, sem hæstv. samgmrh. sagði í ræðu sinni 17. des. 1963, með leyfi hæstv. forseta, en þar sagði hann þetta, sem tók af öll tvímæli: „Engin hætta er á því og alveg útilokað, að ríkisframlag til veganna verði lækkað.“ Það er alveg útilokað, sagði hæstv. ráðh. Og það var bent á það í þessum umr. um daginn, að hér væri um hreint fyrirheit að ræða, sem hæstv. ráðh. og hæstv. ríkisstj. gætu ekki brugðizt. Hæstv. fjmrh. tók þátt í þeim umr. og spurði: Hvar á að taka peningana? Viljið þið benda á leiðir til þess, að hægt sé að taka peningana? Á að taka þá með nýjum sköttum, eða hvernig á að mæta þessu? — Þessu vil ég svara með því að benda hæstv. ráðh. á það, að undanfarin ár, sumarið 1964 og sumarið 1965, hefur hæstv. ríkisstj., eins og ég hef áður sagt, staðið í beinum samningum við verkalýðsfélögin til þess að leysa kaupgjaldsmálin. Hún hefur þar gefið ýmis fyrirheit og loforð um lausn á málunum. Og hún hefur ekki sagt við þá, sem hún hefur samið við: Bendið þið okkur á það, hvaðan við eigum að taka tekjurnar til þess að mæta þessum útgjöldum, sem þið krefjizt af okkur, — heldur hefur hún hér á hv. Alþ. lagt fram lagafrv. til þess að afla tekna á móti þessum fyrirheitum og talið sjálfsagt að standa við það. Þess vegna hefur hún lagt á launaskatt, marghækkað eignarskattinn, af því að hún fann ekki aðrar leiðir. Hún taldi sig hafa heimild til þess. En að hún hafi beðið viðsemjendurna um að leggja sér til fjármagnið, sem átti að leysa vandann, það hefur henni aldrei dottið í hug.

Ég vil svo nefna enn þá eitt dæmi, sem sýnir kannske betur, hvort hæstv. ráðh. eiga að virða orð sín og samninga eða ekki, og það er ekki spurt um það, hvað það kosti, heldur bara, hvort menn virða það, sem þeir hafa samið um, eða ekki. Og það var í sambandi við umr. um söluskattinn hér á hv. Alþ. í des. 1964. Það var lagt hér fram frv. til l. um að hækka söluskattinn upp í 8%. Það kemur fram í grg. og umr., að þetta væri gert m. a. til þess að mæta útgjöldum vegna kjarasamninganna í júní 1964. Og ein af þeim útgjöldum, sem ríkið hafði orðið fyrir, voru vegna hækkunar á vísitölu. Það kom fram í umr. í Ed. og var haldið fram af hv. 4. þm. Norðurl. e., Birni Jónssyni, aó það hefði verið um það samið, að það yrðu ekki lagðar á nýjar álögur útgjalda vegna hækkunar vísitölu til áramótanna 1964 og 1965. Með leyfi hæstv. forseta, vil ég vitna í ræðu hv. 4. þm. Norðurl. e., Björns Jónssonar, sem hann hélt í hv. Ed. 16. des. 1964. Þar segir hann m. a., að því hafi verið heitið, að engar nýjar álögur yrðu lagðar á vegna niðurgreiðslnanna á árinu 1964. Ég endurtek það og fullyrði, að þetta er rétt munað, segir hv. þm. Hver urðu viðbrögðin við þessu? Var sagt: Komið þið með peningana, ef þið krefjizt þess arna? Og ná vil ég, með leyfi hæstv. forseta, vitna í ræðu, sem hæstv. forsrh. flutti daginn eftir í hv. Ed., en þar segir m. a. þetta, með leyfi hæstv. forseta:

„Nú hef ég,“ segir hæstv. forsrh., „átt frekari viðræður við þá hv. þm., sem voru í þessum samningum af hálfu Alþb. í sumar, þá Björn Jónsson, Eðvarð Sigurðsson og Hannibal Valdimarsson, og ég hef af þeim viðræðum fyllilega sannfærzt um, að þeir eru í góðri trú um sinn skilning, jafnframt því sem ég legg áherzlu á,“ segir ráðh. áfram, „að ríkisstj. telur, að sinn skilningur, sá sem fram kemur í frv., sé réttur frá hennar sjónarmiði.“ Þ. e. a. s.: hún er í góðri trú um sinn skilning. Og enn þá heldur hæstv. forsrh. áfram og segir: „Hér hefur því orðið einhver misskilningur, og þar sem ég tel vera höfuðnauðsyn, að hvorugur aðill hafi nokkra ástæðu til að ætla, að reynt sé að hlunnfara hann í þessu máli eða nota sér misskilning, sem á sér stað í góðri trú, hef ég lagt til við ríkisstj., að hún fallist á, að skattheimtan, sem hér um ræðir, verði lækkuð, þ.e.a.s. í stað 8% verði farið fram á 7½% söluskatt. Það svarar nokkurn veginn til þeirrar fjárhæðar, sem hér er deilt um.“

Þetta var fjárhæð upp á 60–70 millj. kr. Það var ekki verið að spyrja um það hér í hv. Alþ., hvar ætti að taka peningana, ef þessu væri breytt svona. Það var aðeins verið um það að ræða, að það yrði staðið við orð sín og haldið við það samkomulag, sem búið væri að gera.

Það er ekki um neitt annað að ræða núna heldur en það, að það sé haldið það samkomulag, sem gert var, þegar vegal. voru afgreidd hér á hv. Alþ. 1963. Að fella niður af útgjöldum fjárl. 47 millj. kr. er að svíkja það samkomulag. Og ég undirstrika það, sem hv. 1. þm. Austf. sagði hér um daginn, að ráðh., sem ekki stendur við samkomulag, á að segja af sér og hann á ekki að sitja í ráðherrastól deginum lengur. Og ég trúi því ekki, að hæstv. ríkisstj. fari þannig með hæstv. samgmrh., að hún geri hann ómerkan í sambandi við þessar 47 millj. kr., þegar hún mat æru forsrh. upp á 67 millj. Hér verður að standa við samkomulagið, og það þýðir ekki að fara til stjórnarandstöðunnar og segja: Þið gerðuð samkomulagið og þið skuluð líka sjá um, að við stöndum við það. — Það er ykkar í hæstv. ríkisstj. að standa við samkomulagið, og þið getið ekki komizt hjá því, að það verði gert.

Eins og fram kemur í tillögugerð okkar og nál., er þetta eina brtt., sem við flytjum að þessu sinni, og ég hef þegar gert grein fyrir því, af hverju við flytjum ekki fleiri brtt., og þarf ekki að endurtaka það. En í sambandi við þær till., sem fluttar eru af n. í heild, sem eru um 14–15 millj. kr., sýnir það nú kannske betur en flest annað eða til viðbótar öðru, hvernig komið er um fjárhag ríkissjóðs, þegar Alþ. ráðstafar innan við 20 millj. kr. af fjárl., sem eru upp á 4 milljarða. Þá vil ég taka fram fyrir okkar hönd, að við höfum sem fyrr ekkert undan samstarfsmönnum okkar í n. að kvarta og þökkum þeim samstarfið, og vinnubrögð þar voru með eðlilegum hætti. Við gerðum grein fyrir okkar afstöðu til till., sem eru ekki veigamiklar og flestar meinlausar, en eitthvað mun þó vera í þeim, sem við höfum engan áhuga fyrir að fylgja. Fyrirvari okkar er mjög svipaður og verið hefur, enda hefur sá háttur verið í n. nú um langt árabil, að það hefur ekki verið sérstök atkvgr. um till., heldur hefur hver nefndarhluti gert grein fyrir afstöðu sinni til þeirra, eins og nú er gert. En í framhaldi af því, sem ég hef sagt um málaflokka, eru ótal þjóðnytjamál, sem er sömu sögu að segja um eins og þá, sem ég hef greint, því að ég hef aðeins drepið á þá stærstu. En t.d. vildi ég nefna rannsóknir í þágu atvinnuveganna, að mér sýnist, að það sé öllu verr að þeim búið nú en áður, a. m. k. ekki betur, og ég vil líka skýra frá því, að háskólarektor kom á fund fjvn. og skýrði n. frá sínum málum og ýmsum og bráðnauðsynlegum útgjöldum, sem ekki yrði komizt hjá, eins og stundakennslu, en verður auðvitað greidd síðar meir. Það var ekkert hlustað á hans mál hjá n. Hann benti á það, að raunvísindastofnunin getur ekki tekið til starfa, vantar aukna fjárveitingu. Það þyrfti ekki að láta sér detta það í hug, að hún mundi taka til starfa á næsta ári, ef fjárveitingin yrði ekki aukin. Hann benti líka á það, rektorinn, að í nálægum löndum væri gerð sérstök rannsókn á því, hvernig félagslegum högum stúdenta væri komið og hvernig að þeim væri búið í sambandi við bæði félagsheimili og fleiri atriði, er félagsmál varða. Hér er ekkert gert og ekkert hlustað á hans till. um að veita fé til þessarar starfsemi.

Og þannig er, eins og ég hef margtekið fram hér í ræðu minni, komið í málefnum íslenzku þjóðarinnar, að dýrtíðin tekur þar svo mikið rúm, að það er ekki að verða rúm fyrir hana á útgjöldum fjárl., enda er það svo, að það, sem við höfum fært undir það að heita verklegar framkvæmdir, Það er farið að framkvæma þetta núna að meira eða minna leyti fyrir lánsfé, bæði vegagerð, hafnargerð, skólabyggingar. Áður var þetta að mestu greitt af fjárl., jafnhliða því sem framkvæmdin átti sér stað. Nú er þetta að færast alltaf meira og meira í það horf, að lán er tekið til framkvæmdanna, og ef á svo í framtíðinni að greiða þessi lán og halda framkvæmdunum áfram, verður að vera betur á fjárhag ríkisins haldið en nú er, þegar lánum er hrúgað upp í slíku góðæri sem nú er ár eftir ár. En þannig leikur stefna ríkisstj., dýrtíðarstefnan, mál þjóðarinnar.

Ég vil svo í framhaldi af þessu víkja að öðrum þáttum efnahagsmálanna og hvernig þeim er komið hjá hæstv. ríkisstj.

Eins og ég tók fram hér í upphafi máls míns, hefur góðærið verið slíkt, að engin ríkisstj. hefur búið við aðrar eins tekjur í þjóðarbúskapnum og þessi, þar sem til viðbótar aflabrögðum er gott að selja og hátt verð. Það hefur verið blóm í hnappagati hæstv. ríkisstj., að afkoman út á við væri nú betri en áður hefði verið. En hvað segja nú tölur um þetta? Samkv. því, sem birt er í Fjármálatíðindum, skuldaði þjóðin út á við 1924.6 millj. kr. í árslok 1958, en í árslok 1964 3 691.1 millj. kr. Gjaldeyrisinnstæða þjóðarinnar var á sama tíma, 1958 228.5 og 1964 1592.8 millj. Þegar þetta er gert upp, þetta dæmi, hefur staðan út á við eða skuldir þjóðarinnar út á við versnað í heild um 400 millj. kr. á þessum tímum góðæris og veltu, sem hafa verið síðan 1960. Þetta er nú árangurinn af öllum gjaldeyristekjunum og hinni miklu veltu í þjóðarbúskapnum, sem hæstv. ríkisstj. hefur þó alltaf talið að hún stæði bezt að.

Ef við lítum svo lengra inn í efnahagsmálin og mál, sem eru í beinu sambandi við fjárlagaafgreiðsluna, vil ég benda á það, að þegar póst- og símamálastjóri skýrði fjvn. frá því, hvernig útlit væri með afkomu pósts og síma á næsta ári, skýrði hann frá því að það vantaði 60–70 millj. kr., til þess að póstur og sími, sú stofnun yrði rekin hallalaus á árinu 1966. Hann benti þó á, að þar við bættist það, að stofnunin yrði að draga verulega úr þeirri uppbyggingu, sem hún hefði haldið uppi síðustu árin, og meira að segja mundi það verða svo, að eðlileg fjölgun símanotenda gæti ekki átt sér stað vegna þess efnisskorts og skorts til að koma áfram framkvæmdum. Fjárveitingar vantaði til þess að koma á framkvæmdum, og sjálfvirkt kerfi, sem búið væri að panta og mundi koma til landsins á næsta ári, yrði ekki hægt að setja upp, af því að tekjur vantaði hjá stofnuninni til þess að mæta þörfinni.

Sama er að segja um ríkisútvarpið. Það verður ekki hægt að reka ríkisútvarpið hallalaust á næsta ári eftir upplýsingum útvarpsstjóra með þeirri tekjuáætlun, sem fjárlagafrv. greinir. Hvað þýðir þetta? Þetta þýðir ekki annað en það, að það verður enn á ný að hækka gjaldskrá þessarar stofnunar. Það flæðir svo út í verðlagið á nýjan leik, og skrúfan heldur áfram með meiri hraða en nokkru sinni fyrr. Landsfundi íslenzkra útvegsmanna er nýlokið. Gerðu þeir ráð fyrir á þeim fundi, að efnahagsmálum þjóðarinnar væri þannig komið, að þeir gætu hafið sína útgerð um næstu áramót án aðgerða? Það var nú eitthvað annað. Þeir gerðu ráð fyrir því, að það yrði að stórauka tekjur útgerðarinnar, til þess að útgerðin gæti hafizt um næstu áramót. Í framhaldi af þessu kemur svo það, að frystihúsin koma hér um næstu áramót, eins og þau hafa gert um tvenn síðustu áramót, og krefjast þess, að þeirra hlutur verði bættur. Og hvar ætlar þá hæstv. ríkisstj. að taka peninga til þess að mæta þeirri greiðsluþörf, sem þar verður, fyrst það þýðir ekki að nefna smátölur til hækkunar og hún stynur þungan, ef á að verja 47 millj. kr. til þess að halda sæmilega uppi heiðri hæstv. samgmrh.?

Það er ekki glæsilegt frekar, þegar litið er á efnahagsmálin í okkar þjóðarbúskap núna, heldur en er um fjármál ríkissjóðs sjálfs, sem hæstv. ráðh. eða hæstv. fjmrh. a. m. k. hefur marglýst að væri ekki glæsilegur. Og í framhaldi af þessum hækkunum, sem ég hef sýnt fram á að eru fram undan, koma auðvitað nýir kjarasamningar næsta vor, og dýrtíðin heldur áfram að magnast.

Herra forseti. Ég hef í ræðu minni hér að framan gert grein fyrir stefnu hæstv. ríkisstj. í efnahags- og fjármálum þjóðarinnar og sýnt fram á það, að ytri aðstæður hafa ekki haft þar áhrif í óhag, heldur er við stjórnina eina að sakast um, hvernig þessum málum er komið. Og í framhaldi af þessu vil ég segja, að afleiðing af stjórnarstefnunni, dýrtíðarstefnunni, eru þessi atriði:

1) Hæstv. ríkisstj. hefur gert það, sem hefur verið fordæmt í landbúnaði á Íslandi, að éta upp fyrningar í góðæri, en það tókst henni árið 1964, þegar hún át upp allan greiðsluafgang fyrri ára.

2) Hæstv. ríkisstj. hefur líka gert það, sem er fordæmt af hinni aðalatvinnustéttinni á Íslandi, sjómannastéttinni, þ. e. að sigla á grynningar í heiðskíru veðri og blíðalogni. En fjárhagur ríkissjóðs er nú slíkur, að hún tekur niðri í hverri ferð og stynur þungan yfir grynningunum.

3) Tekjur ríkissjóðs hverfa í rekstrarkostnað ríkisins, í dýrtíðina. Það eru greiðslur til niðurgreiðslna og trygginga, sem standa í beinu sambandi við verðhækkunina í landinu, sem eru fyrirferðarmestu útgjaldaliðir ríkisins. Það er árangurinn af dýrtíðarstefnunni.

4) Nauðsynleg verkefni eru óleyst eða þau eru leyst með lánsfé, þar sem framtíðinni er ætlað að borga.

5) Staða þjóðarinnar út á við er verri nú um 400 millj. kr. heldur en hún var 1958, þrátt fyrir góðærið.

6) Kaupgjaldsmál eru öll í óvissu nú eins og fyrr og kannske meira en nokkru sinni fyrr.

7) Höfuðatvinnuvegur þjóðarinnar hefur hótað stöðvun um næstu áramót, ef ekki verður komið til móts við þá til þess að bæta þeim það upp, sem dýrtíðin hefur af þeim tekið.

Allar þessar ráðstafanir og þetta útlit, sem ég hef hér lýst, mun verða til þess að magna dýrtíðina og lama atvinnulífið í þjóðfélaginu meira en nokkru sinni fyrr. Og til viðbótar þessu vil ég segja það um framtíðina, að ef hæstv. ríkisstj. situr áfram, má hún hafa sama vinnulagið og nú. Hún tínir saman skatt hér og skatt þar til þess að reyna að krækja saman tekjur og gjöld fjárl., eins og gert er á þessu fjárlagafrv. Og hún mun í öðru lagi reyna að ryðja út af fjárlagafrv. nauðsynlegum verkefnum, eins og nú er gert með vegamálin. En þessi aðferð hæstv. ríkisstj. mun reynast eins og þær fyrri þýðingarlaus, því að dýrtíðin krefst meira af henni á næsta ári heldur en á þessu. Ólafur Thors sagði í áramótaræðu, það mun hafa verið um áramótin 1962–1963, m. a. það, að ef ríkisstj. tækist ekki að ráða niðurlögum verðbólgunnar, væri allt unnið fyrir gýg og beinn voði fyrir dyrum. Allt þetta bjástur er unnið fyrir gýg, og nú er beinn voði fyrir dyrum. Það er ekkert, sem getur bjargað fjármálum þjóðarinnar, eins og nú er komið, nema alger stefnubreyting, eins og ég tók fram fyrr í minni ræðu. Það verður að endurskoða rekstrarkerfi ríkissjóðs, og það verður að velja verkefnin með hag þjóðarinnar í heild fyrir augum, en ekki láta troðast áfram eins og nú er gert, sem minnir á fé í rétt.

Núv. stjórnarliðar hafa sýnt það með getuleysi sínu, að þeir leysa engin verkefni. Hlutverk hæstv. ríkisstj. verður þann tíma, sem hún á eftir að sitja í valdastólunum, það eitt að hrekjast frá einu skerinu til annars. Þjóðarnauðsyn er, að ríkisstj. fari frá völdum, svo að hægt verði að koma á stefnubreytingu og þjóðin geti aftur tekið upp að vinna að málefnum sínum, heilbrigðum framfaramálum, á nýjan leik. En það verður ekki fyrr en núv. ríkisstj. hefur lagt niður völd sín.