10.03.1966
Efri deild: 48. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 645 í B-deild Alþingistíðinda. (470)

136. mál, ráðstafanir vegna sjávarútvegsins

Björn Jónsson:

Herra forseti. Þegar skattafrv. hæstv. ríkisstj. voru hér til umr., áður en alþm. fóru í jólaleyfi, sögðu bæði ég og ýmsir aðrir í sambandi við þau, að það væri óvarlegt að gera ráð fyrir því í sambandi við afgreiðslu fjárlaga og skattamálin, sem þá voru rædd, eins og ég sagði, að ekki þyrfti a.m.k. að gera ráð fyrir jafnmikilli upphæð og árið áður í styrki til sjávarútvegsins, og því kynni svo að fara, að því er okkur virtist, að ekki yrði látið staðar numið við það að leggja á benzínskatt, að leggja skatt á alla raforku landsmanna, að leggja á gjaldeyrisskatt, að hækka fasteignaskatt, að hækka aukatekjur ríkissjóðs, heldur væri næsta líklegt, að þegar Alþ. kæmi saman að nýju, yrði þráðurinn tekinn upp með sama hætti og haldið áfram að leggja á nýja skatta. Þessu var svarað svo af hæstv. fjmrh., ef mig misminnir ekki því meira, að það væri að vísu líklegt, að þarna væri einhver vandi fyrir hendi, en það væri ekki ljóst enn þá, hversu mikill hann væri, og að öðru leyti urðu orð hans ekki skilin á annan veg en hann teldi, að hér væri ekki um meiri vanda en svo að ræða, að það rúmaðist innan þeirra fjárl., sem afg., höfðu verið, og þyrfti þess vegna ekki nýja skattheimtu. Ég hygg, að flestum sé ljóst, að spádómar okkar í stjórnarandstöðunni hafi nú komið nokkuð á daginn, því að nú nýlega hefur verið samþ. hér á hv. Alþ. af stjórnarliðinu að leggja sérstakan skatt á síldarútveginn til styrktar öðrum greinum sjávarútvegsins, og hér er svo á ferðinni jafngildi stórfelldrar nýrrar skattahækkunar. Og ég vil segja það, að það er auðvitað um algeran orðaleik að ræða um þær ráðstafanir, sem eru fyrirhugaðar í sambandi við framkvæmd á þessu frv., sem hér liggur fyrir, þegar sagt er, að þar sé ekki um skattheimtu að ræða, því að ég tel, að það sé ekki aðeins, að það sé hliðstætt við nýja og áður óþekkta skattheimtu, heldur jafnvel um miklu lakari ráðstafanir að ræða af mörgum ástæðum en þótt skattar hefðu beinlínis verið hækkaðir.

Í grg. með frv. segir, að þær ráðstafanir, sem frv. gerir ráð fyrir, muni kosta um 80 millj. kr. Af ræðu hæstv. sjútvmrh. varð ekki ljóst, hvort það er hugmyndin að rúma eitthvað af þeirri upphæð innan fjárlaga og með þeim tekjum, sem ríkissjóður hefur, eða hvort það er meiningin að lækka niðurgreiðslurnar um þessar 80 millj. eða einhverja lægri upphæð. Utan að sér hefur maður heyrt, að það sé aðeins um 50 millj. kr. lækkun að ræða, en sem sagt, það varð ekki ljóst af ræðu hæstv. ráðh., og vildi ég mega spyrja hann nákvæmlega um það, hvort það er meiningin að lækka niðurgreiðslurnar alveg um þessar 80 millj. eða einhverja lægri upphæð, því að vitanlega skiptir það máli, þegar þetta mál er rætt. Heyrzt hefur talað um. að aðeins 50 millj. kr. lækkun á niðurgreiðslunum svaraði til 3.6 stiga hækkunar á framfærsluvísitölu eða 2% kauphækkunar, sem af því leiddi. Jafnvel þótt ekki sé gert ráð fyrir meiru en því, og virðist mér það þó vera óvarlegt, þegar þess er gætt, að þessi aðferð, sem hér er viðhöfð, kostar ríkissjóð nálægt 20 millj. kr., skilst mér þá, að fjáröflunin, sem raunverulega væri þarna um að ræða, sem þyrfti vegna þessara ráðstafana, væri rétt um 100 milljónir. En ég tel ástæðu til þess að spyrja nánar um þetta, því að svör við þessu hlýtur hæstv. ráðh. að hafa á reiðum höndum. Þessi atriði hljóta að hafa verið skoðuð niður í kjölinn, þegar ákveðið var að fara þessa leið til þeirrar fjáröflunar, sem þetta frv. útheimtir. En jafnvel þó að við gerum ekki ráð fyrir nema 3.6 stiga hækkun á framfærsluvísitölunni og þar af leiðandi 2% kauphækkun að krónutölu, er þó alveg auðséð, að hér er um verulega aukningu að ræða á rekstrarkostnaði alls atvinnurekstrar í landinu, allra atvinnuveganna og einnig ríkissjóðs.

Með þessu frv. er ætlað að létta undir með frystihúsunum, þ.e.a.s. að það á að auka bætur til þeirra, svokallað hagræðingarfé, sem ég kem nánar inn á síðar, um 17 millj. kr. frá s.l. ári. En eftir þeim tölum, sem ég hef séð um samanlögð vinnulaun frystihúsa, mun 2% kauphækkun þýða það, að af þessari upphæð fara aftur 10—12 millj., þannig að upphæðin, sem raunverulega er aukning ríkissjóðs til frystihúsanna frá fyrra ári, er þá komin niður í 5 millj. kr. Það er sem sagt að verulegu leyti látið með annarri hendinni, en tekið með hinni. Ég mundi gizka á, þó að það sé engan veginn nákvæmar tölur, og þær verða þá leiðréttar af hæstv. ráðh., ef þær eru mjög fjarri lagi, að þetta muni, eins og ég áður sagði, kosta ríkissjóð allt að 20 millj. kr., og vafalaust, að fyrir allan fiskiðnað í landinu er hér ekki um lægri upphæð en aðrar 20 millj. kr. að ræða. Og síðan kemur sú hækkun, sem af þessu leiðir, vitanlega fram á öllum öðrum atvinnurekstri, í hækkandi þjónustu og yfirleitt öllu, sem heyrir undir atvinnurekstur og almenna þjónustu í landinu.

Ég tel mjög vafasamt, að hér sé ekki raunverulega um brigðmæli að ræða við frystihúsin samkv. því samkomulagi, sem gert var við þau í vetur, þar sem gert var ráð fyrir, að hagræðingarféð svokallaða væri aukið um 17 millj. kr., en aukningin er í reynd ekkí nema 5 millj. eða lítið yfir það, þegar dæmið er reiknað til fulls, þ.e.a.s. í staðinn fyrir þá aðstoð, sem þeim var lofað, aðstoð til að standa undir 2% fiskverðshækkun, hráefnisverði, fá þau raunverulega aðeins aukna aðstoð sem svarar til 1/2%.

Það er svo önnur hlið á þessu máli, eins og hv. síðasti ræðumaður kom hér inn á að nokkru, að þetta frv. og þau úrræði, sem boðuð eru samfara því, eru glöggt dæmi um það öngþveiti, sem verðbólgan hefur skapað og verðbólgustefna ríkisstj. er að skapa, þegar það gerist á sama tíma sem verðlag á afurðum frystihúsanna hækkar um 13—14% á einu ári, en ef það væri útreiknað í kaupi, mundi það vera 4—5 sinnum meira, eða svaraði til kauphækkunar, sem væri 4—5 sinnum hærri en sú hækkun, sem verður á útflutningsvörunni, og þegar búið er að taka þar að auki 40 millj. frá annarri atvinnugrein til að styrkja hana með, þarf enn að koma til ráðstöfunar upp á 80—90 millj. kr. til hjálpar þessari atvinnugrein. Þetta er auðvitað talandi tímanna tákn og sýnir glögglega, hvert stefnir, enda mun það sannast mála, að þær ráðstafanir, sem eru fyrirhugaðar í sambandi við þetta frv., leysa raunverulega engan vanda, heldur hljóta að skapa annan vanda og raunar meiri en þann, sem menn þykjast vera að leysa.

Í sambandi við þetta verður auðvitað að hafa það í huga, þegar athuguð er afkoma og staða fiskiðnaðarins, að á komandi vori standa fyrir dyrum kaupsamningar milli almennu verkalýðsfélaganna og fiskiðnaðarins. Og það þarf auðvitað enginn að ætla, miðað við þá stórfelldu aukningu, sem hefur orðið á þjóðartekjum á síðustu árum, og ekki síður á síðasta ári en önnur undanfarin ár, að verkalýðsfélögin muni sætta sig við nokkuð annað en fá réttmæta hlutdeild í þeirri aukningu. En verðbólguþróunin og ráðstafanir þessar og aðrar svipaðar, sem hæstv. ríkisstj. hefur gert, torvelda auðvitað alveg stórkostlega, að þeir samningar geti tekizt með eðlilegum hætti. Mér sýnist, að í sambandi við þessar ráðagerðir um lækkun á niðurgreiðslunum geti ekki gerzt nema eitt af tvennu: Annaðhvort fær verkafólkið 2% minni kauphækkun en annars væri fullkomlega mögulegt fyrir fiskiðnaðinn og réttmætt, eða þau taka ekki aðeins það, sem þau eiga fullkomlega rétt á, heldur einnig þessi 2% til viðbótar, og mundi þá auðvitað skapast alveg nýr vandi og það skarð, sem haldið er fram að sé hér í getu fiskiðnaðarins, vera jafnófyllt sem áður. Annar hvor hlýtur að verða að bera þessar nýju byrðar, sem hér eru á lagðar, annaðhvort verkafólkið, sem vinnur í fiskiðnaðinum, eða fiskiðnaðurinn sjálfur. Um annað er ekki að ræða, nema fyrirhugaðar séu þá, þegar að þessum samningum kemur, enn nýjar ráðstafanir af hálfu hæstv. ríkisstj., sem sennilega yrðu þá svipaðar hinum fyrri og mundu ekki gera annað en velta vandanum á undan sér.

Ég held, að það sé ákaflega óráðlegt að reyna að leysa eitt vandamál með því að skapa annað vandamál, sem er engu betra viðfangs og raunar enn erfiðara, þegar til frambúðar er litið. Það má auðvitað segja, að það sé ekki sérstakt einkenni á þessum ráðagerðum, sem hér eru uppi, heldur almennt einkenni á þeim úrræðum, sem hæstv. ríkisstj. hefur beitt nú um langt skeið. Þar er bætt einni bótinni ofan á það fat, sem þegar er gatslitið. Ég held, ef sá vandi er fyrir hendi, sem menn vilja vera láta í sambandi við fiskiðnaðinn og ég vil ekki að öllu leyti gera litið úr, að þá beri að leita annarra úrræða en þeirra, sem hækka ekki aðeins tilkostnað fiskiðnaðarins sjálfs, heldur allra atvinnugreina í landinu, og hljóta að verka til þess að stórauka dýrtíðina og verðbólguna.

Eins og ég sagði áðan, tel ég, að af tvennu illu væru almennar skattahækkanir betri fyrir launamenn en þessi aðferð, sem hér er viðhöfð, og það er vitanlega ekki nokkur möguleiki á því að afgreiða málið eins og hæstv. sjútvmrh. gerði hér áðan, segja, að af því að vísitala er greidd á laun, sé hér enginn skaði skeður fyrir verkafólk. Það fær þetta bætt, segir hann, og það hefur yfir engu að kvarta. — En ég segi, hér er verið að stela eðlilegum kauphækkunarmöguleikum frá verkafólkinu með þessum aðgerðum, þ.e.a.s. ef aðrar aðgerðir koma þá ekki til af hálfu hæstv. ríkisstj. til þess að auka möguleika fiskiðnaðarins til að standa undir eðlilegum kauphækkunum.

Ég álit, að í slíku máli sem þessu hefði það verið ekki aðeins æskilegt, heldur eðlilegt og nauðsynlegt að leita samráðs við verkalýðssamtökin og hagsmunasamtökin, en það hefur áreiðanlega ekki verið gert. Þetta mál hefur áreiðanlega hvorki verið rætt við atvinnurekendur í fiskiðnaðinum né við verkalýðssamtökin, og það mun sýna sig að vera heldur óheppileg aðferð. Ég vil benda á það í sambandi við það, sem ég sagði, að jafnvel skattheimta, beinlínis skattheimta, væri betri. Vitanlega eru til fleiri en ein skatthækkunaraðferð, sem ekki hafa nein áhrif til að hækka verðlagið eða auka verðbólgu. Það væri t.d. vel hugsanlegt að leggja á verðhækkunarskatt. Það væri möguleiki að lækka útflutningsgjald, eins og ég ræddi um í sambandi við annað mál, sem hér var á dagskrá fyrir fáum dögum. Það eru ýmsir aðrir möguleikar til en þeir að beita þeim aðferðum einum, sem eru til þess fallnar að auka á kostnað atvinnuveganna og hækka allt verðlag í landinu.

Ég held þess vegna, að hæstv. ríkisstj. beri að endurskoða afstöðu sína í þessu máli, þ.e.a.s. afstöðu sína til niðurgreiðslnanna og falla frá því að draga úr þeim. Ég álít það einhverja allra óheppilegustu aðgerð í efnahagsmálum, sem nú er unnt að gera. Það má auðvitað segja, að ef hæstv. ríkisstj. stefnir að stríði við verkalýðssamtökin í sambandi við kjarasamninga á komandi vori, þá er þetta heppileg aðferð til þess að koma því stríði af stað. En það er ekki heppileg aðferð, ef hæstv. ríkisstj. ætlar að stefna að friðsamlegri lausn þessara mála í vor, því að svo greinilega sem nokkuð getur verið greinilegt er verið að draga úr möguleikum til þess.

Þessu vildi ég sérstaklega koma á framfæri, án þess að ég að svo komnu ræði mikið um sjálf efnisatriði frv. Mér finnst í raun og veru það versta við þetta frv. þær aðgerðir, sem boðaðar eru síðast í grg., og það væri unnt að uppfylla fullkomlega þau loforð, sem gefin voru í sambandi við ákvörðunina um fiskverðið, án þess að til slíkra óyndisúrræða sé gripið sem hér er um að ræða.

En þó að ég ræði ekki að svo komnu mikið um hin beinu efnisatriði frv., vil ég þó mega að lokum beina fsp. til hæstv. sjútvmrh., hvernig hann og hæstv. ríkisstj. hyggst framkvæma viss atriði í frv. Við höfum, eins og hann réttilega sagði, haft þann hátt á undanfarin 2 ár, þetta er þriðja árið, sem það er í gildi, — að veita frystihúsunum svokallað hagræðingarfé. Hér hefur þó ekki verið um neinar beinar styrkveitingar að ræða til þess að hagræða í frystihúsunum. Hér hefur verið fram að þessu um beina verðuppbót að ræða á hráefni, og þessum upphæðum hefur verið úthlutað til frystihúsanna í réttu hlutfalli við hráefniskaup þeirra. Þetta á auðvitað ekkert skylt við hagræðingu, því að þá njóta þau frystihús jafnra styrkja, sem hafa þegar haft fullkomna möguleika til þess af eigin rammleik að koma rekstri sínum í mjög æskilegt form og það gott horf, að rekstur þeirra hefur skilað stórfelldum gróða á undanförnum árum, eins og frystihúsin hafa gert almennt hér á Suðvesturlandi, Suðurlandi og Vestmannaeyjum. Vandamál frystihúsanna hefur fyrst og fremst verið bundið við Vestfirði, Norðurland og að nokkru leyti Austfirði, bæði vegna aflatregðu og þó ekki síður eða a.m.k. að nokkru leyti vegna þess, að þau hafa ekki haft fjárhagslegt bolmagn til þess að hagræða rekstri sínum og gera þær endurbætur í honum, sem væri nauðsynlegt til þess að skapa þeim betri starfsgrundvöll. Ég tel það ekki eiga saman nema að nafninu, hvort hér er um einhliða verðuppbót að ræða, sem kemur jafnt til þeirra, sem engin þörf er á að styrkja, eða hvort á að beina þessum styrkjum fyrst og fremst til þeirra, sem er ábótavant um hagræðingu og skortir fjármagn til þess að geta bætt rekstur sinn. Þá aðferð teldi ég eðlilega og æskilega og miklu gagnlegri heldur en hina, að styrkja þá mest, sem bezta hafa möguleikana. En það er kunnara en frá þurfi að segja, að frystihúsin hér á Suðvesturlandi hafa að undanförnu skilað stórfelldum gróða, og ég vil segja, að þrátt fyrir allar verðhækkanir og þrátt fyrir verðbólguna séu ekki miklar líkur á því, að þau geti ekki komið sæmilega út á því ári, sem nú er byrjað, þ.e.a.s. ef þau fá sæmilegt hráefni og svipað og á undanförnum árum.

Ég vil svo einnig taka það fram, að ég tel, að svo mikil þörf sem er á því að styrkja þau frystihús í landinu til þess að bæta rekstur sinn, þar sem afkoman er verst, þykir mér alveg óvíst, hvort sú aðferð hefði ekki verið eins góð og hver önnur a.m.k. að hafa uppbótina á línufiskinn hærri en hún er og minni verðbótina, sem veitt er beint til frystihúsanna almennt. Eins og ég sagði áðan, er það öruggt, að höfuðerfiðleikarnir í frystiiðnaðinum úti um land eru annars vegar fjárskortur til hagræðingarstarfsemi og hins vegar hráefnisskortur. En eins og kom fram í ræðu hæstv. sjútvmrh. og var fullkomlega rétt, liggur verulegur hluti af þeim flota, sem hægt væri að gera út á línu, en það er einmitt hann, sem öðrum fremur hefur staðið undir frystiiðnaðinum í þeim landsfjórðungum, þar sem um einhverja raunverulega erfiðleika er að ræða. En sem sagt, ég vonast til þess, að hæstv. ráðh. svari þeim fsp., sem ég hef hér lagt fram, og svör við þeim eru að mínu viti nauðsynleg, til þess að þetta mál liggi algerlega ljóst fyrir.