10.03.1966
Efri deild: 48. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 650 í B-deild Alþingistíðinda. (471)

136. mál, ráðstafanir vegna sjávarútvegsins

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Ég tel rétt að segja nokkur orð við þessa umr., vegna þess að að sjálfsögðu snertir þetta mál verulega fjárhag ríkissjóðs, enda hafa komið fram í umr. frá þeim tveimur hv. þm., sem hér hafa talað, ýmis atriði, sem ég tel nauðsynlegt að ræða frekar.

Ég vil þá fyrst og fremst leiðrétta þann misskilning hjá hv. 4. þm. Norðurl. e., að ég hafi í sambandi við umr. fjárl. gefið í skyn, að þetta rúmaðist innan ramma fjárl., eins og þau voru afgreidd. Það hef ég aldrei sagt, enda veit ég, að hv. þm. og allir hv. þm. munu gera sér það fullkomlega ljóst, að þar var ekkert svigrúm til þess að mæta þessum útgjöldum. Ég tók það hins vegar fram að gefnu tilefni við fsp. í sambandi við umr. um fjárl. þá, að það væri ekki ætlunin að mæta þessum væntanlegu útgjöldum, ef til kæmu, með því að leggja á nýja skatta. Hitt hefði ríkisstj. að sjálfsögðu gert sér ljóst, að hún yrði að gera ráð fyrir því, að einhver útgjöld yrðu í sambandi við aðstoð til sjávarútvegsins á þessu ári, og vitanlega hefði það verið íhugað, hvaða úrræði ætti að velja til þess að mæta þeim útgjöldum.

Aðstoðin við sjávarútveginn fyrir árið 1965 var ákveðin með sérstökum lögum, eftir að fjárlög voru afgreidd, og var ekki í fjárl. þá gerð nein ráðstöfun til þess að afla fjár í þessu skyni, enda vissi þá enginn, hver þessi útgjöld yrðu. Þegar fjárlög voru endanlega afgreidd, var heldur ekkert vitað um þetta efni annað en það, sem þótti vera líklegt, að einhverja aðstoð þyrfti að veita sjávarútveginum einnig í ár. Niðurstaðan hefur því orðið sú sama og á s.l. ári, að flutt er sérstakt frv. nú eftir afgreiðslu fjárl., þar sem leitað er staðfestingar Alþ. á að veita aðstoð til sjávarútvegsins í samræmi við fyrirheit, sem ríkisstj. gaf, þegar viðræður fóru fram milli fiskkaupenda og fiskseljenda til ákvörðunar fiskverðs fyrir yfirstandandi ár, og er þetta frv. og frv., sem var hér fyrir nokkru til meðferðar. um útflutningsgjald, til þess að fullnægja þeim fyrirheitum ríkisstj.

Svo sem upplýst hefur verið af hæstv. sjútvmrh. og frv. enda ber með sér, má gera ráð fyrir, að útgjöld vegna þessa frv., ef að lögum verður, muni í ár nema um 80 millj. kr. Það hygg ég vera ljóst öllum hv. þdm., að ekki hafi verið um bað að ræða, að ríkissjóður gæti tekið á sig þessi aukaútgjöld. Af hálfu stjórnarandstöðunnar var mjög rækilega og ég vil segja réttilega á hað bent, þegar fjárlög voru afgreidd, að það væri stefnt bar á yztu nöf og útgjöld þeirra svo mikil miðað við tekjuhorfur. að jafnvel annar stjórnarandstöðuflokkurinn taldi sér ekki fært að leggja fram nema eina brtt. til útgjaldaanka við fjárl.. þar eð hann teldi, að svo tæpt væri stefnt með það, að ríkisbúskapurinn yrði hallalans á árinu 1966 eftir greiðsluhalla tveggja. undanfarinna ára. Þetta hygg ég vera ljóst dæmi þess, að menn hafi ekki talið, að það væri um að ræða neinar tekjulindir, sem ekki væri þegar búið að ráðstafa með fjárl. Sannleikurinn er líka sá, að tekjuáætlun fjárl. var við það miðuð, sem bezt var þá vitað af hálfu þeirra sérfræðinga. sem að því unnu í Efnahagsstofnuninni, hvað líklegt væri, að hámarkstekjur ríkissjóðs gætu orðið á árinu 1966, og var þar ekkert ætlað fyrir afföllum, sem má auðvitað telja mjög óvarlegt að gera, ekki sízt þegar atvinnuvegir okkar eru jafnóstöðugir og við allir þekkjum og vitum, að frá ári til árs er ákaflega erfitt að gera áætlanir, sem geti ekki sveiflazt til meira en lítið, rannverulega að vísu á báðar hliðar. En miðað við það góðærisástand, sem fjárlagaáætlunin var byggð á, voru sannast sagna ekki miklar líkur til, að horfur væru á,. að tekjur ríkissjóðs yrðu meiri á árinu 1966 en gert er ráð fyrir í fjárl.

Það hefur alltaf verið fyrirhugað að mæta þeim útgjaldaauka. sem yrði af aðstoðinni við sjávarútveginn, á þann hátt, sem er skýrt frá. í grg. þessa frv., að lækka útgjöld til niðurgreiðslna. Í hve ríkum mæli þetta verður gert. er ekki nákvæmlega hægt að segja á þessari stundu, en því er ekki að leyna, að horfurnar um útgjöld ríkissjóðs á þessu ári eru þær, að vegna launabreytinga opinberra starfsmanna, sem til komu í þann mund, sem verið var að afgreiða fjárlög, og ýmissa annarra atvika eru horfur á því að ríkisjóður þurfi á að halda til þess að mæta þessum útgjöldum og útgjöldum vegna þessa frv. allt að 150 millj. kr. á yfirstandandi ári. Það er meginstefna ríkisstj., sem lýst hefur verið, að ríkisbúskapurinn verði rekinn hallalaust. Niðurstaða af útkomu ársins 1965 liggur ekki enn fyrir, en Alþ. verður að sjálfsögðu gerð grein fyrir því, strax og auðið er, það er verið að vinna að því uppgjöri. Sem betur fer eru horfur á, að sú útkoma verði eitthvað betri en líkur voru taldar á í október- eða nóvembermánuði vegna þess mikla innflutnings, sem varð síðasta hluta ársins, og þeirrar tekjuöflunar, sem kom til vegna hins óvenjulega síldarafla, sem hefur verið meiri en nokkurt undanfarið ár. Hvað þetta færir ríkissjóði í tekjuauka, skal ósagt látið, en þó mun mega fullyrða, að engu að síður verði einhver halli á ríkissjóði á s.l. ári. Ef gert er ráð fyrir því, að atvinnuvegirnir gangi jafnvel á árinu 1966 og 1965, má gera ráð fyrir því, að einhver tekjuauki komi hér til hjá ríkissjóði umfram það, sem áætlað er í fjárl. Nú má auðvitað segja, að það sé harla lítil skynsemi í því að gera ráð fyrir, að jafnmikil eindæma síldveiði verði á árinu 1966 eins og árinu 1965, sem er einstakt í sinni röð. Og það, sem af er þessu ári, blæs því miður ekki byrlega með vertíð. Hvernig þetta kemur allt til að líta út, er ekki gott að segja á þessu stigi, en ég vil láta það koma hér skýrt fram. að það er ekki ætlun ríkisstj. að taka í ríkiskassann meira fé en nauðsynlegt er, til þess að ríkisbúskapurinn verði hallalaus, og lækkun á niðurgreiðslum mun verða við það miðuð, að ekki sé þar tekið umfram þarfir. Hvað lækkunin því nákvæmlega verður, er erfitt að spá um á þessu stigi. Það hefur ekki verið endanlega ákveðið. hvenær hún tekur gildi eða hvort hún verður öll gerð í einu eða í áföngum. Það fer nokkuð eftir því. hvernig horfurnar eru með fjáröflun. En það, sem meginmáli skiptir auðvitað í þessu efni. er, að það liggi ljóst fyrir, að ætlunin er ekki að taka meira fé á þennan hátt en ríkissjóður raunverulega þarf á að halda. Vegna aðstoðarinnar við útgerðina mun ríkissjóður þurfa á að halda um 100 millj, kr., ef reiknað er með þeim hækkunum, sem verða vegna hækkunar á vísitölu sem launahækkun. Hvort þarf að mæta allri þessari upphæð eða jafnvel einhverju meira með lækkun á niðurgreiðslum, skal ég alveg láta ósagt á þessu stigi eða hvort hægt er að komast af með minni fjárhæð. Það fer, eins og ég áðan sagði. algerlega eftir því, hvernig horfurnar verða með afkomu ríkissjóðs.

Ég hygg, að allir hv. þm. hafi verið sammála um, að það væri sjálfsögð og eðlileg fjármálastefna, að ríkisbúskapurinn væri hallalaus, og bað yrði að hverfa frá þeim hallarekstri. sem hefði verið tvö undanfarin ár, og geri ég naumast ráð fyrir, að ágreiningur sé á milli ríkistj, og stjórnarandstöðu um þetta sjónarmið, og jafnframt því ekki heldur ágreiningur um, að það sé sjálfsagt og eðlilegt, að ekki sé gengið lengra í innheimtu gjalda eða sparnaði við útgjöld ríkissjóðs, sem ganga til niðurgreiðslna, heldur en ýtrasta nauðsyn krefur. Og þetta er það sjónarmið, sem mun verða farið eftir.

Á þessu stigi er vitanlega ómögulegt af mörgum ástæðum að segja frá því, hvernig lækkun niðurgreiðslna verður hagað. Það verður að gerast með litlum fyrirvara, þegar þær breytingar verða gerðar, af margvíslegum ástæðum, sem ég veit að allir hv. þm. skilja, að þegar um slíkar breytingar er að ræða, er ekki hægt að veita langan frest í því sambandi. Það er því ekki auðið á þessu stigi eða rétt af mörgum ástæðum að gera grein fyrir því nákvæmlega, hvaða niðurgreiðslur verði niður felldar, enda skiptir það í rauninni ekki höfuðmáli í sambandi við áhrifin af því, að niðurgreiðslurnar séu felldar niður.

Hvort þessi leið, sem ríkisstj. leggur hér til að fara, er heppilegri eða óheppilegri en nýir skattar, verða menn að hafa um sína skoðun. Það er mat ríkisstj., að þessi leið sé heppilegri.

Það hefur allajafna í rauninni verið skoðun manna, að það ætti að stefna að því að hverfa frá niðurgreiðslukerfinu eins skjótt og auðið væri, það væri óheilbrigt kerfi á margan hátt. Það er auðvitað hárrétt, sem hér hefur komið fram, að minnkun niðurgreiðslna veldur vísitöluhækkun og þar af leiðandi einhverjum kauphækkunum, og ástæðan til þess, að verkalýðssamtökin fengu verðtryggingarákvæði á ný sett í lög, var fyrst og fremst til að mæta hættunni af þessu. Og það eru vitanlega ekki á neinn hátt vanefndir við verkalýðssamtökin, þó að þessi leið sé hér farin, vegna þess að áhrifin af þessum lækkunum niðurgreiðslna koma að sjálfsögðu fram í vísitölunni. Hitt er svo aftur annað mál, sem hv. 4. þm. Norðurl. e. sagði, að það má auðvitað færa nokkur rök fyrir því, að þetta rýri aðstöðu fyrirtækja til að greiða hærri laun síðar meir. Það er annað mál. En ég er í ákaflega miklum vafa um, að það væri hægt að finna úrræði til að afla þessa fjár með skattheimtu, án þess að það mundi þá annaðhvort lenda á almenningi sem aukin útgjöld eða þá lenda á fyrirtækjunum. Það er auðvitað hægt að hugsa sér að sleppa fyrirtækjunum við nýja skatta. Ég býst nú ekki við, að það ætti mikinn hljómgrunn hér á Alþ., en ef fyrirtækin yrðu að borga þessa nýju skatta, rýrnaði að sjálfsögðu einnig möguleiki þeirra til þess að mæta launakröfum. Fram hjá þeirri staðreynd verður ekki gengið, að hér er um að ræða, að við verðum að horfast í augu við það að afla þessara tekna.

Nú kunna einhverjir hv. þm. að segja sem svo, hvort það hafi nokkur ástæða verið til þess að leggja þennan bagga á ríkissjóðinn og hvort það hafi verið þörf á því að veita þessa aðstoð, sem hér er gert ráð fyrir í sambandi við ákvörðun fiskverðsins. Það er auðvitað matsatriði. Það var niðurstaðan, að þetta væri óumflýjanlegt. Ég skal alveg fúslega játa, að ég tel, að það sé mjög slæmt að þurfa að fara inn á þessa braut og í rauninni algerlega óeðlilegt ástand að þurfa að borga styrki til sjávarútvegsins á þennan hátt, miðað við það góðæri og miðað við það stórhækkandi verðlag, sem verið hefur á sjávarafurðum. Sumir hafa haldið því fram, að það hefði ekki þurft að veita þessa aðstoð. Það kann vel að vera, og þá ber að saka okkur um rangt mat á þeirri aðstöðu. Hins vegar hygg ég þó, að fram hjá þeirri staðreynd verði ekki komizt, að þessi hækkun fiskverðsins hafi verið nauðsynleg, til þess að væri hægt með nokkrum sæmilegum hætti að hafa frið um útgerðina. En það er annað mál í þessu, sem menn verða að hafa í huga. Það er hér mikið talað um, að þetta stafi af dýrtíðarflóðinu og það kafni allt í verðbólguhítinni, eins og hér var komizt að orði. Þetta hygg ég, að sé ekki rétt, nema þá a.m.k. að nokkru leyti. Þetta stafar af öðrum ástæðum, þessi vandi hjá sjávarútveginum, sem við stöndum hér andspænis þrátt fyrir stórhækkandi verðlag. Það stafar kannske fyrst og fremst af hinu stórhækkandi verðlagi. Það kemur á daginn, og það vitum við, að hækkunin á síldarverðinu s.l. ár var ekki eingöngu miðuð við að mæta hækkunum, sem orðið höfðu á dýrtíð, heldur var það reiknað út frá því, hvað var talið auðið, að síldarverksmiðjur eða síldarkaupendur gætu greitt, miðað við söluverð síldarinnar, sem hafði hækkað geysilega mikið. Og ástæðan til þess, að það var talið óumflýjanlegt að framkvæma nú þessa stórfelldu hækkun á fiski upp í 17%, var ekki eingöngu sú, að það hefði hækkað svo verðlag, heldur vegna þess, að það varð að vera hér eðlilegt samræmi á milli þessara veiða og síldveiðanna, þannig að það kemur einnig inn í þetta dæmi. Þetta vitum við öll. Það er því þarna fleira, sem kemur til, heldur en svokölluð verðbólguhít, og ég býst við, að verulegur hluti þessarar hækkunar hefði komið til, þó að ekki hefði verið um neinn verðbólguauka að ræða til þess að skapa þarna jöfnuð á milli. En eins og ég sagði, get ég fullkomlega fallizt á það sjónarmið, að það sé í rauninni mjög hörmulegt og óeðlilegt, að það þurfi að taka á ríkið mjög veruleg útgjöld einmitt á þeim tíma, þegar jafnmikil hækkun verður á útflutningsafurðum og raun hefur verið á nú síðustu árin. En niðurstaðan hefur verið þessi, til þess að nokkur leið væri til samkomulags, og ég hygg, að menn séu þeirrar skoðunar hér almennt, að ekki hafi verið auðið að komast hjá því að hækka fiskverðið um þessi 17%, engin leið að ná saman endum í því dæmi án þess að veita þá fyrirgreiðslu, sem hér er, og því miður á þann hátt ekki aðeins að veita sömu aðstoð úr ríkissjóði og var á s.l. ári, heldur hækka þá aðstoð um 17 millj. kr., en ríkisstj. vildi ekki bera ábyrgð á að láta stöðvast alla samninga á því, að á milli bæri um þetta atriði.

Ég held, herra forseti, að ég hafi þá vikið að því, sem má telja að snerti fjárhagshlið þessa máls. Ef til vill er skoðun Alþ., að það sé heppilegra að fara einhverja aðra leið til þess að afla þessa fjár, og ég tel lágmark, að það þurfi að afla þess fjár, sem hér er ætlað til útgerðarinnar, með nýjum ráðstöfunum. Eins og ég gat um áðan, var útgjaldaauki ríkissjóðs vegna launahækkana opinberra starfsmanna og af ýmsum öðrum ástæðum, sem ekki var reiknað með, verulega umfram þau, sem gert var ráð fyrir. Þó að ríkissjóður gæti tekið það á sig í von um hækkaðar tekjur á þessu ári, verður ekki lengra gengið, þannig að það verður að afla sérstaklega þeirra útgjalda, sem hér eru ráðgerð, en þó þannig, sem ég vil enn endurtaka í lok míns máls, að allt er þetta við það miðað, að ekki verði tekið í ríkissjóðinn meira með þessum aðgerðum heldur en svo, að ríkisbúskapurinn geti orðið á árinu hallalaus, og telji Alþ., að það verði gert á einhvern heppilegri hátt með skattheimtu, er að sjálfsögðu rétt að íhuga allar slíkar till. Það er ekki trúaratriði fyrir ríkisstj. að velja þessa leið. Þetta var sú leið, sem hún taldi heppilegasta, auðvitað engan veginn góða, en heppilegasta til að afla þessa fjár. En sé það skoðun hv. þm., að það sé hægt að gera það með heppilegri hætti, þá mun að sjálfsögðu ekki standa á því, að það mál verði athugað af fullri alvöru.