17.03.1966
Efri deild: 51. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 667 í B-deild Alþingistíðinda. (478)

136. mál, ráðstafanir vegna sjávarútvegsins

Karl Kristjánsson:

Herra forseti. Á þskj. 330 höfum við hv. 3. þm. Norðurl. v. leyft okkur að leggja fram till. um, að við 2. gr. frv. þessa um ráðstafanir vegna sjávarútvegsins bætist svo hljóðandi ákvæði:

„Enn fremur er ríkissjóði heimilt að verja á árinu 1966 10 millj. kr. til greiðslu vinnsluuppbóta á þeim stöðum, sem fiskvinnsla ber sig ekki vegna erfiðrar aðstöðu, svo sem af því, að hráefni skortir eða afli er sérstaklega dýr í vinnslu, enda sé vinnslan talin nauðsynleg vegna útgerðar á hlutaðeigandi stöðum. Rn. setur reglur um greiðslu uppbótanna að fengnum till. Fiskifélags Íslands og Landssambands ísl. útvegsmanna.“

Þessari till. þarf ekki að fylgja úr hlaði með langri framsögu. Hún skýrir sig raunar sjálf. Á landinu, ekki sízt norðanverðu og austanverðu, eru ýmsar fiskvinnslustöðvar, sem hafa ekki borið sig að undanförnu og eiga í mjög erfiðri vök að verjast. Hætt er við, að í það horf sæki á þessu ári, eins og dýrtíðar- og verðbólgumálum er háttað. Þó að frv. þetta ákveði, að ríkissjóður leggi fram 50 millj. kr. á árinu til „framleiðsluaukningar frystihúsa og annarra endurbóta í framleiðslu frystra fiskafurða,“ nær ekki sú aðstoð til þess að létta sérstaklega undir með þeim fiskvinnslustöðvum, sem skortur á hráefni þjakar, eða þá til vinnslu að verulegu leyti á afla, sem er dýr í vinnslu. Og má telja, að skylt sé á þessum uppbóta-viðreisnartímum að veita þar sérstaka aðstoð með uppbótum. Séu vinnslustöðvar þessar nauðsynlegar fyrir framleiðendur og verkafólk, þar sem þær eru reknar, eins og víðast mun vera, mega þær alls ekki fara í kaldakol. Hæstv. ríkisstj. landsins veitir sannarlega ekki af að hafa heimild til að eyða 10 millj. kr. í því skyni að draga þarna úr afleiðingum verðbólgunnar, sem geisar í umboði hennar. Eðlilegt má telja, að Fiskifélag Íslands og Landssamband ísl. útvegsmanna verði til ráðuneytis um greiðslu þessara uppbóta, eins og till. gerir ráð fyrir.

Máske spyr nú hæstv. ríkisstj., eins og henni hefur jafnan hætt við að spyrja, þegar stjórnarandstæðingar flytja útgjaldatill.: hvar eru tekjur á móti þessu? Að þessu sinni vil ég vitna til þess, að ríkisstj. hefur lagt fram frv. þetta, sem gerir ráð fyrir 80 millj. kr. útgjaldaauka fyrir ríkissjóð 1966, án þess að sjá fyrir samsvarandi tekjuauka beinlínis, og munar þá ekki miklu, þótt 10 millj. bætist við, úr því að hæstv. ríkisstj. er hvort sem er að grafa í verðbólgunámur sínar eftir fé upp í 80 millj., enda er hér um heimild, en ekki ófrávíkjanlega fyrirskipun að ræða, að vísu heimild, sem eftir öllum horfum nú þarf að vera hægt að nota.

Ég treysti því, að hv. þm. sjái ástæðu til að greiða þessari till. atkv. sitt, og ég undirstrika það, að þetta er heimild til að bæta úr þörf, sem nærri því má telja víst, að verður mjög rík fyrir hendi.