21.03.1966
Neðri deild: 57. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 680 í B-deild Alþingistíðinda. (489)

136. mál, ráðstafanir vegna sjávarútvegsins

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Þegar fjárlög voru hér til lokaafgreiðslu um miðjan desember, minnist ég þess, að ég gerði þá fyrirspurn til hæstv. fjmrh., hvort ríkisstj. hefði ekki reiknað með því, að greiða þyrfti stuðning við sjávarútveginn á árinu 1966 á svipaðan hátt og gert hafði verið á árinu 1965, og hvort ríkisstj. hefði þá ekki hugsað sér, hvernig ætti að standa undir slíkum greiðslum. Ég taldi þá, að það væri alveg augljóst mál, að það yrði ekki hjá því komizt að greiða a.m.k. jafnmikinn styrk til framleiðslunnar og verið hafði, og reyndar þó miklu frekar líklegt, að það yrði að greiða þarna nokkru meira, og þá sýndist auðvitað eðlilegt, að tillit yrði tekið til þessa við afgreiðslu fjárl. Hæstv. fjmrh. gaf þá hér yfirlýsingu um það, að ríkisstj. hefði beinlínis gert ráð fyrir þessu, og hann sagði enn fremur, að hann teldi fært, að ríkissjóður stæði undir svipuðum greiðslum til stuðnings sjávarútveginum á árinu 1966 og hann hefði gert á árinu 1965, án þess að grípa þyrfti til þess að leggja á nýja skatta, en tók greinilega fram, að þetta væri við það miðað, að stuðningurinn væri af svipaðri stærðargráðu, eins og hæstv. ráðh. orðaði það, á árinu 1966 og hann hefði verið á árinu 1965, ef um meira yrði að ræða, yrði að sjálfsögðu að athuga það sérstaklega.

Ég verð því að segja það, að þær yfirlýsingar, sem hafa verið gefnar í sambandi við flutning á þessu frv. um það, að ríkissjóður geti ekki staðið undir þeim stuðningi til sjávarútvegsins, sem felst í þessu frv., og þurfi nú að gera ráð fyrir lækkun á niðurgreiðslum á vöruverði vegna þessara ráðstafana, þær yfirlýsingar koma mér einkennilega fyrir sjónir með tilliti til þess, sem hæstv. fjmrh, sagði hér við afgreiðslu fjárl. um miðjan desembermánuð. Ég veit, að það má að vísu segja, að skv. þessu frv. sé gert ráð fyrir nokkurri hækkun frá því, sem ráðgert var með lögunum, sem í gildi voru fyrir árið 1965. Það er gert ráð fyrir því, að greiðslan til frystihúsanna hækki úr 33 millj. kr. í 50 millj. kr., eða hækkunin nemur alls 17 millj. kr. En varla trúi ég því, að svo hafi verið knapplega siglt með fjárhagsafkomu ríkissjóðs, að ekki væri hægt að taka á ríkissjóð 17 millj. kr. upphæð og það þurfi nú að gera sérstakar fjármálalegar ráðstafanir vegna þessarar litlu hækkunar. Vitanlega getur þessi hækkun á stuðningnum við sjávarútveginn ekki réttlætt það, að nú eigi að fara að draga úr niðurgreiðslum á vöruverði, sem nemur 80 millj. kr. eða jafnvel yfir 100 millj. kr., sem maður skyldi helzt halda af þeim upplýsingum, sem hér hafa fram komið, þegar þetta mál hefur verið til umr. í þinginu.

Ég vildi nú sérstaklega óska eftir því, að hæstv. fjmrh. gerði grein fyrir því, hvernig þessum málum raunverulega er varið. Ummæli hans liggja alveg greinilega fyrir varðandi þetta mál frá afgreiðslu fjárl. Hins vegar hefur hæstv. sjútvmrh. í framsögu fyrir málinu lýst því yfir, að það sé ekki unnt fyrir ríkissjóð að taka á sig þær greiðslur, sem frv. gerir ráð fyrir, án þess að til rekstrarhalla komi, og af því verði að grípa til þess að draga úr niðurgreiðslum eða fella þær niður með öllu í einstökum greinum. Ég get ekki séð, að fyrri yfirlýsingar fjmrh. fái samrýmzt þessum yfirlýsingum, sem nú fylgja með þessu frv. frá ríkisstj. Það má ef til vill vera, að hæstv. fjmrh. telji, að ráðstafanir, sem miða í þá átt að minnka niðurgreiðslur á vöruverði um 80 eða 100 millj. kr., séu ekki nýr skattur. En ég efast ekkert um, að hæstv. fjmrh. viðurkennir það, að slík ráðstöfun jafngildir fullkomlega nýrri skattlagningu. Það að draga úr niðurgreiðslum á vöruverði þýðir vitanlega hækkandi vöruverð, og bein afleiðing af því er síðan hækkuð vísitala og hækkað kaupgjald, og fleiri hækkanir á verðlagi hljóta að fylgja þar í kjölfarið.

Ég hélt, að það hefði ekki farið á milli mála og verið fullviðurkennt af hæstv. fjmrh., að það er í rauninni alveg sama að leggja á nýja skatta og að fella niður tilteknar greiðslur frá hálfu ríkisins, sem síðan verða til þess, að verðlagið hækkar.

Þegar hæstv. fjmrh. gerði þær ráðstafanir, að dregið var úr fjárveitingu til rafmagnsveitna ríkisins, þá vitanlega leiddi það til þess, að það varð að hækka í staðinn raforkuverðið. Þetta jafngilti vitanlega nýrri skattlagningu. Nákvæmlega það sama gerðist, þegar ráðstafanir voru gerðar til þess, að ríkissjóður hætti að greiða það framlag, sem hann hafði greitt um skeið til vegasjóðs, og ákveðið var í staðinn að hækka verð á benzíni til þess að jafna þennan tekjumissi sjóðsins. Það þýddi auðvitað hækkandi verðlag á benzíni og jafngilti nýrri skattlagningu. Eins er það vitanlega, ef ríkissjóður dregur að sér höndina í sambandi við niðurgreiðslur á vöruverði, sem leiðir til hækkandi vöruverðs, að þá jafngildir það nýrri skattlagningu.

Ég ætla ekki, að hæstv. fjmrh. hafi gefið hér þá yfirlýsingu, sem hann gerði í þessum efnum, á þeim grundvelli, að hann gæti farið í fjáröflun eftir þessari leið og neitað því, að hér væri um nýja skattlagningu að ræða. Þá sýnist mér helzt, að eitthvað hafi komið fyrir hjá ríkissjóði frá því að fjárl. voru afgr. um miðjan desembermánuð og þar til nú, að það hafi eitthvert óhapp komið fyrir, sem hafi orðið þess valdandi, að ríkissjóður geti ekki staðið undir þessum útgjöldum, sem hæstv. fjmrh. gerði beinlínis ráð fyrir að ríkissjóður gæti staðið undir. Mér er ekki Ijóst, hvaða óhöpp þetta eru, og teldi því, að eðlilegt væri, að fjmrh. gerði grein fyrir því, hvaða ástæður til þess liggja.

Það fer auðvitað ekkert á milli mála, að slík ráðstöfun sem sú, að ríkissjóður dragi nú úr niðurgreiðslum á vöruverði, er mjög óheppilegt, eins og nú háttar okkar verðlagsmálum. Það er ekki aðeins það, að hækkandi verðlag, sem leiðir fljótlega af sér hækkandi kaupgjald, komi til með að bitna aftur á þeim aðilum, sem er verið að veíta stuðning með þessu frv., því að auðvitað er það, að hækkandi kaupgjald kemur til með að leggjast ekki sízt á þá framleiðendur, sem framleiða fyrir erlendan markað, heldur er það einnig, að ráðstafanir í þessa átt hljóta að gera vandann í sambandi við lausn kaupgjaldsmálanna á komandi sumri stórum meiri en annars yrði. Ég hefði haldið, að ríkisstj. þyrfti einmitt nú að gera allt, sem í hennar valdi stæði, til þess að reyna a.m.k. að koma í veg fyrir verðhækkanir. Verðhækkanirnar á undanförnum árum hafa orðið allt of miklar, það er viðurkennt af öllum, og þær vitanlega leiða af sér síhækkandi verð á vörum, það leiðir vitanlega af sér, að vinnulaun hljóta að hækka sem afleiðing þar af, og ég hygg, að ríkisstj. muni sannreyna það á næsta sumri, að það verður ekki auðveldara að leysa vanda kaupgjaldsmálanna, eftir að hún hefur gert ráðstafanir í þessa átt, sem miða að því að hækka verðlag í landinu. Ég á því í rauninni afar erfitt með að skilja þessa ráðstöfun frá hendi ríkisstj.

Þá gerir ríkisstj. sér það auðvitað ljóst, að fyrri samningar, sem hún hefur staðið að við launþegasamtökin í landinu, t.d. varðandi lausn á húsnæðismálum, eru þess eðlis, að ráðstafanir frá hennar hálfu til hækkunar á verðlagi jafngilda raunverulega því að kippa grundvellinum undan því samkomulagi, sem hún hafði gert varðandi lán til íbúðarhúsabygginga. Hvað þýðir það, þegar hin almenna verðlagsvísitala hækkar um 4%, eins og búast má við, ef dregur úr niðurgreiðslum á vörum upp á 100 millj. kr.? Það mundi þýða, að kaupgjald hækkar eftir vísitölu um 2—2 1/2%. En hvað þýðir hækkun á kaupgjaldi um 2%? Það þýðir það, að hvert lán, sem veítt hefur verið til íbúðarhúsabygginga í landinu upp á 280 þús. kr., eins og hámarkslánið er, hvert slíkt lán hækkar um 2%, stofn þess, og síðan hækka einnig um 2%, sem bein afleiðing af þessari verðhækkun, vextir af viðkomandi láni. Það er beinlínis stofninn sjálfur, sem hækkar, en það er auðvitað árgjaldið, sem hækkar um 2% og síðan áfram allan tímann, því að maður gerir ekki ráð fyrir því, að þessi 2% fari. Ef þessi 2% hyrfu, þá breyttist það aftur, það er rétt, en þetta vitanlega leggst á bæði stofninn sjálfan eða afborganir og vexti. Hér er því verið að gera umsamin húsnæðislán almennings í landinu stórum lakari en menn gengu út frá, að þessi lán yrðu. Ég býst ekki við því, að slíkar ráðstafanir bæti fyrir ríkisstj. til þess að leysa kaupgjaldsvandamálin.

Mig undrar því, að ríkisstj. skuli ætla sér að fara inn á þá braut, sem hún er að tilkynna hér varðandi þetta mál. Ég held, að ríkisstj. hefði þurft að haga sér varðandi ríkissjóð á svipaðan hátt og ég held að hún hefði einnig átt að haga sér gagnvart ýmsum öðrum aðilum í landinu, sem hafa með verðlagsmál að gera, að hún hefði sett sér það gagnvart ríkissjóði, að ríkissjóður yrði að láta sér nægja þær tekjur, sem hann hefði yfir að ráða, og hann yrði þá að draga eitthvað úr útgjöldum, sem hann ætti betur að ráða við, heldur en draga úr niðurgreiðslum á vöruverði, sem hann veit að þýðir hækkandi verðlag í landinu. En reglar hefur því miður allt of lengi verið sú, að þeir, sem stjórna fjármálum ríkisins, segja: Nú vaxa hjá okkur útgjöldin, nú þurfum við meira, og þá er í rauninni ekkert annað en við verðum bara að ná í meiri tekjur. — Og svo er haldið áfram, þó að afleiðingin verði vitanlega sú, sem raun er á f sambandi við verðlagsmálin í landinu. Eins þyrfti vitanlega ríkisstj. að halda fast að ýmsum öðrum aðilum í þjóðfélaginu, sem hafa með verðmyndunarmálin að gera, halda fast að þeim að hækka ekki verðlag.

Ég skal ekki ræða hér um þetta mál öllu meira að þessu sinni, fyrr en ég hef heyrt svör hæstv. fjmrh.. því að ég verð að segja það. að þær yfirlýsingar, sem fylgja með þessu frv., eru ekki að mínum dómi í samræmi við þær yfirlýsingar, sem hæstv. fjmrh. hefur gefið um þetta efni.

Um þær fjárgreiðslur, sem ráðgerðar ert? samkv. þessu frv. til stuðnings sjávarútveginum. segi ég aðeins það, að ég tel, að það sé ekki hægt undan þeim að skjótast. Það hefur verið samið um það við hinar ýmsu greinar sjávarútvegsins að fá, þessar fjárhæðir. Það eru eflaust ekki allir á einu máli um það, hvort rétt sé að hafa hans framkvæmdahátt á, sem gert er ráð fyrir með þessu frv. um afhendingu þessa fjár, það er annað mál. En ég held, að það verði ekki hægt að skjóta sér undan því að inna þessar greiðslur af höndum, sem frv. gerir ráð fyrir. En hitt þykir mér öllu lakara. að ríkisstj. skuli ætla að nota þessar fjárgreiðslur til þess að afsaka slíka stefnu sem þá að stefna til þess að hækka verðlagið eða ýta af stað í rauninni nýrri verðhækkunarskriðu.