02.12.1965
Sameinað þing: 15. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 133 í B-deild Alþingistíðinda. (49)

1. mál, fjárlög 1966

Halldór Ásgrímsson:

Herra forseti. Fyrir allmörgum árum héldu sjálfstæðismenn þeim áróðri mjög á lofti, að lítil fyrirhyggja væri í því, að þjóðin fæli öðrum fjármálaráðherrastörf en einhverjum framámanni úr þeirra flokki. Til stuðnings þessari kenningu bentu þeir á, að enginn stjórnmálaflokkur ætti innan sinna vébanda eins marga og þrautreynda fjáraflamenn og Sjálfstfl. Þetta var reynt í nokkrum samsteypustjórnum. Kom þá í ljós, að annað var að vera búmaður fyrir sjálfan sig en aðra og þ. á m. fyrir ríkissjóð. Og reynslan er ólygnust í þessum efnum eins og öðrum. Um nokkurt skeið hefur Sjálfstfl. farið með fjármálin, og vil ég með nokkrum orðum víkja að þeirri heildarmynd, sem af þeirri fjármálastjórn hefur fengizt, og einnig nokkuð að einstökum þáttum þeirrar sögu.

Við valdatöku svokallaðrar viðreisnarstjórnar, sem upphaflega kaus sér kjörorðið eða gaf sér nafnið viðreisnarstjórn, stóð ekki á gullnum loforðum og fögrum fyrirheitum, sem fest eru á blöð í hinum alþekkta og víðfræga bæklingi ríkisstj., Viðreisn, en að nokkru leyti í ræðum ráðh. á ýmsum tíma. Má þar vitna til margra fyrirheita og mjúkra orða í sambandi við fjármálastjórn ríkisins. Þar er lofað hófsemi um hvers konar skattheimtu og gætni og samvizkusemi um meðferð opinbers fjár og niðurskurði á hvers konar eyðslu. Hvernig hefur svo núv. ríkisstj. efnt þessi loforð? Hvað er orðið m. a. af hófseminni um álögur? Allir vita, að skattabrjálæði þessarar ríkisstj. á enga hliðstæðu í fjármálasögu landsins, því að láta mun nærri, að innheimtar tekjur ríkissjóðs hafi hækkað fram undir 400% frá 1958, og álagðir skattar og aðrar álögur vaxa enn hratt ár frá ári. Hefur það t.d. margendurtekið sig, að fjáröflun, sem ætluð var til stuðnings ákveðinna atvinnugreina, svo sem til togaraútgerðarinnar, var látin hverfa í eyðsluhítina, og svona hefur oft gengið koll af kolli. Þannig hefur hvert slysið rekið annað á vegum fjármálastjórnar þessarar ríkisstj. Árlega hefur hún heimtað meiri tekjur og borið þar við, að hana vantaði þessa eða hina fjárfúlguna til nauðsynlegra hluta. En oft hefur þessi nauðsynlega aðstoð verið úti á gaddinum að ári liðnu og nýjar álögukröfur komið fram af hendi ríkisstj. Og stuðningslið ríkisstj. hefur ætíð haft hendur á lofti til að verða við öllum óskum og kröfum hennar um auknar skattaálögur.

Það er ástæða til að skoða þessa fjárhagslegu hrakfallasögu ríkisstj. nokkru nánar. S. l. 3 ár, sem skýrslur eru um, þ. e. 1962, 1963, 1964, voru tekjurnar samkv. fjárl. áætlaðar samtals nálægt 6 milljörðum 646 millj., en reyndust nálægt 7 milljörðum 614 millj. Á sama tíma voru útgjöld heimiluð samkv. fjárl. þessara ára um 6 milljarðar 615 millj. Greiðsluafgangur átti samkv. þessu að vera þessi umtöluðu 3 ár sem næst eða fram undir einn milljarð. Greiðsluafgangur varð nokkur 1962 og 1963, eða samtals um 300 millj., en greiðsluhalli 1964 var meira en 220 millj., svo að eftirstöðvar greiðsluafgangs þessi 3 ár reyndist um 80 millj. Hafði ríkisstj. því eytt utan fjárlagaheimilda þessi umræddu 3 ár fram undir 900 millj. Á sama tíma og þessar stórkostlegu umframtekjur bárust upp í hendur hennar, var í vaxandi mæli þrengdur kostur allra þeirra aðila, sem ríkissjóði bar lagaskylda til að inna fé af höndum til, og til margvíslegra annarra hluta. Og stjórnarliðið, eftir kröfu ríkisstjórnarinnar, drap kalt og rólega allar brtt. okkar framsóknarmanna, t.d. um aukið framlag til vega og brúa 1962 og öll árin, til annarra framkvæmda, svo sem til flugvallagerða og aukins flugöryggis, til hafnargerða og annars í þágu landbúnaðar og sjávarútvegs og enn fremur til rafvæðingar í byggðum landsins, og svona má lengi telja. Jafnvel tiltölulega mjög hófsamleg aukning á fjárframlögum til vatnsveitna var felld öll árin. Sama er að segja um nokkrar sparnaðartill., þær voru allar drepnar, þótt fjmrh. viðurkenndi eyðsluna og lofaði hátíðlega að framkvæma sparnað. Lauk ferli fyrrv. fjmrh. þannig, að hann hafði gefið Alþ. og alþjóð samtals nokkra tugi sparnaðarloforða, án þess að nokkuð væri efnt.

Núverandi fjmrh., sem er áhrifamaður í sínum flokki, hafði bundið sig að miklu í málið hvað eftir annað hér á Alþ. Hann fullyrti, að sparnaður í ríkisrekstrinum þyrfti og skyldi framkvæmdur og eiga sér stað.

Ef lítið er í gegnum þetta fjárlagafrv., sést, að enn sem fyrr er ekki um efndir að ræða í þessu efni. Fjölgar því enn þeim raunalegu staðreyndum, sem í þessu efni eru, og enn fjölgar vanefndunum, og má þar, eins og mörgum er í minni, geta vanefnda hæstv. samgmrh. í sambandi við lögskylt fjárframlag til vega. Ég vil telja, að núv. hæstv. fjmrh. sé með mörgum loforðum bundinn við það að efna eitthvað af sparnaðarloforðum fyrrv. fjmrh., sem hann tók mjög undir fyrr og síðar.

En það var ekki nóg, að stjórnarliðið dræpi hverja umbótatill., sem Framsfl. bar fram á þessum liðnu árum, heldur lét stjórnin blöð sín sí og æ gera tilraun til að rægja Framsfl., brigzla honum um yfirboð og ábyrgðarleysi í fjármálum. Slík vinnubrögð leyfði ríkisstj. sér að nota, á sama tíma sem vitað er og reynsla er nú fengin fyrir, að hún hafði stórfelldan tekjuauka þessi ár. En hún kaus fremur að hafa það fé til eyðslu án heimilda á fjárlögum en að láta það ganga til bráðnauðsynlegra framkvæmda víðs vegar um land.

Hrakfallabálkur ríkisstj. er því miður ekki allur, heldur er framhaldið engu betra og jafnvel enn einstæðara að endemum.

Eins og fjárlögin fyrir 1965 sýna, hélt ríkisstj. áfram að skera við nögl sér hvers konar fjárframlög til umbóta og aukinna nauðsynlegra framkvæmda. Síðan skeðu þau ótíðindi, að ríkisstj. skar niður af fjárlögum fyrir 1965 um 20% af framkvæmdafé fjárlaga eða mikið á annað hundrað milljón og náði þeirri fjárhæð til baka inn í almennan rekstur ríkissjóðs. Það er m. a. til að auka eyðslu í ríkisrekstrinum, enda þarf búið margs með, svo sem nýtt sendiráð í Ameríku, aukin ferðalög ríkisstjórnar og húskarla hennar, aukin veizluhöld, svo að dæmi séu nefnd. Og nú var framkvæmdaféð stórlega skorið niður frá því, sem áður var, þótt búið væri þá sem endranær að bæta enn við drápsklyfjum í skattheimtunni.

Ég vil þá víkja lítils háttar að fjárlagafrv. því, sem hér er til umr. og afgreiðslu. Ég verð að segja, að við athugun og lestur þessa frv. hefði ég og sennilega margir fleiri kosið, að sá mæti maður, núv. fjmrh., eignaðist betra hlutskipti en að marka stefnu sína í embættinu á þá lund, sem fjárlagafrv. segir til um.

Segja má, að ráðherra sé nokkur vandi á höndum, annars vegar að þjóna undir ríkisstjórnina og hjálpa henni til enn um skeið að hanga við völd og hins vegar að móta fjárlagafrv. sitt meira með tilliti til þjóðarhags. Fyrri kostinn valdi hæstv. fjmrh. Það verður því að segja og reyndar harma um leið, að ekki er góð fyrsta ganga hæstv. ráðh. í þessu ábyrgðarmikla og vandasama starfi.

Fjárlagafrv. þetta fyrir árið 1966 er byggt á því sama og öll slík fjárlagafrv. hafa verið byggð upp í tíð núv. ríkisstj. Það eru auknar tekjur til handa ríkissjóði, og nemur tekjuhækkunin frá fjárlögum 1965 um 260 millj. kr., og tekjubálkurinn í frv. nemur því samtals um 3 milljörðum 790 milljónum og á vafalaust eitthvað eftir að hækka í meðförum Alþingis. Eins og öllum hv. alþm. er ljóst, eru raunverulegar álögur á þjóðina mun meiri en fram kemur á fjárlagafrv., og verða þeir milljónatugir og hundruð millj. ekki talin hér fram. En ég vil þó aðeins minnast á þá fjárheimtu, sem gengur og gengið hefur um skeið til samgöngumálanna, til vegamálanna, sem áður voru að hluta bornar uppi af fé því, sem í gegnum ríkissjóð gekk. Í þessu sambandi má nefna þá nýbreytni að telja ekki fram í tekjum allan áætlaðan tekju- og eignarskatt, en láta hluta af honum hverfa þegjandi og hljóðalaust í gegnum útgjaldalið á 17. gr. Jafnframt má að sjálfsögðu búast við, skv. venju, að ýmsir tekjuliðir fjárlagafrv. muni vera óeðlilega lágt áætlaðir, svo sem aðflutningsgjöldin, þegar vitað er, að gjaldeyristekjur fara ár frá ári hraðvaxandi, og reynslan hefur verið í því efni, að innflutningur hefur að sama skapi aukizt og þar með tolltekjur ríkissjóðs. En um þennan mikla tekjulið er erfitt að fullyrða, og reyndar fleiri tekjuliði, þar sem ríkisstj. hefur nú sem endranær haldið a. m. k. stjórnarandstöðunni í hæfilegri fjarlægð frá athugun þessara mála. Ekki svo að skilja, að fjvn. hafi ekki fengið venjubundnar upplýsingar um áætlun tekjuliðanna, en af fyrri reynslu tel ég vorkunnarmál, þótt við í stjórnarandstöðunni séum tortryggnir um raunhæfar upplýsingar í því efni.

Ég vil þá víkja nokkrum orðum að uppbyggingu gjaldabálks fjárlagafrv.

Ef höfð er í huga hækkun tekna um 260 millj., er sú staðreynd vitanlega fyrir neðan allar hellur, að hæstv. fjmrh. skuli leggja enn til stórfelldan niðurskurð á öllum framkvæmdaliðum, og miða ég þar við þá eins og þeir eru í fjárlögum 1965. Og þetta á sér stað á sama tíma sem ráðherrann hefur tækifæri til að efna eitthvað af þeim loforðum, sem fyrirrennari hans í stöðunni sveik og hann hafði tekið sterklega undir á sínum tíma, þ. e. að framkvæma verulegan sparnað.

Ef tekjuaukinn á fjárlagafrv. er hafður í huga og niðurskurður sá, sem sjáanlegt er að á að eiga sér stað, miðað við ýmis útgjöld á fjárlögum 1965, er augljóst, að það er hvorki meira né minna en fjmrh, eða ríkissjóður hafi yfir að ráða til ríkisrekstrarins um ½ milljarð, ef þetta tvennt er lagt saman, þ. e. tekjuaukinn og niðurskurður á margs konar framkvæmdaliðum, sem voru til staðar í fjárlögum 1965. En þessi fjármálasaga er ekki með þessu öll sögð. Í viðtölum margra fyrirsvarsmanna ýmissa ríkisstofnana kom í ljós, að þeir óttuðust, að ef ekki væri unnt að leggja þeim til aukið starfsfé, og miðuðu þá við það, sem fjárlagafrv. gerði ráð fyrir, — óttuðust þeir, að samdráttur yrði í þeirra margvíslegu og merkilegu starfsemi, bæði um framkvæmdir og þjónustu. Ég skal nefna aðeins sem dæmi háskólann og ýmsar undirdeildir hans, ríkisspítalana, póst og síma, og þá fyrst og fremst allt, sem varðar landssímann. Þá má nefna algerlega ófullnægjandi útgjaldatillögu til Skipaútgerðar ríkisins. Það má segja, að það sé ekki ný bóla á stjórnarbúinu, þó að það komi fram, að Skipaútgerð ríkisins sé sem áður hreint ekki á hægra brjósti þessarar ríkisstjórnar, og er ekki breytt venju í því efni, þó að útgjaldaliðir Skipaútgerðar ríkisins séu ráðgerðir miklum mun lægri en vitað er að þarf til að annast þann rekstur. Svo hefur verið ár frá ári í tíð þessarar ríkisstjórnar. Hún hefur heldur kosið í ýmsum tilfellum, vitandi vits, að láta Ríkisskip vera annaðhvort vanhaldið af fé eða láta forstjórann ganga bónleiðan til búðar í sambandi við nauðsynlegustu útgjöld til að halda Skipaútgerðinni í lágmarksstarfi. Þessi aðferð ríkisstj er í rauninni furðuleg — og þó kannske ekki, það eru svo margir þættir í þessu máli. Það er vitað um rekstur Ríkisskips, og á það hefur verið bent af forstjóranum ár eftir ár, að ef útgerðin fengi viðunandi starfsskilyrði hvað húsakost snertir, væri það mikil bót og hjálp í sambandi við að draga úr rekstrarhalla. Ég skal ekki fjölyrða mjög og ekki fara inn á þá sögu, en það vekur náttúrlega nokkra athygli, að á sama tíma, sem Ríkisskip er rekið með vaxandi halla, er selt eina skipið, sem hefur fært Ríkisskip tekjuafgang, — tekjuafgang, sem hefur numið samtals hátt á elleftu millj. kr. (Forseti: Ef hv. þm. á enn óflutt töluvert af ræðu sinni, vil ég mælast til, að hann fresti henni, því að það er ráðgert að fresta fundi. Hann hefst aftur kl. 8½ í kvöld.) — [Fundarhlé].

Herra forseti. Ég mun hafa verið kominn þar ræðu minni að víkja að Skipaútgerð ríkisins og nefna nokkur dæmi um það, hvað sú stofnun er vanhaldin um rekstrarfé eins og fleiri skv. þessu fjárlagafrv. Ég hafði vikið að því, að ég hefði ekki frekar en aðrir orðið mikið var fyrr né síðar við áhuga hjá ríkisstj. í sambandi við starfsemi og rekstur þessarar nauðsynlegu stofnunar, Ríkisskips. Og það er staðreynd, að umhyggja ríkisstj. fyrir rekstri Skipaútgerðarinnar hefur ekki náð og virðist ekki ná svo langt að reyna að leysa að einhverju leyti vanda hennar með því að bæta aðstöðuna, bæði í sambandi við húsakost vegna starfseminnar og eins að taka til meðferðar þá till. forstjóra Skipaútgerðarinnar að skipta um skip og fá henni hagkvæmari skip til rekstrarins. Ég mun hafa líka vikið að því, að sú eina mjólkurkýr, ef svo má segja, sem Ríkisskip hafði, var tekin af því, þ. e. olíuskipið Þyrill, því var fargað, og þótti slíkt ekki búmannlegt að farga eina skipinu, sem einhverja björg dró í búið. Það virðist vera athyglisvert, að einmitt þetta skip skyldi vera selt, og líka á hvaða verði það virðist hafa verið selt. Að öðru leyti skal ég ekki hér fara inn á önnur sjónarmið, sem kunna að hafa ráðið einhverju í sambandi við sölu skipsins. En það var alveg utan við hagsmuni Ríkisskips. Mér er sagt, að þetta skip hafi verið selt á 5 millj. og í kaupunum hafi fylgt varahlutir sem næst einni millj. Þá eru eftir 4, en þar frá má draga, að Ríkisskip var nýbúið að láta klassa Þyril, og mun sá kostnaður hafa orðið um 2½ millj., svo að það mætti telja, að Skipaútgerð ríkisins hafi nettó fengið um 1½ millj. fyrir skipið.

Ég skal þá halda áfram að nefna fleiri ríkisstofnanir, sem eru í meira og minna rekstrarsvelti skv. því, sem fjárlagafrv. ber með sér og forstöðumenn þessara stofnana hafa talið og látið í ljós m. a. við fjvn. Í viðbót við þá upptalningu, sem ég hafði gert, má bæta við rannsóknastofnunum í þágu atvinnuveganna, til flugmála, til flugmálastjórnarinnar, til starfsemi í þágu flugsins, bæði varðandi starfræksluna, flugöryggið og flugvellina, enn fremur til raforkumálastjórnar, til rafvæðingar í sveitum og enn fremur til jarðhitadeildar. Og svona mætti halda áfram að telja.

Það er ekki enn þá séð fyrir endann á þeirri fjárvöntun, sem blasir við í sambandi við skólana, og skal ég ekki fara frekar út í það. En hugboð mitt er, að ekki sé ástæðulaust að óttast, að þar verði framkvæmdir mjög vanhaldnar, eins og á fleiri sviðum. Mér virðist það ekki ofsögum sagt, að frv. þetta bregði upp ófagurri mynd af viðhorfi ríkisstj. til framkvæmda og framfaramála. Og það væri vafalaust ástæða til að fjölyrða frekar um þessi og önnur atriði, þó að ég láti það vera að þessu sinni.

Þá vil ég benda á fyrirbæri á 14. gr. fjárlaganna, sem er alveg nýtt. Hvort sem það er nýtt undir sólinni, er það, þótt ótrúlegt sé, nýtt fyrirbæri í sambandi við fjárlagaafgreiðsluna. Á 14. gr. er fjöldi einstakra fjárveitingaliða felldur niður sem sjálfstæðar fjárveitingar, og kennir þar margra grasa, svo sem útgáfustyrkir, t.d. til gamalla menningarfélaga, eins og t.d. til Bókmenntafélagsins, Þjóðvinafélagsins, Fornleifafélagsins, Sögufélagsins, enn fremur til Fornritaútgáfunnar, Menningarsjóðs, Rímnafélagsins, Vísindafélagsins, Ætt- og mannfræðifélagsins, og enn fremur til Æviskráa Vestur-Íslendinga. Allar þessar síðasttöldu fjárveitingar voru styrkir veittir til útgáfu einstakra vísinda- eða fræðirita. Enn fremur má nefna, að á þessum lið 14. gr. voru einnig nokkrar smáar fjárveitingar til einstakra fræði- og vísindamanna til ákveðinna eða vissra ritstarfa. En í staðinn, eftir að hafa fellt niður þessar einstöku fjárveitingar, sem ég nefndi, og raunar fleiri, er búinn til úthlutunarsjóður á 14. gr., sem á að vera í höndum menntmrh. og hann einn að úthluta því fé og verður ekki séð annað en eftir eigin mati, eigin geðþótta. Þetta tel ég í raun og veru alveg óhafandi. Þetta er eitt sýnishornið af þeirri viðleitni ríkisstj. að reyna að draga úr höndum Alþ. margs konar ákvarðanir, sem eiga þar heima og hvergi annars staðar. Það eru ýmsir hlutaðeigendur í sambandi við þessa fyrri styrki, sem taka þessa breytingu alvarlega og vilja ekki í þessu efni eiga allt sitt undir hæstv. menntmrh. og hafa þar af leiðandi mótmælt þessari ráðstöfun.

Ég skal ekki fjölyrða teljandi um hæstv. fjmrh. eða hans störf, en vil aðeins geta þess, að mér fannst ræða hans áðan furðuleg, þótt að vísu megi segja, að hún sé á ýmsa lund heiðarleg. Hann virðist viðurkenna það einfaldlega, að hann sé alveg ráðþrota og hann kunni engin ráð. Og hann virðist líka viðurkenna, að vissulega geti ýmsar sparnaðarframkvæmdir komið til greina, en að hans dómi eftir því sem mér skildist, orki það tvímælis, hvað á að gera og hversu vinsæll sparnaðurinn verður. Það er því sýnt, að varla er þaðan mikils að vænta, þótt hæstv. fjmrh. sé glöggur, eins og allir vita, og reyndur á marga lund. Er ég a. m. k. svartsýnn á, að það sé til nokkurs annars en fara í geitarhús að leita sér ullar, ef á að leita eftir bjargráðum hjá þessari ríkisstj., fyrst hæstv. fjmrh. játar, að hann kunni hvorki ráð né annað í þessum efnum, sem varðar sómasamlega afgreiðslu fjárl. Og raunar virðist manni hann vera eins og viss fuglategund, sem tapar fluginu undir vissum aðstæðum. Hann er bjargráðalaus og öll ríkisstj. Ef hann er bjargráðalaus, er varla að búast við leiðsögn hans, hvorki í þessu efni né öðru varðandi farsæla stjórn fjármála.

Ef litið er lauslega yfir fjárl. og ríkisreikning fyrir árin 1962, 1963 og 1964 og fjárl. 1965 og fjárlfrv., sem fyrir liggur nú, fyrir 1966, blasa við eftirtaldar staðreyndir:

1) Stórkostlegum tekjum umfram fjárl., sem féllu til á árunum 1962–1964, er eytt utan við fjárlagaheimild, á sama tíma og allar umbætur í sambandi við framkvæmdir úti á landi og annars staðar eru hiklaust skornar niður.

2) Þrátt fyrir þetta varð mikill greiðsluhalli á árinu 1964 og spáð greiðsluhalla fyrir árið 1965, þótt þá ætti sér stað, á því ári, með valdboði ríkisstj. niðurskurður á verklegum framkvæmdum og öðrum framkvæmdaliðum frá því, sem ákveðið hafði verið á fjárl., sem mun nema, eins og ég áður vék að, á 3. hundrað millj. kr.

3) Þrátt fyrir ráðgerðan tekjuauka samkv. fjárlfrv. 1966 er ákveðinn stórfelldur niðurskurður á framkvæmdafjárveitingum um allt land, og mun niðurskurðurinn og tekjuaukinn nema um ½ milljarði kr., eins og ég hef áður vikið að.

4) Hætta er á, að ýmsar ríkisstofnanir geti ekki á næsta ári innt hlutverk sitt af höndum vegna fjárskorts.

5) Þrátt fyrir allt þetta hefur engin tilraun til sparnaðar í ríkisbúinu átt sér stað.

6) Í vaxandi mæli fer árlega milljarður á milljarð ofan um hendur ríkisstj. Á sama tíma dregur hún sífellt úr nauðsynlegum og lögboðnum framkvæmdum til byggðarlaganna úti á landi. Í staðinn, á. m. k. í sumum tilfellum, tekur ríkisstj. í auknum mæli lánsfé til ýmissa framkvæmda, og það sama verða sveitarfélögin að gera, til þess að óhjákvæmileg verk stöðvist ekki alveg, og neyðast menn þannig til að taka á sig drápsklyfjar vaxta, sem í ýmsum tilfellum verða búnir að éta upp hið lögboðna ríkisframlag, þegar það loksins kemur.

7) Þetta gerist, meðan þjóðfélagið býr við það mesta góðæri, sem það hefur nokkurn tíma búið við.

En ríkisstj. situr og lætur fjárfúlgurnar, sem hún herjar út úr þjóðinni, renna úr greipum sér í eyðslu og óspilunarsemi. Nauðsynlegustu fjárframlög til aðstoðar fólkinu úti á landi til að gera því lífvænlegri búsetuna í heimabyggðinni eru í vaxandi mæli felld niður. Og í staðinn fyrir að sýna viðleitni til sparnaðar, t.d. í sambandi við fjárfúlgur til ráðuneytanna og sendiherranna eða ambassadoranna, sem nema samtals um 77 millj., er ekki hægt og ekki talið „vinsælt“ að skera slíkar fjárhæðir niður og í staðinn lækkuð eða felld svo að segja hver fjárveiting til byggðarlaganna, og þannig eru tíndar saman nokkrar fjárhæðir til að halda við þessari, að því er sumum virðist, óhóflegu eyðslu eða óbúmannlegri meðferð á ríkisfé. Og það verður ekki um það deilt, að hér er í ríkisbúinu yfirleitt eytt um efni fram, og byrðunum vegna nauðsynlegra framkvæmda er velt yfir á framtíðina, sem enginn veit, hvað ber í skauti sér hvað snertir fjárhagslega getu. Menn hafa yfirleitt beðið og vonað og vænzt þess, að með sífelldri, aukinni fjárhagsgetu ríkissjóðs mundi ríkisstj. rétta hlut fólksins. Fyrir mörgum öldum var uppi þjóðhöfðingi, sem þótti úr hófi harðdrægur við þegna sína, og var nefnd send til hans til að beiðast miskunnar og vægðar í fjárheimtum og öðru slíku. Svar hans var þetta: „Faðir minn refsaði ykkur með svipu, en ég mun refsa ykkur með skorpiónum eða gaddasvipu.“

Þetta fjárlfrv. sýnir, að engin von er á leiðréttingu hjá ríkisstj., heldur hið gagnstæða. Og dómsorð þjóðarinnar yfir henni hlýtur að verða: „Þú ert léttvæg fundin.“ Ríkisstj. hefur, eins og Fróðárhirðin fræga, setið lengur en sætt er.

Herra forseti. Ríkisstj. hefur, eins og alþjóð er kunnugt, svikið flest af sínum mikilvægustu loforðum: Vafalaust hefur ríkisstj. viljað gera marga hluti betur en raun ber vitni, enda haft til þess bæði fjárráð og tækifæri, — meiri fjárráð og tækifæri en nokkur önnur ríkisstj., sem setið hefur að völdum hér á landi. Hennar ógæfa og þá um leið allrar þjóðarinnar er, að hún hefur haft verðbólgudrauginn við stýri á stjórnarfleytunni. Ráðh. hafa róið undir, en hann ráðið ferðinni og stefnunni, og undir leiðsögn hans hefur verið stefnt afleiðis og út í ófæruna, sem við blasir.“