21.03.1966
Neðri deild: 57. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 683 í B-deild Alþingistíðinda. (490)

136. mál, ráðstafanir vegna sjávarútvegsins

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Það hefur verið að vonum allmikið rædd hér fjárhagshlið þessa máls, og er mér að sjálfsögðu skylt að svara þeim fsp. og aths.. sem komið hafa fram í því efni.

Hv. 3. þm. Norðurl. e. spurðist fyrir um, hvar mundi verða vísitöluhækkun af því brottfalli niðurgreiðslna, sem fyrirhugað væri, og í annan stað, hvað væri gert ráð fyrir að það yki útgjöld ríkissjóðs, sú hækkun, sem af þeim vísitöluhækkunum stafaði. Það hefur verið gert ráð fyrir því að útgjöld ríkissjóðs samtals af þessum ráðstöfunum, bæði af aðstoðinni við sjávarútveginn og af hækkunum, sem leiddi af kaupgjaldshækkunum vegna lækkunar á niðurgreiðslum, mundu samtals nema um 100 millj. kr. Þó er ekki gott að semja um þetta nákvæmlega, vegna þess að enn þá hafa ekki verið teknar endanlega ákvarðanir um það, hversu langt verður gengið í lækkun niðurgreiðslna, en það mun þó mega gera ráð fyrir, að hækkun kaupgjaldsvísitölu af þeim sökum muni geta numið allt að 2%.

Eins og hæstv. sjútvmrh. sagði, eru slíkar ráðstafanir sem lækkun á niðurgreiðslum þess eðlis, að það er útilokað, að hægt sé að skýra frá þeim löngu fyrir fram, af mjög skiljanlegum ástæðum, vegna þeirra áhrifa, sem slík vitneskja kynni að hafa á viðskiptalífið, og geri ég því ekki ráð fyrir, að hv. þm. geri beinlínis kröfu til þess, að slíkar upplýsingar séu gefnar.

Hv. 5. þm. Austf. vitnaði hér til orðræðna, sem urðu á milli okkar í sambandi við afgreiðslu fjárl., og kom mér það vissulega ekkert á óvart, að hann minnti á þau ummæli hér, þar sem ég hafði látið orð falla í þá átt, að í tilefni af því, að hann spyrðist fyrir um, hvort ekki væri að vænta nýrra skattálagna í sambandi við aðstoðina við útgerðina, þá mun ég hafa komizt svo að orði, að miðað við það, að ekki yrði um aukningu á þeirri aðstoð að ræða, gerði ríkisstj. ekki ráð fyrir að leggja fram till. um nýja skatta. Ég álít, að sú leið, sem hér er farin, sé ekki neitt brot á þeirri yfirlýsingu. Við getum auðvitað endalaust um það deilt, hvort sú lækkun á framlögum til niðurgreiðslna, sem hér er gert ráð fyrir, megi kallast skattur eða ekki skattur, en formlega séð er hér ekki um neinar nýjar skattaálögur að ræða. Hér er um að ræða lækkun á útgjöldum ríkissjóðs, sem leiðir af sér hækkun kaupgjaldsvísitölu til uppbóta á þeim kostnaðarauka, sem verður hjá borgurunum.

Ég skal vitanlega á það fallast, að það er ekki hægt að staðhæfa það og heldur auðvitað ekki rétt fremur en þegar um almennar vísitölubreytingar er að ræða, að menn fái þar bætur í hlutfalli við þau auknu útgjöld, sem þeir hafa. Vísitölukerfið er þess eðlis, að þar er aldrei um slíkt að ræða. Það fer eftir mörgum atvikum. Einn fær raunar meira bætt en annar. En efnislega séð geri ég þó ekki ráð fyrir, að hv. þm. neiti því, að það hefur verið talið, að þetta væri eina úrræðið, vísitölukerfið, til þess að veita uppbætur fyrir verðhækkanir.

Það er ekkert launungamál heldur, að þegar ég mælti þessi orð, hafði ég beinlínis það í huga. að þessu yrði mætt með lækkun niðurgreiðslna. Ég gat um það, sem öllum mun vafalaust hafa verið ljóst, að vitanlega hefði ríkisstj. rætt það, hvernig ætti að mæta þeim vanda, og hv. þm. er það öllum í fersku minni. að fjárlög voru afgreidd án nokkurs greiðsluafgangs, þannig að vitanlega lá það í augum uppi, að það var engan varasjóð þar um að ræða. sem auðið væri að nota til þess að mæta þessum auknu útgjöldum. Af þeim sökum veit ég, að hv. 5. þm. Austf. kemur það ekkert á óvart, þó að einhverjar ráðstafanir þurfi að gera til að afla þessa fjár. Það er vitanlega rétt hjá honum, að flestum þeim ráðstöfunum. sem um var að ræða fyrir áramótin, enda þótt þær fælu í sér lækkun á útgjöldum ríkissjóðs, fylgdu samhliða skattaálögur, svo sem raforkunni, sem hann nefndi hér áðan. Það hefur ekkert verið farið dult með, að það hefur verið lagður á sérstakur raforkuskattur. Benzínskattur var hækkaður, og þar var um beina skatthækkun að ræða til þess að mæta minnkuðum tekjum vegasjóðs, sem leiddi af því, að framlag til vegamála var fellt niður. En ég get fullvissað hv. þm. um, að það hefur hér ekkert óhapp komið fyrir í sambandi við þetta. nema það megi teljast óhapp. sem ég get vissulega tekið undir að er, að á jafnmiklum velgengnistímum fyrir sjávarútveginn skuli þurfa að grípa til þess að hækka bætur til hans, svo sem raun ber vitni um. En það er annað mál og stærra, sem ég skal ekki hér út í fara, og á því eru skýringar, miklu fleiri og víðtækari en þær einar, að þetta sýni, hvað verðbólguþróunin hafi leitt okkur út í. Það eru fleiri atvik, sem valda því, að það var talið óumflýjanlegt að hækka fiskverðið svo mikið sem hér bar raun vitni. Og ég er ekki andvígur því, síður en svo, að sú aðstoð sé veitt, sem hér varð samkomulag um. Það leiddi til þess friðar, sem varð um fiskverðið að lokum, og ég fyrir mitt leyti gat ekki staðið á því að láta stranda samkomulag um fiskverðið á 17 millj. kr., úr því að það var ekki um meiri hækkun að ræða til þess að ná endum saman. Um þessar ráðstafanir, sem hér er um að ræða varðandi lækkun niðurgreiðslnanna, vil ég taka skýrt fram, þótt menn, eins og ég sagði, geti deilt um það fram og aftur, hvort lækkun niðurgreiðslna sé nýr skattur eða ekki, þá eru það ekki þessar 17 millj., sem ráða neinum úrslitum um þær ráðstafanir, sem gert er ráð fyrir að gera til þess að mæta þessum auknu útgjöldum, heldur hefur alltaf verið gert ráð fyrir því, að ef þyrfti að veita viðlíka aðstoð til sjávarútvegsins, þó að hún yrði ekki meiri en hún var á s.l. ári, mundi að sjálfsögðu verða að afla nýs fjár, og var alltaf haft í huga að gera það með þessum hætti.

Varðandi það atriði, að eðlilegasta lausn þessa máls væri sú að segja bara, að ríkissjóður yrði að láta sér nægja þær tekjur, sem hann hefur, þá er naumast hægt að ræða í alvöru slíka kenningu, nema því aðeins að menn séu reiðubúnir á móti til þess að fallast á verulegan niðurskurð útgjalda. Það er vitanlega eina úrræðið, sem þá kemur til greina. Og við vitum það, að svo sem bent er á í grg. með þessu frv., var þar ekki um aðra leið að ræða en þá að skera niður verklegar framkvæmdir. Og það byggist á því, að svo að segja öll önnur útgjöld ríkissjóðs eru lögboðin, þannig að það er ekki hægt að mæta 80 millj. kr. útgjöldum með því að tala um, að það eigi að spara einhverjar óljósar fjárhæðir, heldur yrði að gera mjög víðtækar ráðstafanir í því efni, og á s.l. ári, eins og menn vita, gaf 20% lækkun framlaga til verklegra framkvæmda um 80 millj. kr. Það er skoðun ríkisstj., að ekki sé fært að ganga lengra í því efni nú og því ekki aflað til þess heimilda, en það er vitanlega eina úrræðið, sem fyrir hendi er, nema því aðeins að menn vilji þá fallast á að breyta einhverju í gildandi löggjöf um framlög ríkissjóðs til meiri háttar þjónustustarfsemi, sem er þá á annað borð á þann veg, að það sé skyndilega hægt að spara, þó að slíkri starfsemi sé hætt, því að það vita allir hv. þm., að jafnvel þótt samkomulag yrði um að hætta veigamikilli þjónustustarfsemi eða framlögum ríkisins til ákveðinna þarfa, er þar oftast nær þannig háttað, að það sparar ekki ríkissjóði útgjöld fyrr en eftir allverulegan tíma, enda hygg ég, að hv. 5. þm. Austf. meini ekki í alvöru það, sem hann segir hér í þessu efni, vegna þess að það er allt of óraunsæ kenning, til þess að ég vilji ímynda mér, að jafnglöggur maður og hann haldi þessu fram af neinni sannfæringu.

Auðvitað er það slæmt að þurfa að lækka niðurgreiðslur og valda hækkun á verðlagsvísitölu. Ég get fullkomlega tekið undir það. Og það hefði vitanlega verið á allan hátt æskilegra, ef það hefði verið hægt hjá því að komast. Hitt er annað mál, að þeirri kenningu hefur oft verið haldið fram og það af, að ég hygg, flestum flokkum á hinum ýmsu tímum, að niðurgreiðslurnar séu mesta ólánsúrræði, og það hefur oft verið fært til ámælis þessari ríkisstj., að það sé uppbóta- og niðurgreiðslukerfi, sem hún styðjist við. Hitt er svo annað mál. að það er ekki jafneinfalt að afnema þessar niðurgreiðslur eins og menn vilja oft vera láta, svo sem auðvitað kemur fram, þegar á í alvörunni til þess að koma, að niðurgreiðslurnar séu lækkaðar. Hitt er annað mál, að ég held, að við hljótum með tímanum að verða að stefna að því að komast út úr niðurgreiðslukerfinu með einhverjum hætti. Það er engin frambúðarlausn á okkar verðlagsmálum að halda þessu niðurgreiðslukerfi uppi. En það er meira mál, sem ég skal ekki hér út í fara.

Hitt vil ég segja út af því, sem hv. 5. þm. Austf. sagði varðandi kjarasamninga við verkalýðinn, að það væri í rauninni fallinn grundvöllur undan samkomulagi varðandi byggingarmál, sem gert var á s.l. vori, að ég get með engu móti fallizt á þá kenningu, enda var aldrei gefin nein yfirlýsing og ekki heldur hægt af hálfu ríkisstj. að gefa neina yfirlýsingu eða skuldbindingu um það, að hún ábyrgðist það, að verðlags- eða kaupgjaldsvísitala hækkaði ekki. Það, sem verkalýðurinn tryggði sig fyrir í því efni, var í kjarasamningunum 1964, þegar krafa var gerð um það, sem var fallizt á, að vísitölukerfið yrði aftur sett í samband, þannig að lækkun á niðurgreiðslum eða hækkun verðlags, af hvaða ástæðum sem það var, kæmi fram í kaupgjaldsvísitölu.

Ég held ekki, herra forseti, að ég þurfi að lengja þessar umr. meira að sinni. En ég geri ráð fyrir því, eins og kom fram hjá hv. 5. þm. Austf., að hann telji, að þetta, sem ég hef hér sagt, og það, sem frv. felur í sér og kom greinilega fram í hans ræðu, sé ekki í samræmi við þá yfirlýsingu, sem ég gaf við afgreiðslu fjárl. Ég álit hins vegar, að það sé í fullu samræmi við það og öllum hafi verið vitanlegt, að það yrði að gera ráðstafanir til þess að afla tekna og þær ráðstafanir, sem hér eru gerðar, séu ekki venjulegar skattaálögur, svo sem við vorum að ræða um einmitt í sambandi við afgreiðslu fjárlaga.