28.03.1966
Neðri deild: 60. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 693 í B-deild Alþingistíðinda. (499)

136. mál, ráðstafanir vegna sjávarútvegsins

Jón Skaftason:

Herra forseti. Við fulltrúar Framsfl. í sjútvn. hv. d. skrifum undir nál. meiri hl. sjútvn. með fyrirvara um það að flytja sjálfir brtt, eða fylgja öðrum brtt.. er fram kunna að koma við meðferð málsins í deildinni.

Við þykjumst þess fullvissir, að sá stuðningur við ýmsar greinar sjávarútvegsins, sem frv. ráðgerir, sé nauðsynlegur, vegna þess að það mun staðreynd, að sú óðaverðbólga, sem hér hefur þróazt undanfarandi ár, hefur gert það að verkum, að framleiðslukostnaður margra greina þessa undirstöðuatvinnuvegar er nú orðinn svo mikill, að reksturinn gengur ekki án einhverrar aðstoðar. Með samþykki okkar við álit meiri hl. sjútvn. erum við þó ekki að lýsa yfir fylgi okkar við þá fyrirætlun hæstv. ríkisstj. að hætta eða draga mjög úr niðurgreiðslum á vöruverði til þess að afla fjár til að standa undir þeirri aðstoð, sem frv. ráðgerir til sjávarútvegsins.

Við hv. 3. þm. Norðurl. e. (GíslG) höfum leyft okkur að flytja eina brtt. á þskj. 382, sem hljóðar svo. með leyfi hæstv. forseta:

„Við 2. gr. Aftan við gr. bætist svo hljóðandi málsgrein :

Enn fremur er ríkissjóði heimilt að verja á árinu 1966 10 millj. kr. til greiðslu vinnsluuppbóta á þeim stöðum, sem fiskvinnsla ber sig ekki vegna erfiðrar aðstöðu, svo sem af því að hráefni skortir eða afli er sérstaklega dýr í vinnslu. enda sé vinnslan talin nauðsynleg vegna útgerðar á hlutaðeigandi stöðum. Ráðuneytið setur reglur um greiðslu uppbótanna að fengnum tillögum Fiskifélags Íslands og Landssambands ísl. útvegsmanna.“

Till. skýrir sig sjálf, og ég sé ekki ástæðu til þess að fara um hana hér frekari orðum. Við flm. hennar höfum þó ákveðið með hliðsjón af því, að önnur brtt. við þetta frv., sem fram hefur komið hefur verið tekin aftur til 3. umr. til þess að ræða hana í sjútvn., að draga okkar till. nú til baka og geyma hana til 3. umr.

Út af brtt. þeirri, sem frammi liggur á þskj. 385, vil ég aðeins segja það, að ég get í öllum meginatriðum samþykkt hana. En þar sem hún verður væntanlega rædd í hv. sjútvn., sé ég ekki ástæðu á þessu stigi málsins til að gera hana að sérstöku umtalsefni.