02.12.1965
Sameinað þing: 15. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 139 í B-deild Alþingistíðinda. (50)

1. mál, fjárlög 1966

Ingvar Gíslason:

Herra forseti. Eins og sýnt hefur verið fram á í nál. fulltrúa minnihlutaflokkanna í fjvn. og ræðum frsm. þeirra, er nú svo komið, að verðbólgustefnan hefur riðið fjárhag ríkissjóðs á slig. Hefur skipt svo rækilega um í fjármálum þjóðarinnar, að ríkisbúskapurinn er rekinn með beinum halla. Halli ríkissjóðs 1964 reyndist 220 millj. kr. þrátt fyrir 313 millj. kr. umframtekjur það ár, og nú er látið í það skína, að halli muni verða á ríkisbúskapnum á því ári, sem er að líða. Árið 1962 var greiðsluafgangur ríkissjóðs um 162 millj. og 1963 um 139 millj. Umskiptin eru því ærið snögg og gegna satt að segja nokkurri furðu við fyrstu sýn. En við nánari athugun verður ljóst, sem allir ættu raunar að vita, að hversu gróðavænleg sem verðbólgan kann að vera einstökum skuldakóngum, er hún banabiti ríkissjóðs og allrar eðlilegrar fjármálaþróunar. Allar vangaveltur um eitthvert ágæti verðbólgunnar eru því bæði ábyrgðarlausar og heimskulegar og í hvívetna ósæmilegar. En slíkar vangaveltur eru ekki með öllu óalgengar, jafnvel hér í þingsölum. Vil ég þó í því sambandi undanskilja hæstv. fjmrh., sem tók það mjög skýrt fram í sinni ræðu hér, að verðbólgan væri aðalógnvaldur ríkissjóðs.

Það efnahagsvandamál, sem yfirskyggir öll önnur í íslenzku þjóðlífi í dag, er verðbólgan og dýrtíðin. Eins og henni er nú komið, færir hún ekkert nema bölvun yfir þjóðina. Það er deilt um orsakir verðbólgunnar og einnig, hversu ör hún sé. Um vöxt verðbólgunnar vil ég segja það eitt, að hún er nógu ör til þess að valda hverjum hugsandi manni áhyggjum og ætti því ekki að vera neitt deiluefni.

Orsakir verðbólgunnar eru vafalaust margar. Í fyrsta lagi hefur gætt hér verðbólguþróunar meira eða minna í 25 ár, en hún hefur sjaldan eða aldrei verið jafnágeng og langvarandi ör eins og nú hin allra síðustu ár. Orsakanna til þessa er fyrst og fremst að leita í efnahagsaðgerðum og fjármálastjórn þeirrar ríkisstj., sem farið hefur með völdin undanfarin tvö kjörtímabil. Ber þar hæst algert stjórnleysi á fjárfestingarmálum og hin óheillavænlegu áhrif, sem það hefur haft á verðlagsþróun og peningagildi. Kaupgjaldshækkanir og hækkun innlendrar búvöru eru afleiðing verðbólgunnar og þeirrar stefnu, sem ríkt hefur í efnahags- og fjármálum en ekki orsök. Að sjálfsögðu dettur engum annað í hug, þegar slíkar kollsteypur eiga sér stað í framleiðslu- og framfærslukostnaði eins og orðið hafa, en það leiði til hækkunar á kaupgjaldi og búvöruverði. Slíkt kemur af sjálfu sér. Launamaðurinn getur ekki framfleytt fjölskyldu sinni sómasamlega í vaxandi dýrtíð án þess að fá kauphækkun, og bóndinn getur ekki staðið undir búrekstri sínum og framfleytt fjölskyldu sinni, þegar allar rekstrarvörur fara stórhækkandi og lánskjör hans eru rýrð, nema þá til komi hærra verð á framleiðsluvörum hans. Hitt er svo annað mál, að kapphlaup milli kaupgjalds og verðlags veldur efnahagserfiðleikum, sem nauðsynlegt er að gefa náinn gaum að, en úr þeim verður ekki bætt nema með því að eyða frumorsökinni, hinni röngu efnahagsstefnu, fyrst og fremst stjórnleysinu í fjárfestingarmálum svo og rangri lánapólitík, bæði að því er snertir atvinnúvegi og húsnæðismál. Stjórnleysið í fjárfestingunni hefur leitt til ofurvalds kaupsýslubraskaranna yfir því vinnuafli, sem hægt er að binda með sómasamlegum hætti í byggingarstarfsemi og svo vitlaus lánapólitík, þ.e.a.s. allt of stutt stofnlán og okurvextir. Þetta hefur gert framleiðslukostnað allt of háan og húsbyggingakostnaðinn óviðráðanlegan nema í verðbólgu. Þessi þróun hefur m. a. fætt af sér tildurslegri byggingarhætti og slappari viðskiptamóral en þekkist nokkurs staðar á byggðu bóli, þar sem ég þekki til. Þó að ríkisstj. hafi nú nýlega tekið að dæla auknu fé inn í veðlánakerfið, m. a. til þess að kaupa sér stundarfrið við verkalýðssamtökin, er öll skipan lánamála og byggingarhátta í sama foraðinu eftir sem áður. Hlutfallið milli byggingarkostnaðar og lánsmöguleika er lítið betra en verið hefur. Lítið sem ekkert er gert til að lækka byggingarkostnað, a. m. k. er enginn sýnilegur árangur af þeirri viðleitni, ef hún er einhver, og alls ekkert gert til þess að tryggja, að menn geti risið undir húsnæði sínu af launatekjum einum saman. Hér hefur því engin breyting á orðið. Að vísu er búið að setja vísitöluákvæði á veðdeildarlánin, og það er að nokkru leyti ný ráðstöfun á lánamálum húsbyggjenda, en gersamlega gagnslaus verðbólguráðstöfun ein út af fyrir sig. Ef ekki er hægt að tryggja sæmilega stöðugt verðlag og peningagildi og koma á og viðhalda viðunandi hlutfalli milli kaupgjalds og húsnæðiskostnaðar, munu núverandi aðgerðir í lánamálum ekki duga til neinnar frambúðar. Miðað við það, sem haft er fyrir satt, að kauphækkanir leiði til verðbólguþróunar eða a. m. k. haldi henni við, er fátt áhrifaríkara til stöðvunar verðbólgunni heldur en heilbrigð stefna í lánamálum húsbyggjenda, því að fátt eða ekkert knýr eins á um kauphækkanir og hinn hái húsnæðiskostnaður almennings.

Verðbólguþróunin setur mark sitt á það fjárlagafrv., sem hér er til umr. Hæstv. ríkisstj., sem að frv. stendur, er að sjálfsögðu vel vitandi um það, hversu grátt ríkissjóður er leikinn af völdum verðbólgunnar. Hins vegar ber fjárlagaafgreiðslan þess engin merki, að ríkisstj. geri sér fulla grein fyrir nauðsyn þess að stöðva verðbólguna og koma í veg fyrir, að hún svelgi í sig ríkissjóðstekjurnar, sem fara hækkandi ár frá ári, enda einstakt árferði, síaukin framleiðsla, örugg afurðasala og gott verð á útflutningsvörum. Mitt í öllu góðærinu er ríkissjóður rekinn með halla, og atvinnuvegirnir berjast í bökkum, nema hvað kaupsýslubraskararnir raka til sín of fjár. Hæstv. ríkisstj. gerir ekkert til þess að stöðva verðbólguna og tryggja gjaldmiðil þjóðarinnar. Hún horfir á það aðgerðalaus, að allt fjárhagskerfi ríkisins er nú að molna niður fyrir augunum á henni. Aðferð hæstv. ríkisstj. í sambandi við fjárlagaafgreiðsluna er aðeins sú að leggja á aukna skatta og skera niður fjárveitingar til nauðsynlegra almannaframkvæmda. Aðferð hæstv. ríkisstj. í stjórn fjárfestingarmála er sú og hefur lengi verið sú að láta einkaauðmagnið leika lausum hala með yfirboðum og fjáraustri, en sjálf stendur hún vanmáttug gagnvart því, sem ríkinu ber að framkvæma. Það er látið sitja á hakanum, þangað til svo er komið, að ekkert er hægt að gera vegna óðaverðbólgu og dýrtíðar. Þannig stendur dæmið nú við þessa fjárlagaafgreiðslu, að beinn rekstur ríkissjóðs tekur sífellt meira til sín, en þeim mun minna verður til þess að standa undir nauðsynlegum opinberum framkvæmdum. Ríkisstofnanir, sem löngum hafa staðið vel undir rekstri sínum og eðlilegri þróun, standa nú höllum fæti, þ. á m. póstur og sími og ríkisútvarpið.

Þróun skólamála er sannast að segja uggvænleg. Allir vita, að nauðsynlegt er að auka skólakerfið stórlega með nýjum skólabyggingum og nýskipan kennsluhátta, en þær einu fréttir, sem við höfum haft af vettvangi skólamálanna, eru þær, að lítil eða engin hækkun verði á framlögum til skólabygginga á næsta ári, og ríkisstj. gerir allt, sem í hennar valdi stendur, til þess að koma í veg fyrir, að hafizt sé handa um nýjar skólaframkvæmdir. Ringulreið efnahagskerfisins er þarna fremur um að saka heldur en vísvitandi afturhaldssemi hæstv. ráðh. Í hafnamálum er ástandið ekki betra. Samkv. óskalista vitamálastjóra, sem hann birti á fundi í fjvn. fyrir skömmu, er mjög aðkallandi talið að vinna að hafnarframkvæmdum fyrir 220 millj. kr. á næsta ári. Upp í þetta er fjárlagafé til hafna áætlað um 25 millj. kr. Framlög til raforkuframkvæmda í sveitum eru skorin niður eins og annað og alger óvissa ríkjandi í þeim málum. Í öllum greinum samgöngumála horfir til stórra vandræða. Lögboðið ríkissjóðsframlag til vegamála er algerlega skorið niður, en benzínskattur hækkaður til að vega þar upp á móti. Flugmálin eru rekin eins og bónbjargastofnun, og nauðsynlegum flugvallarframkvæmdum til eflingar innanlandsflugi er alls ekki sinnt. Till. flugmálastjóra um bætta öryggisþjónustu er kastað í bréfakörfuna eins og hverju öðru fánýti. Um fjárveitingar til listastarfsemi og mennta- og menningarmála utan við skólamálin er hið sama að segja og oft áður, að þar er hver hungurlús, sem um er beðið, talin jafngilda því, að ríkissjóður fari á hausinn. Að mínum dómi er það langt fyrir neðan virðingu Alþ. að vera með sýtingshátt gagnvart slíkum fjárbeiðnum mörgum hverjum, sem oft berast Alþ. eða fjvn. og gera hvorki til né frá um afkomu ríkissjóðs., en kann að muna vissa einstaklinga eða félög nokkru.

Í þinglokin s.l. vor voru samþ. ný lög um rannsóknir í þágu atvinnuveganna. Með lögum þessum er gert ráð fyrir algerri nýskipan rannsóknamála í landinu, fyrst og fremst hinna hagnýtu rannsókna í þágu atvinnuveganna. Lögin mynda nýja umgerð um verksvið rannsóknanna og eiga að tryggja samvirka forustu og samræmda stefnu í rannsóknamálum. Að því leyti eru lögin mikil framför frá því, sem áður var, því að eldri skipan þessara mála var orðin úrelt og tryggði ekki með viðunandi hætti nauðsynlegt heildarsamræmi í rannsóknum né þann trausta grundvöll, sem í hvívetna er nauðsynlegur undir slík mál í tækniþjóðfélagi nútímans. Hvað efni og ytri búnað snertir eru hin nýju lög um rannsóknir í þágu atvinnuveganna því líkleg til að marka tímamót í atvinnusögu þjóðarinnar. En til þess að svo megi verða, er þó ekki nóg, að lögin séu snoturlega úr garði gerð. Hér mun fara sem oft áður, að þessi lög verða pappírsgagn eitt, ef Alþ. og ríkisstj. láta undir höfuð leggjast að búa hinu nýja rannsóknakerfi viðunandi fjárhagsgrundvöll. Hefði mátt ætla, eftir að lög um rannsóknir í þágu atvinnuveganna voru samþ., að nýtt, myndarlegt átak yrði gert til þess að treysta fjárhagsgrundvöll rannsóknastofnananna og efla þær að nauðsynlegum búnaði og mannsliði. Því miður skortir mjög á, að hæstv. ríkisstj. hafi gert nokkurt átak í þessa átt. Ekki verður séð, að hæstv. ríkisstj. hafi gert neitt sérstakt til þess að efla fjárhagsaðstöðu rannsóknastofnananna, jafnframt því sem hin nýju lög eru samþ., og því situr allt í sama fari og áður. Umskiptin í rannsóknamálum þjóðarinnar eru því enn langt undan, og ekkert bólar á raunverulegum breytingum til bóta, sem vænzt var, þegar l. voru samþ. Fjárlagaafgreiðslan að þessu sinni er skýrastur vottur um þetta. Lítið sem ekkert tillit hefur verið tekið til rökstuddra erinda forstöðumanna rannsóknastofnana um fjárframlög, enda er það sameiginlegt einkenni allra stofnananna, að þær þola fjárhagslega nauð og skort á mannsliði og rannsóknaaðstöðu.

Til þess að bæta úr brýnustu verkefnum hinna nýju rannsóknastofnana þarf umfram allt að veita nýju fjármagni til þeirra. Menn skyldu halda, að hér væri um einhverjar ofsafúlgur að ræða. Svo getur þó ekki talizt. Mér telst svo til, að heildarupphæð þess viðbótarfjármagns, sem rannsóknastofnanirnar telja sig nauðsynlega þurfa á að halda, sé nálægt 7.8 millj. kr. Þær rannsóknastofnanir, sem hér um ræðir, eru hafrannsóknastofnunin, rannsóknastofnun fiskiðnaðarins, rannsóknastofnun landbúnaðarins, rannsóknastofnun iðnaðarins og rannsóknastofnun byggingaiðnaðarins auk sjálfs rannsóknaráðs ríkisins.

Hafrannsóknastofnunin, sem áður hét fiskideild atvinnudeildar Háskóla Íslands, gegnir mjög fjölþættu hlutverki í sambandi við haf- og fiskirannsóknir, bæði að því er tekur til hagnýtra rannsókna og fiskileitar og undirstöðuvísindarannsókna. Allir virðast gera sér ljóst í orði, að víðtækar hafrannsóknir séu okkur Íslendingum grundvallarnauðsyn vegna hins mikla hlutverks sjávarútvegsins í atvinnulífi þjóðarinnar. Fer þó víðs fjarri, að hafrannsóknastofnuninni séu búin viðunandi kjör. M. a. háir starfsmannaskortur mjög allri starfsemi stofnunarinnar. Hrúgast upp mikilvæg vísindaleg gögn, sem ekki er hægt að vinna úr vegna skorts á aðstoðarmönnum. 11 sérfræðingar starfa við stofnunina og auk þess 14 aðstoðarmenn. Þó eru a. m. k. tveir sérfræðinganna, sem enga aðstoðarmenn hafa í sinni þjónustu. Eðlilegt er talið, að hver sérfræðingur hafi sér til aðstoðar tvo starfsmenn. Á meðan ástandið er eins og hér hefur verið lýst, er þess ekki að vænta, að hafrannsóknastofnunin starfi með eðlilegum afköstum. Starfskraftar sérfræðinganna nýtast ekki, meðan þannig er að þeim búið.

Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins, sem áður nefndist Rannsóknastofa Fiskifélags Íslands, skilar ekki hálfu starfi á við það, sem nauðsyn krefur og áhugi forráðamanna hennar beinist að, vegna fjármagnsskorts og manneklu. Rannsóknaaðstaða er þó á ýmsan hátt góð þar, en þar er þörf fleiri sérfræðinga og aðstoðarfólks. Forráðamenn stofnunarinnar telja nauðsynlegt m.a. að hefja víðtæka rannsókna- og tilraunastarfsemi á sviði freðfisksframleiðslu, svo og á sviði véla- og verksmiðjutækni, t.d. rannsóknir í sambandi við vélvæðingu síldarsöltunar, en þar er mikilla umbóta þörf. Þarf stofnunin því á stórauknu starfsfé að halda.

Rannsóknastofnun landbúnaðarins er undir sömu sökina seld og sagt hefur verið um hinar tvær, að fjármagnsskortur og fólksleysi háir starfsemi hennar og eðlilegri vaxtarþróun. Þannig hefur árum saman verið þörf fyrir tvo viðbótarsérfræðinga og a. m. k. tvo aðstoðarmenn, sem ekki hefur verið hægt að ráða, þó að hæfir menn væru í boði. Tveir ungir sérfræðingar í landbúnaðarvísindum hafa menntað sig í þeim tilgangi að takast þessi störf á hendur, en þeir verða báðir að leita sér atvinnu erlendis, þar sem þeim er ekki gert kleift að vinna í sérgrein sinni hér á landi. Er þetta eitt dæmið af mörgum um þá sóun á mannsliði og sérfræðiþekkingu, sem einkennandi er á Íslandi nú.

Rannsóknastofnun iðnaðarins hefur fjölþættu hlutverki að gegna í sambandi við hagnýtar jarðfræði- og iðnaðarrannsóknir, og eru fyrirliggjandi verkefni á þeim sviðum nær óþrjótandi og mikill áhugi forráðamanna stofnunarinnar á því að sinna þessum verkefnum af alúð og dugnaði. M.a. bíða mikil verkefni í sambandi við matvælarannsóknir og rannsóknir á nýjum geymsluaðferðum, þ. á m. svonefndri frostþurrkun, sem haft getur ómetanlega þýðingu varðandi geymslu og flutning matvæla. Einnig eru fyrirhugaðar nýjar rannsóknir og tilraunir í sambandi við leit að heitu vatni, þ.e.a.s. snefilefnarannsóknir, en þær mundu m. a. geta sparað borun, eins og nú er algengast að nota í þessu sambandi og er ærið kostnaðarsöm aðferð.

Rannsóknastofnun byggingaiðnaðarins er skorinn allt of þröngur stakkur við núverandi aðstæður, því að útilokað er, að hún geti sinnt æskilegum verkefnum. M.a. hefur ekki verið tekið undir fjárbeiðni stofnunarinnar um sérstakar fjárveitingar vegna rannsókna á vegagerðarefni og á byggingarefni né heldur rannsókna á íbúðarhúsabyggingum. Um brýna nauðsyn þess, að þessum verkefnum sé sinnt, þarf enginn að efast. Íbúðarhúsabyggingar eru einn fyrirferðarmesti liðurinn í heildarfjárfestingu þjóðarinnar og á allra vitorði, að mörgu er ábótavant á því sviði, þannig að allt, sem verða mætti til sparnaðar og hagræðingar í íbúðabyggingum, er þjóðhagslega séð mjög hagkvæmt. Sama er að segja um rannsóknir á vegagerðarefni. Vegagerð er einnig einn mikilvægasti og fjárfrekasti framkvæmdaþáttur þjóðarbúsins, en hins vegar alkunna, að vegagerð er ærið ófullkomin hér á landi, sem m. a. stafar af slæmu vegagerðarefni. Þess vegna er brýn þörf á auknum rannsóknum á þessu sviði.

Sjálft rannsóknaráð ríkisins býr við fjármagnssvelti og manneklu, þannig að ólíklegt er, að það geti sinnt aðkallandi verkefnum. Samkv. hinum nýju l. um rannsóknir í þágu atvinnuveganna hafa verkefni rannsóknaráðs verið aukin verulega, og ástæða var til að ætla, að ríkisvaldið mundi leggja til, að fjárveitingar til ráðsins yrðu auknar frá því, sem verið hefur.

En svo er þó ekki. Rannsóknaráð býr við óhæga starfsaðstöðu og jafnvel svo langt gengið, að fjárveiting til sérstakra rannsókna samkv. ákvörðun ráðh. og að fengnum till. rannsóknaráðs er nú algerlega felld niður. Rannsóknaráð taldi eðlilegt, að veittar yrðu 300 þús. kr. þessu skyni, en undir það hefur ekki verið tekið nú. Einnig er allt of litlu fé varið til upplýsingaþjónustu rannsóknaráðs, sem er einn nauðsynlegasti þátturinn í starfsemi þess og miðar m. a. að því að miðla hagnýtum upplýsingum um tækni og vísindi til atvinnufyrirtækja hér á landi. Hefur m.a. verið á það bent af hálfu erlendra sérfræðinga, sem kynnt hafa sér rannsóknamál hér á landi, að þennan þátt mætti sízt vanrækja.

Ég hef sérstaklega viljað benda á það misræmi sem er milli orða og gerða í öllu því, sem viðkemur sérstökum og almennum rannsóknum hér á landi. Þrátt fyrir nýja og víðtæka löggjöf um rannsóknamálefni er lítið sem ekkert gert til þess að fylgja henni fram með auknum og eðlilegum fjárveitingum. Stöndum við Íslendingar þó mjög höllum fæti í rannsóknamálum og verjum allt of litlu fé miðað við þjóðarframleiðslu til þeirra mála. Stöndumst við þar engan samjöfnuð á við aðrar þjóðir á svipuðu menningarstigi.

Málefni háskólans eru einnig vanrækt, svo að vansi er að. Vísindastarfsemi háskólans verður að efla stórlega, ef hann á ekki að kikna undir nafni. Er þá bæði átt við raunvísindi og hugvísindi. Meðal aðkallandi verkefna er efling rannsóknastofu í lífefnafræði, og raunvísindastofnun háskólans starfar aðeins í einni deild, þó að fjórar deildir séu fyrirhugaðar. Og það er fjármagnsskortur, sem fyrst og fremst stendur raunvísindadeildinni fyrir þrifum. Þróun hugvísinda er einnig allt of hægfara, þannig að heilum vísindagreinum er í engu sinnt frekar en þær séu ekki til. Mun t.d. leitun á þeim háskóla, sem sinnir ekki alhliða þjóðfélagsvísindum og samtímasögu á þeim sviðum er Háskóli Íslands alger eyðimörk. Einnig fer því fjarri, að viðunandi aðbúnaður sé að stúdentum við háskólann. Stúdentar eiga m. a. ekkert viðhlítandi félagslegt athvarf, og fjárhagsstuðningur við félagsheimili þeirra er svo við nögl skorinn, að „borin von er, að hægt sé að hefja framkvæmdir við það,“ eins og háskólarektor orðaði það á fundi með fjvn.

Síðast, en ekki sízt, vil ég leyfa mér að vekja athygli á ástandi háskólabókasafnsins, en samkv. álitsgerð háskólaráðs er það einn „veikasti hlekkurinn“ í starfsemi háskólans. Kveður mjög rammt að þessu, enda útilokað með öllu að ljúka hér vísindaritgerðum vegna skorts á bókum og slæmrar aðstöðu á háskólabókasafni. Hér er allt á sömu bókina lært. Fjármagnsskortur og mannekla hamla eðlilegum framförum. Og ekki aðeins það, heldur veldur þetta beinni afturför, jafnframt því sem það kippir fótum undan eðlilegum vexti og viðgangi vísindalegrar starfsemi í landinu.

Það er gott dæmi um skilning ríkisvaldsins á nauðsyn rannsókna- og vísindastarfsemi að hér eru í lögum háir tollar á vísindatækjum, þó að flestar siðaðar þjóðir hafi komið sér saman um að hafa slík tæki undanþegin tollum. Mun það ekki dæmalaust, að íslenzkar vísindastofnanir hafi átt fullt í fangi með að taka við vísindatækjum að gjöf, vegna þess að þær höfðu ekki fjárhagslegt bolmagn til þess að greiða toll af gjöfinni.

Ég hef bent á nokkur atriði til þess að sýna fram á, hversu langt ríkissjóður er frá því að sinna nauðsynlegasta fjárhagsstuðningi við opinberar framkvæmdir og stuðningi við vísinda- og rannsóknamál, eins og fjármálaþróunin er nú. Ástandið er þannig í fjármálum ríkissjóðs, að þrátt fyrir sívaxandi þjóðarframleiðslu og síhækkandi verðlag á útflutningsafurðum og aukna skatta gleypir verðbólgan alla aukninguna, rekstrarliðirnir bólgna út, en framkvæmdafé og uppbyggingarfé fer sífellt minnkandi, bæði beint og óbeint. Verðbólguþróunin er svo hraðfleyg, að yfir 100 millj. kr. greiðsluafgangur í fyrra er orðinn að mörg hundruð millj. kr. greiðsluhalla í ár þrátt fyrir vaxandi tekjur. Þessi þróun leiðir til þess, að smám saman grefst undan fjárhagskerfi ríkisins. Ríkissjóður verður ófær um að standa við lögbundnar skyldur sínar um framlög til margs konar uppbyggingarstarfsemi. Skólalöggjöfin, samgöngumálin, rannsókna- og vísindastarfsemi, háskólinn o. s. frv., allt þetta er meira og minna í molum og heldur áfram að vera það, meðan efnahags- og fjármálaþróunin er eins og raun ber vitni. En um hitt þarf varla að ræða, til hvers langvarandi vanræksla á sviði samgöngumála, mennta- og menningarmála og vísinda- og rannsóknastarfa leiðir. Hún leiðir einfaldlega til afturfarar. Hún er ekki aðeins vandamál þess tíma, sem við lifum á. Hún er vandamál. sem gæta mun langt inn í framtíðina. Undirrót þessa ástands er verðbólgustefna hæstv. ríkisstj. og fádæma skammsýn stjórnarforusta.

Ég tel að mikil nauðsyn sé á stefnubreytingu í íslenzkum stjórnmálum. Breytingin þarf fyrst og fremst að miða að því að efla samstöðu milli flokka og stétta um raunhæfar og varanlegar úrbætur í efnahags- og fjármálum. Ég hygg, að grundvöll mætti finna undir samstarf raunsærra manna úr öllum stjórnmálaflokkum, sem af einlægni og án hleypidóma vilja takast á við vanda verðbólgunnar og þau stóru framtíðarverkefni í atvinnu- og menningarmálum, sem bíða úrlausnar, en nú er skotið á frest. Vandamál efnahagslífsins eru ekki óleysanleg. En ég efast um, að þau verði leyst án viðtækrar samstöðu stétta og stjórnmálaflokka.