28.03.1966
Neðri deild: 60. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 693 í B-deild Alþingistíðinda. (500)

136. mál, ráðstafanir vegna sjávarútvegsins

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Formaður sjútvn., frsm. meiri hl., gat þess, að till. sú, sem

hér er flutt af honum og hv. 11. landsk. þm., hafi ekki verið rædd í sjútvn., þegar málið var þar afgreitt.

Till. er það seint fram komin, að ég treysti mér ekki til að láta í ljós, hvort ég muni geta fylgt henni, eins og hún liggur fyrir, því að á þessu máli eru óneitanlega fleiri hliðar. Ég tel, að það komi mjög til athugunar, hvort ekki sé eðlilegt, ef hægt er að greiða aukauppbót á línu og handfærafisk, að sú uppbót nái yfir allt árið, ekki tiltekinn tíma árs, heldur yfir allt árið. Þetta fer náttúrlega eftir því, um hvað mikið fjármagn er að ræða og hvort það verður þá raunverulega nokkur stuðningur við þessa grein útvegsins, ef ekki er meira fjármagn en svo fyrir hendi, að það komi ekki að neinu verulegu gagni. Hitt mundi ég vilja segja, að ef hægt væri að ákveða fyrir fram uppbætur á fisk, veiddan við skulum segja frá 1. okt. og til áramóta. mundi það að mínu áliti koma mjög vel til greina. Það byggist á því, að þetta er einmitt sá tími árs, sem fiskiðjuverin hafa minnst hráefni og gætu þar af leiðandi bæði bætt sinn rekstur og þeir, sem í húsunum vinna, mundu fá við það aukna atvinnu, auk þess sem bátar víðar um land en nú er gætu séð sér hag í því að hefja haustútgerð. Ég veit til þess, að haustútgerð hefur af atvinnulegum ástæðum sums staðar verið styrkt af opinberu fé, þó að ekki væri þar um ríkissjóð að ræða, og gafst á þeim tíma sæmilega og varð til þess, að mun fleiri bátar fóru á haustvertíð en áður hafði til þekkzt.

En þar sem till. hefur verið tekin aftur til 3. umr. og málið mun sennilega verða rætt í sjútvn., sé ég ekki ástæðu til að lengja umr. hér meira, en eins og ég tók fram í upphafi, er afstaða mín til þess ekki mörkuð enn.