31.03.1966
Neðri deild: 62. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 698 í B-deild Alþingistíðinda. (510)

136. mál, ráðstafanir vegna sjávarútvegsins

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Út af þeim umr., sem farið hafa fram, vil ég taka fram, að ég er samþykkur brtt. þeirri, sem flutt er á vegum sjútvn. á þskj. 400, og þar með brtt. á þskj. 385, ef hún verður með þeirri breytingu, sem till. á þskj. 400 mundi hafa í för með sér, ef samþ. yrði, enda var ég einn af þeim sjútvn.- mönnum, sem á fundi tóku þessa afstöðu.

Í sambandi við þetta mál að öðru leyti vil ég minna á það, að ég flutti ásamt hv. 4. þm. Reykn. við 2. umr. brtt. við þetta frv. á þskj. 382. Þessa brtt. tókum við aftur til 3. umr. í því skyni, að sjútvn. gæti fjallað um hana. Um till. var fjallað í n., en það varð ekki samkomulag á fundinum um að mæla með till., en hins vegar var ekki heldur tekin afstaða gegn henni á þessum sjútvn: fundi. Ég vænti því, að það reynist svo við atkvgr., að meiri hl. sjútvn: manna og þá einnig meiri hl. hv. dm. geti á það fallizt að samþykkja þessa brtt. En brtt. er þess efnis, að heimilt verði á árinu 1966 að verja allt að 10 millj. kr. til vinnsluuppbóta á þeim stöðum, þar sem fiskvinnsla ber sig ekki vegna erfiðrar aðstöðu, svo sem af því að hráefni skortir eða afli er sérstaklega dýr í vinnslu, enda sé vinnslan talin nauðsynleg vegna útgerðar á hlutaðeigandi stöðum. Það er gert ráð fyrir, að rn. setji reglur um greiðslu þessara uppbóta, ef heimildin verður notuð, og að þær reglur verði settar að fengnum till. Fiskifélags Íslands og Landssambands ísl. útvegsmanna. Eins og ég hef sagt, felst í þessari brtt. aðeins heimild til hæstv. ríkisstj. til að greiða þessa upphæð.

Við umr. um þetta mál fyrr á þinginu minnist ég þess, að sitt af hverju hefur verið rætt um fjárhag vinnslustöðva og þá sérstaklega hraðfrystihúsa og af sumum látin orð falla um það, að ýmis hraðfrystihús mundu vera vel fær um það að greiða nokkra hækkun á fiskverði, a.m.k. þá hækkun, sem orðið hefur. En hitt hygg ég, að engum geti blandazt hugur um, sem kynnir sér þetta mál samvizkusamlega, að frystihúsin og vinnslustöðvarnar eru nokkuð misjafnlega stödd í þessu máli og að verulegur hluti af frystihúsunum, sérstaklega í einstökum landshlutum, á mjög örðugt og hefur erfið rekstrarskilyrði. Ég hef alveg sérstaklega í huga í þessu sambandi frystihúsin á Norðurlandi, þar sem ég er kunnugastur, og ég veit ekki betur en það sé almennt viðurkennt, bæði af hæstv. ríkisstj. og einnig af öðrum aðilum, sem um það hafa fjallað, og hafi sérstaklega komið fram í kjarasamningum á Norðurlandi s.l. vor, að sérstök nauðsyn væri til þess að bæta rekstraraðstöðu frystihúsa í þessum landshluta. En þó að ég nefni sérstaklega Norðurland, þar sem ég er kunnugastur, veit ég, að það er víðar, sem þessar vinnslustöðvar berjast í bökkum og eru reknar með halla, og hygg ég, að svipað muni eiga við t.d. um vinnslustöðvar á Austfjörðum sums staðar, a.m.k. norðanverðum Austfjörðum.

Ég vil aðeins segja það að lokum, að mér finnst, að þegar mál af þessu tagi er til meðferðar, geti þingið ekki látið eins og þetta sérstaka vandamál sé ekki til, — þetta sérstaka vandamál frystihúsanna og vinnslustöðvanna í vissum landshlutum, þeim sem eiga við sérstaka rekstrarörðugleika að stríða. Vænti ég þess því, að hv. þm. geti á það fallizt að veita þessa heimild, sem hæstv. ríkisstj. mundi þá væntanlega yfirvega síðar ásamt þeim aðilum, sem bezt fylgjast með þessum málum, hver ástæða væri til að nota.