02.12.1965
Sameinað þing: 15. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 158 í B-deild Alþingistíðinda. (52)

1. mál, fjárlög 1966

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Mér er það ljóst, að það hlýtur að vera vandasamt að koma hér í ræðustólinn eftir að hafa hlýtt á jafngagnmerkar ræður og þrír fjvn.-menn Framsfl. hafa flutt við þessar umr. í dag, og ekki minnkaði vandinn við það að koma hér á eftir jafngagnmerkri ræðu og síðasti ræðumaður var að flytja. Ég mun síðar koma að þessu.

Í ræðu frsm. fjvn., formanns fjvn., í dag tók hann það fram, að hann teldi, að það væri brýn nauðsyn á því, að endurskoðun hafnalaganna yrði framkvæmd og að það yrði hækkað hlutfall ríkissjóðs í framlögum til hinna minnstu hafna. Ég vil sérstaklega taka undir þessi orð formanns fjvn. og tel, að það verði að flytja frv. til l. um breyt. á hafnalögunum. Það er ekki þar með sagt, að það þurfi að hækka hlutfall til hinna stærri hafna, hlutdeild ríkissjóðs, heldur megi jafnvel láta hana standa í stað og í sumum tilfellum lækka. En á hinu er brýn nauðsyn, að auka hlutdeild ríkissjóðs til hinna minni staða, sem nú með stækkandi skipum verða að ráðast í sífellt dýrari og dýrari hafnarframkvæmdir.

Það liggur hér fyrir ein brtt. frá nm. Framsfl. í fjvn., og það mun þykja allmiklum tíðindum sæta, að sá tillöguglaði flokkur skuli nú í fyrsta skipti flytja eina brtt. við fjárl. Þessi brtt. er um það að taka 47 millj. inn í fjárl. til vegamála. Í sjálfu sér vil ég segja það, að ég harma, að ríkisstj. taldi sig knúða til að taka þessi framlög til vegamála út úr fjárlfrv. En eftir að hafa kynnt mér rækilega tekjur ríkissjóðs, sem við höfum gert, sérstaklega þó fjvn.-menn, þá beygi ég mig fyrir þeim rökum, að ég vil ekki standa að því að leggja á aukna skatta í sambandi við afgreiðslu fjárl. fram yfir það, sem fjárlfrv. gerir ráð fyrir. Það má einnig segja í þessu sambandi, að með hækkun tekna til vegamála sé ólíkt tryggari tekjustofn fundinn til þess að standa undir framkvæmdum í vegamálum.

Hv. síðasti ræðumaður gerði samgöngumálin nokkuð að umræðuefni og þá vegamálin. Hann taldi þar margt til foráttu, m. a, það að leggja skatt á hinn nýja veg, Reykjanesbrautina, sem kostar 265 millj. kr. Heildartekjur til vegamála á árinu 1963 nema skv. vegáætluninni 263.7 millj. kr. Þar af eru til viðhalds vega og framlags til gatnagerðar í kaupstöðum og kauptúnum milli 120 og 130 millj. kr. Það getur hver maður séð það, að ef við ætlum að byggja á þessum tekjustofni til vegamála og ætlum að halda áfram þeim framkvæmdum, sem þegar er byrjað á, að leggja vegi úr varanlegu efni, þá mun verða bið á þeim framkvæmdum, ef vegáætlun á að greiða þá dýru framkvæmd, sem hefur verið framkvæmd á Reykjanesbrautinni. Þess vegna hygg ég, hvað sem hv. stjórnarandstæðingar segja nú, að þeir séu í hjarta sínu gersamlega sammála ríkisstj. í því, að hjá því varð ekki komizt að leggja skatt á umferðina um Reykjanesbrautina til þess að flýta fyrir áframhaldandi framkvæmdum til annarra þeirra staða, sem vilja einnig fá vegi úr varanlegu efni.

Mér finnst í alla staði ótilhlýðilegt að ráðast hér á hæstv. samgmrh., eins og gert hefur verið, því að hann hefur sýnt það í sínu starfi, að hann hefur hvatt til framkvæmda í vegamálum og hann hefur sýnt mikinn áhuga á stórauknum framkvæmdum í vegamálum, eins og þjóðin almennt hefur orðið vör við.

Ég vil þá koma að nokkrum atriðum í brtt. þeim, sem fyrir liggja, og fyrst gera að umræðuefni örfáar brtt., sem hv. 10. landsk. þm. (GeirG) hefur lagt hér fram.

Hann leggur m. a. til, að ríkislögregla á Keflavíkurvelli lækki úr 6 821 557 kr. í 2 millj. En ég verð nú að segja það, að ég er anzi hræddur um, að þetta sé ofmat hv. þm. á afbragðshegðun dátanna þar suður frá, að leggja í það stórvirki að lækka kostnaðinn við ríkislögregluna um 4.8 millj. kr., því að í framsöguræðu sinni minntist hann hvergi á það, að hann ætlaðist til þess, að þeir færu í burtu. Hins vegar hefur hann svo mikla trú á góðri hegðun þeirra, að hann telur, að það sé eðlilegt og sjálfsagt, að slík lækkun eigi sér stað og að ríkislögreglan á Keflavíkurvelli verði minnkuð svo til muna.

Hv. þm. flytur allmargar till. í sambandi við að leggja niður ákveðin sendiráð, sérstaklega sendiráðin á Norðurlöndum, og ég vil segja það fyrir mitt leyti, að ég tel margt í þeim till., sem ætti að skoðast nánar og íhuga, hvort það væri ekki hægt að gera þarna skipulagsbreytingu á. Hins vegar tel ég, að framlög til utanríkisþjónustunnar megi sízt af öllu lækka, heldur verði að efla og auka utanríkisþjónustuna og þá sérstaklega á þann veg, að sendiráðin, sérstaklega í okkar markaðslöndum, eigi að hafa verzlunarfulltrúa, sem fylgist með markaðsöflun og með sölu á þeim afurðum, sem við erum að selja hverju sinni, og á þann hátt vil ég undirstrika það, að ég tel, að utanríkisþjónusta okkar Íslendinga sé alls ekki með þeim hætti, sem hún þarf að vera og við allir kjósum að hún sé.

Sami hv. þm, leggur til, að framlag til almannavarna lækki úr 2 788 000 kr. í 500 þús. kr. Ég vil benda þessum hv. þm, á það, að ég tel, að almannavarnir eigi ekki að vera framlög eingöngu til almannavarna í kaupstöðum og kauptúnum vegna einhvers stríðsótta, heldur fyrst og fremst eigi almannavarnir að vera almennar, það eigi að koma sem víðast upp úti um landið hjálparsveitum, sem eigi að aðstoða fámennt læknalið til þess, þegar slys ber að höndum, að koma til hjálpar, og þar þurfi á allmiklum framlögum að halda, og á þann hátt eigum við að efla þær einu, sönnu og réttu almannavarnir, sem okkur liggur mest á, og þá hygg ég, að slíkt framlag sem þetta væri aðeins dropi í hafið til þess að mæta þeim kostnaði.

Hv. 3. þm. Vesturl. (HS) átaldi mjög hér í dag breytingar, sem gerðar hefðu verið á skrifstofuhúsnæði í stjórnarráðinu og í ríkisstofnunum, og sagði að vísu nokkuð ísmeygilega, að betur væri þeim krónum komið fyrir til ýmissa skólabygginga úti um land, sem vantaði framlög frá ríkinu. Það er ákaflega þægilegt að halda slíkum málflutningi sem þessum fram. Vill ekki líka þessi hv. þm. segja, að það hafi verið um leið óþarfi að gera breytingar hér í alþingishúsinu, verið óþarfi að leigja hér stórt húsnæði úti í Þórshamri fyrir starfsemi Alþingis og að þessum peningum hefði verið betur fyrir komið í skólum eða höfnum úti um land? Á þessa strengi má alltaf slá. Ég hef ekki orðið var við það, að einn einasti alþm. hafi talið þessar breytingar vera óþarfa, heldur sjálfsagðar, vegna þess að það voru engin vinnuskilyrði orðin fyrir alþm. eða starfsfólk þingsins hér í þessu húsi, og þessar breytingar urðu að eiga sér stað. Sama býst ég við að sé um að ræða, þegar þm. talaði um það, að breytingar hafi verið gerðar á ýmsu skrifstofuhúsnæði þess opinbera.

Hv. 4. þm. Norðurl. e. (BJ) flytur hér till. um það, að fram verði lagðar 10 millj. kr. til ráðstafana gegn atvinnuleysi á Norðurlandi og í Strandasýslu. Ég fyrir mitt leyti tel, að þessi till. sé mjög mikils virði og þurfi athugunar við. Hins vegar sé ég ekki fram á það, að hægt sé að samþ. hana hér við afgreiðslu fjárl., vegna þess að stefnan er, að það eigi að afgreiða greiðsluhallalaus fjárl. En hins vegar vil ég benda á það, að sjóður eins og atvinnuleysistryggingasjóður, sem senn mun vera orðinn upp á 800 millj. kr., það er orðin full þörf á því að breyta lögum þess sjóðs á þann veg, að a. m. k. ákveðnum hundraðshluta af vöxtum sjóðsins yrði varið til styrktar atvinnulífi á þeim stöðum, þar sem styrktar þarf við.

Hv. 6. þm. Sunnl. (HB) gerði hér mjög að umræðuefni samgöngumálin og þó alveg sér í lagi í seinni hluta ræðu sinnar rekstur Skipaútgerðar ríkisins. Hann átaldi það harðlega, að 17 ára gömul skip væru enn þá höfð í strandferðum, hvað þá 22 ára gamalt skip, en síðan átaldi hann aftur harðlega, að skip, sem er nálega 23 ára, skuli hafa verið selt. Mér finnst lítið samræmi í þessum málflutningi þessa hv. þm. Hann kom með það, að það hefði verið mikill gróði á rekstri þessa gamla skips, sem er olíuskipið Þyrill, og hann fór mjög fljótt yfir sögu. En það er rétt að minna þennan hv. þm. á það og sömuleiðis 2. þm. Austf. (HÁ), sem ræddi einnig þetta mál hér í dag, að rekstur þessa skips hefur farið síversnandi á undanförnum árum. Rekstrargjöld þess hafa farið hækkandi ár frá ári, t. d. á árinu 1960 voru rekstrarútgjöldin 4.9 millj. kr., 1961 voru rekstrarútgjöldin rúml. 5.7 millj. kr., 1962 næstum því 5.7 millj. kr., 1963 6 millj. kr. og 1964, sem hann taldi að hinn mikli flokkunarkostnaður hefði átt sér stað, hækkuðu rekstrarútgjöldin í 7 millj. 956 þús. kr., og skipið kom þá út með 376 þús. kr. halla. Rekstrarafkoma þessa skips hefur farið sífellt versnandi á síðustu árum, og það hefur verið flutt inn mikið af slíkum skipum, og þörfin fyrir þetta skip hefur farið minnkandi. enda er skipið orðið það gamalt og hörð samkeppni til þeirra hluta, sem það var notað til, að það var engin ástæða til þess fyrir ríkissjóð að eiga þetta skip lengur. Hv. þm. sagði, að skipið hefði verið selt á 5 millj. kr., en verið metið fyrir hinn nýja eiganda á 25 millj. kr. En þessi hv. þm. gleymdi algerlega að geta þess í sambandi við þetta mál, að eftir að skipið var selt, fór það í klössun erlendis, stóra og mikla klössun, og hann gleymdi einnig að geta þess, að í matsverð skipsins síðar eru teknar síldardælur og allar vélar og allur sá kostnaður, sem hinir nýju eigendur þurftu að standa undir, til þess að skipið gæti gegnt því nýja hlutverki, sem það hefur gegnt. Ég vil einnig geta þess hér, að þetta skip var ekki selt þeim ákveðna manni, sem þessi hv. þm. nefndi, Einari Guðfinnssyni útgerðarmanni í Bolungarvík. Þetta skip var selt hlutafélagi, sem Einar Guðfinnsson á stóran hluta í, en einnig félagsskapur á Ísafirði, sem heitir Fiskimjöl h/f. Í því félagi eru menn úr öllum flokkum og er að verulegu leyti sameign útgerðarinnar á staðnum.

Ég hygg, að það hafi verið mjög fljótfærnislegt af þessum tveimur hv. þm, að gera þetta mál hér að umræðuefni eftir þeim rökum, sem liggja fyrir frá forstjóra Skipaútgerðar ríkisins, en þar er mörgu öðru við að bæta. Í sambandi við annað það, sem þessi hv. þm. nefndi um Skipaútgerðina, er það alveg rétt hjá honum, að skip Skipaútgerðarinnar eru orðin ófullnægjandi og það þarf sannarlega að gera þar gagngera breytingu, enda er nú unnið að nál. um rekstur Skipaútgerðarinnar, en þar er líka við að bæta, að rekstrargrundvöllur Skipaútgerðarinnar hefur gerbreytzt á síðustu árum. Farþegaflutningar með ströndum fram eru að leggjast niður til fjölmargra landshluta. Flugið er að leysa Skipaútgerðina af hólmi hvað það snertir, og vöruflutningarnir hafa enn fremur stórkostlega minnkað á síðustu árum, þannig að verksvið Skipaútgerðar ríkisins er allt annað en það var fyrir 20 árum, fyrir 10 árum og meira að segja fyrir 5 árum og fer minnkandi með hverju árinu sem líður vegna vaxandi samkeppni, bæði á landi og í lofti.

Ég ætla ekki frekar að gera þetta mál hér að umræðuefni, en snúa mér aftur lítillega að hv. 3. þm. Vesturl.

Hann talaði um það, að framlög til skólamála og hafnarframkvæmda, yfirleitt til verklegra framkvæmda, hafi mjög dregizt saman. Hann talaði mjög um dýrtíðina, hann talaði um, hve lítið væri lagt í þetta eða hitt, en hann sýndi þó í lok ræðu sinnar þá ofrausn að nefna það, að framlag til félagsmála f frv. hefði nú hækkað nokkuð, en það hækkar frá fjárl. yfirstandandi árs úr 758.2 millj. kr. í 873 millj. kr. samkv. frv., sem hér liggur fyrir. Þar af eru tæpar 100 millj. kr. framlag til almannatrygginga og allmikil hækkun til húsnæðismála. Þetta er ein af stærstu hækkunum í frv, frá árinu á undan ásamt hækkun á 19. gr., sem er 920 millj. kr. til óvissra útgjalda o. fl., en er í fjárl. yfirstandandi árs 809.3 millj. kr. Enn fremur hefur framlag til heilbrigðismála hækkað nokkuð frá frv. í fyrra, en það er nú í frv., eftir að till. fjvn. hafa verið lagðar fram til hækkunar á þeirri gr., komið í 145.4 millj. kr.

Hv. þm. var mjög hneykslaður á því, hve litlu væri varið til byggingar gagnfræða- og héraðsskóla í landinu. En á 14. gr. frv. er lagt til samkv. a-lið að verja til skólahúsa í smíðum 31.2 millj. kr. og til nýrra skólahúsa 4.8 millj. kr. eða samtals 36 millj. Ef við berum nú saman þetta smánarframlag, eins og honum fannst, þessum hv. þm., við dýrðarárið 1958, þegar allt var í blóma og hann og hans sálufélagar voru sem ánægðastir, og berum þennan lið, sem hann hneykslaðist mest út af, saman við fjárl. 1958, þá er varið til byggingar gagnfræðaskóla og héraðsskóla, skólahúsa í smiðum, 3 499 500 kr. móti 31 millj. 200 þús. kr. í fjárlfrv., sem við nú erum að ræða. En hann var mest hneykslaður yfir nýjum skólahúsum, að þau væru ekki nema 4.8 millj. Hvað skyldi nú hafa verið lagt þá í ný skólahús, til byggingar gagnfræðaskóla og héraðsskóla, á dýrðarárinu 1958? Þá voru lagðar fram heilar 100 þús. kr. Það er 48 sinnum hærra, framlagið til nýrra skólahúsa, gagnfræðaskóla og héraðsskóla, en var dýrðarárið 1958. Hefur nú hv. þm. efni á því að hneykslast yfir þessum fjárveitingum? Við skulum þó einnig ræða framlög til byggingar barnaskóla og íbúðafyrirskólastjóra. Í fjárlagafrv. er gert ráð fyrir því, að til skólahúsa og skólastjóraíbúða verði veittar 56.8 millj. kr., til nýrra skólahúsa og skólastjóraíbúða 6 millj. 480 þús. kr. Á árinu 1958 var varið til skólahúsa í smiðum 8 millj. 226 þús., til nýrra skólahúsa 1.2 millj., skólastjóraíbúða í smíðum 133 750 og ýmissa skóla, sem voru í smíðum á tímabilinu 1946–1954, 200 þús. kr., eða samtals 9 millj. 760 þús. á móti 63 millj. 280 þús. kr. Ég held, að ríkisstj. þurfi ekkert að skammast sín fyrir þennan samanburð, og tel hv. þm. óheppinn að minnast á þessi mál til þess að fá slíkan samanburð sem þennan, og er hann það þó ekki alltaf.

Ég minntist aðeins á heilbrigðismálaliðina áðan. Það er líka rétt að gera hér samanburð á framlögum til sjúkrahúsabygginga í landinu á 20. gr. 1958 og sömuleiðis nú í þessu frv. 1958 var varið til sjúkrahúsabygginga 5 millj. 190 þús. kr. Í fjárlagafrv. nú er ætlað að verja 30 millj. 560 þús. kr. Þetta er sexfaldað frá 1958. Þar að auki er framlag til byggingar hjúkrunarskóla 5.6 millj. kr.

Þá hefur mjög verið minnzt á hafnamálin og framlag til þeirra talið mjög lítið. Sannarlega vil ég segja það, að ég vildi gjarnan, að framlag til hafnamála væri mun hærra en það er í fjárlagafrv. Á árinu 1958 voru veittar til hafnarmannvirkja, lendingarbóta og hafnarbótasjóðs 12 millj. 775 þús. kr. Í frv. fyrir árið 1966, sem við erum að ræða, eru veittar til hafnarmannvirkja, hafnarbótasjóðs, til greiðslu á eftirstöðvum lögboðins hluta ríkissjóðsframlags til hafnarframkvæmda og greiðslu af hafnalánum 42.4 millj. kr., og við það bætist 1 millj. kr. hækkun, sem fjvn. gerði í sambandi við framlög til hafnargerða.

Tveir hv. ræðumenn Framsfl. hafa endað ræðu sína á því að krefjast þess, að núv. ríkisstj. segi af sér. Mér hefur nú skilizt það, að hún ætti að gera það helzt í kvöld eða nótt. Þeim liggur mikið á. Á árinu 1958, dýrðarárinu, sem hv. 3. þm. Vesturl. varð tíðræddast um í dag, voru þau fjárlög afgreidd, sem ég hef gert lítillegan samanburð á. Og þá hefur mér skilizt, að allt hafi verið í sómanum og það hafi verið björt framtíð, sem blasti við íslenzku þjóðinni. En það leið nú ekki það ár til enda, því að það voru ekki liðnir nema 11 mánuðir af árinu, þegar æðsti páfi þeirra framsóknarmanna, sem skipaði forustuna í þeirri ríkisstj., sagði, að þessi stjórn hefði ekki samstöðu um neitt og dýrtíðaralda væri skollin yfir þjóðina og það væri nú ekkert annað að gera en hrökklast frá og biðja aðra að taka við, því að þeir gætu ekki meira. Og það tóku aðrir við, fyrst minnihlutastjórn Alþfl. fram yfir kosningar og síðan sú stjórn eða réttara sagt það stjórnarsamstarf, sem hefur verið síðan.

Það var brotið blað í efnahagsmálum þjóðarinnar 1960. Þá voru spilin stokkuð upp, ný gengisskráning, og hvað sögðu framsóknarmenn þá og ýmsir stjórnarandstæðingar, þegar þessi lög voru til umr.? Þá sögðu þeir, að nú ætti að draga úr opinberum framkvæmdum, það ætti að skapa atvinnuleysi í þessu landi, og meira að segja einn sá allra vitrasti þeirra og einn töluglöggasti maðurinn sagði, að nú mundi algerlega draga úr allri eftirvinnu hjá blessuðum verkamönnunum í landinu og nú yrðu þeir að láta sér nægja að lifa á dagvinnunni einni saman. Ekkert af þessu kom á daginn. Atvinnan hefur aldrei verið meiri en síðan, og eftirvinnan, sem þessi töluglöggi framsóknarþm. taldi að mundi hverfa með öllu, jókst með hverju árinu sem hefur liðið og næturvinna að sama skapi. En þá þurfti auðvitað að setja eitthvað út á það, og þá fundu sömu menn upp, að nú væri verið að framkvæma vinnuþrælkun á Íslandi. Það, sem einu sinni var talið að mætti ekki missa, er nú orðið allt of mikið og alger vinnuþrælkun ríkjandi í þessu þjóðfélagi.

Á undanförnum þingum hefur Framsfl. ekki verið óspar á að flytja hækkunartill., og honum var á s. l. ári alvarlega bent á það, þegar hann flutti hækkunartill. við fjárl. upp á á 3. hundrað millj. kr., að tekjur ríkissjóðs hefðu ekki komið þannig út, að þessar till. hefðu við rök að styðjast. En þá sögðu þessir hv. þm., að þetta væri helber vitleysa, og þeir héldu dauðahaldi í þessar till. Þær voru auðvitað felldar, því að það varð að gera það. Jafnframt vil ég geta þess, að á síðasta þingi fluttu þm. þessa flokks þáltill. og frv., sem öll hljóðuðu upp á hækkun á ríkisútgjöldum, og ef stjórnarliðið hefði samþ. alla þessa framleiðslu Framsfl. á síðasta þingi, býst ég við, að útgjöld á fjárl. mundu hafa hækkað nú á þessu ári um 1 milljarð a. m. k. Nú koma þeir og segja: Við vitum, að það er ekki hægt að flytja neinar brtt., en við ætlum þó að halda okkur við þessa einu upp á 47 millj. Þeir segja jafnframt, að þeir sjái það, að afkoma ríkissjóðs er orðin svo slöpp, að þeir treysta sér ekki að ganga lengra. En svo koma þeir hver á fætur öðrum hér upp í pontuna og segja, að það sé allt of lítið látið í þetta og hitt og það þurfi miklu meira og dýrtíðin leiki lausum hala, það verði að berjast við dýrtíðina, kannske eftir þeim leiðum, sem þeir hafa sjálfir lagt til, að verði barizt við hana, með stórfelldum auknum útgjöldum á hendur ríkissjóði. En mér finnst, að þessi söngur sé að mörgu leyti líkur og söngur þeirra undanfarin ár, þó að tillöguflutningi hafi nú linnt, og ég held, að þessir ágætu þrír framsóknarmenn og félagar okkar í fjvn. þurfi nauðsynlega að fara að dæmi þeirra Kaspers, Jespers og Jónatans og fá sér ráðskonu, jafnvel þó að þeir þurfi að ræna henni, til þess að stjórna betur gerðum sínum og kenna þeim að flytja hér sín mál í sambandi við fjárlagafrv., svo að ekki reki sig hvað á annars horn. Bastian bæjarfógeti hefur þegar bætzt við. Hann var að enda við að flytja mál sitt hér áðan, svo að það vantar ekki nema ráðskonuna.

Nei, góðir framsóknarmenn og aðrir stjórnarandstæðingar, ef við ætlum að ráðast að þeim vanda, sem við höfum við að stríða og þarf sannarlega að ráðast að, verðum við að vinna eftir öðrum leiðum og eftir öðrum málflutningi heldur en þessum. Við skulum sameinast um það að berjast gegn dýrtíðinni, en ekki aðeins segja það hér í ræðustólnum, en láta svo allar aðrar gerðir snúast um það eitt að auka dýrtíðina. Og hverjum ætlið þið að trúa því, að þeir, sem stjórna landinu hverju sinni, vilji endilega fá dýrtíð? Það vill engin ríkisstj. fá dýrtíð eða auka hana eða efla. Ég skal segja það vinstri stjórninni til lofs, að eftir að hún tók við störfum fyrstu mánuðina, reyndi hún að berjast við dýrtíðina, en hún gafst fljótlega upp í baráttunni við dýrtíðina, því miður. En ef þjóðin í heild vill berjast við dýrtíðina og ná einhverjum árangri, eigum við að ræða málin á allt öðrum grundvelli og reyna að skapa samstarf, eins og einn þm. nefndi hér áðan. Ég treysti mjög vel hæstv. fjmrh. til þess að vera til samstarfs við hvaða flokk sem er og hvaða þm. sem er, því að ég held, að það geti enginn maður borið honum annað en það, að hann sé samvinnulipur maður. Og ég hygg, að ef menn koma, þm. og flokkar, og óska eftir samstarfi við hann og ríkisstj. í heild til þess að afstýra þeirri geigvænlegu hættu, sem okkur stafar af dýrtíðinni og hefur í raun og veru stafað af henni frá lokum styrjaldarinnar, verði hann allra manna fúsastur og glaðastur og fagni slíku samstarfi og vilji vinna mjög ötullega að því, að slíkt samstarf takist.