24.03.1966
Neðri deild: 59. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 702 í B-deild Alþingistíðinda. (521)

122. mál, skógrækt

Frsm. minni hl. (Björn Pálsson):

Herra forseti. Ég samdi grg. fyrir mínu áliti, en það er ekki búið að útbýta henni og er dálítið óþægilegt að taka málið fyrir áður, einkum af því að þessi grg, er sérstakt listaverk, sem ég hefði óskað eftir að þm. læsu, áður en þeir greiddu atkv., svo að ég vildi helzt, að það yrðu ekki greidd atkv. um málið, fyrr en búið er að lesa þessa grg. mína, því að þótt ég fari að segja nokkur orð, er ekkert vist, að mér takist það eins vel. Ég hef ekki búið mig undir, en er ekki eins fljótur að hugsa og hraðmælskur og hv. 3. þm. Reykv., þannig að það er ekki víst, að ég geti haldið eins langa og snjalla ræðu og sá hv. þm. gerir oft, þótt hann sé blaðalaus.

En frv. þetta er um ræktun skjólbelta og auðsjáanlega samið af skógræktarstjóra, og frsm. meiri hl. n. las hér upp dálítinn kafla af því, sem hann birtir hér í grg. Satt að segja trúi ég ekki alveg bókstaflega þessum aths., sem hann gerir við lagafrv., en vafalaust er eitthvað til í því, sem hann segir. En við verðum að miða framkvæmdir hér á landi við þá aðstöðu, sem hér er. Það kemur m.a. fram í aths. hjá skógræktarstjóra, eða sem ég veit að hann hefur samið, — hann talar mikið um Jótland og það hafi eiginlega ekkert verið hægt að rækta á Norður-Jótlandi, áður en þessi blessuð skjólbelti komu. En einhvern veginn er það þannig í Noregskonungasögum og víðar, að það er getið um, að þar hafi verið fólk, og það hefur án efa lifað á grasrækt, kornrækt, griparækt og öðru slíku, þannig að ég veit aldrei til, að norðurhluti Jótlands hafi verið í eyði, vegna þess að þar hafi ekki verið skjólbelti. Það kemur enn fremur fram í þessum aths., þegar hann talar um tvöfaldar girðingar. Það þarf náttúrlega að girða í kringum skjólbeltin, til þess að gróðurinn þrífist. Hann talar um það, að ef eigi að beita, þurfi að vera tvöföld girðing. Og hann segir hér á einum stað: „Hér var aldrei um annan girðingarkostnað að ræða en ódýrar stórgripagirðingar, sem bændur urðu að standa undir“ — eða bera kostnað af, væri nú kannske réttara að segja. En það kemur þarna í ljós, að það er ekkert sauðfé þarna. En hér á landi er ógerningur að rækta skjólbelti, þar sem sauðfé er og hross, því að það eyðileggur þau. Það þarf að girða tvöfaldar girðingar og það mjög vandlega. Við getum sagt, að þetta geti dugað að sumrinu, en þegar snjóa leggur að vetrinum, fennir að girðingunum og yfir þær. Fé og hross ganga þarna yfir. Það er loðið á milli, skepnurnar sækja í bilið á milli girðinganna, þar er kafloðið, því að annars staðar er orðið graslaust, og eyðileggja þetta algerlega, Það er ekki fyrir nokkurn mann að verja þetta. Þannig er þetta í fannasveitunum.

Þetta horfir allt öðruvísi við, þar sem eingöngu væri um kornrækt að ræða eða kartöflurækt og rófnarækt og ekki væri um neina beit að tala að vetrinum. Og svo er annað, að það er útilokað, að bændur hefðu tíma til þess að halda við þessum girðingum. Við þekkjum það, sem í sveitunum búum, að þeim gengur illa að halda við túngirðingunum sínum, hvað þá heldur, ef það ætti að halda við þessum girðingum.

Í öðru lagi veit ég hvergi nokkurs staðar til. þar sem sauðfjárhjarðir eru, að þar sé verið að rækta skjólbelti. Ég hef verið í Ástralíu og NýjaSjálandi, og þar voru ekki nokkur einustu skjólbelti. Þeir höfðu eytt stórfé í að eyða skóginum til þess að geta gert landið að graslendi til að beita fénu á. Hér verður því ógerlegt að framkvæma þessa skjólbeltarækt, þar sem sauðfé og hross eru. Ég fullyrði það. Og með vaxandi sauðfjárhjörðum verður farið að láta féð liggja við opið að vetrinum, og það fer um landareignina og eyðileggur gróður eins og þennan, bæði vegna þess að girðingunum verður ekki haldið nægilega við vegna kostnaðar og skorts á vinnuafli og í öðru lagi er ógerlegt að verja þetta svæði, sem á að rækta skjólbelti á. Vilji menn rækta skjólbelti í kringum kornakra og kartöflugarða, þarf ekki nema einfalda girðingu, og þeir þurfa að girða þetta svæði hvort sem er og fá samkv. jarðræktari. styrk út á þær girðingar. Ég skil það ekki, ef það er ógurlegur gróði að þessu, hér um bil ómögulegt að rækta jörðina öðruvísi en að fá skjólbelti, að það borgaði sig þá ekki fyrir þá alveg styrklaust að setja niður fáeinar plöntur, og það er afar einkennilegur hugsunarháttur, ef ómögulegt er að gera neitt án þess að fá greiddan meiri eða minni styrk til þess. Ég veit ekki, hvort við aukum manndóm okkar bændastéttar eða yfirleitt neinna þjóðfélagsþegna með því að ala þann hugsunarhátt upp, að þó að það sé gróði að framkvæma hlutinn, megi ómögulega gera það án þess að fá styrk til þess.

Þá er gert ráð fyrir því í þessu frv., að það eigi að vera eftirlit með því, að þetta komi að gagni, það sé vel hirt um plönturnar og girðingu vafalaust við haldið og öðru slíku, annars ætti að endurgreiða styrkinn. Það verða anzi skemmtilegar deilur um það að fara að innheimta þær upphæðir og meta þær og innheimta aftur. Ég held, að það yrði dýr innheimta og erilsöm. Það má ekki gera neitt, hvorki girða eða planta né annað, nema með samþykki héraðsráðunautar og skógarvarða. Fyrst þarf hann að mæla með framkvæmdunum, í öðru lagi þarf að fylgja nákvæmlega eftír fyrirmælum skógarvarða um legu skjólbelta og annað slíkt. Í d-lið er það, að landssvæði það, sem vernda skal, hafi verið girt löggirðingu. Allt þetta kostar mikið vafstur og fyrirhöfn, og ég held nú satt að segja, að það verði ekki mjög margir til þess að basla við þetta.

Ég veit, að það er mikils virði fyrir kornið í hauststormum, að sé eitthvert skjól. En trén eru nú þannig, að þau þrífast yfirleitt ekki hér á landi, nema þeim sé skýlt. Ég efast um, að það sé nokkur gróður hér, sem hefur meiri þörf fyrir skjól en trjáplöntur. Og þó að það eigi að reyna að rækta þær í skjóli, deyja þær meira og minna. Ég hef garð heima, þar sem ég er búinn að setja niður nokkur hundruð plöntur. Meira og minna deyr út af þessu, fullerfitt að verja hann fyrir kindum og hrossum, þegar snjóalög eru að vetrinum, og meira að segja stundum ógerlegt. Ég held, að það séu eitthvað tvö ár síðan mikið af trjágróðri hérna á Suðvesturlandi dó út. Ísland er nefnilega þannig, veðráttan er þannig, þessir hlýindakaflar síðari hluta vetrar og snemma á vorin og kuldakast á eftir, það veldur því, að Ísland er ekki skógræktarland. Og af hverju er landið hér um bil skóglaust? Það er vitanlega af því, að það eru ekki góð skilyrði fyrir skógrækt hér á landi. Það er alltaf verið að tala um að rækta skóg og rækta skóg og veittar í þetta milljónir árlega. Ég sé ekki, að fjárhagslegur árangur sé nokkur. Það er hægt að rækta sæmilegar trjátegundir innan um kjarrið, sem komið er. M.ö.o.: ef við ætlum að rækta greni og einhverjar nytsamlegar trjátegundir, verðum við að vernda þær alveg sérstaklega, veita þeim skjól. Víðirinn, sem á að vera til skjóls, t.d. í görðum stundum, ég hef reynslu fyrir því í garði heima hjá mér, að það er hann, sem er hvað viðkvæmastur. Hann springur svo snemma út á vorin og svo deyr hann. Björkin heldur sér betur.

Ég held, að það verði nokkuð seinunnið verk fyrir þá bændur, sem hafa sauðfjárrækt og hross, að koma upp hjá sér skjólbeltum. Ég held, að það sé hlutur, sem ekki borgar sig. Annað er það, þó að nokkrir hríslukvistir verði mannhæðarháir í skjólbeltunum, þá held ég, að það skýli ekki langan veg frá sér, þegar um víðlend beitilönd er að ræða.

Viðvíkjandi grasræktinni, þegar unnið er með stórum vélum, er vitanlega ekki hægt að kljúfa landið sundur í ótal reinar með skjólbeltum, því að það gengur ekkert vinnan með slíku. Og þó að kæmi einnar eða tveggja mannhæða hátt skjólbelti, verndar það ekki gegn stormum mjög langt frá sér. En menn þurfa að hafa stóra reiti til að slá og raka, annars gengur vinnan ekki, þannig að hvað grasrækt viðvíkur er þetta hreinn barnaskapur. En sé um þennan óhemjugróða að ræða, eins og höfundur frv. gerir ráð fyrir, viðvíkjandi kartöflurækt — og hann telur raunar mestan gróða af heyfengnum, 24.1%, getum við komið upp skjóli með því að hafa þétt vírnet, alveg eins góðu og með tvöfaldri eða þrefaldri trjáröð, með því að hafa bara þétt girðingarnet. Það má vel vera, að það spretti eitthvað betur næst því. En stór munur yrði það aldrei, og það væri ekki breið sú rein, sem það skýldi, þannig að um væri að ræða 24% meiri grasvöxt. Ég er hræddur um, að það þurfi að bera á a.m.k. eitthvað meira til að fá þá auknu uppskeru, ekki kemur hún af sjálfu sér.

Annars ætla ég ekki að fara að rekja einstök atriði í þessari grg., en á Norður-Jótlandi talar hann um, að þar séu eingöngu nautgripir. Og það skal ég játa, að það er hægt að girða fyrir nautgripi að sumrinu, en um vetrarbeit er vanalega ekki að tala hjá þeim, nema það væru holdanaut, og þá geri ég ráð fyrir, að það yrði að girða nokkuð vel, a.m.k. í snjóasveitum, til þess að þau skemmdu ekki þessa kvistlinga.

Ég held því, að þetta verði hálfgert vandræða-frv. í framkvæmd. En það er ákaflega vinsælt að vera með öllu, hvað vitlaust sem það er, sem menn koma með, og segja já við því og biðja alltaf um gott veður hjá öllum og út af öllu. En ég sé enga ástæðu til þess að gera það í þetta skipti, og til þess að það sé ekki neinn hávaði um þetta, legg ég til í þeirri grg., sem væntanlega verður bráðlega útbýtt, að frv. verði látið sofna hér í d. Mér finnst það eiginlega lágmarkskrafa, að Búnaðarfélagi Íslands sé leyft að gera einhverjar till. um þetta, þá í sambandi við jarðræktina, en það sé ekki einhliða litið á þann áróðurspistil, sem hér er, þar sem ekkert tillit er tekið til þeirrar aðstöðu, sem íslenzkir bændur hafa til skjólbeltaræktar, og málið sé þá tekið til frekari athugunar, ef það er ekki svæft alveg til fulls á komandi árum. Ef það er svona gífurlegur gróði að rækta skjólbelti, þar sem um korn- og garðrækt er að ræða, eru þessir menn vel megnugir að gera það án þess að fá beinan styrk til þess.