24.03.1966
Neðri deild: 59. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 707 í B-deild Alþingistíðinda. (523)

122. mál, skógrækt

Fram. minni hl. (Björn Pálsson):

Það er ekki ástæða til þess, að ég fari að deila mikið um þetta mál við hæstv. landbrh., en ég stend við það, sem ég sagði, að það fer ekki saman sauðfjárrækt og skógrækt, hvergi í heiminum, og í þeim héruðum, þar sem er mikið um sauðfé, þar verður ekki hægt að rækta skóga nema á alveg afgirtum svæðum. Ég veit vel, að það er skógur á Hallormsstað, en það var bara alltaf skógur þar. Ég veit líka, að þeir eru farnir að planta þar niður nýjum trjátegundum á milli trjánna, af því að þeim gengur illa að rækta þau a bersvæði. Ég tók það fram áðan, að það er hægt að rækta greni og lerki og ýmislegt inni í skógum. Þetta eru nefnilega plöntur, sem þurfa skjól. En viðvíkjandi tekjunum, hvað ætli það séu nú miklar tekjur af þessum blessuðum skógum? Það væri gaman að vita það. Það er víst eitthvað grisjað þarna árlega. Ég veit ekki, hvort það er notað í girðingarstaura eða eitthvað smávegis smíðað úr því, en ég er alveg sannfærður um, að það svarar ekki kostnaði að vinna það. Það væri fróðlegt að vita um þessar tekjur.

Ég hef ekki trú á, að Ísland sé skógræktarland, en ég get tekið undir með ráðherranum, að við eigum að græða landið upp, eftir því sem hægt er. Það eigum við bara ekki að gera með skógi, nema þá okkur til gamans. Það er allt í lagi að hafa fáeinar jarðir til að rækta á skóg, en að það hafi hagnýta þýðingu, það tek ég ekki undir. Menn geta hirt vel um garða hér í kringum húsin, menn geta hirt vel um þá að sumrinu sér til gamans og heilsubótar, en menn, sem eru önnum kafnir í heyskap og fjárgæzlu, hafa ekki tíma til að fórna tíma í að hirða um stóra trjágarða. En bæjarbúar geta það vitanlega, og það getur verið bæði heilnæmt og ánægjulegt starf fyrir þá. Reykvíkingar eru víst að reyna að rækta hér skammt frá talsvert af trjám. Ég hygg, að það sé mikið af þeim dautt og líti ekkert sérstaklega vel út með þann skóg, en það eru til smávegis skógarleifar, og ef við athugum hvar þær eru, þá er það þar, sem kennir meginlandsveðráttu, þar sem vorar seint, þar er minni hætta á, að trén deyi út. Þannig er það á Hallormsstað, og þannig er það í

Fnjóskadal. Það eru viss svæði í landinu, þar sem eru möguleikar á að rækta dálítinn skóg, og það er sérstaklega á þessum svæðum. En á sandgræðsluna eigum við að leggja áherzlu. Skógræktin er fyrst og fremst sport, getur verið prýði að henni, og hún getur verið ánægjuauki að vissu marki, og ég hef minnzt á það áður og álít það enn þá, að við eigum fyrst og fremst að fela byggðarlögunum að sjá um þetta. Þetta er ágætt „hobby“ fyrir ungmennafélög, og sýslufélögin gætu séð um þetta. Hvers vegna græða þeir ekki upp sandana í Rangárvallasýslu með trjám? Af því að það er ekki hægt. Þeir geta sáð grasfræi í þá og borið á þá og grætt þá þannig upp, en það er ekki hægt að græða þá upp með skógi. Skógræktarskilyrðin eru nefnilega þannig hér á landi, það er hægt að láta trén lifa með sérstaklega mikilli umhirðu og veita þeim skjól, en öðruvísi ekki, og það er of dýr ræktun, til þess að hún muni svara kostnaði.