22.03.1966
Neðri deild: 58. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 730 í B-deild Alþingistíðinda. (550)

106. mál, atvinnuleysistryggingar

Eðvarð Sigurðsson:

Herra forseti. Ég vil aðeins undirstrika það, sem hæstv. félmrh. sagði hér um upphaf þessa sjóðs, atvinnuleysistryggingasjóðsins, en hann varð til, eins og hann sagði, með samningum í vinnudeilunum miklu 1955 og öllum ljóst, sem þar komu við sögu, að þær deilur hefðu ekki verið leystar, ef ekki hefði komið til m.a. samkomulagið um atvinnuleysistryggingasjóðinn. Með framlagi til atvinnuleysistryggingasjóðs af hálfu atvinnurekenda, ríkisvalds og sveitarfélaga var mætt hluta af þeim kaupkröfum, sem verkalýðshreyfingin bar fram. En hún taldi þetta mál svo mikilsvert, svo þýðingarmikið, að verulega var slegið af kröfum um kauphækkanir, þegar tryggður var framgangur þessa máls. Það má því segja, að það er hlutur, sem ég bið menn að hafa vel í huga, þegar rætt er um þennan sjóð, að þessi sjóður er eins konar geymslufé á kaupgjaldi verkafólks, sem lagt hefur verið til hliðar á þennan sérstaka hátt. Það er því ekki neitt um að villast, að verkalýðshreyfingin, verkalýðsfélögin eiga sterka hlutdeild í þessum sjóði, og það var og viðurkennt með þeim lögum, sem upphaflega voru sett um atvinnuleysistryggingasjóðinn. Þar var endurskoðunarákvæðið með þeim hætti, að lögin skyldu endurskoðuð að tveim árum liðnum í samráði við aðila, þ.e.a.s. bæði samtök verkafólksins og einnig samtök atvinnurekenda. Ég minni á þetta og þreytist aldrei á því, því að mér finnst, að það sé mikil tilhneiging til þess að líta á þennan sjóð sem hvern annan fjárfestingarsjóð í landinu, sem ríkisvaldið og jafnvel Alþ. geti farið með að sínum geðþótta að verkalýðshreyfingunni fornspurðri. Ég vil alvarlega vara við öllum bollaleggingum í þá átt.

Um það frv., sem hér liggur fyrir, vildi ég aðeins segja það, að ýmis atriði þess eru á þann veg, að fullt samkomulag er um þau. Inn í frv. hafa verið tekin í meðferð Ed. ýmis þau atriði, sem sú n., sem félmrh. gat um og hafði lögin til endurskoðunar, varð sammála um að miklu leyti. Að vísu skal ég viðurkenna það, að ég var aldrei samþykkur þeim bótaupphæðum, sem nú hafa verið settar inn í lögin og eru miðaðar við, að atvinnuleysistryggingabætur skuli vera hinar sömu og slysabætur. Ég sé enga ástæðu til þess, að bætur úr þessum sjóði fylgi endilega einhverjum reglum um bætur úr öðrum sjóðum. Hér er um að ræða algerlega sjálfstæðan sjóð, sem aðeins er háður sínum eigin fjárhag, og ég held, að það efist enginn um það í dag, að þessi sjóður, sem á höfuðstól upp á 700 millj. kr., getur mjög vel staðið undir tiltölulega góðum bótagreiðslum, a.m.k. eins og atvinnuástand hefur nú verið hér á landi. Ég ætla ekki að gera neinn höfuðágreining um það efni. Ég hef áður tekið þetta fram og vil aðeins endurtaka, að það er skoðun mín, að það þurfi ekki að binda bætur úr atvinnuleysistryggingasjóði við, hvað greitt er einhvers staðar annars staðar úr öðrum sjóðum.

Varðandi 3. gr. þessa frv., þar sem farið er inn á nýjar brautir um lán úr sjóðnum, og það var einvörðungu um það efni, sem frv. var í sinni upphaflegu mynd, er það að segja, að um þetta mál hefur verið mikið rætt milli þeirra, sem hér hafa átt hlut að máli, og allt meginefni 3. gr. má segja, að hafi orðið samkomulagsatriði milli ýmissa aðila, sem um málið fjölluðu. Ég vil hins vegar í þessu sambandi mjög vara við því, að það verði farið inn á þá braut, sem virðist mikil tilhneiging til, að veita ekki lán úr þessum sjóði, heldur óafturkræfa styrki til ýmiss konar fyrirtækja, bæði bæjarfélaga og einstaklinga, en það hefur mjög borið á tilhneigingu til þess. Ég er algerlega andvígur því að lán eða slíkir styrkir séu veittir úr atvinnuleysistryggingasjóði. Hins vegar tel ég, að þeim aðilum, sem sérstaklega þarf að hjálpa, eins og bæjarfélögunum víða á Norðurlandi, sveitarfélögunum, sé sjálfsagt að hjálpa með lánum til langs tíma, jafnvel vaxtalausum eða með lágum vöxtum og afborgunarlausum um skemmri eða lengri tíma. Þetta tel ég, að sé rétt að gera, en hins vegar sé ekki farið inn á þá braut að veita óafturkræfa styrki úr sjóðnum til slíkra hluta.

Niðurlagið á 3. gr., þar sem sagt er, að heimilt sé að veita atvinnubótasjóði lán samkv. þessari gr. án sérstakra trygginga, er mjög nálægt því að vera óafturkræfir styrkir, og ég verð að segja það, ég er engan veginn sammála því, að þetta ætti að vera á þennan veg, og tel, að um slík lán þyrftu að koma tryggingar, sem sjóðurinn getur tekið gildar. Við vitum, í hvað lán úr atvinnubótasjóði gjarnan geta farið, og ég mundi telja alveg óforsvaranlegt um a.m.k. mörg þau svið að fara að lána á slíkan hátt úr atvinnuleysistryggingasjóði og er alveg „prinsipíelt“ á móti því, að þannig lán séu veitt, sem mættu heita óafturkræfir styrkir.

Ég vildi taka þetta fram hér og svo einnig vara við því, að það sé farið þannig með fé þessa sjóðs, þó að mikið sé og menn kannske haldi, að það geti enzt í hvað sem er, — það sé farið með það á annan veg en þann, sem stjórn sjóðsins getur sætt sig við. Og ég vil sérstaklega taka það fram vegna þeirra ummæla, sem hér féllu í gærkvöld í sambandi við annað mál frá hv. 7. landsk., að hann hafði mjög mikla tilhneigingu til þess, að þessi sjóður legði álitlegar upphæðir beint í ýmsa stofnlánasjóði. Ég er andvígur því og tel, að sjóðsstjórnin eigi að hafa á hendi þau lán, sem veitt eru úr sjóðnum, þ.e.a.s. beint til þeirra aðila, sem lánin fá. Ég ætla ekki að fara frekar inn á það atriði hér. En ég vil að lokum aðeins fagna þeirri yfirlýsingu, sem hæstv. félmrh. gaf hér áðan, sem var á þá leið, að reynt mundi að koma fram þeim till. til breytinga á l., sem fólust í áliti þeirrar n., sem hafði þau til endurskoðunar. Ég satt að segja vil ekki gera mikið úr þeim ágreiningi, sem þar varð, og tel. að það hefði verið hægt alllöngu fyrr að koma öllu meginefni þeirra till. fram, og vil sem sagt mjög fagna því, ef af því verður, að veruleg tilraun verður gerð til þess að koma þeim hugmyndum fram, gera að lagaákvæðum, því að mörg þeirra eru áreiðanlega til mikilla bóta frá því, sem nú er, enda ekki óeðlilegt, að ýmis atriði þessara 10 ára gömlu laga þurfi að endurskoða.