02.12.1965
Sameinað þing: 15. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 191 í B-deild Alþingistíðinda. (57)

1. mál, fjárlög 1966

Björn Jónsson:

Herra forseti. Ég mun takmarka mál mitt hér við það að ræða örlítið 4 till., sem ég hef leyft mér að flytja á þskj. 133, en það eru brtt. við 12., 17. og 20. gr. fjárlfrv.

Brtt. mín við 12. gr. er á þá lund, að þar komi nýr liður að upphæð 500 þús. kr., sem verði varið eftir ákvörðun landlæknis til þess að bæta úr skorti á þjónustu tannlækna í þeim læknishéruðum, þar sem fólk á nú ekki aðgang að neinni slíkri þjónustu í heimahéraði sínu. Ég vil gera ráð fyrir, að hv. þm. sem öðrum sé að meira eða minna leyti kunnugt um það, hve skórinn kreppir að í þessum efnum víða um land og þó hvergi meira en í þeim byggðarlögum, og þau eru nokkuð mörg, þar sem menn verða að leita allrar slíkrar þjónustu um langa vegu og jafnvel í aðra landshluta. Það má nærri geta, að þar sem svo er ástatt, þar verður reyndin sú, að fjöldi manna og þ. á m. flest börn á því aldursskeiði, sem mest þarfnast þess, að þessum þætti heilsugæzlunnar sé sinnt, verði algerlega út undan í þessum efnum og þeim til vafalauss heilsutjóns. Það má að vísu segja, að tannlæknamálin öll séu í hinu hraklegasta ástandi hjá okkur yfirleitt og þurfi gagngerðra umbóta við, ekki sízt að því er snertir þjónustu til handa börnum og unglingum í skólum landsins, og að slíkt framlag sem hér er lagt til breyti hér ekki ýkjamiklu um. En ég álít þó, að það væri mögulegt að gera verulegt gagn af hálfu hins opinbera með því að styrkja nokkuð framtak, sem áreiðanlega er fyrir hendi víða um land, bæði meðal sveitarstjórna og héraðslækna, og það er ekki ólíklegt, með því að lagzt væri á sveifina með þessum aðilum, að landlæknisembættinu væri mögulegt að fá í ýmsum tilfellum t.d. unga tannlækna, sem oft eru nýkomnir frá námi og fjárvana, til a. m. k. tímabundinnar búsetu, þar sem mestur skortur er þessara lækna, ef þeim væru sköpuð sæmileg starfsskilyrði, bæði hvað húsnæði og tæki snertir. Það er líka kunnugt um það, að eftir slíkri aðstoð hefur verið leitað, m.a. til hv. fjvn., þó að hún hafi ekki séð sér fært að sinna því. En ég er viss um það, að skynsamleg ráðstöfun á slíku styrktarfé, sem hér er lagt til að verði veitt, mundi skila nokkrum árangri, ekki sízt ef það væri gert, sem sjálfsagt væri, að binda það skilyrðum um það, að í móti kæmi verulegt framlag heiman úr héraði.

Við 17. gr. geri ég þá brtt. fyrsta, að sú fjárhæð, sem þar er ætluð til framkvæmdar á áætlun um hagræðingarstarfsemi vinnuveitenda og verkalýðssamtaka, verði hækkuð um 400 þús. kr., úr 2.4 millj. í 2.8 millj. Þannig er ástatt, að fyrsta þætti þessarar áætlunar er nú að verða lokið og er á því stigi, að komnir eru til starfa 4 menn, sem meiningin er að starfi á vegum verkalýðssamtakanna, og 3, sem eru að starfa á vegum vinnuveitenda. Það hefur hins vegar komið í ljós, að a. m. k. sum þeirra samtaka, sem nú þurfa að taka á sig mjög verulegar fjárhagslegar byrðar í sambandi við þessa starfsemi og er ætlað að taka algerlega við að kosta hana að 2–3 árum liðnum, eru ekki viðbúin því fjárhagslega að taka þær skuldbindingar á sínar herðar, sem þessu fylgja, a. m. k. ekki í bili. Þessi starfsemi, sem ég álit að eigi, ef að líkum lætur, eftir að skila miklum árangri í þá átt að bæta vinnubrögð almennt, auka framleiðslu og efla þannig hag bæði launafólks og atvinnurekenda, er því í nokkurri hættu nú, ef ekki kemur til aukið framlag ríkisins, a. m. k. nú um sinn, á meðan treystur er betur sá fjárhagsgrundvöllur, sem þau samtök, sem hér eiga hlut að máli, þurfa að hafa. Og að mínu áliti er hér meira í húfi en svo, að það megi horfa um of í tiltölulega litla aukningu fjárveitingar, sem gæti ráðið jafnvel nokkrum úrslitum um framtíð þessarar starfsemi.

Önnur till. mín við 17. gr. er sú, að tekinn verði upp þar nýr liður: Til ráðstafana gegn atvinnuleysi á Norðurlandi og í Strandasýslu, 10 millj. kr. Forsaga þessa máls er sú, að sem kunnugt er gaf ríkisstj. þann 7. júní s.l. yfirlýsingu um atvinnumál í sambandi við kjarasamninga, sem þá voru undirritaðir við verkalýðsfélög á Norður- og Austurlandi. Þessi yfirlýsing var í sex liðum, og það er fyrst og fremst 2. liður yfirlýsingarinnar og niðurlag 5. liðar, sem skipta máli í þessu sambandi, en þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Leitað verði tiltækra ráða til þess að tryggja hráefni til vinnslu í frystihúsum og öðrum fiskvinnslustöðvum á Norðurlandi og í Strandasýslu næstu tvo vetur, ef atvinnuþörf krefur, og verði jöfnum höndum athugað hagkvæmni flutninga af fjarlægari miðum, stuðningur við heimaútgerð og aðstoð við útgerð stærri fiskiskipa, sem flutt geta eigin afla langleiðis.“

Þannig sagði í 2. líð þessarar yfirlýsingar. En í 5. lið sömu yfirlýsingar segir síðan:

„Mun ríkisstj. gera ráðstafanir til þess að tryggja það fjármagn, sem n. telur nauðsynlegt til framkvæmda“ — þ.e.a.s. sú n., sem sjá á um að framkvæma þau atriði, sem í yfirlýsingunni greinir um skyndiráðstafanir gegn atvinnuleysi á Norðurlandi og í Strandasýslu.

Nú tel ég engan vafa á því, að svo horfi í atvinnumálum á Norðurlandi á þessum vetri. að brýn þörf er á því, að ráðstafanir verði gerðar í þá átt, sem hæstv. ríkisstj. hét og hefur heitið, og það er í raun og veru engin þörf um það að orðlengja, þar sem ekkert það hefur gerzt, nema síður sé, sem gerir það líklegt, að hráefnisskortur í hinum 17 frystihúsum, sem eru fyrir hendi á þessu landssvæði, verði ekki a. m. k. jafnmikill og s.l. vetur, ef ekki koma til aðgerðir eftir einni eða fleiri þeirra leiða, sem nefndar voru í yfirlýsingu hæstv. ríkisstj. frá 7. júní. En á s.l. ári fengu frystihúsin, þessi 17 frystihús á þessu svæði, sem hér er rætt um, þ.e.a.s. á vetrarvertíðinni, frá því í janúar og þangað til í maí, aðeins 6100 tonn af fiski til vinnslu, eða að meðaltali innan við 400 tonn á hvert frystihús. En samanlagt komu á land á þessu svæði rúml. 11000 tonn. Til samanburðar má t.d. nefna það, að á sama tíma komu á land á Vestfjörðum og voru unnin í 13 frystihúsum um 30 þús. tonn., sem að mestu var unnið í 13 frystihúsum, meðan 17 frystihús á Norðurlandi og í Strandasýslu fengu 6100 tonn til vinnslu. Það má glögglega sjá á þessum tölum, hvernig aflaleysið fyrir Norðurlandi hefur leikið þessi helztu atvinnutæki, sem byggð þar í sjávarþorpunum byggist á. Til þess að viðunanlegt atvinnuástand haldist á þessu landssvæði, þyrftu a. m. k. að koma til aðgerðir, sem tryggðu helzt ekki minna en tvöföldun á því hráefnismagni, sem frystihúsin á þessu svæði hafa haft til vinnslu undanfarna vetur. Og ég held, að allir, sem kunnugir eru atvinnumálum á Norðurlandi, séu sammála um það, að aukið hráefnismagn til frystihúsanna séu þær einu aðgerðir, sem geti hindrað atvinnuleysi, a. m. k. nú í vetur, m.a. vegna þess að flestar eða kannske allar aðrar aðgerðir, sem til greina gætu komið í atvinnumálunum, þyrftu miklu lengri undirbúnings við heldur en unnt væri að framkvæma, eins og nú standa sakir.

Á þessu stigi verður auðvitað ekki neitt algerlega fullyrt um það með nákvæmni, hvert fjármagn hér þyrfti að koma til, til þess að unnt væri t.d. að tvöfalda hráefni til frystihúsanna í Norðurlandi og í Strandasýslu. En það verður að teljast harla ólíklegt, að þar geti verið um minni upphæð að ræða heldur en mín till. fjallar um. En það er alla vega alveg öruggt, að hér þarf mjög verulegt fjármagn að koma til, og það verður ekki séð, að neinar slíkar upphæðir verði teknar annars staðar en úr ríkissjóði. Það er því að mínu viti að loka augunum fyrir óumflýjanlegum útgjöldum, sem fullar skuldbindingar eru fyrir hendi um, ef þessi upphæð er ekki tekin á fjárlög. Ég veit a. m. k. ekki um neinn aðila í landinu annan en ríkissjóð, sem gæti verið skylt að leggja fram slíkt óendurkræft framlag eins og hér hafa verið gefnar skýrar og greinilegar skuldbindingar um. Og ég held, að það sé ekki of fast að orði komizt, þó að ég segi, að það væri algerlega óeðlilegt, að hér sé ekki tekin upp nein upphæð á fjárlög til þess að standa við þær skuldbindingar, sem hafa verið gefnar, því að ég er ekki með neinar getgátur um það, að það sé raunverulega meining hæstv. ríkisstj. að standa ekki við þessa greinilegu yfirlýsingu, sem hún hefur gefið. Það vil ég ekki einu sinni láta mér detta í hug. En þá hvílir líka sú skylda á hæstv. ríkisstj. annaðhvort að taka upp þessa fjárveitingu nú við afgreiðslu fjárl. eða þá gera skýra grein fyrir því, eftir hvaða duldum leiðum hún hyggst afla þess fjár, sem hún hefur skuldbundið sig til að leggja fram.

Að síðustu flyt ég svo till. um hækkun framlags til nýbyggingar við menntaskólann á Akureyri, að það verði hækkað úr 1.6 millj. kr. í 3 millj. kr. Ég held, að flestir, sem athuga, hverjar fjárveitingar menntaskólinn á Akureyri hefur fengið á undanförnum árum, geti verið sammála um það, að hann hafi verið alger hornreka hjá fjárveitingavaldinu. Þessi stærsta, virðulegasta og bezta menntastofnun, sem þjóðin á utan höfuðborgarinnar, hefur verið alger hornreka um fjölda ára, og það hefur ekki örlað á neinum vilja til þess að gera neitt fyrir þessa stofnun, frá því að nýsköpunarstjórnin ákvað byggingu heimavistarhúss við skólann, sem þó hefur ekki gengið betur en svo, að þessari byggingu er ekki að fullu lokið enn í dag, og þar til núna, að sýndur er á litur að ákveða byrjunarframlag til þess að koma upp húsi fyrir kennslu í raunvísindanámsgreinum við skólann. En aðstaða til þess náms hefur raunverulega aldrei verið til í menntaskólanum á Akureyri, enda þótt kennslu hafi verið haldið uppi á stærðfræðilegu línunni og í þeim fögum frá því 1935. Í 30 ár hefur þessari kennslu verið haldið uppi raunverulega við engin skilyrði.

En það eru miklu fleiri verkefni, sem er nauðsynlegt að sinna í sambandi við menntaskólann á Akureyri, heldur en þetta eitt, ef aðstaða skólans og skólahúsnæðið á að geta kallazt viðunarlegt. Heimavistin er orðin allt of lítil, og það eru vandræði að koma hundruðum nemenda fyrir í bænum við nám að vetrinum. Það mál horfir allt til stórkostlegra vandræða, og skólahúsið, sem nú er orðið meira en hálfrar aldar gamalt timburhús, hefur m.a. vegna þess, hve fjárveitingar hefur skort til skólans á undanförnum árum, stöðugt verið að níðast niður og þar með þarfnast nú stórkostlegra viðgerða, sem varla kosta undir millj. kr. Það er því bæði nauðsynlegt og auk þess réttlætismál, að nýbyggingunni fyrir raunvísindanámsgreinarnar verði hraðað eins og frekast er kostur á, og það ætti ekki að þurfa að taka langan tíma. Teikning hefur þegar verið ákveðin fyrir þessa byggingu, og er meiningin, að þar verði um nákvæmlega sams konar hús að ræða og byggt hefur verið fyrir menntaskólann í Reykjavík, þannig að framkvæmdir ættu að geta hafizt á næsta vori og ættu ekki að þurfa að taka ákaflega langan tíma, ef nægilegt fjármagn er fyrir hendi. Ég tel sérstaklega nauðsynlegt, að þessari framkvæmd sé hraðað, bæði vegna þarfarinnar á henni sjálfri og einnig vegna þess, hve brýn þörf er að snúa sér síðan að öðrum verkefnum til þess að gera þennan skóla svo úr garði, að sæmilegt geti kallazt. Ég er sannfærður um það, án þess að ég sé á nokkurn hátt að gera lítið úr þörfum Vestfirðinga eða Austfirðinga fyrir menntaskóla, að skólaæskunni í landinu og menntamálunum væri gert miklu meira gagn með því að hafa framlag til menntaskólans á Akureyri nú svo ríflegt, að það gæti komið skjótt að gagni, heldur en þó að einhverjar málamyndafjárhæðir séu settar á blað til byggingar menntaskóla á Ísafirði og á Austfjörðum, sem allir vita að kemur engum að haldi, nema milljónaframlög komi þar til viðbótar. Ég held, að það væri miklu skynsamlegra að gera fyrst svo við þennan eina stóra menntaskóla, sem við eigum utan Reykjavíkur, að ekki væri til vansæmdar fyrir fjárveitingavaldið, áður en yrði snúið sér að öðrum verkefnum.