31.03.1966
Efri deild: 58. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 755 í B-deild Alþingistíðinda. (580)

148. mál, Iðnlánasjóður

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Í frv. þessu til l. um breyt. á iðnlánasjóðslögunum frá 1963 felst framkvæmd á þeim áformum ríkisstj. að efla stofnlánasjóði atvinnuveganna. Það eru tveir meginþættir þessa máls: í fyrsta lagi aukning ríkissjóðsframlagsins til iðnlánasjóðs samkv. 1. gr. úr 2 millj. kr. í 10 millj. kr., og ákvæði 2. gr. um að taka upp nýjan lánaflokk í því skyni að veita sérstök hagræðingarlán til viðbótar almennum lánum, sem að mati sjóðsstjórnarinnar teldust stuðla verulega að því að auka framleiðni og bæta aðstöðu iðnfyrirtækja til þess að aðlaga sig nýjum viðhorfum vegna breyttra viðskiptahátta, svo sem tollabreytinga og fríverzlunar. Og það er gert ráð fyrir því, að slík hagræðingarlán geti orðið með betri kjörum en hin almennu lán sjóðsins og þá bæði lægri vextir, lengri lánstími eða jafnvel afborgunarlaus fyrst í stað, eftir því sem síðar yrði ákveðið í reglugerð. Sjóðnum er veitt 100 millj. kr. lánsheimild í þessum tilgangi, en jafnframt er almenna lánsheimild sjóðsins, sem var 1963 100 millj. kr., hækkuð í 150 millj., en hún er nú að verulegu leyti notuð, eins og fram kemur í grg., þar sem sjóðurinn hefur á undanförnum árum fengið um 66.5 millj. kr. lánsfé, ýmist af svokölluðu PL-480 fé eða úr bankakerfinu.

Það er augljóst mál. að iðnlánasjóður mun eflast verulega á næstu árum með aukningu ríkissjóðsframlagsins, og iðnlánasjóðsgjaldið hefur einnig farið síhækkandi, og gert ráð fyrir, að það geti orðið 17—18 millj. kr. á yfirstandandi ári, og með slíkum framlögum sjóðnum til handa mun hann brátt styrkjast verulega og verða iðnaðinum til meiri styrktar en hann hefur verið fram til þessa. Þá vil ég vekja sérstaka athygli á því, að á síðustu árum hafa útlán sjóðsins getað aukizt mjög verulega og nálguðust 60 millj. kr. á s.l. ári. Ég vil einnig vekja athygli á því, sem fram kemur í grg., að Framkvæmdabankinn hefur lánað verulegt fé til iðnfyrirtækja á undanförnum árum, en samkv. öðru frv., sem ríkisstj. hefur flutt, um Framkvæmdasjóð Íslands, er gert ráð fyrir að leggja hann niður, en einmitt þessar lánveitingar tel ég, að ættu að koma til sérstakrar athugunar, þegar síðar verður ákveðið um lán Framkvæmdasjóðs Íslands, eftir að það frv. er orðið að lögum, til hinna einstöku stofnlánasjóða.

Frv. þetta er komið frá Nd. og fékk þar skjóta og góða afgreiðslu, og ég vil leyfa mér að vænta þess, að það verði ekki neinn verulegur ágreiningur um málið í þessari hv. d., og leyfi mér að leggja til, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. iðnn.