31.03.1966
Efri deild: 58. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 756 í B-deild Alþingistíðinda. (581)

148. mál, Iðnlánasjóður

Helgi Bergs:

Herra forseti. Í þessu frv. felast, að því er mér virðist, þrjú atriði. Í fyrsta lagi. að framlag ríkissjóðs til iðnlánasjóðs er hækkað í 10 millj. úr 2, eins og það hefur verið.

Með lögum um iðnlánasjóð frá 1963 var honum skapaður nýr tekjustofn með iðnlánasjóðsgjaldinu, sem vissulega hefur, eins og hæstv, ráðh. tók fram, orðið til þess að efla sjóðinn mjög verulega. Hér komum við þá um leið að ,.prinsip“-atriði, sem oft hefur verið rætt um hér á hv. Alþ., og ég ætla ekki í sjálfu sér að fara að vekja hér upp að þessu sinni spurninguna um það, hvort hinar einstöku atvinnugreinar eigi sjálfar að byggja upp sína stofnlánasjóði með sköttum á sig eða hvort þetta eigi að skoðast sem þjóðfélagslegt verkefni og þetta eigi að byggjast upp af óskiptu fé landsmanna. Ég ætla, eins og ég segi, ekki að fara að vekja þær umr. upp nú að sinni, þær hafa farið fram svo oft áður. En ég vil þó ekki láta hjá líða að benda á það, að miðað við þá stefnu, sem upp hefur verið tekin í þessum efnum á undanförnum árum, situr iðnaðurinn við annað borð og býr við önnur skilyrði að þessu leyti en sjávarútvegur og landbúnaður. Iðnlánasjóðsgjaldið, sem iðnaðurinn greiðir, hefur á þeim tveim fullu árum, sem það hefur verið innheimt, verið 13 millj. 1964 og tæpar 16 millj. 1965, og ef ég tók rétt eftir, gerði hæstv. ráðh. ráð fyrir, að það mundi verða 17—18 millj. á þessu ári, en framlag ríkissjóðs á þessum sömu árum hefur verið 2 millj. kr. Í lögum um stofnlánadeild landbúnaðarins er gert ráð fyrir því. að ríkissjóður leggi fram jafnt framlag á móti þeim sköttum, sem atvinnuvegurinn leggur á. sig, og í lögum um fiskveiðasjóð er gert ráð fyrir því einnig, að ríkissjóður leggi fram jafnháa fjárhæð og fiskveiðasjóður fær af útflutningsgjaldinu. Ef það er talið eðlilegt, að afla þessum sjóðum fjár á þann hátt, sem gert hefur verið undanfarin ár, virðist með sama hætti eðlilegt að gera ráð fyrir því, að iðnlánasjóður fengi framlag frá ríkinu, sem næmi jafnmikilli upphæð og innheimtist í iðnlánasjóðsgjaldi. Nú skal ég ekki gera lítið úr því, að það er stigið með þessu frv. verulegt skref í þá átt, þar sem gert er ráð fyrir að hækka framlög ríkissjóðs upp í 10 millj., en mundu verða 17—18, ef gert væri ráð fyrir þessari grundvallarreglu, sem ég er að tala um. En þó að verulegt skref sé stigið í þessa átt með frv., er þó eigi að síður önnur regla gildandi þarna en gildandi er fyrir aðra atvinnuvegi, og í hv. Nd. báru tveir þm. fram brtt. við þetta frv., sem gerði ráð fyrir því, að tekin yrði upp sams konar regla í þessu efni og er í fiskveiðasjóði og stofnlánadeild landbúnaðarins, en sú brtt. náði ekki fram að ganga.

Annað atriðið, sem þetta frv. fjallar um, er hækkun á lánsheimild iðnlánasjóðs úr 100 millj. upp í 150 millj., og er ekki neitt um það að segja. Það er sjálfsagt þörf á því að hækka þessa lánsheimild.

En ég skal aðeins nefna þriðja atriðið, sem í þessu frv. felst, en það er, að iðnlánasjóði er heimilt að fengnu samþykki ríkisstj. að taka lán allt að 100 millj. kr. til þess að mynda nýjan lánaflokk í því skyni að veita sérstök hagræðingarlán til viðbótar almennum lánum. Hér er á ferðinni svipuð hugmynd og sett hefur verið fram í frv., sem ég flyt hér í þessari hv. d. ásamt nokkrum öðrum þm. Framsfl. um framleiðnilánadeild við Framkvæmdabankann. En þessi heimild, sem hér er um að ræða, eða þetta lagaákvæði, sem hér er gert ráð fyrir, er þó annars eðlis, að því leyti til a.m.k., að það nær aðeins til iðnaðarins, en okkar frv. nær til annarra atvinnuvega einnig. Ég vil eigi að síður láta í ljós ánægju mína yfir því, að það skuli fyrirhugað að taka upp þessa sérstöku lánastarfsemi, sem tvímælalaust er mjög mikil þörf á, og láta um leið í ljós þá ósk, að ef mönnum fellur ekki að samþykkja frv. okkar um þetta efni eða í þessa stefnu, er þess vonandi að vænta, að sams konar lánastarfsemi muni verða tekin upp fyrir aðra atvinnuvegi, sem þetta frv., sem hér liggur fyrir, nær ekki til.

Okkar skoðun var að vísu sú, að nauðsynlegt væri, að svona lánastarfsemi hefði úr einhverju öðru að spila en tómu lánsfé, og í okkar frv. var þess vegna gert ráð fyrir því, að ríkissjóður legði fé til þessarar lánastarfsemi, þannig að í þeirri lánadeild, sem það frv. gerði ráð fyrir, myndaðist smám saman höfuðstóll. Hér er að vísu ekki gert ráð fyrir því, að í þeirri lánadeild iðnlánasjóðs, sem um þessi hagræðingarlán fjallar, myndist neinn höfuðstóll, heldur er gert ráð fyrir eingöngu 100 millj. kr. láni, og er það að sjálfsögðu nokkur galli og vissulega veigamikill galli. Eigi að síður ber að fagna því, að hér er þó gert ráð fyrir að stíga nokkurt skref í þessa stefnu.

Ég vil láta í ljós þá skoðun mína, að e.t.v. þurfi þetta frv. nokkurra breytinga við, en gangi í rétta stefnu og sé æskilegt, að það fái góða fyrirgreiðslu í hv. deild.