12.04.1966
Efri deild: 62. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 759 í B-deild Alþingistíðinda. (586)

148. mál, Iðnlánasjóður

Helgi Bergs:

Herra forseti. Eins og ég ræddi um við 1. umr. þessa máls, virðist mér, að um iðnlánasjóðinn eigi að gilda hinar sömu reglur, sem látnar eru gilda um stofnlánadeild landbúnaðarins og fiskveiðasjóð varðandi framlag ríkisins á móti því framlagi, sem innheimt er frá atvinnuvegunum sjálfum. En í þessum sjóðum landbúnaðarins og sjávarútvegsins er, eins og ég gat um þá, gildandi sú regla, að ríkið leggur jafnt framlag á móti því fé, sem innheimt er hjá atvinnuvegunum sjálfum.

Á þskj. 448 hef ég ásamt hv. 1. þm. Vestf. lagt fram brtt. við þetta frv., sem gengur í þessa átt, og ég sé ekki ástæðu til að endurtaka þann rökstuðning fyrir þeirri till., sem ég setti fram hér við 1. umr. málsins.

Sú hækkun, sem þetta frv., eins og það liggur fyrir, gerir ráð fyrir á framlagi ríkisins til iðnlánasjóðs, er í sjálfu sér góðra gjalda verð, svo langt sem hún nær. En okkur flm. þessarar brtt. virðist, að það beri að gilda sömu reglur um þennan sjóð og gilda um hliðstæða stofnlánasjóði annarra atvinnuvega, og þess vegna flytjum við brtt. okkar um það, að framlag ríkisins verði jafnhátt iðnlánasjóðsgjaldinu.