02.12.1965
Sameinað þing: 15. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 201 í B-deild Alþingistíðinda. (60)

1. mál, fjárlög 1966

Frsm. 1. minni hl. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Nokkur atriði, sem fram hafa komið í umr., síðan ég talaði hér í dag, þarf ég að gera hér að umtalsefni.

Í fyrsta lagi vildi ég segja það út af því, sem hv. 5. þm. Austf. (LJós) sagði hér um þá tilhögun okkar að flytja ekki nema eina brtt. við 2. umr. fjárlagafrv., sem hann var mjög undrandi yfir, að ég gerði grein fyrir því í framsöguræðu minni í dag, hver væri ástæðan til þess, að Framsfl. hefði tekið upp þessa stefnu við 2. umr. fjárlagafrv. Ég vil endurtaka það. Rökin, sem við færðum fyrir því, voru í fyrsta lagi þau, að þessi ákvörðun okkar væri ekki af því, að við værum ánægðir með fjárveitingar til umbótamála, síður en svo, eins og ég sýndi fram á í ræðu minni í dag. Hún er ekki heldur af því, að við teljum, að það hafi verið leitað eftir sparnaði eða þau mál verið látin sitja í fyrirrúmi um fjárlagafjárveitingu, sem þar ættu helzt að vera. Ég gerði einnig grein fyrir þessu. Ástæðan er sú, að verðbólgan, sem ríkisstj. hefur magnað, er að ryðja út af fjárlagafrv. umbóta- og framfaramálum. Fjárhag ríkisins eða stefnu ríkisstj. í efnahagsmálum verður ekki breytt með brtt. Það er aðeins stefnubreyting, sem getur haft áhrif á fjárlaganiðurstöðuna og uppbyggingu fjárl. Og sú stefnubreyting verður að vera fólgin í því, eins og ég þá lýsti, að draga úr ofsköttuninni og hafa stjórn á fjárfestingunni. Þetta mun ég láta nægja út af því, sem hv. 5. þm. Austf. sagði hér í kvöld.

Hæstv. fjmrh. vék að ræðu minni í ræðu þeirri, sem hann flutti hér fyrir kvöldmatinn, og vil ég víkja nokkrum orðum að því, sem þar kom fram.

Ég vil í fyrsta lagi endurtaka það, sem ég þá sagði, að sparnaður mun ekki hafa nein endanleg áhrif eða skipta sköpum um gerð fjárl. eða fjárhagsafkomu ríkissjóðs. Þar mun aðeins skipulagsbreyting og stefnubreyting geta orkað til þess að koma fjárhag ríkisins á réttan kjöl. Ég tók fram í ræðu minni í dag nokkrar ábendingar í sambandi við útgjaldaliði fjárl., sem ég taldi að hæstv. ríkisstj. hefði einnig átt að velta fyrir sér og draga úr útgjöldum frekar en mörgum þeim útgjaldaliðum, sem hún lækkaði um 20%. Í sambandi við þessar ábendingar mínar, sem hæstv. ráðh. ræddi nokkuð, vil ég benda á það, að svo mikil hófsemi var í þessum ábendingum, að ég komst ekki til hálfs við hæstv. ráðh., þegar hann sem formaður fjvn. benti fyrrv. fjmrh. á sparnaðarliði, sem hann ætti að hugleiða í upphafi sinna starfa sem fjmrh., en þetta er að finna í Alþingistíðindum frá 1960. A-deild. 2. hefti, bls. 399, og þar er miklu lengra gengið í að benda á liði, sem fjmrh. ætti að athuga, að dregið væri úr útgjöldum ríkissjóðs, heldur en ég drap á hér í dag.

Hitt vil ég taka fram, að það vakti nokkra undrun mína, að það skyldi ekki í þessu fjárlfrv. vera gerð ein einasta till. til þess að draga úr útgjöldum ríkissjóðs. Ég tel ekki, að það sé verið að fara í sparnaðarátt, þegar er verið að fella niður greiðslur til vegamála eða til rafveitna eða slíkra málaflokka. — Það vakti undrun mína og veruleg vonbrigði.

Út af skattanefndunum vil ég segja það, að það er alveg rétt, sem hæstv. ráðh. sagði, að ég vék máls á því á ráðstefnu sveitarfélaganna. hve skattstofurnar væru seinvirkar, og þær eru það mjög áberandi. Og það er sönnun fyrir því, að þetta kerfi, sem við tókum upp 1960, er a. m. k. ekki enn þá búið að sanna gildi sitt. Ég vil líka taka það fram, að það voru ekki mín orð. þegar var verið að setja þetta kerfi á, að það mundi verða til sparnaðar, heldur hæstv. ríkisstjórnar, sem kom kerfinu á. Ég benti hins vegar á, hver reyndin hefði orðið.

Út af ríkisábyrgðunum vil ég segja það, að þegar lögin um ríkisábyrgðasjóð voru sett, þá minnist ég þess ekki, að þeim hafi verið sérstaklega illa tekið af Framsfl. eða af mér sem þm. hans. Hins vegar benti ég og fleiri, sem ræddu þessi mál þá, á það, að réttur sveitarfélaganna væri ekki svo tryggður gagnvart lögunum sem nauðsyn bæri til og það bæri að leggja áherzlu á það, að þeirra réttur væri ekki skertur, en mér sýnist þróunin hafa farið í þá átt, að það séu hins vegar einstaklingarnir, sem hefur fyrst og fremst verið borgað fyrir, en ekki sveitarfélögin.

Hæstv. ráðh. sagði, að það gæti verið gott að draga úr verklegum framkvæmdum. Við höfum haldið því fram, framsóknarmenn, og formaður okkar skýrði frá því hér um daginn, þegar hann fann upp hið ágæta nafn „hin leiðin“, sem hv. þm. virðast nú vera að átta sig á að nauðsyn beri til að verði nú farið að fara. Þá var bent á það, að við gætum ekki gert allt í einu og við yrðum að velja verkefnin. En það er ekki nóg að velja verkefnin með því að láta ríkið draga úr sínum nauðsynlegustu framkvæmdum, en láta svo einkakapítalið í landinu vaða uppi og kaupa fólkið á vinnumarkaðinum hærra verði en samningar gera ráð fyrir. Það er þetta, sem við höfum deilt á, og það er þetta, sem verður tekið til athugunar, þegar verður farið að vinna að því að koma fjármálum ríkisins á réttan kjöl aftur. Þetta þýðir ekki, að það þurfi að setja upp fjárhagsráð með guðfræðiprófessor í forsæti, eins og það var á sínum tíma. Frá þeim dögum er til ein skemmtileg saga, sem ég ætla að sleppa að segja hér, en það er eins og hæstv. ráðh. sagði hér áðan, það er hægt að finna margar leiðir til þess að taka á þessum málum, ef vilji er fyrir hendi.

Hæstv. ráðh. sagði, að hann tæki undir það með okkur, sem hér höfum talað að verðbólgan væri bölvaldurinn. Hann vill hins vegar ekki viðurkenna það, að um ofsköttun gæti verið að ræða í landinu. Ég vil hins vegar halda því fram og tel, að það hafi verið stefna núv. ríkisstj. og hún hafi strax í upphafi valdatímabilsins hafið hér ofsköttun. Hún tók þá til sín það mikið af tekjum fólksins í landinu, að það hóf baráttu til að sækja þetta aftur, og sú barátta hefur endalaust haldið áfram. Hæstv. ráðh. vildi halda því fram, að kaupgjaldið væri í raun og veru það. sem ylli dýrtíðinni. Því er til að svara, að kaupmáttur tímakaupsins er þó minni núna en hann var 1959. Þetta segir ekki þá sögu, að kaupgjaldið sé bölvaldurinn í sambandi við dýrtíðina. Landbúnaðarverðið er ekkert annað en afleiðing af kaupgjaldinu. Það er við það miðað. Þess vegna er það ekki nema reikningsdæmi, sem er reiknað út frá þeim staðreyndum, sem fyrir eru.

Nei, ég held því hins vegar fram, að ofsköttunin, — og það er orðin ofsköttun, þegar hinir almennu skattar eru jafnháir og þeir eru hér á landi nú, að það er tekið allt að 60% af tekjum manna í gegnum tekjuskatt og útsvar, eignarskattur að auki og svo er látinn skattur fylgja sem sagt hverju máli, eins og farin er að verða hér á hv. Alþingi, þá er orðin ofsköttunarstefna. hvað sýndi sig árið 1964, svo að hæstv. ríkisstj. sá þann kost vænstan að hopa nokkuð frá því, sem þá var orðið, með því að breyta lögunum um tekju- og eignarskatt á s.l. ári og sömuleiðis um útsvör.

Þá vildi hæstv. fjmrh. halda því fram, að ríkisstj. hefði ekki misst tökin á málefnum þjóðarinnar. Hvað er með fjármál ríkisins? Hefur hæstv. ríkisstj. tök á þeim. að ríkissjóður skuli vera rekinn með halla í góðæri? Ég held ekki. Og hvernig er útlitið í atvinnumálunum núna? Hvað samþykkti fundur L.Í.Ú.? Og hvernig ætlar ríkisstj. að taka á þeim málum um áramótin? Ég held, að það sé langt frá því, að hæstv. ríkisstj. hafi tök á málefnum þjóðarinnar, eins og ég sýndi glögglega fram á í ræðu minni í dag og þarf ekki að endurtaka og viðhorfið til fjárlagaafgreiðslunnar núna sannar betur en nokkuð annað.

Fleira ætla ég ekki að ræða um í sambandi við ræðu hæstv. fjmrh.

Hv. 11. landsk. þm. (MB) kom hér í ræðustól áðan og vék nokkrum orðum að því, sem ég hafði hér sagt, og hvarf allt aftur til ársins 1958. sem þeir sjálfstæðismenn hafa á margan hátt mætur á. Hv. þm. sagði, að þá hefði verið allt í sómanum og Framsókn verið ánægð. En Framsókn var ekki ánægðari en það, að það hefur verið uppistaða í ræðum hv. þm. Sjálfstfl. og fleiri, að forsrh. Framsfl. sagði af sér, af því að hann taldi, að sú ríkisstj., sem þá starfaði, gæti ekki leyst efnahagsmál þjóðarinnar eins og hann taldi að yrði að gera og vildi standa fyrir. En þó var ástandið í efnahagsmálum þjóðarinnar ólíkt betra en það er nú, en Framsfl. taldi ekki ástæðu til þess að sitja í ráðherrastólunum lengur en hann hefði vald á málefnum þjóðarinnar. Það er annað en hæstv. núv. ríkisstj.

Hv. 11. landsk. þm. sagði, að ég hefði verið slysinn að fara að gera samanburð á verklegum framkvæmdum 1958 og 1966. Ég hef á þessum tíma, sem hv. þm. talaði hér um áðan, tekið upp úr fjárl. 1958 og fjárlfrv. 1966 fjárveitingar til hafna, sjúkrahúsa, skóla, flugmála, rafveitna og samgangna á sjó og landi. Árið 1958 var fjárveiting til þessara málaflokka 18.4% af heildarfjárlögunum, en árið 1966 eru það 5.5%. Þetta segir hv. 11. landsk. þm. að sé óheppilegur samanburður frá sjónarmiði framsóknarmanna. Það er erfitt að skilja þennan hugsanagang, en ég held, að hv. 11. landsk. hafi hlaupið nokkuð yfir þegar hann fór að gera samanburðinn. Þetta eru staðreyndir, sem ekki þýðir móti að mæla, og sýnir þróunina, sem hefur orðið, síðan Framsfl. fór úr ríkisstj.

Hv. 11. landsk. þm. sagði, að allt væri nú í sóma. Hann var ánægður með það, hv. 11. landsk., að það væri 41 skólaframkvæmd, sem Alþingi er búið að veita fé til, sem ekki er hafin, vegna þess að ríkisstj. hefur stöðvað framkvæmdirnar. Hann var ánægður með það hv. 11. landsk. þm., að það vantaði 58 millj. kr., til þess að ríkið stæði að skólaframkvæmdum eins og gert hefur verið síðustu árin. Hann var hæstánægður með það, hv. 11. landsk. þm. að það væri veitt nú til nýrra skóla svo, að það væri hægt að hefja nýja byggingu á þremur nýjum barnaskólum á Íslandi á árinu 1968 og einni skólastjóraíbúð. Þetta var það, sem hv. 11. landsk. taldi að nú væri öðruvísi en það hefði verið hjá vinstri stjórninni, allt í sóma, enda brotið í blað. Og hv. 11. landsk. var ánægður með það, að ríkið skuldaði til hafnanna í árslok 1966 allt að því þriggja ára framlög, og hann var ánægður með það, hv. 11, landsk., það var allt í sómanum, að nú ætti að verja 1.3 millj. kr. til nýrra flugvalla og flugöryggismála á Íslandi árið 1966. Þetta var það, sem hv. 11. landsk. var að lýsa ánægju sinni yfir, og eitthvað var þetta nú ánægjulegra og betra en það var hjá Framsókn á sínum tíma.

Hv. 11. landsk. var að tala um, að skelfing væru þessir framsóknarmenn leiðinlegir, þeir væru að ráðast á hæstv. samgmrh. fyrir það, að hann stæði ekki við orð sín, heimtufrekjan væri svo mikil, að þeir vildu krefjast þess af hæstv. ráðh., að hann stæði við orð sín. Það eru ekki litlar kröfur þetta, að það skuli vera til umr. hér á Alþingi, að hæstv. ráðh., sem er búinn að gera hvern svardagann á fætur öðrum, svo að það er hægt að lesa upp langan tíma yfirlýsingar þessa hæstv. ráðh. um það, að ekki yrði lækkað vegaféð á fjárl. og það yrði ekki tekið út, það yrði ekki fellt niður, og svo eiga menn að verða undrandi yfir því, að hv. þm. skuli ekki eftir tvö ár, þegar búið er að gera um þetta samkomulag, sætta sig við það kalt og rólega, að þetta er fellt út.

Nei, hv. 11. landsk. verður að gera sér grein fyrir því, að þm. hugsa ekki svona. Þeir vilja, að menn standi við orð sín, og ekkert annað, og hæstv. ríkisstj. er ekki sæmandi að knýja það fram hjá hæstv. samgmrh., að hann sé svo ber að því að standa ekki við orð sín eins og hér hefur verið margsýnt fram á. Það er ekki verið að sýna okkur framsóknarmönnum neina óvirðingu með þessu, það er verið að sýna hæstv. samgmrh. meiri óvirðingu en samherjar hans eiga að fara fram á við hann eða líða að sé gert.

Hv. 11. landsk. þm. talaði um það, að framsóknarmenn flyttu nú ekki neinar till. við þessa fjárlagaafgreiðslu, nema þessa einu, og öðruvísi en áður hefði verið. Ég er nú þegar búinn að víkja að því, að það hefur ekki verið fyrr en á þessu þingi, að það hefur verið lýst yfir neyðarástandi í fjármálum ríkisins, og við höfum allt af lýst því yfir, framsóknarmenn, að við vildum standa að ábyrgri fjárlagaafgreiðslu og fjárl. væru afgreidd greiðsluhallalaus. Og ég endurtek, að það er með öllu óviðunandi, að ríkið sé rekið með greiðsluhalla í mesta góðæri, sem yfir landið hefur gengið. Hitt verð ég að segja hv. þm., að við munum ekki biðja hann um ráð við því, hvernig við högum okkar vinnubrögðum. Og við munum halda áfram að flytja till. og frv. og góð málefni hér á hv. Alþ., hvort sem honum líkar betur eða verr. Við erum nefnilega sannfærðir um, að það líður ekki langur tími, þangað til það kemur ríkisstj. á Íslandi, sem getur stjórnað í góðæri, svo að þá sé hægt að leysa aðkallandi verkefni á viðunandi hátt. Við erum öruggir með það, þó að þannig sé það ekki nú. Og við erum alveg sannfærðir um það, að manndómur íslenzku þjóðarinnar er það mikill að hún lætur ekki ráðherrana standa ráðlausa frammi fyrir vandamálum, þegar í raun og veru allt leikur í lyndi, eins og gerzt hefur síðustu 5 árin. Þess vegna höldum við áfram að byggja upp till. okkar til framtíðarinnar, hvort sem hv. stjórnarherrum líkar það betur eða verr.

Hv. 11. landsk. þm. sagði, að það hefði verið brotið í blað með valdatöku viðreisnarstjórnarinnar. Og nú skulum við líta á blaðið, sem hefur verið brotið. Það er árangurinn af stefnu ríkisstj., það sem við höfum verið að ræða hér í dag. Það er árangur af þeirri stefnu, að hv. meiri hl. fjvn. eða n, í heild ber ekki fram brtt. nema upp á tæpar 15 millj. kr. við fjárlagafrv. upp á 4 milljarða. Það sýnir, hvernig málunum er komið. Hv. 11. landsk. er ánægður með árangurinn af stefnu ríkisstj., þó að ríkissjóður sé rekinn með halla í mesta góðæri. Hann er ánægður með það, hv. 11. landsk., þó að niður sé skorið til verklegra framkvæmda. Í staðinn fyrir að skila aftur því, sem var frestað í fyrra, er haldið áfram að taka 20% af því, sem þá var ákveðið, og ekkert til þess að mæta verðhækkunum síðan. Hv. 11. landsk. er ánægður yfir því, að ástandið er þannig hjá stofnunum eins og pósti og síma, að forstjórinn lýsir yfir, að hann verði að fá að hækka gjaldskrána, svo að nemi 60–70 millj. kr., ef á að vera hallalaust á næsta ári. Og hv. 11. landsk. er ánægður yfir því, þó að hann hafi staðið að því á fundi L. Í. Ú. sem fleiri að lýsa yfir, að útgerðin verði stöðvuð um næstu áramót, ef ekki verður komið til bjargar. Og heldur hv. 11. landsk., að frystihúsin muni sætta sig við nýja fiskverðið, það sem þeir í L. Í. Ú. fóru fram á? Nei, þeirra hlutur á einnig eftir að koma fram. Og hvernig ætlar ríkisstj. ráðleysisins að mæta þeim kröfum, þar sem hún getur ekki bætt úr því, að hæstv. samgmrh. verði nær því slátrað fyrir 47 millj. kr.?

Það er ekki hægt að lýsa ánægju sinni yfir málefnum, sem þannig eru komin í mesta góðæri, sem yfir þetta land hefur gengið. Hv. 11. landsk. þm. var nokkuð fljótur á sér að lýsa þessari ánægju sinni. Og það er heldur leiðinlegur árangurinn af því, þegar var brotið í blað í efnahagsmálasögu þjóðarinnar. Og þetta segir hv. 11. landsk. þm. að sé allt í sóma, árangurinn af því að hafa brotið í blað.

Hv. 11. landsk. þm. endaði ræðu sína með því að uppnefna okkur samstarfsmenn sína úr fjvn. Ég hef aldrei lent í því að vera svo rökþrota að þurfa að grípa til örþrifaráða, þegar ég hef verið að verja eða sækja mál. Ég mundi líka telja það fyrir neðan það, sem ég vil vera þekktur að, að fara að uppnefna þingbræður mína. Þeir mega hafa þann málflutning, sem þeir telja að sæmi sér. Það gerir mér ekkert til, en ég mun ekki öfunda þá af slíkri frammistöðu.