18.11.1965
Neðri deild: 19. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 772 í B-deild Alþingistíðinda. (600)

11. mál, fuglaveiðar og fuglafriðun

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Ég skrifaði undir nál. það, sem hér liggur fyrir frá menntmn. á þskj. 58, með fyrirvara. Einnig hef ég gerzt meðflm. að brtt. við frv., þannig að mér þykir rétt að gera grein fyrir afstöðu minni til málsins. Eins og réttilega kom fram hjá frsm. menntmn., var enginn ágreiningur um efni frv., hina fræðilegu hlið þess. Ágreiningur varð um það eitt, hvort l. um eyðingu svartbaks, sem samþ. voru hér á Alþ. s.l. vor, ættu að nemast úr gildi, eins og lagt er til í frv., eða hvort þau ættu að fá að standa áfram. Það, sem gerir, að ég tel óeðlilegt, að þessi lög verði numin úr gildi nú þegar, er sama og fram kom hjá hv. 2. þm. Norðurl. v. í framsöguræðu hans hér með brtt., að þessi lög eru aðeins búin að standa um hálft ár, og eftir því sem ég fæ bezt séð, hefur ekkert komið fram, sem gefur tilefni til að nema þau úr gildi. Ég greiddi þessum lögum atkv. hér á Alþ. í vor, og var ég þá sannfærður um af þeim rökum, sem fram komu, bæði hjá flm. frv. og eins hjá þeim, sem mæltu með nál., að þau væru nauðsynleg og gagnleg. Ég hef ekki að neinu leyti getað sannfærzt um, að það, sem þá var staðhæft um þessi lög, væri ekki á fullum rökum reist, enda held ég, að bæði nál. og eins það, sem dr. Finnur Guðmundsson hefur um þetta ritað opinberlega, gefi vel til kynna, að eðlilegt hafi verið að setja l. og eðlilegt sé, að þau fái að standa áfram. Ef þessi lög verða nú numin úr gildi, er aðstaða þeirra, sem þau voru sett til þess að bjarga, þ.e. eigenda æðarvarpa, þannig, að aðeins mundi verða heimilt að verja vörpin með því að skjóta svartbak, og einnig, ef væri gefin út reglugerð samkv. 25. gr., að eyða honum með öðrum hætti, en opinber aðstoð til handa þessum aðilum væri öll numin úr gildi með lögum. Eins og ég sagði áðan, var ég sannfærður um, að það væri eðlilegt, að Alþ. gerði ráðstöfun til þess að aðstoða þá aðila, sem æðarvörp hafa, til þess að vernda þau fyrir þeim vágesti, sem svartbakurinn er talinn vera í æðarvarpinu.

Í grein dr. Finns Guðmundssonar í Morgunblaðinu 11. þ, m. segir hann m.a. þetta, með leyfi hæstv. forseta:

„Megingalli þeirra,“ þ.e. svartbakslaganna, „er sá, að þar er gert ráð fyrir stórfelldum framlögum til aðgerða, sem ekki eru minnstu líkindi til að beri nokkurn árangur.“

Ég vil um þetta segja, að það er mjög virðingarvert að mínum dómi af embættismanni að rökstyðja mál sitt bæði fyrir menntmn. og eins á opinberum vettvangi með því, að það sé verið að hans dómi að eyða fjármunum ríkisins að óþörfu. Hins vegar hlýtur það að verða hlutverk Alþ. að meta fjárhagshlið þeirra l., sem það setur, og meta þá, hve mikið fé Alþ. vill veita í hverju tilfelli til framkvæmdar laganna.

Í þessari sömu grein bendir dr. Finnur Guðmundsson á, að samkv. framtölum nemi heildardúntekja á landinu nú um 2000 kg af dúni á ári og verðmæti þessarar framleiðslu sé um 3.7 millj. kr. Í hugleiðingum sínum, sem birtar eru með grg. frv., segir Agnar Ingólfsson þetta, með leyfi forseta:

„Æðardúntekja hefur farið mjög þverrandi á undanförnum áratugum. Samkv. framtölum hefur dúntekjan hin síðari ár verið nálægt 2000 kg á ári. En það sem af er þessari öld hefur hún orðið mest rösk 4500 kg. Þar sem vitað er, að allmikil brögð eru að því, að slælega sé talið fram, einkum hin síðari ár, er þó sennilegt, að dúntekjan nú sé töluvert meiri en framtöl sýna. Það er mjög vafasamt, að dúntekja geti orðið öllu meiri hér á landi en um 5000 kg á ári, miðað við beztu skilyrði.“ Og Agnar Ingólfsson heldur áfram: „Það eru eflaust margar orsakir til rýrnunar dúntekjunnar. Það, sem helzt kemur til greina, er fjölgun svartbaks, silfurmávs og minks.“

Ég tel, að þeir aðilar, sem virðast mest leggja upp úr því að fá lögin um eyðingu svartbaks afnumin, séu búnir að gera þetta að nokkuð einföldu reikningsdæmi fyrir Alþ. að vega og meta, hvað það telur rétt að veita mikla fjármuni í sambandi við framkvæmd þessara laga. Það liggur fyrir, að Agnar Ingólfsson telur, að dúntekja á undanförnum árum hafi minnkað um 2500 kg eða um röskan helming miðað við það, sem nú er. Að vísu er fram tekið, að hann telur fleiri ástæður en svartbakinn fyrir því, að dúntekjan minnkaði, en hann telur þó helztu ástæðuna vera fjölgun svartbaks. Dr. Finnur Guðmundsson telur í grein sinni, að þessi 2000 kg, sem fram koma á framtölum, séu að verðmæti um 3.7 millj. Nú eru í fjárl. áætlaðar 300 þús. kr. til eyðingar svartbaks. Ég tel það mjög eðlilegt og sjálfsagt af Alþ. að veita þeim aðilum, sem þarna eiga hlut að máli, þ.e. þeim, sem varplönd eiga og nytja, þessa aðstoð til þess að koma í veg fyrir, að dúntekja í æðarvörpum haldi áfram að dragast saman, fyrst það liggur fyrir frá þessum sérfræðingum, að ein af helztu ástæðunum sé fjölgun svartbaks. Mér finnst þetta vera mjög ljóst og einfalt reikningsdæmi, að það séu án efa víðar í fjárl. upphæðir, sem kannske frekar mættu hverfa út af þeim heldur en einmitt þetta, því að dúntekja er einn af tekjuliðum landbúnaðarins og á sumum jörðum verulegur tekjuliður í framleiðslu þeirra, þannig að það verður ekki talið óeðlilegt, þó að ekki meiri fjármunum en fjárl. gera ráð fyrir sé eytt í þessu sambandi.

Afstöðu mína til þess að leggja fram þessa brtt. ásamt hv. 2. þm. Norðurl. v. og 3. þm. Vesturl. mótar fyrst og fremst þetta tvennt, sem ég hef nú drepið á, að ég tel ekki frambærilegt fyrir Alþ. að nema úr gildi lög, sem aðeins hafa staðið í 6 mánuði og ekki er farið að sýna sig í neinu, að þau rök, sem voru færð fram fyrir setningu þeirra, hafi ekki verið rétt og geti staðizt í öllum atriðum, og annað hitt, að ég tel sjálfsagt, þar sem það liggur fyrir, að fjölgun svartbaks í landinu er að eyða æðarvörpum, þar sem þau þó enn finnast, þá tel ég sjálfsagt fyrir Alþ. að veita þeim mönnum, sem þau eiga og þeirra njóta, þá aðstoð, sem gert er í fjárl., og láta lög um eyðingu svartbaks standa áfram, a.m.k. þar til það sýnir sig, að þau séu ekki raunhæf í framkvæmd.