18.11.1965
Neðri deild: 19. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 773 í B-deild Alþingistíðinda. (601)

11. mál, fuglaveiðar og fuglafriðun

Frsm. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Það er gömul saga, að sé minnzt á fugl eða mink eða einhverja slíka íbúa landsins í þingsölum, verður það jafnan hita- eða tilfinningamál. Er ekkert nema gott um það að segja. Þó vil ég út af því, hvernig þessar umr. snúast, biðja þá, sem standa að umdeildri brtt., að reyna nú ekki að flytja mál sitt eins og hinir nm. séu fylgjendur svartbaksins og vilji ekki eyða honum eða vilji, að æðarvarp eyðist. Þetta er hörmuleg mistúlkun á málinu, af því að deilan er ekki um það, hvort eyða þurfi svartbak. Það er þekkt um allt norðurhvel jarðar, að þessum fugli hefur fjölgað óeðlilega mikið. Deilan er um það, hvernig skynsamlegast og árangursríkast sé að fækka svartbak. Deilan er ekki um það, hvort verja skuli æðarvarpið eða ekki. Deilan er um það, hvernig er skynsamlegast að verja æðarvarp til þess að ná árangri. Deilan er ekki um, hvort ríkissjóður þoli, að þingið veiti 300 þús. kr. í skotverðlaun fyrir svartbak. Deilan er um það, hvort við fáum það fyrir þessa peninga, sem við ætlum að fá, eða ekki, hvort við getum varið þessum fjármunum til eyðingar mávanna á annan hentugri hátt. Það er afar einfalt og freistandi að reyna að mistúlka þessi grundvallaratriði, en ég vona, að þm. láti sér skiljast, um hvað málið snýst.

Ég vil benda mönnum á, hvað það er, sem hér, liggur fyrir þinginu. Það er ekki till. utan þings, eins og sagt var. Það er stjfrv. Þetta stjfrv. er undirbúið af n. og flutt af ríkisstj. og fyrir því mælir einn ráðh., eins og venja er. Þessari n. var falið að endurskoða lagabálk, og þegar lagabálkar eru endurskoðaðir, er venja að fella saman í ein lög mismunandi lög, sem hafa gilt um skylt efni. Og það er ómögulegt annað en viðurkenna, að ákvæði um eyðingu svartbaks eigi heima í l. um fuglaveiðar og fuglafriðun. Annars verðum við að kalla þessi lög, sem vafalaust verða í einhverri mynd afgreidd, „lög um fuglaveiðar og fuglafriðun að undanteknum svartbak“. Þó að svo hafi viljað til, að ein þeirra laga, sem giltu á þessu sviði, hafi verið sett um það leyti sem endurskoðuninni lauk, er engin ástæða til, að lög um svartbak eigi ekki að falla inn í heildarlöggjöf eins og hver önnur. Hér er því um fullkomlega eðlileg vinnubrögð að ræða og ekkert við það að athuga.

Þar að auki má benda á, að þessi nýju lög voru afgreidd á síðustu dögum þingsins. Þau höfðu legið í rn., sem ekki taldi rétt að flytja frv., af því að í því rn. lágu þær grg., sem síðar hafa komið fram frá sérfróðum mönnum á þessu sviði. Þau rök, sem þar var um að ræða, voru ekki flutt. Það getur vel verið, að sitthvað sé athugavert við vinnubrögð þingsins. Hygg ég, að það væri frekar að afgreiða í skyndi á síðustu dögum fyrir þingslit frv. en hitt, að afgreiða vel yfirveguð heildarfrumvörp snemma á þingi, eins og nú liggur fyrir.

Ég vil fagna því, að hv. 2. þm. Norðurl. v. lagði í sínu máli höfuðáherzlu á skynsamlegar og nýjar leiðir til eyðingar svartbaks, og ég verð að álykta af ræðu hans, að nú sé 99% samkomulag í þessu máli þrátt fyrir deilur. Hann taldi, að ákvæðin um skotverðlaun væru algert aukaatriði. En barátta gegn svartbak að nýjum leiðum getur átt sér stað og á að eiga sér stað samkv. þessu frv., eins og það er. Það, sem hv. þm. taldi lögunum mest til gildis, er enn í frv. Það eina, sem mundi falla niður, er skotverðlaunin.

Þær upplýsingar, sem ég hef fengið í sambandi við þetta mál og af reynslu annarra þjóða, hafa sannfært mig um það, að þetta mál endar eins og rjúpumálið. Það endar á því, að skoðanir vísindamanna um gagn af því að fara út með byssu til að reyna að útrýma fuglategund, sem nemur e.t.v. milljónum einstaklinga, munu sigra. Það er ekki vísindalegt, hyggilegt og getur aldrei borið tilætlaðan árangur, jafnvel þótt það sé dramatískt að horfa á mann ganga út og taka að skjóta á varginn. Þetta er skoðun vísindamanna, sem hafa legið yfir þessum vandamálum hér og erlendis, sem hafa skoðað reynslu af því, hvað 100 þús. skyttur gerðu í Danmörku, hvað þeir gerðu vestur í Ameríku og í Hollandi, sem úðuðu eggin í hreiðrum, og hjá þeim, sem notað hafa aðrar aðferðir. Niðurstaða þeirra er þessi. Ég hygg, að það sé ekki af því, að þeir haldi, að ríkissjóður muni fara á hausinn við að veita 300 þús. til útrýmingar svartbaks. Hér er um grundvallaratriði að ræða, og ef nokkuð af persónulegum eða nærtækari ástæðum er fyrir afstöðu þeirra, er það ef til vill, að á sama tíma og fé er eytt í útrýmingaraðgerðir, sem þeir telja, að ekki nái árangri, er náttúruvísindum og náttúrurannsóknum neitað um auknar fjárveitingar. Ég er ekki að segja, að um fé sé neitað af mannvonzku. Við þurfum því miður að neita mörgum góðum málefnum um aukið fé. En þessi samanburður hefur vafalaust getað haft einhver áhrif.

Þarna greinir á milli. Vísindamenn eru sannfærðir um, að skotverðlaunin séu tilgangslaus. Þeir, sem ekki vilja afnema verðlaunin, trúa því hins vegar, að þau beri árangur, og skal ég á engan hátt misvirða það.

Þegar menn halda, að þeir hafi veruleg áhrif á fuglastofn með því að skjóta nokkur þúsund fugla, skulu menn hugsa til grágæsarinnar. Við vitum, að 1/3 hluti af öllum íslenzka grágæsastofninum er skotinn á flugi sínu í Skotlandi og Englandi á hverjum vetri. Hin mikla veiðimannaþjóð, Bretar, murkar niður þriðjunginn af þessari íslenzku fuglategund, en samt fjölgar henni svo mikið, að hún er að verða til vaxandi vandræða, og er nauðsynlegt, eins og gert er í þessu lagafrv., að gera nýjar ráðstafanir til þess að verja ræktað land fyrir gæsinni.

Það er niðurstaða eftir mjög miklar rannsóknir, að óhætt sé að drepa 40% af rjúpnastofninum án þess að útrýma honum, án þess að hann ekki rétti við aftur.

Þetta eru vísindalegar staðreyndir, sem við horfumst í augu við. Það er þetta, sem er á bak við það, að menn vilja hverfa frá verðlaununum. En ég vil taka það fram, að ef uppi eru aðrar till. um aðstoð við bændur, sem hafa æðarvarp, til að verja varpið á annan hátt en með svo almennum ákvæðum eins og hinum, mundi ég vera reiðubúinn til þess að íhuga slíkt mál og veita því stuðning.

Hæstv. forsrh. flutti mjög skiljanlega brtt. Menntmn. staðnæmdist við þetta ákvæði í athugun sinni og spurði sérfróða menn: Af hverju má ekki stoppa upp örn, fálka eða snæuglu, ef maður kemur með dauðan fuglinn og hefur komizt yfir hann á löglegan hátt? Ég held, að það sé varla hægt að komast yfir þessar sjaldgæfu fuglategundir á löglegan hátt, nema maður finni þá dauða. Reynslan er sú, að þeir menn, sem langar til að komast yfir þessa fugla, komast á einhvern hátt yfir þá, granda þeim, og svo halda þeir þessu fram: Ég fann hann á veginum! Það er ekki nokkur leið að afsanna, að fuglinn sé á þann hátt fenginn.

Nú vil ég biðja menn að athuga, að hér er um að ræða tegundir eins og örn, en það eru aðeins 10—20 pör lifandi í landinu, og er álíka mikið talið vera af snæuglu, en nokkru meira af fálka. Hér er um að ræða tegundir, sem eru alveg að deyja út, og sérfræðingar segja, að það sé engin leið að framfylgja friðunarákvæðum nema á þennan hátt. Þarna er sem sagt gat í friðunarreglum, og þetta eru ástæðurnar fyrir því, að ákvæðið er fram komið.

Ég vil að lokum beina því til hæstv. forseta, að hann ljúki ekki þessari umr., fyrr en menntmn. hefur fengið tækifæri til að fjalla um brtt., sem hafa komið fram, enda er sjálfsagt ekkert, sem rekur á eftir afgreiðslu málsins. Hygg ég, að það væri skynsamlegt, að n. kæmi saman og ræddi þessar brtt., áður en lengra er haldið.