18.11.1965
Neðri deild: 19. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 780 í B-deild Alþingistíðinda. (605)

11. mál, fuglaveiðar og fuglafriðun

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Ég skal ekki tala langt mál um þetta frv., það er búið að gera það rækilega. En mér finnst, að það ætti að vera augljóst öllum mönnum, að það skaðar ekki á nokkurn hátt fuglafriðun í landinu, þó að lög um eyðingu svartbaks standi áfram, hróflar ekki við tilgangi þessa frv. um fuglafriðun. Þetta tel ég eitt aðalatriðið. Eða að hvaða leyti mundu lög um eyðingu svartbaks spilla fyrir fuglafriðun, sem hér er ákveðin í þessu frv.? Ég veit ekki til þess, og ég hef ekki heyrt einn einasta mann minnast á það, sem er ekki heldur von. Hvers vegna á þá að afnema lögin? Ég hef ekki heyrt færð fram nema ein rök, þau, að það sé í sparnaðarskyni gert, spara eigi útgjöld frá ríkinu, þessar 300 þús. eða hvað það er, sem borgað er til þess. Eftir allar þessar ræður hef ég ekki heyrt önnur rök fyrir þessu en þetta.

Þá kemur spurningin: Ef á að spara fyrir ríkið með þessu móti þessar 300 þús. kr., þarf þá ekki að afnema skotlaun fyrir refi, afnema skotlaun fyrir að drepa mink, því að allir vita. að ekki verður ref útrýmt úr landinu með skotum og sennilega ekki mink heldur? Nei, ég held, að það sé fjarri öllu lagi, að þetta séu nokkur rök fyrir því að vera á móti brtt. okkar, að lög um eyðingu svartbaks standi áfram.

Hv. frsm. menntmn. hefur rætt hér þó nokkuð ýmsar aðferðir til þess að fækka svartbak og segir, að skotin geri ekkert gagn og það sé hægt að gera eitthvað annað. Það er hægt að úða hreiður þess í stað. Þarna er hann farinn að ræða um aðferðir við eyðingu svartbaks, en í 2. gr. l. um eyðingu svartbaks segir, að veiðistjóri skuli leiðbeina mönnum við eyðingu svartbaks, skipuleggja eyðingaraðgerðir, gera tilraunir með nýjar vinnsluaðferðir og vernda æðarvörp gegn ágengni svartbaks. Allt þetta á að fella úr gildi. Og hvað er svo í frv., sem á að koma í staðinn? Ekki neitt, ekkert nema heimild fyrir ríkisstj. að gefa út reglugerð. Það getur vel verið rétt, og ég vil ekkert vera að draga það f efa, að það verði ekki fækkað verulega svartbaksstofninum í landinu með skotum. En það er margt fleira, sem á að gera, heldur en að skjóta samkv. 1. um eyðingu svartbaks.

Og ég held, að það hafi komið fram hjá náttúrufræðingum, að það muni vera hægt að ná árangri í fækkun svartbaks í einstökum æðarvörpum með skotum, með eitrun og með svæfingarlyfjum Hefur þetta ekki alltaf verið tilgangur l. um eyðingu svartbaks? Það er að vernda, eftir því sem kostur er á, einstakar varpstöðvar, þótt við getum ekki fækkað stofninum að neinu ráði í landinu.

Ég held að ræða hv. 2. þm. Norðurl. v. hafi sýnt það, að þessum árangri hefur verið náð að verulegu leyti, og það er tilgangur sjálfra l. um eyðingu svartbaks. En allt á að þurrka út með einu pennastriki með frv. þessu.

Hv. frsm. menntmn. nefndi minkaskott sem dæmi um það, hvað sé nú fáránlegt að vera að borga þessi skotlaun, það hafi verið búin til minkaskott. Er kannske hætt við, að menn fari að búa til svartbaksvæng, eða hvað? Nei, það eru ekki nokkur rök að mínum dómi. Auðvitað eru lög brotin, það vitum við. Það hefur meira að segja komið fyrir, að tollalögin hafi verið brotin, verið tekin tollsvikin vara inn í landið. Á þá að afnema öll tollalög, eða hvað?

Ég hef ekki séð neins staðar álit varpeigenda eða að álits þeirra hafi verið leitað um þá fullyrðingu, að engin áhrif hafi orðið af lögunum um eyðingu svartbaks. Þau eru að vísu ekki nema sex mánaða gömul, og það er ekki að búast við miklum árangri á þeim tíma, en það hefur ekki heldur verið spurt um reynsluna, það ég veit til, hjá þeim, sem bezt ættu um þetta að vita.

Hv. frsm. segir, að það sé langeðlilegast að fella þessi lög inn í lög um friðun fugla. Það getur verið rétt, að þau mættu vera þar, Það er ekkert aðalatriði í þessu máli, hvort þau eru sérlög eða kafli úr öðrum lögum, heldur að einhver lagaákvæði séu til um þetta. En ef þetta verður gert, að fella úr gildi þessi sex mánaða gömlu lög um eyðingu svartbaks, þá kemur ekkert í staðinn, nema ef reglugerð verður einhvern tíma sett, sem við vitum nú ekkert um. Það hefur oft verið ákveðin með lögum setning reglugerða, og svo hafa þær alls ekki verið settar, og a.m.k. vitum við ekki, hvað stendur í þeirri reglugerð, ef hún kemur einhvern tíma.

Nei, það er heldur fljótfærnislegt, vil ég segja, að afnema þessi lög, sem eru ekki eldri en þetta og eru ekki farin að sýna sig að neinu ráði og alþm. voru sammála um að setja, og ég held, að hv. 2. þm. Norðurl. v. hafi ekkert ofmeelt um það, að það sýni hálfgerða léttúð að haga sér þannig. Mér sýnist það vera hreinlega játning um það, að Alþingi hafi á s.l. vori afgreitt svo vitlaus lög, að það verði nú að afnema þau í heilu lagi. Ég er ekki tilbúinn að skrifa undir slíka játningu.