30.11.1965
Neðri deild: 24. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 781 í B-deild Alþingistíðinda. (607)

11. mál, fuglaveiðar og fuglafriðun

Frsm. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti.

Menntmn. hefur rætt frv. um fuglaveiðar og fuglafriðun enn á elnum fundi til þess að fjalla um þær brtt., sem fram komu við byrjun 2. umr. Hér er aðallega um að ræða 2 nýjar till., aðra frá hæstv. forsrh. við 36. gr., hina frá hv. 3. þm. Vesturl., Halldóri E. Sigurðssyni, við 5. gr.

Ég vil fyrst minnast á brtt. hv. 3. þm. Vesturl., Halldórs E. Sigurðssonar, sem er á þskj. 85. Hann leggur til, að 2. málsgr. 5. gr. hljóði þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Fuglaveiðar á afréttum utan landareigna lögbýla eru háðar leyfum sveitarstjórna eða upprekstrarfélaga, sem afréttirnar eiga eða nota.“

Ekki treysti meiri hl. menntmn. sér til þess að mæla með samþykkt þessarar brtt., og hygg ég, að aðeins einn nm. hafi stutt hana. En út af þessu máli, sem er miklu viðtækara og alvarlegra en ætla mætti í fyrstu, vil ég benda á örfá atriði.

Í fyrsta lagi mun hafa gengið hæstaréttardómur um veiðirétt á afrétti viðkomandi sveitarfélagi í hag, og telja ýmsir hugsanlegt, að sá dómur geti þýtt það, að sveitarstjórnir hafi rétt til þess að ráðstafa fuglaveiðum á sama hátt. Hins vegar hef ég rætt þetta mál örlítið við rektor háskólans, sem hefur áður um það fjallað í sambandi við fuglaveiðar og fuglafriðun. Hann hefur tjáð mér, að réttarstaða lands, sem er ofan byggða á Íslandi, sé óljós. Telur hann brýna nauðsyn til þess að fá færa menn til að kanna, hver réttindi og réttarstaða, þ. á m. eignarréttur og yfirráðaréttur, sé á afréttum og löndum fyrir ofan afrétt. Mér virðist því, að það væri mjög óhyggilegt að samþykkja einstök ákvæði, eins og nú er lagt til um almenn ákvæði um veiðirétt, heldur sé óhjákvæmilegt, að Alþ. eða ríkisstj. hafi frumkvæðið um að láta í fyrsta lagi fara fram þá rannsókn, sem okkur er bent á að þörf sé á, til þess að fá skoðanir fróðustu manna um það, hvernig þessum málum sé raunverulega háttað í dag. Og þegar sú rannsókn liggur fyrir, væri eðlilegt, að Alþ. tæki ákvarðanir um það, hvernig það vill haga eignar- og yfirráðarétti þessa lands. Þetta mál er að vissu leyti á tímamótum nú. Enn er þetta land ekki komið í svo mikið verð, að þingið geti ekki gert þær ráðstafanir, sem því kann að sýnast, en hins vegar er nú augljós sú þróun, að hér á landi vex upp hröðum skrefum þéttbýli, og á ég þá bæði við minnstu kauptún og stærri kaupstaði, allt upp í höfuðborgina. Um leið og fólkið safnast saman í slíkar byggðir, verður að hugsa fyrir því, að einhvers staðar séu opin lönd. Þó að það kunni að sýnast við fyrstu sýn, að ærið nóg sé af þeim á Íslandi, getur eignarog yfirráðaréttur, sem verður til að þrengja smám saman afnot landanna, allan veiðirétt, síðan umferðarrétt, orðið til þess að þrengja mjög að mönnum. Á sama hátt má segja, að um leið og fólkinu fjölgar og farartækjunum fjölgar, séu vaxandi líkur á því, að menn fari inn á óbyggðir, og þar getur skapazt umferð um verðmætustu lönd, eins og afrétti, sem gæti valdið tjóni, og verður þá ekki síður að hugsa fyrir því, að hægt sé að halda uppi eðlilegri vernd frá því sjónarmiði.

Að öllu þessu samanteknu tel ég, að það væri mjög óhyggilegt að setja ákveðið lagaákvæði, eins og lagt er til með till. hv. 3. þm. Vesturl., og ég mundi telja það vel að verið, ef hann fengist til þess í samráði við aðra að draga hana til baka. Ef hann vill ekki gera það, treysti ég mér ekki til að mæla með samþykkt hennar. Ég vil láta eindregið í ljós þá von, að þetta mál verði til þess, að sú rannsókn, sem háskólarektor bendir á, verði látin fara fram, áður en langt liður. Meiri hl. menntmn. hefur þó viljað ganga örlítið til móts við þessi sjónarmið með 1. brtt. á þskj. 107, þar sem segir, að á sama hátt og segir í viðkomandi gr., megi auka friðun einstakra fuglategunda og takmarka slík ákvæði við tiltekin svæði. Með þessu er beinlínis opnaður möguleiki til þess, að það sé hægt að friða einstakar fuglategundir á takmörkuðum svæðum, ef sérstök hætta stafar af, og hafa menn t.d. í huga heiðargæsina, sem bent hefur verið á, að ef til vill kunni að þurfa að veita einhverja vernd, aðallega í Þjórsárverum.

Hitt deilumálið, sem mikið var um talað hér, var varðandi uppsetningu á örnum, fálkum og snæuglum. og lagði forsrh. til, að síðari málsliðurinn í 26. gr. félli niður. Þótti honum það ósamræmi, að ekki mætti setja upp hami af örnum, fálkum, eða snæuglu, jafnvel þótt fugls hefði verið löglega aflað.

N. hefur enn rætt þetta við sérfræðinga náttúrufræðistofnunarinnar, og þeir benda á, að af þessum þremur fuglategundum sé svo lítið í landinu, að það verði að halda uppi allróttækum aðgerðum til þess að vernda þá. Þeir telja, að það sé ómögulegt að ganga úr skugga um það í hverju tilviki, hvort maður hafi komizt yfir þessa fugla á löglegan hátt eða ekki. Auðvitað þykjast allir hafa fundið þá á förnum vegi, þegar þeir koma með haminn og vilja láta setja. hann upp. Dæmi eru til þess, að menn komu með vitni að því, að þeir hefðu fundið fálka á förnum vegi, en þegar náttúrufræðingurinn tók fuglinn í sundur, þá var fullt af skotum inni í honum.

Þó að við lítum svo á, að sá, sem með fugl kemur, eigi að sanna, að hann hafi fengið hann á löglegan hátt, er það talið of umsvifamikið að þurfa að láta fara fram málaferli um hvern fugl. Meiri hl. n. hefur því viljað hafa þessi ákvæði ljósari og banna það ótvírætt að setja upp hami af örnum, fálkum og snæuglum nema í þágu opinberra almenningssafna íslenzkra, og er það byggt á frekari íhugun málsins og viðræðum við þá menn, sem fróðastir eru um þessi mál, og sé ekki raunverulega hægt að friða þessa fugla á annan hátt.

Meiri hl. menntmn. mælir því með samþykkt á þeim tveim till., sem eru á þskj. 107, og telur, að með þeim sé á vissan hátt, og þó ekki algerlega, gengið til móts við hinar tvær brtt., sem nefndarmeirihlutinn hefur ekki treyst sér til þess að samþykkja.