02.12.1965
Sameinað þing: 15. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 206 í B-deild Alþingistíðinda. (61)

1. mál, fjárlög 1966

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Það er margt á þeim 22 greinum fjárlfrv., sem ástæða væri til að gera að umtalsefni, margt fleira en búið er að minnast á við þessa umr. En þar sem nú er liðið langt á nótt fram, ætla ég aðeins að segja fáein orð um einn lið á einni grein fjárlagafrv., og það er stafl. D á 16. gr. frv. Þar eru framlög til raforkumála. Samkv. fjárl. 1965 var framlag úr ríkissjóði til rafmagnsveitna ríkisins 39.2 millj. kr. Í fjárlagafrv., sem hér liggur fyrir, fyrir næsta ár, er þessi fjárveiting felld niður að öllu leyti. Boðað er, að raforkuverðið, sem notendur borga, verði hækkað sem þessu nemur. Þessu vil ég leyfa mér að mótmæla. Mér þykir einnig trúlegt, að þetta verði til að auka enn mismuninn á raforkuverðinu, en hann er nú þegar mjög mikill.

Þegar frv. um landsvirkjun lá hér fyrir síðasta þingi, fengu fjhn. þingdeildanna þær upplýsingar, að heildsöluverð á rafmagni frá rafmagnsveitum ríkisins utan Sogsvirkjunarsvæðisins mundi vera um 30% hærra en heildsöluverðið frá Sogsvirkjuninni, sem ríkið átti að hálfu leyti, og þá var einnig gizkað á af rafmagnsveitustjóra ríkisins, að söluverð á rafmagni frá héraðsrafmagnsveitum ríkisins væri um það bíl 40–50% hærra en verðið hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur. Ég tel, að það sé ósæmilegt af ríkinu, sem er stærsti raforkuframleiðandi og raforkusali landsins, að gera svo herfilega upp á milli manna, þegar raforkuverðið er ákveðið, selja sumum svo langtum dýrara verði heldur en öðrum, og þessi mismunur þarf að hverfa. En í staðinn fyrir að draga úr honum eða afnema hann, þykir mér allt benda til þess, að hann aukist enn við þessa nýju hækkun, sem boðuð er á rafmagnsverðinu.

Í fjárl. ársins 1965 voru veittar 14¼ úr millj. til raforkusjóðs. Það er sama upphæð og nú er á fjárlagafrv. fyrir næsta ár. Það má geta þess til samanburðar, að fyrir 8–9 árum, þ.e.a.s. fyrir daga núv. ríkisstj., voru eitt árið veittar 17 millj. til sjóðsins eða um það bil 20% hærra að krónutölu. Þá voru krónurnar bara langtum verðmeiri en þær eru núna. Til nýrra raforkuframkvæmda var veitt á fjárl. 1965 27 millj., en líklega hefur stjórnin lækkað þetta um 20%. Á fjárlagafrv. nú er aðeins 21.6 millj., og nú er liðurinn nefndur til rafvæðingar í sveitum. Þessi D-liður 16. gr., þar sem færð eru framlög til raforkumála, er nú á fjárlagafrv. alls 45 millj. 150 þús. Það er um 1.2% af heildarútgjöldum ríkisins samkv. fjárlagafrv. Á fjárl. 1958 var þessi liður 30 millj. 345 þús. kr., en það voru 3.7% af heildarútgjöldum fjárl., — 1.2% nú, 3.7% 1958.

Á nokkrum síðustu þingum höfum við framsóknarmenn flutt till. um áætlanir um áframhaldandi framkvæmdir við rafvæðingu landsins og ákvarðanir um framkvæmdirnar. Meiri hl. þingsins, hæstv. ríkisstj. og hennar lið, hefur ekki mátt heyra það nefnt, að þeim, sem enn eru án rafmagnsins, verði veitt vitneskja um það, hvenær bætt verði úr þörfum þeirra í þessu efni. Þetta tel ég mjög ámælisvert. Þeir, sem enn eru án rafmagnsins, bíða með óþreyju eftir því að fá það og þeir vilja fá að vita, sem eðlilegt er, og eiga heimtingu á að fá að vita, hvað á að gera í þessu lífshagsmunamáli þeirra og hvenær þeir megi búast við því, að úr þörfum þeirra verði bætt.

Á miðju ári 1964 hafði þó raforkumálaskrifstofan gert áætlun um rafveitur um sveitahéruð, þar sem meðallínulengd milli býla er 1–2 km. Var sú áætlun um raflínur til 774 sveitabýla eftir árslok 1965 og við það miðað, að það verk yrði unnið á næstu 5 árum, árunum 1966–1970. Þótti mönnum sem áttu þess kost að sjá þessa áætlun, að lítil áherzla væri lögð á að hraða verkinu, þar sem ekki var ráðgert að leggja rafmagn nema til 155 býla að meðaltali á ári á þessu tímabili. Til samanburðar má nefna, að á árunum 1954–1957 var tala rafvæddra býla á 3. hundrað hvert ár, hæst 1957. Þá var lagt rafmagn á 262 sveitabýli. En þó að svona skammt væri gengið í áætlun raforkumálaskrifstofunnar í fyrra, þótti meiri hl. raforkuráðs allt of langt gengið, en í þeim meiri hl. eru tveir af hæstv. ráðh. Sjálfstfl. í núv. ríkisstj. Og sá meiri hl. hefur fleygt þessari áætlun í pappírskörfuna. Hann neitar enn sem komið er að samþykkja nokkra áætlun eða ákvörðun um að ljúka því nauðsynjaverki að koma rafmagni inn á öll heimili landsins. Fyrir fáum dögum var samþykkt í raforkuráði áætlun um framkvæmdir á næsta ári, 1966, en þar við látið sitja, ekkert ákveðið um framhaldið, eftir að bað ár er liðið. Og svo vesaldarlegir voru þeir í meiri hl. raforkuráðs, að þeir sáu sér ekki fært að samþykkja að leggja á næsta ári raflínur til allra þeirra heimila, sem tekin voru á áðurnefnda áætlun raforkumálaskrifstofunnar fyrir það ár, heldur drógu þeir ein 20% þar frá. Þegar á þetta er lítið og jafnframt hitt, að þó að lokið verði að leggja rafmagn til þeirra 774 býla, sem voru á áætlun raforkumálaskrifstofunnar 1964 vantar enn rafmagn á mjög mörg sveitabýli, þá má ljóst vera, að með þeim seinagangi, sem stjórnarflokkarnir virðast ætla að hafa á raforkuframkvæmdunum, mun dragast alveg óhæfilega lengi að koma rafmagninu til allra landsmanna.

Við framsóknarmenn höfum flutt frv. á þessu þingi um að leggja rafmagn á næstu þremur árum til þeirra sveitaheimila, þar sem meðallínulengd milli býla er allt að 2 km. Og við höfum sýnt fram á, að þetta er vel framkvæmanlegt. Hér skortir aðeins vilja þeirra, sem með völdin fara. Og fyrir áhugaleysið í þessu þýðingarmikla máli eru þeir ásökunarverðir.