09.12.1965
Efri deild: 25. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 785 í B-deild Alþingistíðinda. (614)

11. mál, fuglaveiðar og fuglafriðun

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Frv. þetta er komið frá hv. Nd, og var samþ. þar að gerðum nokkrum smávægilegum breyt., sem ég skal nefna stuttlega hér á eftir. Samning þessa frv. og flutningur þess á sér í stuttu máli þessa sögu:

Árið 1948 gerðist Ísland aðili að alþjóðaráði um fuglavernd. Þá var komið á fót n. til þess að koma fram fyrir Íslands hönd í þessum samtökum, og hefur hún verið nefnd fuglafriðunarnefnd. Í henni eiga nú sæti þeir dr. Finnur Guðmundsson náttúrufræðingur, sem er form. n., Kristinn Stefánsson prófessor, Þorbjörn Jóhannesson kaupmaður og Þorsteinn Einarsson íþróttafulltrúi. 1954 voru síðan felld saman í eina heild ýmis sundurleit ákvæði í íslenzkum lögum um rétt til fuglaveiða, friðun fugla og veiðitíma, svo og ákvæðið um fuglaveiðisamþykktir. Er hér um að ræða gildandi lög um þessi efni nr. 63 frá 1954, um fuglaveiðar og fuglafriðun, sem þessu frv. er ætlað að koma í staðinn fyrir. Í gildandi lögum voru á sínum tíma ýmis nýmæli, svo sem ákvæði um stjórn fuglafriðunar- og fuglaveiðimála, ákvæði um veiðitæki og veiðiaðferðir, inn- og útflutta fugla, kaup og sölu þeirra og fleiri atriði. Var á sínum tíma leitazt við, að þessi lagasetning væri að efni til í sem nánustu samræmi við alþjóðasamþykkt um verndun fugla, sem gerð hafði verið í París 1950. Þessi núgildandi lög tóku gildi í ársbyrjun 1955, og ári síðar, eða í jan. 1956, fullgilti ríkisstj. fyrrnefnda alþjóðasamþykkt um verndun fugla.

En síðar kom í ljós, að óhjákvæmilegt virtist, að heimildir væru til þess í lögum að leyfa veiði sumra fugla á friðunartíma þeirra, þar eð þeir kunna að valda tilfinnanlegu tjóni á nytjum eða hindra viðkomu og aukningu fuglategunda, sem æskilegt er að viðhalda og fjölga. En þar sem þá var enn fremur ljóst, að nauðsynlegt væri, að fram færu rannsóknir á veigamiklum þætti þessara mála almennt, varð það að ráði að fresta endurskoðun þessara fuglafriðunarlaga, unz þeim rannsóknum væri lokið. Þess vegna var niðurstöðu beirra rannsókna beðið, en þær voru m.a. gerðar í samráði við brezka eða skozka sérfræðinga í þessum málum. Þegar skýrslur um þessar athuganir lágu fyrir. skipaði menntmrn. nefnd til að endurskoða fuglafriðunarlögin frá árinu 1955. Í n. áttu sæti þeir dr. Finnur Guðmundsson, form., Kristinn Stefánsson prófessor, Þorbjörn Jóhannesson kaupmaður og Þorsteinn Einarsson íþróttafulltrúi. og hefur þessi nefnd samið það frv., sem hér er nú flutt.

Ég skal fara fáeinum orðum um helztu nýmælin. sem í þessu frv. fólust, áður en Nd. gerði vissar breytingar á atriðum, sem ég skal nefna hér á. eftir.

Í 17. gr. er það nýmæli, að heimild er þar til að veita undanþágu frá friðunarákvæðum, þegar um er að ræða tegundir. sem valdi verulegu tjóni á nytjum, en reynslan er talin hafa sýnt. að brýna nauðsyn beri til þess. að slík heimild sé í l. um fuglaveiðar og fuglafriðun. Er kvaðið svo á, að hægt sé að veita einstökum handhöfum fuglaveiðiréttinda tímabundin leyfi til veiði slíkra fugla, á hvaða tíma árs sem er, en þó er gert ráð fyrir, að þessi undanþáguheimild taki ekki til sjaldgæfra tegunda, svo sem arnar, fálka og snæuglu. Sérákvæði voru í frv. um grágæsir. og miða þau að því að gera leyfisveitingar einfaldari að því er þessa tegund snertir. Í greininni eru ákvæði um heimild um töku grágæsareggja, án þess að leyfi komi til. En skv. lögunum frá 1955 voru grágæsir alfriðaðar, frá því, að bær komu á vorin og þangað til 19. ágúst. Þetta hafði valdið mikilli óánægju hjá bændum í sumum héruðum landsins, sem orðið höfðu fyrir búsifjum af þeirra völdum. Í frv., eins og það var flutt, var gert ráð fyrir því, að bændur gætu fengið leyfi til þess að veiða grágæsir á hvaða tíma árs sem er, svo framarlega sem þær valda tilfinnanlegu tjóni á nytjagróðri. Í 27. gr. frv. er ákvæði um, að óheimilt skuli vera að brenna sinu eftir 1. maí ár hvert. Hefur það farið í vöxt á síðari árum, að sina sé brennd á vorin, og er ekki óalgengt, að þetta sé gert í maímánuði og jafnvel í fyrri hluta júnímánaðar. Þetta er talið með öllu óviðunandi, því að þá eru fuglar almennt komnir í varpstöðvarnar og margir farnir að verpa. Afleiðing af þessu verður sú, að hreiðrum og eggjum margra fugla er eytt í eldi, en til að koma í veg fyrir slíkt. er vart um annað að ræða en banna sinubruna eftir 1. maí ár hvert, en það eru þau tímamörk. sem eðlilegast er talið að miða við, og er gert ráð fyrir því í frv.

Nd. gerði nokkrar breytingar á frv., fyrst og fremst á 25. gr. og 28. gr., en nú er gert ráð fyrir því, að 25. gr. hljóði svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Eigi má nota eitur til að tortíma fuglum. Að fengnum till. fuglafriðunarnefndar getur rn. með reglugerð veitt undanþágu frá ákvæði þessarar gr. að því er varðar notkun eiturs eða svæfandi lyfja í sambandi við eyðingu tiltekinna tegunda, svo sem svartbaks, hrafns og kjóa.“ Gert hafði verið ráð fyrir því, að bannað væri að greiða verðlaun fyrir eyðingu svartbaks.

28. gr. hljóðaði svo: „Mynda- og kvikmyndatökur af örnum, fálkum, snæuglum og haftyrðlum við hreiður þeirra skulu óheimilar, nema með leyfi ráðuneytisins, að fenginni umsögn fuglafriðunarnefndar.“ Þar var fellt niður það ákvæði, að myndatökur skuli óheimilar, nema leyfi menntmrn. komi til.

Þá er 36. gr. frv. breytt þannig, að í frv. stóð, að beim. sem starfa að því að taka hami af fuglum eða setja þá upp, sé óheimilt að inna þau störf af höndum, nema fuglanna hafi verið aflað á löglegan hátt. „Þeim skal og óheimilt að setja upp eða taka hami af örnum, fálkum og snæuglum, jafnvel þótt þeirra hafi verið löglega aflað, nema í þágu opinberra almenningssafna íslenzkra.“ Felld eru niður ákvæðin í seinni hluta þessarar greinar, þar sem bannað er að setja upp hami af örnum, fálkum og snæuglum, þó að þeirra hafi verið löglega aflað.

Þá var sú breyting gerð á 44. gr., að gert hafði verið ráð fyrir því í frv. að fella úr gildi lög, sem sett voru á s.l. vori um eyðingu svartbaks, þar sem settar voru sérstakar reglur um eyðingu svartbaks. Þetta ákvæði um, að niður skuli felld gildandi lög um eyðingu svartbaks. var fellt niður úr frv. í Nd., og er þar kannske um að ræða eina mikilsverðustu breytinguna. sem Nd. gerði á frv. Það kemur þannig frá Nd. og er flutt þannig hér, að lögin um eyðingu svartbaks frá því á s.l. vori eru látin halda sér, þannig að við þeim er ekki hróflað.

Að svo mæltu leyfi ég mér, herra forseti, að óska þess, að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. menntmn.