15.03.1966
Efri deild: 50. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 788 í B-deild Alþingistíðinda. (616)

11. mál, fuglaveiðar og fuglafriðun

Frsm. (Bjartmar Guðmundsson):

Herra forseti. Frv. þetta um fuglafriðun og fuglaveiðar var lagt fram í Nd. í byrjun þings í haust. Það er samið af mþn., sem skipuð var 1959 af menntmrh., og hefur n. því haft alllangan tíma til undirbúnings þessu frv., en hlutverk n. var að endurskoða lög um fuglafriðun og fuglaveiðar frá 1954. Sú n., sem undirbúið hefur þetta frv., er svonefnd fuglafriðunarnefnd, en í henni eiga sæti dr. Finnur Guðmundsson, sem mun vera formaður n., Kristinn Stefánsson prófessor, Þorbjörn Jóhannesson formaður Dýraverndunarfélags Íslands og Þorsteinn Einarsson íþróttafulltrúi. Þar sem alllangt er um liðið síðan þetta frv. var til umr. hér í þessari hv. d., tel ég rétt að rifja aðeins upp helztu atriði, sem horfa til breytinga við eldri ákvæði um fuglafriðun og fuglaveiðar.

Í 7. gr. frv. eru nokkrar orðalagsbreytingar. en efnisbreyting er einkum sú, að starfssvið fuglafriðunarnefndar er nokkuð aukið og henni ætluð þóknun fyrir störf sin.

8. gr. kveður á um friðunartíma einstakra fuglategunda, og eru þar gerðar nokkrar tilfærslur á nú, sem ég tel, að séu til bóta. Þá er þremur tegundum bætt í hóp fugla, sem eru alfriðaðir. Það er hrafnsönd, flórgoði og margæs. Ég tel þetta vel farið, því að þetta eru fuglategundir, sem mjög fátt er af og fer fækkandi og nauðsynlegt að vernda meira en hefur verið gert hingað til. Hins vegar er tveimur fuglategundum bætt við þann hóp, sem er ófriðaður. Það eru tegundir, sem náttúrufræðingar telja, að hafi fjölgað um of og geri allmikinn skaða í öðru fuglalífi. Það er sílamáfur og silfurmáfur.

10. gr. fjallar um eggjatöku, og eru þar nokkrar breytingar frá fyrri ákvæðum, sem miða að því að alfriða egg, þar sem á annað borð er leyfð eggjataka, alfriða egg tveggja tegunda, þ.e. skutulandar og straumandar. Straumöndin er að verða mjög fáséð hér í landi, en skutulöndin nýr innflytjandi og mjög eðlilegt að hlúa að þessum tegundum báðum.

Í 11. gr. frv. eru alveg ný ákvæði, og það er ein helzta breytingin, sem er borin fram í þessu frv. Þar er gert ráð fyrir því, að leyfa megi að veiða tilteknar tegundir, sem gera skaða, annaðhvort á öðru fuglalifi eða þó einkum á nytjagróðri landsins. Lýtur þetta einkanlega að grágæs, sem nú er gert ráð fyrir að leyfa að skjóta á friðunartíma, þar sem hún hefur valdið usla í túnum, kornökrum eða kartöflugörðum, og þessu verður þannig fyrir komið, að veita á tímabundin leyfi til að skjóta þessa fugla í þeim tilgangi að halda þeim frá þessum gróðurlöndum. Ég tel, að þó að allar slíkar undanþágur séu mjög varhugaverðar, sé þó rétt undir þessum kringumstæðum að veita þessar tímabundnu veiðiheimildir, og mæli því með því, og það er sökum þess, að það er vitað, að það er mjög erfitt að verja sum gróðurlönd fyrir þessum fugli, sem mun nú vera orðið fleira af en áður var. og að mínu áliti eina leiðin að verja nytjagróður fyrir grágæsum sú að leyfa að skjóta á þær og einnig að haga ræktun þannig, að auðveldara sé að verja gróðurlöndin, og enn fremur eru ýmis ráð, að því er snertir hræður og ýmsar tilfæringar, sem þekktar eru og gefa allgóða raun í nágrannalöndum okkar.

12. gr. kemur í stað 11. gr. gildandi laga og felur í sér nokkrar breytingar og fjallar um söfnun fugla og eggja, og eru þar nokkrar lagfæringar frá því, sem verið hefur, og er svipað að segja um 13. gr.

III. kafli frv. fjallar um fuglaveiðasamþykktir, og eru þar þau nýmæli í nú, að gert er ráð fyrir, að ekki verði leyfðar fuglaveiðar á snöruflekum, sem hingað til hafa verið leyfðar samkv. fuglaveiðasamþykktum á tveimur stöðum hér við land. Þessi ákvæði eru, eins og ég sagði, ný nú, en voru raunar til umr., þegar fuglaveiða1ögin voru afgreidd 1954 og þá lagt til, að þessar veiðar væru bannaðar, en Alþ. tók inn heimild um þetta þá. Ég tel, að ekki sé hægt að mæla með þessari veiðiaðferð vegna þeirrar reynslu. sem fengin er af snöruflekaveiði hér við land, enda alls staðar aflögð nú nema á tveimur stöðum, eins og ég sagði, og notuð þó mjög lítið.

Í 24. gr. eru nýmæli, sem eru hliðstæð þeim, sem 11. gr. fjallar um, og þar er gert ráð fyrir því, að leyfa megi að veiða grágæsir í sárum með því að reka þær í kvíar. Það er að mínu áliti mjög gagnslítið, ef ekki gagnslaust, að því er það snertir að verja gróðurland, að leyfa þessa veiðiaðferð, sem er mjög óaðgengileg, en þó hefur ekki orðið samkomulag í menntmn. að leggja til, að þessi grein verði felld niður, en ég fyrir mitt leyti get ekki stutt þessa grein og mun ekki veita henni brautargengi við atkvgr., en hins vegar hafa nm. allir óbundnar hendur um það.

Á 25. gr. var veigamikil breyting frá því, sem áður hefur gilt um veiðar, einkum er að því lýtur að fækka svartbak, og þar var enda lagt til, að lög, sem afgreidd voru á síðasta þingi, yrðu felld niður. En þar sem Nd. felldi þessar breytingar niður, sé ég ekki ástæðu til að ræða það hér, enda hefur ekki komið fram nein rödd í hv. menntmn. hér að taka aftur upp þau fyrri ákvæði, sem voru í frv., eins og nefndin gekk frá því.

Þá vil ég geta þess, að menntmn. hefur flutt 3 brtt. við frv., sem fyrir liggja hér á sérstöku þskj. Það er í fyrsta lagi við 8. gr., að þar er lagt til, að einn fugl verði nú alfriðaður. Það er gulönd eða stóra toppönd öðru nafni, sem er orðin ákaflega fágæt alls staðar. þar sem ég hef til spurt, og einnig hef ég leitað mér upplýsinga um það hjá dr. Finni Guðmundssyni og hann telur það rétt, að hún sé að verða ískyggilega sjaldgæf, og mun hann persónulega og ég hygg öll fuglafriðunarnefnd á einu máli um það, að rétt sé að alfriða nú þennan fugl. En hann er mjög eftirsóttur að skjóta hann vegna þess, hversu hann er tígulegur og fagur, og til að hafa hann á söfnum.

Þá er lagt til, að 27. gr. falli niður, en hún fjallar um sinubrennur, en hér á Alþ. voru afgreidd lög um þetta efni í vetur, svo að gr. er óþörf, enda hníga þau lög, sem sett voru, mjög í sömu átt og lagt er til í þessu frv. Þó eru undanþáguákvæði í l. um það, að sinu megi brenna allt að því hálfum mánuði síðar á vori norðanlands, þegar seint vorar, heldur en lagt hafði verið til í þessu frv.

Þá er enn brtt. við 28. gr., en henni hafði verið breytt í Nd., en menntmn. Ed. hefur talið rétt að breyta henni frá því, sem hún er þar, og leggur til, að gr. orðist á þá leið, að tekið sé upp í hana ákvæði, sem stuðli að því að vernda hreiður fyrir truflunum og ágangi, en engin ákvæði eru til um þetta í eldri lögum og ekki heldur í frv. n. Enn fremur er lagt til, að tekið verði upp í gr. ákvæði um það, að sett skuli sérákvæði í reglugerð um, hvernig umgangast megi hreiður og fugla við hreiður, sem eru mjög sjaldgæfir, svo sem ernir, fálkar, snæuglur og haftyrðlar, vegna þess að það eru mörg dæmi um það, að menn, sem hafa farið um landið til þess að mynda þessa fugla, hafa orðið að liggja svo lengi yfir hreiðrunum, að eggin hafa orðið köld eða ungarnir jafnvel drepizt eða fuglinn yfirgefið hreiðrið. En þess ber að geta, að í brtt. við þetta, sem prentuð er hér á þskj., hefur orðið ein prentvilla, en mgr. hljóðar svona, með leyfi forseta:

„Um mynda- og kvikmyndatökur af örnum, fálkum, snæuglum og haftyrðlum við hreiðurgerð þeirra“ o.s.frv. — orðið hreiðurgerð hefur komið hér inn í prentuninni, en á að vera: „við hreiður þeirra skulu sett sérákvæði í reglugerð.“

Ég sé ekki ástæðu til að flytja brtt. við þetta, en vil geta um þetta hér við umr., svo að það verði lagfært í prentun. Að öðru leyti er menntmn. samþykk þeim breyt., sem hv. Nd. gerði við þetta frv., þegar málið var þar til umr.

Að svo mæltu legg ég til, að frv. þetta verði samþ. með þeim breytingum, sem ég hef hér gert grein fyrir.