28.03.1966
Neðri deild: 60. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 828 í B-deild Alþingistíðinda. (685)

135. mál, mat á sláturafurðum

Frsm. (Gunnar Gíslason):

Herra forseti. Landbn. þessarar hv. d. hefur haft til afgreiðslu frv. til l. um meðferð, skoðun og mat á sláturafurðum. Á einum fundi n. mættu þeir yfirdýralæknir og kjötmatsformaður, og ræddi n. við þá um frv., og kom það fram í þeim umr., að mikilla umbóta er þörf í sláturhúsunum og í starfrækslu þeirra.

Með þessu frv., ef að lögum verður, er gert ráð fyrir, að numin verði úr gildi lög nr. 5 frá 1949, um kjötmat o.fl. Flest ákvæði þeirra l. eru tekin upp í þetta frv., flest óbreytt, nokkrum er þó breytt og ný ákvæði tekin upp í frv., svo sem rakið var hér við 1. umr. málsins.

Í 2. gr. l. um kjötmat o.fl. er ráðh. heimilað að leyfa til eins árs í senn slátrun í sláturhúsum, sem ekki hafa fengið löggildingu, ef brýn nauðsyn krefur, eins og það er orðað í l., en jafnframt er tekið fram í þessari sömu gr. l., að unnið skuli að því sem fyrst, að slátrað verði ekki í öðrum húsum en þeim, sem hafa fengið löggildingu. Nú eru 17 ár liðin, síðan þessi lög voru sett, en enn þá er það samt svo, að í allmörgum húsum í landinu er slátrað án þess, að þau hafi fengið löggildingu, vegna þess að eigendur þeirra hafa ekki gert þær endurbætur á húsunum, að þau hafi fengið löggildingu, og hafa þeir þó á hverju ári fengið áminningu um að ráða hér bót á. Í frv. er nú lagt til, að þessi undanþáguheimild verði ekki veitt lengur en í tvö ár eftir gildistöku l. og eftir þann tíma verði ekki leyft að starfrækja nokkur sláturhús í landinu nema þau, sem hafa fengið löggildingu. Landbn. flytur að vísu brtt. við þetta ákvæði í frv., en landbn. viðurkennir þetta sjónarmið sem rétt. Við vitum, að kröfur um meðferð sláturafurða fara stöðugt vaxandi, og það hlýtur að vera sameiginlegt áhugamál bæði framleiðenda og neytenda, að öll meðferð á þessum þýðingarmiklu matvælum, sláturafurðunum, sé eins vönduð og kostur er á. Framleiðendur vilja að sjálfsögðu fá sem hæst verð fyrir vöru sína. Það er eðlilegt sjónarmið, en þeir geta ekki búizt við því að fá það verð fyrir vöru sína, nema þeir vandi hana, að varan sé góð vara og hún flokkist vel, og neytendur eiga vissulega rétt á því, bæði neytendur innanlands ekki síður en þeir, sem kaupa þessa vöru okkar erlendis, og við vonum allir, að hún verði keypt þar í æ ríkara mæli, — þeir eiga vissulega rétt á því, að meðferð á kjötinu og sláturafurðunum sé vönduð, svo sem framast má verða, og reynt verði að fullnægja þeim hreinlætis- og heilbrigðiskröfum, sem nútíminn gerir í þessum efnum.

Brtt. n. eru fjórar, og þær er að finna í nál. á þskj. 374. Það er í fyrsta lagi, að við leggjum til, að undanþáguheimildin verði í 3 ár, en ekki í 2, veitt til eins árs í senn. Það má að vísu segja, að þarna sé slakað á ákvæðum frv., en hitt er alveg ljóst, að það er svo mikið verk að koma ýmsum sláturhúsum í viðunandi horf, og það er svo kostnaðarsamt, að það mun ekki af veita, að þriggja ára tími sé gefinn til þess.

Það er skoðun margra, að það eigi að fækka sláturhúsum í landinu. Það er t.d. eindregin skoðun yfirdýralæknis. Það má vel vera, að þetta sé rétt. En hitt er þó ljóst, að verði farið út í það að fækka mjög sláturhúsunum, hlýtur í flestum tilfellum að eiga að stækka þau húsin, sem áfram eiga að starfa, og gera á þeim margs konar endurbætur. Þess vegna hygg ég, að þeim veiti ekki af þessum þriggja ára tíma til þess.

Við vitum, að bændur leggja mikla áherzlu á, að slátrunin geti gengið greiðlega, og þess vegna hygg ég, að það verði mjög skiptar skoðanir um, hvort það eigi að fækka sláturhúsunum a.m.k. verður þá að gera þau, sem eiga að starfa áfram, þannig úr garði, að þau geti orðið við óskum bænda um það, að slátrun dilkanna geti gengið sem greiðlegast að haustinu. Við vitum, að þegar slátrunin dregst allt fram yfir veturnætur, hlýtur það að leiða til þess, að bændur verða fyrir miklu afurðatjóni, ég vil segja öll haust, þó ekki sízt þegar haustveðrátta er ill.

Við 3. gr. frv. er einnig brtt. frá n. Frv. gerir ráð fyrir því, að atvmrn. löggildi húsin, og við leggjum til, að þeir, sem hyggjast byggja ný sláturhús eða ætla að ráðast í meiri háttar endurbætur á hinum eldri húsum, eigi að senda rn. teikningar af húsunum eða lýsingar á þeim endurbótum, sem þeir hyggjast gera, og fá samþykki rn. fyrir teikningunum og breytingunum, en leita skal þó umsagnar yfirdýralæknis eða héraðsdýralæknis um þessi atriði.

Við leggjum einnig til, að við 4. gr. komi viðauki um það, að héraðslæknum sé gert að framkvæma skoðun á sláturhúsum það tímanlega fyrir sláturtíð, að eigendum sláturhúsanna gefist nægur frestur til þess að framkvæma þær endurbætur á húsunum, sem skoðunin gerir ráð fyrir að þurfi að gera.

Að lokum er svo smávægileg brtt. við 9. gr. Við leggjum til. að síðasti málsl. 1. málsgr. falli niður, en í frv. stendur: „Kjötmatsformaður skal hafa aðsetur í Reykjavík.“ Nefndin sá ekki beint ástæðu til þess, að það væri ákvæði í lögunum, að kjötmatsformaður ætti heima hér í höfuðborginni. Hann mun að líkindum oftast eiga aðsetur í Reykjavík, því að hér er stærstur kjötmarkaðurinn, og hann þarf að hafa samvinnu og samráð við framleiðsluráðið, en hann þarf ekki endilega að eiga heima hér í höfuðborginni, hann gæti átt heima einhvers staðar í nágrenninu, og okkur fannst ekki ástæða til þess, að það væri tekið fram í l., að hann sæti hér.

Fleiri brtt. gerum við ekki við frv. Við teljum, að hér sé um mikið nauðsynjamál að ræða, að koma þessum málum í miklu betra horf en þau eru hjá okkur. Það er hreint og beint menningarlegt atriði, að við gerum það, og getur að sjálfsögðu mjög haft áhrif á það, hvort okkur tekst, eins og við vonum, að selja dilkakjötið okkar í æ ríkara mæli út úr landinu.

Landbn. er sem sagt sammála um að mæla með samþykkt frv. með þessum breytingum, sem ég hef rakið.