31.03.1966
Efri deild: 58. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 832 í B-deild Alþingistíðinda. (695)

135. mál, mat á sláturafurðum

Helgi Bergs:

Herra forseti. Það eru aðeins nokkur orð. Ég þarf ekki að segja mikið, vegna þess að ég er þeim breytingum, sem gert er ráð fyrir í þessu frv., samþykkur og tel. að frv. sé til mikilla bóta. En það voru örfá atriði, sem ég ýmist vildi óska skýringa hæstv. ráðh. á eða beina til n. að skoða.

Í 2. gr. segir, að sláturfénaði, sem slátra á í því augnamiði að flytja kjötið nýtt, kælt, fryst, saltað eða á annan hátt verkað á erlendan markað eða til sölu og neyzlu innanlands, skuli slátrað í löggiltum sláturhúsum og kæling og frysting kjötsins fara fram í löggiltum frystihúsum.

Hér hefur verið skotið inn í núgildandi ákvæði orðinu „kæling“, kæling skuli fara fram í löggiltum frystihúsum. Það skýtur dálítið skökku við, vegna þess að nú er víðast hvar hætt að kæla kjötið í frystihúsum, heldur farið að setja það beint í frysti, og það hefur verið gert með meðmælum kjötmatsins að láta kælingu kjötsins fara fram í upphengjum sláturhúsanna og láta það síðan fara beint í frysti. Þessi breyting, sem hér er gerð, að skjóta þessu orði inn í, vildi ég gjarnan vita, ef hæstv. ráðh. hefur þær upplýsingar á takteinum, hvort það tákni nokkra afstöðubreytingu hjá kjötmatinu í þessu efni, því að mér er kunnugt um, að frystihús, sem byggð hafa verið í seinni tíð, hafa yfirleitt ekki forkæla, heldur bara frysta.

Enn fremur hefur mönnum verið það nokkurt umhugsunarefni, hvort að því sé stefnt með þessu frv. að leyfa aðeins slátrun þar, sem frysting getur farið fram á sama stað. Að vísu kemur þetta ekki ljóst fram í 2. gr., en í grg. frv. eru setningar, sem gætu bent til þess, að að þessu ætti að stefna, og væri æskilegt að fá upplýsingar um, hve brýn nauðsyn er talin á þessu, vegna þess að það er vitað, eins og fram hefur raunar komið, að allmörg sláturhús hafa ekki aðstöðu til þess að frysta kjötið, heldur senda það til frystihúsanna einhverja vegalengd.

Í þessari sömu gr. segir, að atvmrn. löggildi sláturhús og frystihús, að fengnum meðmælum frá yfirdýralækni eða hlutaðeigandi héraðsdýralækni. Mér hefði virzt, að það væri mjög æskilegt, að það væri einn aðili, sem annaðist það að gefa þessi meðmæli til atvmrn. til þess að fá sem mesta samræmingu í þessum efnum, og hefði í rauninni talið eðlilegra, að það þyrfti meðmæli frá yfirdýralækni, heldur en það dygði, að hver einstakur héraðslæknir tæki sjálfstæða afstöðu til málsins.

Svo voru aðeins örfá orð um 12. gr. Eins og hæstv. ráðh. tók réttilega fram, tíðkast það, að kjöt sé flutt alllanga leið á markað, og kann að koma fyrir, að það sé full ástæða til þess, að það fari fram á því endurmat, þegar á markaðinn kemur. Hins vegar virðist, eins og þessi gr. er í frv., að heilbrmrn. geti krafizt þess, að skoðun fari fram í sérstöku húsnæði, sem sveitar- eða bæjarfélagið leggur til. Ég vildi beina því til þeirrar n., sem fær þetta til athugunar, að kanna, hvort hér er ekki a.m.k. í ýmsum tilfellum gert ráð fyrir, að lagt sé í óhæfilegan kostnað. Ef verið er að flytja heila farma í t.d. frystihús í Reykjavík einhvers staðar utan af landi, þá þyrfti að koma við á alveg sérstökum stað með allan farminn til þess að láta fara fram skoðun, og manni virðist, að ef aðstaða væri til þess að láta skoðunina fara fram hjá þeim aðila, sem tekur við kjötvörunni, þá væri ólíkt hagkvæmara að flytja þann mannskap til, sem á að framkvæma þessa skoðun, heldur en að flytja til allan farminn. Á þetta vildi ég aðeins benda hv. n. til íhugunar.

Að svo mæltu vil ég endurtaka það, að ég álít, að þetta frv. sé til mikilla bóta frá því, sem verið hefur, og vil taka undir það, sem hæstv. ráðh. sagði, að það væri æskilegt, að það fengi greiða meðferð, og sé ég ekki ástæðu til að hafa um það fleiri orð.