13.12.1965
Sameinað þing: 20. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 222 í B-deild Alþingistíðinda. (70)

1. mál, fjárlög 1966

Frsm. samvn. samgm. (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. Samgmn. beggja þd. hafa skv. venju gengið saman í eina n., samvn. samgm., um undirbúning og gerð tillagna um framlög ríkissjóðs til flóabáta og vöruflutninga. Hefur n. haft samvinnu við forstjóra Skipaútgerðar ríkisins um þetta starf, en hann hefur leitað nauðsynlegra upplýsinga um rekstur og afkomu bátanna á árinu.

Töluvert brestur á það, að nægilega glöggar upplýsingar séu fyrir hendi á hausti hverju, þegar byrjað er að fjalla um þessi mál. Hefur n. af því tilefni lagt fyrir forstjóra Skipaútgerðarinnar að tilkynna öllum aðstandendum flóabáta það, að ef þeir leggi ekki fram glöggar og skilgóðar upplýsingar um rekstur fyrirtækja sinna á þeim tíma, sem nauðsyn ber til, fyrir þá aðila, sem um styrkveitingarnar eiga að fjalla, þá geti þessir aðilar átt það á hættu, að felldir verði niður styrkir til þeirra. Það ætti sannast sagna ekki að vera ofverk neins, sem fær milljónaframlög úr ríkissjóði, að leggja fram sæmilegar upplýsingar um það, hvernig rekstur fyrirtækjanna hafi gengið. En eins og ég sagði, þá hefur mjög verulega brostið á þetta, og þarf breyting á að verða í þessum efnum.

Það hefur töluverð hækkun orðið á rekstrarkostnaði flóabátanna á yfirstandandi ári, og afkoma þeirra er þess vegna mjög léleg. N. hefur því ekki komizt hjá að gera tillögur um verulegar hækkanir á framlögum til einstakra flóabáta. Þó eru þessar hækkanir allmiklu minni en þær urðu síðast, þegar fjárl. voru afgr., en þá hækkuðu framlög til flóabáta og flutningastyrkja samtals um 1.7 millj. kr. Nú er skv. till. samvn. gert ráð fyrir, að framlög í þessu skyni hækki um 740 þús. kr.

Um rekstur og afkomu hinna einstöku flóabáta vil ég f. h. samvn. taka eftirfarandi fram:

Ber þá fyrst að nefna Norðurlandssamgöngur. Afkoma Norðurlandsbátsins Drangs hefur verið mjög slæm á árinu, og er í rekstraráætlun bátsins fyrir næsta ár reiknað með 20% tekjurýrnun. Kemur þar fyrst og fremst til greina töluverð breyting á verkefnum bátsins vegna opnunar nýs vegasambands við Ólafsfjörð. N. hefur því ekki talið fært annað en að leggja til nokkra hækkun á styrk til Norðurlandsbáts og leggur til, að styrkur til hans hækki um 150 þús. kr. í 1350 þús. kr. samtals.

Þá er gert ráð fyrir, að framlag til Strandabáts lækki úr 190 þús. kr. í 60 þús. kr. Sprettur þessi breyting fyrst og fremst af því, að akvegasamband hefur nú skapazt í Árneshrepp, þannig að ráðamenn þess byggðarlags telja ekki þörf á því að halda uppi flóabátaferðum að sumarlagi, eins og gert hefur verið um fjöldamörg undanfarin ár. Þeir sóttu því aðeins um smávægilega styrkupphæð, 60 þús. kr., til þess að unnt væri að gripa til bátsferða, ef snjóar hindruðu ferðir um landleiðina fram eftir vori eða jafnvel fram á sumar.

Undanfarið hefur verið unnið að því að koma á flugsamgöngum norður í þessa afskekktu byggð. Var í fyrsta skipti í fyrra veittur nokkur styrkur, 25 þús. kr., til þess að halda uppi flugferðum að Gjögri. Flytur fjvn. skv. ósk okkar Vestfjarðaþm. einnig till. um, að sama styrkupphæð verði veitt í þessu skyni á fjárl. næsta árs.

Framlag til Haganesvíkurbáts er óbreytt, en styrkur til Hríseyjarbáts er hækkaður um 10 þús. kr. Þá er skv. ósk þm. Norðurlandskjördæmis eystra hækkað framlag til Grímseyjarflugs um 15 þús. kr., upp í 50 þús. kr. Rekstrarstyrkur til Flateyjarbáts á Skjálfanda er óbreyttur, en bátnum hins vegar veittur 30 þús. kr. viðbótarstyrkur vegna vélarkaupa.

Um Austfjarðasamgöngur er það að segja, að á þeim hafa litlar breytingar orðið. Lagt er til, að styrkur til Mjóafjarðarbáta hækki um 5 þús. kr., en styrkur til Loðmundarfjarðarbáts verði óbreyttur. Styrkur til hins síðarnefnda er þó bundinn því skilyrði, að nýr aðili fáist til þess að annast ferðirnar.

Þá er lagt til, að framlag til snjóbifreiðar á Austfjörðum verði hækkað úr 50 þús. kr. í 100 þús. kr., en bæjarstjórn Seyðisfjarðar hefur lagt mjög mikla áherzlu á, að þessar ferðir yrðu studdar í ríkari mæli en áður. Þessi snjóbifreið heldur uppi ferðum frá Seyðisfirði um Fjarðarheiði á Hérað.

Suðurlandssamgöngur: Þar leggur n. til, að framlag til vöruflutninga í Vestur-Skaftafellssýslu hækki um 50 þús. kr. og til vöruflutninga til öræfa um 15 þús. kr. Loks er lagt til, að styrkur til Vestmannaeyjabáts vegna mjólkurflutninga hækki um 25 þús. kr.

Er þá komið að Faxaflóasamgöngum. H/f Skallagrímur í Borgarnesi fékk á þessu ári 1600 þús. kr. í rekstrarstyrk að viðbættri 100 þús. kr. fjárveitingu vegna viðgerðar, sem veitt var á heimildagrein fjárl., eða samtals 1700 þús. kr. í styrk á þessu ári. Nú hefur rekstur fyrirtækisins gengið svo hörmulega og hann kominn í slíkt óefni, að stjórn Skallagríms sótti um, að rekstrarstyrkur til skipsins yrði hækkaður upp í 2 millj. og 650 þús. kr., eða um 950 þús. kr. Samvn. taldi ekki viðráðanlegt að ráða fram úr þessu máli með þeim hætti, sem stjórn Skallagríms óskaði. Virðist hallareksturinn orðinn svo hrikalegur á bátnum, að lítt viðráðanlegt virðist. Lagði n. þó til, að styrkur til hans yrði hækkaður um 200 þús. kr., þannig að Skallagrímur fengi samtals 1900 þús. kr. styrk, þar af 1600 þús. í rekstrarstyrk og vegna viðgerðar, sem fram fór á árinu, 300 þús. kr.

Enn fremur flytur hv. fjvn. brtt. við 22. gr. fjárl., þar sem hún leggur til, að ríkisstj. verði heimilað að ábyrgjast 1 millj. kr. lán, sem Skallagrímur tæki vegna flokkunarviðgerðar. sem fram fór á skipinu.

Um Breiðafjarðarsamgöngur er það að segja, að þær eru með svipuðum hætti og áður. Það er lagt til, að styrkur til Stykkishólmsbáts hækki um 150 þús. kr., en gert er ráð fyrir, að hinn nýi Stykkishólmsbátur, sem hefur verið í smíðum undanfarið, hefji ferðir í byrjun næsta árs, sennilega í janúar eða byrjun febrúar.

Þá er lagt til, að styrkur til Langeyjarnesbáts hækki um 20 þús. kr., enda bæti hann þá þjónustu sína við eyjar á sunnanverðum Breiðafirði og hafi m.a. viðkomu í eyjunum Brokey og Öxney.

Nýr bátur var snemma á þessu ári keyptur til þess að annast flóabátaferðirnar um norðanverðan Breiðafjörð. Var það Norðri í Flatey, sem beitti sér fyrir því í samvinnu við hreppsnefnd Flateyjarhrepps, að keyptur var nýr 21 smál. bátur í stað Konráðs gamla, sem dæmdur hafði verið ósjófær. N. leggur til, að báturinn fái sama rekstrarstyrk og á þessu ári, þ.e.a.s. 310 þús. kr., en í þeirri upphæð er falin 20 þús. kr. fjárveiting til þess að halda uppi ferðum yfir Kleifaheiði með beltisdráttarvél, þegar snjóar teppa bifreiðaferðir um þessa leið. Enn fremur er lagt til, að Flateyjarbátur fái sama styrk til bátakaupa og á s.l. ári, samtals 200 þús. kr. Er þá gert ráð fyrir, að báturinn hafi fengið fullan styrk til þessara kaupa.

Loks kem ég að Vestfjarðasamgöngum, sem einnig hafa verið með svipuðum hætti og áður. M/s Fagranes hefur annazt ferðir um Ísafjarðardjúp og til kauptúnanna í Vestur-Ísafjarðarsýslu, og má segja, að rekstur þess skips hafi gengið mjög vel, þannig að ekki reyndist þörf á að hækka styrk til hans nema um 50 þús. kr. eða úr 1300 þús. kr. í 1350 þús. kr. Á s.l. ári hækkaði styrkur til bátsins einnig lítið, og má segja, að rekstur hans sé hinn sæmilegasti með hinu nýja skipi. Enn fremur er lagt til, að smábátar þrír á Vestfjörðum, sem fengið hafa styrki á undanförnum árum, fái óbreytta styrkupphæð.

Skv. því, sem hér hefur verið sagt, leggur samvn. samgm. til, að heildarfjárveiting til flóabáta og vöruflutninga verði á árinu 1966 8 millj. 372 þús. kr., og er það réttum 740 þús. kr. hærra en var á yfirstandandi ári. Flytur n. brtt. um hækkun styrksins á þskj. 161, og leyfi ég mér f. h. nefndarinnar að mæla með samþykkt hennar.