13.12.1965
Sameinað þing: 20. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 231 í B-deild Alþingistíðinda. (73)

1. mál, fjárlög 1966

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég þarf ekki að mæla fyrir brtt. að þessu sinni, en þó þykir mér rétt, áður en umr. lýkur, að gera nokkrar aths. um mikilsverðan þátt fjárlagaafgreiðslunnar.

Það má teljast sennilegt, eftir að hv. frsm. meiri hl. fjvn. hefur talað hér á þessum fundi, að niðurstöðutala innborgana og útborgana á fjárl. þeim, sem nú liggur fyrir að afgreiða, verði um 3800 millj. kr., og er það rúmlega 270 millj. kr. hækkun frá núgildandi fjárl., eins og þau voru afgr. á Alþingi 22. des. 1964. Í 22. gr. þeirra fjárl. var hæstv. ríkisstj. veitt heimild til að fresta til ársins 1966 verklegum framkvæmdum ríkisins, sem fé var veitt til í fjárl. fyrir árið 1965, og skyldi sama gilda, eins og það er orðað, um greiðslu framlaga til annarra aðila, sem ákveðin eru í fjárl.1965. Í grg. frv., sem fyrir liggur, er upplýst, að framlög til fjárfestingar á árinu hafi skv. þessari heimild verið lækkuð um 20% eða ca. 85 millj. kr. Ég mun ekki gera þá ráðstöfun að umræðuefni að þessu sinni, en því vil ég gera ráð fyrir, að ekki eigi sér stað misskilningur á orðalagi þeirrar heimildar í 22. gr., sem hér er um að ræða. Hins vegar virðast mér sumar frestunaraðgerðir ríkisstj. í sambandi við þessa heimild fara í bága við gildandi lög, sem ekki eiga að víkja fyrir ákvæðum fjárl.

Hækkun sú um 270 millj. kr., sem hér er um að ræða á fjárl. á einu ári, sýnir enn á þessu ári svipaða þróun í heild og verið hefur. Niðurstöðutölur fjárl. hafa verið að hækka frá ári til árs. Um þá þróun hafa aðrir rætt hér í þessum umr. En í þessu fjárlfrv. er um aðra mjög ískyggilega breytingu að ræða, og hana vil ég nefna.

Á sama tíma sem fjárl. í heild hækka um 270 millj. og skattar hækka nokkuð með nýjum lögum, eru sumir gjaldaliðir lækkaðir mjög verulega. Hér er sem sé ekki um að ræða almennan sparnað á ríkisbákninu, sem svo hefur verið nefnt. Hér hefur verið um það að ræða að draga úr dreifingu ríkisfjármagns til uppbyggingar og þá sér í lagi til stuðnings hinni dreifðu landsbyggð. Með tilliti til hinnar dreifðu landsbyggðar sýnist mér hér vera um óhagstætt fjárlfrv. að ræða og afturför frá fjárl. þeim, er gilt hafa á þessu ári. Sú undansláttarstefna, sem í því felst að láta framlög til uppbyggingar í landinu lækka, samtímis því að fjárl. í heild hækka og nýir skattar eru á lagðir, sýnist mér varhugaverð, enda auðsætt, hvar lendir, ef ekki er stungið við fótum.

Ég ætla ekki að ræða hér nánar um þá lækkun almennt, sem fyrirhuguð er á framlögum til ýmiss konar framkvæmda víða um land. En mér þykir ástæða til þess sérstaklega að fara nokkrum orðum um einn af meginþáttum þessara framkvæmda, þ.e.a.s. hafna- og lendingarbótagerð þá, sem ríkið hefur stutt á mörgum stöðum, hvernig ástandið er nú í þeim málum og hvað fram undan virðist vera.

Samkv. lögum um hafnargerðir og lendingarbætur frá 1946 og breytingum, sem síðar hafa verið gerðar á þeim lögum, er svo fyrir mælt, að ríkið greiði af hendi fjárframlög og veiti ríkisábyrgð vegna hafnarmannvirkja á 113 nafngreindum stöðum, að því tilskildu, að mannvirkjagerð hafi verið samþ. af hafnarmálastjóra. Á 78 stöðum er gert ráð fyrir hafnargerð, en á 35 stöðum er gert ráð fyrir lendingarbót. Í skýrslu vitamálastjóra til fjvn. eru taldir upp nálega 100 slíkir staðir, sem fé hefur einhvern tíma verið veitt til, en í reyndinni er unnið að mannvirkjum öðru hverju á 60–70 stöðum. Segja má, að mannvirkjagerð á rúml. 60 stöðum sé sú almenna hafnargerð, sem er í gangi, ef svo má segja. Þær hafnir, tvær eða jafnvel þrjár, sem farið er með samkv. ákvæðum landshafnarlaga, eru þáttur út af fyrir sig, og ræði ég þær ekki hér. En um aðrar hafnir og flestar lendingarbætur, sem nú er unnið að eða unnið hefur verið að nýlega, er lagareglan sú, að ríkissjóði ber að leggja fram 40% framkvæmdakostnaðar, en hlutaðeigandi hafnarsjóði eða sveitarfélagi 60%. Gert er ráð fyrir, að svo geti farið, að allt heimaframlagið sé fengið að láni, enda hefur það víða verið gert, og er heimilt að láta ríkissjóð ábyrgjast greiðslur lána allt að 60% hafnargerða. Samkv. skýrslu hafnarmálastjóra hefur á árinu 1965 verið unnið að hinni almennu hafnargerð fyrir nálega 105 millj. kr. á 36 stöðum. Það, sem ríkissjóði bar að greiða af þessum kostnaði, voru þá rúml. 40 millj. kr. Mikið vantaði á, að ríkisframlög þau, er veitt voru á árinu, nægðu til að greiða þessa upphæð, því að þar að auki skuldaði ríkissjóður vangreitt framlag frá fyrra ári. Skuldaupphæð ríkissjóðs, þ.e.a.s. samandregnar skuldir við hafnarsjóði, sem flestir eru sjálfir skuldugir og févana nú um áramótin, svarar sem næst til þess, að ríkið hefði ekkert greitt að sínum hluta til hafnanna á þessu ári, þ.e.a.s. þeirra hafna, sem gerðar voru á þessu ári.

Fyrir árið 1966 hefur hafnarmálastjóri gert áætlun um almennar hafnarframkvæmdir fyrir nálega 196 millj. kr. Í nál. á þskj. 113 er það þó haft eftir honum, að mjög verulega muni verða dregið úr þessari áætlun og kostnaðurinn muni að líkindum verða um 120 millj. kr., eða um 12 millj. kr. hærri en í fyrra. Sé miðað við vaxandi dýrtíð, þýðir þetta varla verulega aukningu framkvæmda á næsta ári. En hluti ríkissjóðs af þeirri upphæð er 48 millj. Samkv. þessu er gert ráð fyrir, sbr. það, sem haft er eftir hafnarmálastjóra, að í lok fjárlagaársins 1966 verði ógreidd ríkisframlög komin upp í 60 millj. — og meira, ef framkvæmdaáætlun hafnarmálastjóra verður lækkuð minna en hann telur líkur til.

Þessar tölur sýna glögglega, að fjárveitingar til hafnarmála hafa verið og eru enn allt of lágar. En hér með er þó ekki öll sagan sögð. Ég held það sé almennt álit þeirra, sem hafa kynnt sér þessi mál, að nauðsyn beri til, að ríkissjóður greiði eftirleiðis meira en 40% af hafnargerðarkostnaðinum við hina almennu hafnargerð. Ég fyrir mitt leyti get ekki fundið rök fyrir því, að þjóðfélagið kosti einstakar hafnir að öllu leyti, en að allur þorri hafnarsjóðanna eða sveitarfélaganna eigi að leggja fram 60%. Ef slíku heldur fram, mun þeirri stefnu aukast fylgi, að ríkið byggi hafnirnar yfirleitt á sinn kostnað á sama hátt og þjóðvegi.

Við framsóknarmenn höfum hér á Alþ. undanfarin ár lagt til, að kostnaðarhluti ríkisins, að því er varðar mest aðkallandi hafnarmannvirki, verði hækkaður úr 40% upp í 65%, og er það í samræmi við endurskoðun á hafnarlögum, sem fram fór fyrir nokkrum árum að tilhlutun Alþingis. Ef ríkisframlagið væri þannig hækkað, yrði minni hætta á því, að ríkissjóður þyrfti að greiða vexti og afborganir af ríkisábyrgðarlánum til hafnarframkvæmda, og það er ólíkt viðkunnanlegri og heppilegri aðferð, að peningarnir komi þannig sem hreint framlag en greiðslur vegna vanskila, sem sveitarfélögin komast í, af því að greiðslur af lánunum eru þeim um megn, meðan mannvirkin eru ekki farin að bera þann árangur til tekjuöflunar, sem vonir standa til.

Svo að segja allar hafnir hér á Íslandi eru að meira eða minna leyti fiskihafnir og sumar nær eingöngu. Undanfarin ár hefur verið uppgripaafli hér við land og er enn á þessu ári. Í slíku einmuna góðæri til sjávarins sýnist mér tímabært, að ríkisstj. og Alþingi horfist í augu við þau verkefni, sem aðkallandi eru í hafnarmálum, og láti ekki reka á reiðanum, eins og nú er gert. Og nú, þegar verið er að lækka ríkisframlög til hafnarframkvæmda í staðinn fyrir að hækka þau, eins og þyrfti að gera, finnst mér illa horfa og meira en það á þessu sviði hjá hinni miklu fiskveiðiþjóð Íslendingum. Og það verða menn að gera sér ljóst, að það eru hafnarstaðirnir við firði og víkur þessa lands, sem eru hinir náttúrlegu byggðakjarnar, a. m. k. í miklum hluta landsins, svo að talað sé lærðra manna mál í skipulagsmálum. En frumskilyrði þess, að þessir byggðakjarnar geti þróazt, er, að viðunandi hafnarmannvirkjum sé lokið sem allra fyrst. Ég segi: viðunandi mannvirkjum, og á þá auðvitað við tímabundið mat í þeim efnum.

Ég hef m.a. gefið því gætur, að í mínu kjördæmi munu sveitarfélög eða hafnarsjóðir eiga inni nú um næstu áramót rúml. 7 millj. kr. í ógreiddum ríkisframlögum til hafnarmannvirkja, sem þegar hafa verið gerð á þessum stöðum. Ég veit ekki með neinni vissu, hve mikið verður um hafnarframkvæmdir á þessu svæði á næsta ári, en svo mikið er víst, að hinar lækkuðu fjárveitingar á 13. gr. fjárlfrv. til þessara hafna eru mjög fjarri því að vera í samræmi við jafnvel lægstu áætlanir, sem til greina virðast koma.

Ég hef ekki borið fram brtt. um hækkun framlaga til þessara hafna að þessu sinni. Hins vildi ég mega vænta, að þeirra hlutur verði réttur á næsta ári af því fé, sem ríkisstj. hefur þá sjálf til úthlutunar af sérstakri fjárveitingu til greiðslu á ógreiddu ríkisframlagi og úr hafnarbótasjóði.

Í þessu sambandi vil ég leyfa mér að vekja athygli á því, að úthlutun á ríkisframlagi til hafnanna virðist nú í vaxandi mæli vera að dragast úr höndum Alþingis yfir í hendur ráðherra. Á árinu 1965 er úthlutað á fjárl., að frádregnum 20%, 15 millj. 680 þús. kr. En á þessu sama ári hefur ráðherra haft í sínum höndum að úthluta úr hafnarbótasjóði og með sérstakri fjárveitingu nálega 11 millj. kr. Þegar svo er komið, er varla hægt að segja, að Alþ. ráði því lengur, hvað hver einstök höfn fær úr ríkissjóði ár hvert til framkvæmda sinna, heldur hafi hér dregizt í hendur ríkisstj. vald, sem Alþ. hefur haft, og hefur sú sama þróun raunar átt sér stað á fleiri sviðum. Mér virðist full ástæða til að benda hv. fjvn. Alþ. á þetta atriði til athugunar framvegis.

Með þetta í huga sýnist mér það eðlilegt fyrirkomulag þessara mála og í samræmi við það, sem nú gerist í vegamálum, að Alþ. afgreiði ár hvert sérstaka hafnaáætlun, þ.e.a.s. heildaráætlun um hafnarframkvæmdir á fjárlagaárinu, þar sem ákveðin séu ríkisframlög og ríkisábyrgðir á hverjum stað á því ári, sem um er að ræða, enda verði þá ekki út af því brugðið, en hafnarsjóðir aðstoðaðir við útvegun lána skv. áætlun. Samtímis verður þá á einhvern hátt að gera ráðstafanir til þess, að ríkið greiði á sérstakan hátt, með framlagi eða yfirtöku skulda, þær 60 millj. ógreiddra ríkisframlaga, sem sennilega verða ógreiddar í lok næsta árs.

Núverandi ríkisstj. hefur ekki haft þá forustu, sem henni bar að hafa með setningu nýrra hafnarlaga. En ég hygg, að Alþ. geti ekki hjá því komizt miklu lengur að láta þróun eða öllu heldur vanþróun þessara mála til sín taka og koma á þau viðunandi skipan til frambúðar. Þessi orð vildi ég láta falla nú, áður en umr. um fjárlögin lýkur að þessu sinni.