18.04.1966
Efri deild: 65. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 854 í B-deild Alþingistíðinda. (743)

182. mál, síldarleitarskip

Frsm. (Jón Árnason):

Herra forseti. Frv. það, sem hér um ræðir, sem er stjórnarfrv., felur það í sér að heimila ríkisstj. að gera samninga um smíði á síldarleitarskipi, sem er að stærð allt að 500 brúttórúmlestir, og jafnframt heimilast ríkisstj. samkv. frv. að taka lán til greiðslu á andvirði skipsins. Þá er enn fremur samkv. 2. gr. frv. kveðið á um það, að leggja skuli gjald á síld og síldarafurðir, sem fluttar eru til útlanda. Skal gjald þetta nema 0.3% af fob.- verði útflutts síldarmjöls og síldarlýsis, en 0.2% af fob.- verði annarra síldarafurða. Þær tekjur, sem þannig aflast, fara síðan til greiðslu á síldarleitarskipinu.

Hér er vafalítið um mjög merkilegt mál að ræða, og var það einróma álit sjútvn. að mæla með því, að frv. verði samþ. óbreytt.

Eins og fram kemur í grg. fyrir frv., eru nú um 13 ár, siðan skipulögð síldarleit á sjó hófst hér við land og því komin allmikil reynsla á þessa starfsemi. Ég ætla, að fáar ráðstafanir af hálfu hins opinbera í þágu atvinnuveganna og þá í þágu sjávarútvegsins í þessu sambandi hafi verið jafngiftudrjúgar og síldarleitin hefur reynzt íslenzkum síldarútvegi. Í upphafi síldarleitarinnar var aðallega stuðzt við síldarleit úr lofti með flugvélum, en það var á meðan síldveiðarnar byggðust svo að segja eingöngu á að veiða þá síld, sem óð ofansjávar, og var þá auðveldast að finna síldina með þessum hætti, að fljúga yfir veiðisvæðin og vísa þá síldveiðiflotanum á þá staði, þar sem síldin héldi sig á hverjum tíma. Á síðari árum hefur hér orðið gjörbreyting á með hinum fullkomnu síldarleitartækjum, sem nú er völ á, þar sem möguleikar eru á því að finna síldarmagnið neðansjávar, og hefur átt sér stað bylting í þessum efnum. Það er engum vafa undirorpið, að það er fyrst og fremst tilkomu þessarar nýju tækni að þakka, hve góðum árangri íslenzki síldveiðiflotinn hefur náð í aflamagni á undanförnum árum. Eftir að síldarleitin færðist í að horf, að hún er nær eingöngu starfrækt á skipum, hefur það lengst af háð starfseminni, að ekki hafa verið fyrir hendi nægilega góð skip og vel útbúin til afnota fyrir okkar góðu sér ræðinga, til þess að störf þeirra gætu borið se beztan árangur. En allt fyrir það hefur síldarleitin undir forustu hins ágæta fiskifræðings Jakobs Jakobssonar náð undraverðum árangri og skapað landsmönnum öllum hin miklu verðmæti, sem síldveiðiflotinn hefur fært í þjóðarbúið á undanförnum árum. Með tilkomu hins fullkomna síldarleitarskips, sem frv. þetta heimilar ríkisstj. að gera samning um smíði á er þess að vænta, að hér verði bót á ráðin. Þá mætti ætla, að með tilkomu þess sé einnig sköpuð aðstaða til þess að halda uppi stöðugri síldarleit árið um kring, en á því tel ég, að sé hin mesta þörf.

Á undanförnum árum hefur síldarleitin að mestu leyti verið bundin við Norður- og Austurlandið. Hins vegar vitum við, að síldveiði hefur verið stunduð að mjög miklu leyti um árin hér við suðvesturströndina. Það hefur verið óánægja á meðal sjómanna og útgerðarmanna með, hvað hægt hefur verið að sinna lítið síldarleitinni hér við ströndina og fylgjast lítið með göngum síldarinnar, en á því er ábyggilega mikil nauðsyn, að slík síldarleit verði einnig aukin hér við suðurströndina. Síldarsöltun og frysting síldar hefur verið stunduð í svo stórum stíl hér sum ár, að það hefur bókstaflega bætt upp að nokkru leyti það tjón, sem átt hefur sér stað í síldarleysisárum fyrir norðan og austan, og okkur er kunnugt u það, að þegar ekki var hægt að salta nema mjög óverulegt magn upp í samninga, sem gerði voru, af Norður- og Austurlandssíldinni, þá var sum árin hægt að salta hér og bæta nokkuð upp í það skarð, því að þá nam síldarsöltunin um árin hér allt að 130—140 þús. tunnum. Það segir sig því sjálft, að það skiptir miklu máli, að það sé hægt að fylgjast með síldargöngum hér við Suðvesturlandið. þó að það sé verulega meira magn. sem hefur aflazt við Norður- og Austurlandið flest ár. Með tilkomu þessa nýja skip ætti að skapast möguleiki til þess að veita meiri aðstoð í þessum efnum síldveiðiflotanum hér við suðvesturströndina, því að á þeim tímum, þegar hér er helzt að vænta síldar, bæði haustin og snemma á vorin, þegar vorsíldartíminn er, þá ættu að vera möguleikar til þess að nýta þennan skipakost.

Ég vil því, herra forseti, leyfa mér að mæla með því, að frv. þetta verði samþ. óbreytt, eins og það liggur hér fyrir, og því verði að þessari umr. lokinni vísað til 3. umr.