22.04.1966
Neðri deild: 75. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 856 í B-deild Alþingistíðinda. (747)

182. mál, síldarleitarskip

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér er nú tekið til umr., er hingað komið eftir mjög skjóta afgreiðslu Ed. á málinu, þar sem það var samþ. með shlj. atkv.

Svo sem kunnugt er, hefur með sérstökum velvilja landhelgisgæzlunnar og starfsfólks hennar verið stuðzt við afnot af skipum hennar til brýnustu rannsóknarstarfa í þágu sjávarútvegsins. Nánast hefur gegnt furðu, hver árangur hefur af því starfi orðið, þegar hliðsjón er af því höfð, að skipin eru hugsuð og byggð til allt annarra og óskyldra starfa. Tilkoma þessa frv. er í senn viðurkenning á brýnni þörf síldarleitarinnar, sem byggð er á órækri reynslu af störfum hennar s.l. 13 ár, og því um leið viðurkenning á starfi þeirra einstaklinga, er að leitinni hafa unnið á þessum tíma. Skal nú í sem stytztu máli rakin forsaga frv., sem um leið skýrir efni þess.

Jakob Jakobsson fiskifræðingur reit sjútvmrn. bréf 8. sept. s.l. og fór fram á það við rn., að það heimilaði smíði nýs síldarleitarskips þegar á árinu 1966. Í framhaldi af því áttu sér stað bréfaskipti og viðræður milli rn. og Jakobs Jakobssonar um smiði síldarleitarskips. Fól rn. Jakob að gera athugun og leita tilboða um smíði á slíku skipi. Óskaði rn. eftir upplýsingum um kostnað, þ.e. sundurliðuð verðtilboð, svo og afgreiðslufrest og að kannaðir yrðu möguleikar á að fá till. að fyrirkomulagsteikningum af slíku skipi. Þá er að geta þess, að á aðalfundi Landssambands ísl. útvegsmanna, sem haldinn var í Reykjavik dagana 25.—27. nóv., var samþ. till. um smíði síldarleitarskips, svo hljóðandi:

„Fundurinn bendir á, að starfsaðstaða Jakobs Jakobssonar fiskifræðings við stjórn síldarleitarinnar er á engan hátt viðunandi vegna vöntunar á hentugu skipi. Þar sem ekki liggur fyrir, að hið opinbera hafi tryggt fé til kaupa á hentugu síldarleitarskipi, samþykkir fundurinn að fela stjórn samtakanna að vinna að því, að fjár verði aflað til kaupa á nýju skipi, sem afhent verði hinu opinbera til rekstrar. Skipið verði byggt eftir fyrirsögn Jakobs Jakobssonar, fjárins verði aflað með því, að tekið verði 1/4% gjald af aflaverðmæti síldveiðiflotans og kaupendur síldarinnar greiði jafnhátt framlag og útvegsmenn og sjómenn. Fundurinn felur stjórn Landssambands ísl. útvegsmanna að vinna að því að fá samstöðu hjá samtökum sjómanna og síldarkaupenda um þetta mál. og að því fengnu óski hún eftir því við ríkisstj. og Alþ., að lög verði sett um innheimtu á andvirði skipsins, en það gjald standi þó eigi lengur en þar til kaupverð skipsins er að fullu greitt.“

Miðað við, að síldarleitarskipið kosti 30 millj.kr., en þær hugmyndir munu hafa verið uppi og lauslegar áætlanir, þegar þessi umrædda till. var afgreidd á aðalfundi L.Í.Ú., þykir mér rétt að taka það fram, að nú þegar þykir ljóst, að skipið muni vart kosta undir 37—40 millj. kr. Og miðað við aflabrögð síðustu tveggja ára, sem að vísu eru sérstök í sinni röð hvað aflamagn snertir, mætti ætla, að andvirði skipsins yrði greitt á um það bil 8 árum.

„Með þessari samþykkt vill aðalfundur L.Í.Ú.,“ segir í lok till., „sýna í verki viðurkenningu á frábæru starfi Jakobs Jakobssonar við síldarleitina.“

Með því að till. þessi, sem samþ. var á umræddum aðalfundi landssambandsins, gerir ráð fyrir, að bæði sjómenn og síldarkaupendur taki þátt í greiðslu síldarleitarskipsins, sendi stjórn Landssambandsins till. til umsagnar hinum ýmsu hagsmunasamtökum þeirra, og svar barst frá 6 samtökum og mæltu 5 með efni till., en ein samtökin voru á móti.

Eins og áður segir, fól rn. Jakob í nóv. s.l. að rannsaka möguleika á smíði síldarleitarskips og fá verðtilboð og fyrirkomulagsteikningar af því. Jakob hefur síðan unnið að þessu máli og aflað mikilvægra upplýsinga um smíði skipsins. Þann 25. marz s.l. skipaði sjútvmrh. 5 manna n. frá hlutaðeigandi samtökum, og var Jakob jafnframt skipaður formaður þessarar n., til þess að semja og ganga frá lagafrv. því, sem nú er hér til umr.

Sú viðurkenning, sem felst í því, að 6 hagsmunasamtök, sem til var leitað fallast á og óska beinlínis eftir því að greiða það gjald, sem felst í 3. gr. frv., á sér áreiðanlega fáar hliðstæður. Eigi að síður er það staðreynd í þessu máli og ætti að auðvelda ágreiningslausan framgang málsins.

Umfram þær skýringar, sem ég nú hef gefið, leyfi ég mér, herra forseti, að vísa til grg. frv. um efni hinna einstöku gr. þess og tel óþarft að ræða þær sérstaklega, svo skýrar sem þær eru og efni þeirra augljóst.

Herra forseti. Ég óska þess, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.