22.04.1966
Neðri deild: 75. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 857 í B-deild Alþingistíðinda. (748)

182. mál, síldarleitarskip

Jón Skaftason:

Herra forseti. Ég vil lýsa ánægju minni með fram komið frv. um kaup á síldarleitarskipi. Þau eru nú orðin allmörg árin, síðan baráttan var hafin fyrir því í samtökum sjómanna og útvegsmanna, að ríkið beitti sér fyrir kaupum á hentugu skipi, einu eða fleirum, er annaðist síldarleit kringum landið sem mestan hluta úr árinu. Það mun, að ég held, í fyrsta skipti vera með l. frá 1958 um útflutningssjóð, að samþ. var fastur tekjustofn, sem renna átti til smíði á síldarleitarskipi. Þessi tekjustofn var að vísu ekki mjög stór, en gaf þó venjulegast árlega á milli 1 og 2 millj. kr. í sjóð, sem geymdur var til þessara þarfa. Mönnum fannst mörgum, áhugamönnum um þetta mál. ganga grátlega seint um allar framkvæmdir í þessum efnum, og þær munu ófáar samþykktirnar frá samtökum sjómanna og útvegsmanna, þar sem áskorunum er beint til ríkisvaldsins um að hraða aðgerðum í þessum efnum og hefja byggingu síldarleitarskips.

Hér á Alþ. hef ég ásamt ýmsum öðrum fleiri þm. Framsfl. flutt í 4 ár þáltill. um kaup á síldarleitarskipi, einu eða tveim. Ég minnist þess, að í umr. um þetta mál fyrir tveim árum, að ég held, upplýsti hæstv. sjútvmrh., að þá mundu vera til í byggingarsjóði þessa skips um 11—12 millj. kr. Á þeim tíma mun hafa verið talið af þeim mönnum, sem bezt þekktu inn á þetta mál, að sæmilega útbúið síldarleitarskip kostaði þá í kringum 25—30 millj. kr., og þótti mörgum einkennilegur sá dráttur, að ekki skyldi þykja mögulegt að ráðast í þessar framkvæmdir og ákveða annaðhvort kaup á hentugu skipi eða ráðast í byggingu hentugs skips með allt að helming kostnaðarverðs í reiðufé. Þessi seinagangur í undirbúningi málsins hefur, eins og ég gat um áðan, verið eðlilega mjög gagnrýndur af þeim, sem mest hafa þarna átt undir. Mönnum hefur fundizt það einkennilegt, að þjóð sem Íslendingar, sem nálega eingöngu verður að treysta á sjávarafla um öflun gjaldeyris, skyldi ekki hafa efni á því að leggja til nokkra tugi millj. kr. til þess að sinna jafnbrýnu verkefni og bygging síldarleitarskips er fyrir síldveiðiflotann.

Það mun hafa verið, að ég hygg, á árinu 1960, að lokið var teikningu og undirbúningi að smíði síldarleitarskips, og hugðu menn þá, að loksins yrði úr framkvæmdum. En einhverra hluta vegna varð ekki í þetta ráðizt þá og málið féll niður og því ekki sinnt af hálfu hæstv. ríkisstj., svo að vitanlegt væri, um nokkurra ára bil. Það má því segja, að sá kraftur, sem nú hleypur í málið, sé til kominn vegna þeirrar samþykktar, sem hæstv. ráðh. var hér að geta um áðan og gerð var á aðalfundi Landssambands ísl. útvegsmanna dagana 25.—27. nóv. á s.l. ári, en þá var samþ., eins og hæstv. ráðh. upplýsti, að útvegsmenn gengjust fríviljugir undir að greiða af aflaverðmæti sínu ákveðið prósentugjald til þess að hraða framkvæmd málsins.

Ég vona nú, þegar frv. þetta er fram komið hér í hv. d., að þá verði ekki lengri dráttur á því, að hafizt verði handa um framkvæmdir í þessu efni. Drátturinn er þegar orðinn nógu langur og þeim til lítils sóma, sem fyrir þessu máli standa og hefðu raunar fyrir mörgum árum átt að vera búnir að hrinda því í framkvæmd.