13.12.1965
Sameinað þing: 20. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 236 í B-deild Alþingistíðinda. (75)

1. mál, fjárlög 1966

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Ég geri ekki ráð fyrir, að almennar umr. um afgreiðslu fjárlaga, úr því sem nú er komið, hafi mikið að segja, og mun ég því ekki lengja þær umr. neitt sérstaklega. En það eru tvö atriði varðandi afgreiðslu fjárlaga að þessu sinni, sem ég vildi fá nokkru frekari upplýsingar um, og vildi því óska eftir upplýsingum frá hæstv. fjmrh. varðandi þessi atriði.

Hið fyrra er varðandi framlög til hafnarframkvæmda og þá sérstaklega framlög til byggingar dráttarbrauta á vegum hafnarsjóða.

Eins og kunnugt er, hefur orðið mjög mikil breyting á síðustu árum á fiskiskipaflota landsmanna. Bátarnir hafa stækkað mjög mikið, og svo er komið, að það er mjög knöpp aðstaða fyrir í landinu til þess að annast eðlilega þjónustu við þessa báta. Þetta hefur verið viðurkennt af hæstv. ríkisstj., og ég minnist þess, að fyrir rúmu ári gáfu ráðherrar hér yfirlýsingu um það, að ríkisstj. hefði mikinn hug á því að greiða fyrir byggingu dráttarbrauta á nokkrum stöðum á landinu, til þess að þessi nýi bátafloti þyrfti ekki að leita til annarra landa í nauðsynlegustu þjónustuerindum í þessum efnum. Og í framkvæmdaáætlun ríkisstj. voru síðan teknar upp framkvæmdir í þessa átt. Þegar er byrjað á byggingu nokkurra slíkra dráttarbrauta, og aðrar eru í undirbúningi, og telja má alveg víst af fréttum, að ráðizt verði í þær byggingar nú á næsta ári. En ég sé, að eins og fjárlagafrv. eða till. um það liggja fyrir nú, er ekki gert ráð fyrir neinum sérstökum greiðslum af hálfu ríkisins til þessara framkvæmda. Það er alveg augljóst mál, að það er alveg útilokað, að hafnarsjóðir geti reist þessi mannvirki, svo kostnaðarsöm sem þau eru, á þann hátt, að hafnarsjóðirnir leggi fram allan hluta ríkissjóðs til þessara mannvirkjagerða.

Ég vil því spyrja hæstv. fjmrh. um það, hvort fyrirhugaðar séu einhverjar sérstakar ráðstafanir af hálfu ríkissjóðs, til þess að hann geti innt af höndum greiðslur sínar til þessara mannvirkjagerða, eða hvort svo sé komið, að ríkisstj. hugsi sér að hverfa frá því að leggja fram fé í þessu skyni og stöðva þá að sjálfsögðu þessar framkvæmdir. Ég álít, að þessar framkvæmdir séu sérstaklega aðkallandi, því að vitanlega nær engri átt að senda marga tugi fiskibáta eða jafnvel hundruð fiskibáta úr landi til þess að taka þá í slipp í öðrum löndum og láta þar fara fram á þeim það eftirlit og þær viðgerðir, sem allajafna þarf að gera á hverju ári.

Ég get vel ímyndað mér það, að ríkisstj. geti aflað einhverra sérstakra lána og greitt á þann hátt framlög sín til þessara mannvirkja, þótt ekki sé um beina fjárveitingu á fjárlögum að ræða. En mér sýnist hins vegar alveg augljóst, að á einhvern hátt verður ríkissjóður að standa við sinn hluta af kostnaði þessara mannvirkja, ef ekki á illa að fara.

Hitt atriðið, sem ég vildi víkja hér að og óska eftir upplýsingum um, varðar framlög til sjávarútvegsins. Eins og kunnugt er, var söluskatturinn hækkaður allverulega með lögum frá Alþ. í des. 1964, og átti skatthækkunin þá að taka gildi í ársbyrjun 1965 og hefur staðið sem sagt allt árið. Þessi hækkun á söluskattinum var gerð m.a. til þess að standa undir tilteknum greiðslum til sjávarútvegsins. Ég hygg, að þessar greiðslur hafi verið áætlaðar á yfirstandandi ári á milli 60 og 70 millj. kr. Gert var ráð fyrir í sérstökum lögum, að ríkissjóður skyldi greiða 25 aura á hvert kg af nýjum fiski, sem veiddur væri á línu og handfæri. Ég hygg, að það muni hafa verið áætlað, að útgjöld af þessum ástæðum mundu verða í kringum 20 millj. kr. eða jafnvel nokkuð yfir það. Þá var einnig í sömu lögum ákveðið að greiða til fiskiðnaðarins í landinu 33 millj. kr., til svonefndrar hagræðingar. Og einnig átti að greiða 10 millj. kr. á árinu 1965 sem sérstakan stuðning til þeirra, sem verka skreið. En eins og nú er staðið að afgreiðslu fjárl., er gert ráð fyrir því að taka í ríkissjóð þessa tekjustofna, sem þarna voru ákveðnir, en það er hins vegar ekki gert ráð fyrir því á fjárl. að greiða þær bætur til sjávarútvegsins, sem í gildi hafa verið á árinu 1965. Nú efast ég ekkert um það, að hæstv. ríkisstj. hefur gert sér fulla grein fyrir því, að það muni þurfa að greiða til sjávarútvegsins ekki lægri upphæð á árinu 1966 en greidd var á yfirstandandi ári, því að ríkisstj. hefur sjálf skipað sérstaka n. til þess að athuga um, hvernig bezt yrði fyrir komið ákveðnum stuðningi við sjávarútveginn, en forsvarsmenn sjávarútvegsins hafa gert nú miklum mun meiri kröfur til ríkisins um stuðning en þeir gerðu í fyrra. Ég tel því alveg fullvíst, að ríkisstj. reiknar með því, að á næsta ári þurfi að greiða sem stuðning við sjávarútveginn a. m. k. jafnháa fjárhæð og er á þessu ári, og eflaust reiknar hún með hærri fjárhæð. En þá hlýt ég að spyrja: Hvernig hugsar hæstv. ríkisstj. sér að mæta þessum útgjöldum, fyrst þeir tekjustofnar, sem fyrir hendi voru og voru ætlaðir í þessu skyni, hafa nú verið teknir til annars og augljóst er, að ríkisstj. gerir ráð fyrir útgjöldum í þessu skyni, — þá spyr ég um það, hvernig hugsar hún sér að mæta þessum útgjöldum, þegar þau verða endanlega ákveðin? Telur hæstv. fjmrh., að til standi að afgreiða fjárl. með þeim hætti, að ríkissjóður muni geta án þess að krefjast frekari skattheimtu staðið undir útgjöldum til sjávarútvegsins? Eða er ætlunin að leggja á nýja skatta til þess að standa undir þessum útgjöldum? Mér finnst óhjákvæmilegt, að upplýsingar komi hér um þetta efni, áður en umr. lýkur að þessu sinni um fjárlagafrv.

Ég vil nú vænta þess, að hæstv. fjmrh. svari þessum tveimur atriðum eða upplýsi okkur um þessi tvö atriði, sem ég hef gert hér að umtalsefni, annars vegar sérstakar greiðslur vegna dráttarbrautabygginga, sem í undirbúningi eru og hafizt verður handa um á næsta ári og þegar er byrjað á, og eins um greiðslur til sjávarútvegsins, sem telja má alveg fullvíst að verður að inna af höndum á næsta ári.