13.12.1965
Sameinað þing: 20. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 242 í B-deild Alþingistíðinda. (78)

1. mál, fjárlög 1966

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. fjmrh. fyrir þau svör, sem hann gaf við spurningum mínum. Mér sýnist, að það sé ljóst mál að ríkisstj. hugsar sér að leysa fjárhagsmálefni dráttarbrautarbygginganna, — þótt hún hafi ekki fullákveðið enn þá, með hvaða hætti það verði gert, sýnist mér, að það sé ætlunin samkv. því, sem hæstv. ráðh. sagði. Einnig sýndist mér, að það væri ljóst, að hann gerði ráð fyrir því, að ríkissjóður mundi geta tekið á sig svipaða fjárhæð til stuðnings við sjávarútveginn og á yfirstandandi ári, væntanlega 60–70 millj. kr., án þess að nýir skattar yrðu lagðir á. Það er auðvitað hætt við því, að framlagið þurfi að verða nokkru meira, en reynslan á eftir að skera úr um það, og er ekkert við því að segja. Það finnast eflaust einhver ráð til þess að leysa þann vanda, þegar þar að kemur, eða svo skulum við vænta.

Út af leiðréttingum, sem hann gerði á því, hvernig ég skýrði frá hækkun söluskattsins í desembermánuði 1964, hef ég lítið að segja. Það, sem hafði gerzt í þeim málum, var það, að áður hafði söluskatturinn verið hækkaður úr 3% upp í 5% gagngert í því skyni að greiða tilteknar fjárhæðir til sjávarútvegsins. En síðan tók ríkissjóður allan tekjustofninn, en felldi þá niður jafnframt árið á eftir 95.5 millj. kr. greiðslur til sjávarútvegsins. En það var rétt aðeins formið, því að öllum var ljóst og það lá alveg skýrt fyrir, að það mundi þurfa að halda þessum greiðslum áfram, og þegar ríkisstj. fór enn fram á hækkun söluskattsins úr 5½% upp í 7½%, má vera, að hún hafi talið, að þær fjárhæðir, sem þá fengust inn, ættu að renna í eitthvað annað. En ég efast ekki um, að hún hefur gert sér grein fyrir því, ekki síður en ég, að hluti af þessari hækkun hlyti að eiga að renna til sjávarútvegsins, enda var það samþ. rétt á eftir og sem sagt sömu greiðslunum haldið til sjávarútvegsins og áður hafði verið. En það skiptir ekki máli, hvernig þetta er túlkað. Aðalatriðið er, að mér sýnist, að það liggi ljóst fyrir, að ríkisstj. hugsi sér að leysa vandamál dráttarbrautanna, og að telja má, að hún ætli sér að greiða a. m. k. 60–70 millj. kr. í stuðning til sjávarútvegsins, án þess að þurfi að koma til nýrrar skattlagningar af þeim ástæðum.