13.12.1965
Sameinað þing: 20. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 243 í B-deild Alþingistíðinda. (79)

1. mál, fjárlög 1966

Frsm. meiri hl. (Jón Árnason):

Herra forseti. Ég vildi koma hér á framfæri leiðréttingu á þskj. 153, en þar hefur misritazt föðurnafn. Það er 19. töluliður, við 18. gr., d-liður, á að vera Þorbergur Þorvaldsson fyrrv. póstur, en er Þorbergur Guðmundsson. Þó að seint sé, vildi ég koma þessari leiðréttingu á framfæri, svo að það sé ekki um að villast, við hvern er átt.

Stjórnarandstæðingum hefur orðið nokkuð tíðrætt í þessum umr. um það, hvernig núv. ríkisstj. standi að ýmsum málaflokkum og fjárveitingum til þeirra. Ég ræddi áðan nokkuð um, hver afstaða til skólamála er nú í þessu fjárlagafrv., sem hér er verið að afgreiða, og ég taldi, að það hefði komið skýrt fram, að það eru verulega meiri framlög tiltölulega, sem varið er til þessara bygginga, heldur en átti sér stað á tímum vinstri stjórnarinnar. Ég benti á það, að fyrir lægju allverulegar fjárveitingar til 26 nýrra skólahúsa, sem framkvæmdir eru ekki enn hafnar við. Er það allmiklu meira en áður hefur átt sér stað. Það er rétt, að það hefur verið frestað að hefja byggingar á nokkrum skólahúsum, en ég er þess fullviss, að nú eins og oft áður hefur skort á ýmsan undirbúning, til þess að það væri unnt að hefja byggingarnar, og mér er kunnugt um mörg af þessum skólahúsum, að þó að það séu búnar að vera a. m. k. tvennar fjárveitingar til þessara bygginga, liggja ekki fyrir enn þá af hendi þeirra, sem standa að skólabyggingunum, neinar fullgerðar teikningar. Meðan slíkt ástand ríkir, er ekki að búast við því, að hægt sé að hefja framkvæmdir.

Ég ætla svo ekki að fara nánar út í þennan samanburð, sem ég gerði hér fyrr í kvöld, varðandi, hvað það er nú miklu hærri fjárupphæðin, þótt lögð sé til grundvallar vísitöluhækkun á byggingarkostnaði, heldur en áður átti sér stað.

Það hefur einnig í þessum umr. verið nokkuð komið inn á ýmsa aðra liði, sem fé er veitt til og snýr að verklegum framkvæmdum. En það hefur ekki verið minnzt á annað, sem er þó stór liður og snýr að almenningi í þessu landi, að 1958 voru veittar til almannatrygginga 85 millj. 300 þús. kr. En í þessu fjárlfrv. er þessi stuðningur við almenning í landinu að upphæð 695 millj. 825 þús. kr. Þarna munar allmiklu, og ef tekið er tillit til þess kostnaðarauka, sem átt hefur sér stað á þessu árabili, hygg ég, að það sé að verulega miklum mun meira, sem þessi fjárveiting er og verður drýgri fyrir almenning í landinu heldur en 85 millj. 1958. Framlag til hafnarframkvæmda hefur einnig verið nokkuð rætt um. Þar var heildarfjárveiting 12 millj. 775 þús. kr. 1958, í þessu fjárlfrv. eru 43 millj. 450 þús. Og ef við athugum byggingarvísitöluna, sem er um það bil tvöfalt hærri en hún var 1958, sjáum við, hvað varið er tiltölulega miklu meira til hafnarframkvæmda í þessu fjárlfrv. en gert var í tíð vinstri stjórnarinnar 1958. Það var einn hv. þm., sem ræddi hér um þessi mál áðan, og hann talaði um, að fjárveitingar til hafnarmála væru nú í ríkari mæli dregnar úr höndum Alþingis. Sannleikurinn er sá, að 1958, þegar veittar voru 12 millj. 775 þús. kr. til hafnarmála í heild, voru 2 millj. veittar til hafnarbótasjóðs, sem komu til ráðstöfunar af hendi sjútvmrh. Að þessu sinni eru 40 millj. á sama hátt veittar í fjárl., en upphæðin, sem kemur til útdeilingar úr hafnarbótasjóði, er 3.2 millj. Öll hin upphæðin er fyrir fram ákveðin með þeim till., sem hér liggja fyrir um afgreiðslu fjárlaga. Það eru beinar fjárveitingar upp á 16.6 millj., og þar eru taldar upp allar hafnirnar, sem um er að ræða, og ferjubryggjur upp á 450 þús. á sama hátt. Til greiðslu á eftirstöðvum eða halafé, sem er ógreitt af hendi ríkissjóðs, eru 6.4 millj. kr. Þar hefur sá háttur verið hafður á undanförnum árum, að það hefur verið hlutfallslega jafnt til allra hafna eftir því, hver innistæðan hefur verið á hverjum tíma. Þá er það fjórði liðurinn, sem nemur 16 millj. og 800 þús. kr. Það er til greiðslu á hafnarlánum. Af þessum 16.8 millj. kr. var upplýst við 2. umr. málsins, að 7 millj. kr. ganga til endurgreiðslu á lánum fyrir Þorlákshöfn. Það má þó segja, að allir þessir fjórir liðir séu fyrir fram ákveðnir af Alþ., hvert greiðslurnar eigi að ganga.

Ég vil að lokum minnast á fjárveitingar til læknisbústaða og sjúkrahúsa, sem hér hefur einnig verið minnzt á. Það voru á árinu 1958, svo að maður haldi áfram þeim samanburði, veittar 3 millj. og 300 þús. kr. til sjúkrahúsa, annarra en ríkissjúkrahúsa. En í þessu fjárlagafrv., sem hér liggur fyrir, eru veittar 18 384 606 kr. Þá var varið til ríkissjúkrahúsa á árinu 1958 5 millj. 190 þús., en á næsta ári verða veittar samkv. frv. 30 millj. 560 þús. kr. til þessara sömu framkvæmda.

Ég hef farið hér yfir nokkra af þessum helztu liðum, sem snúa að fjárveitingum til framkvæmda í þessu fjárlagafrv. Það ber allt að sama brunni, að fjárveitingar í öllum þessum efnum eru nú að miklum mun ríflegri, þó að lagður sé til grundvallar sá kostnaðarauki, sem átt hefur sér stað á þessu tímabili, heldur en var á dögum þeirra manna, sem gagnrýnt hafa mest þessar tölur að þessu sinni.