02.11.1965
Efri deild: 10. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 869 í B-deild Alþingistíðinda. (796)

3. mál, lántaka vegna vega- og flugvallargerða

Frsm. (Þorvaldur G. Kristjánsson):

Herra forseti. Fjhn. hefur tekið til meðferðar frv. það, sem hér er til umr. á þskj. 3, og rætt frv. og mælir með, að það verði samþ. óbreytt.

Ástæðurnar fyrir þessu frv. eru, eins og hæstv. fjmrh. gerði grein fyrir í framsögu fyrir málinu við 1. umr., að sett voru brbl. í júlí s.l. til þess að afla ríkissjóði heimildar til að taka lán til flugvallargerða og vegagerða. Þetta frv. er hér lagt fram til staðfestingar á þessum brbl.

Hér er um að ræða annars vegar lán til samgöngubóta á Vestfjörðum, og hins vegar lán vegna Reykjanesbrautar. Nokkur hluti er, eins og ég sagði, vegna samgöngubóta á Vestfjörðum, en tekið hefur verið lán til þeirra framkvæmda hjá viðreisnarsjóði Evrópuráðsins. Sú lántaka er í sambandi við heildaráætlun, sem gerð hefur verið um samgöngubætur á Vestfjörðum, þar sem gert er ráð fyrir, að á næstu 4 árum verði varið til tiltekinna framkvæmda í hafnarmálum, flugmálum og vegamálum 171.6 millj. kr., sem skiptist þannig, að í hafnir fara 71.8 millj. kr., vegi 67.7 millj. kr. og 32.1 millj. kr. í flugvelli. Það er gert ráð fyrir, að fjármagnið til þessara framkvæmda komi að hálfu með framlögum innanlands til þessara mála, eða 85.6 millj. kr., en 86 millj. kr. eða 2 millj. dollara komi frá viðreisnarsjóði Evrópuráðsins

Meginsjónarmiðið, sem ráðið hefur í þessari áætlunargerð í samgöngumálum Vestfjarða, er, að komið verði á tveimur aðalbyggðakjörnum, öðrum um Ísafjörð og nágrenni og hinum um Patreksfjörð og nágrenni. Í þessu skyni er ráðgert að verja til vegaframkvæmda á Ísafjarðarsvæðinu á þessu 4 ára tímabili rúmum 40 millj. kr. Þar er um að ræða 18.5 millj. kr. í Breiðadalsheiðina, veg og jarðgöng, 7.6 millj. kr. í Bolungarvikurveginn, 6 millj. kr. í Súgandafjarðarveginn og 3.5 millj. kr. í Gemlufallsheiðina. Þá er gert ráð fyrir framlögum í Djúpveginn til Súðavíkur og í Flateyrarveg. Á Patreksfjarðarsvæðinu er gert ráð fyrir 7.4 millj. kr. til vegaframkvæmda. Þar af eru 6.2 millj. kr. í Bíldudalsveginn um Hálfdán milli Patreksfjarðar og Bíldudals. Til þess að bæta vegasambandið við Reykjavík er gert ráð fyrir í áætlun þessari, að varið verði 15.1 millj. kr. í veginn meðfram fjörðum sunnan Þingmannaheiðar. Þá er reiknað með, að stórt átak verði gert til að bæta flugsamgöngur milli Ísafjarðarsvæðisins og Patreksfjarðarsvæðisins og Reykjavíkur. Í því skyni er ráðgert að verja 21.9 millj. kr. til framkvæmda á Ísafjarðarflugvelli og 6.8 millj. kr. til Patreksfjarðarflugvallar. Með þessu móti er ætlunin að tryggja sem bezt öruggar flugsamgöngur við Reykjavík. Í áætluninni er gert ráð fyrir, að um 2.7 millj. kr. verði varið til að bæta veginn frá Ísafjarðarbæ að flugvellinum og 1.2 millj. kr. til vegarins frá Patreksfjarðarkauptúni til flugvallarins í Sauðlauksdal.

Helztu fjárveitingar til hafnarframkvæmda, sem ráð er fyrir gert í áætluninni, eru til Patreksfjarðar 17 millj. kr., til Þingeyrar 11 millj. kr., til Ísafjarðar 10 millj. kr., til Bolungarvíkur 8 millj. kr., til Flateyrar 6 millj. kr., til Suðureyrar 5 millj. kr. og til Bíldudals 5 millj. kr. Þá er gert ráð fyrir 2 millj. kr. til Súðavíkur og 1/2 millj. kr. til hafnar í Tálknafirði.

Frv. það, sem hér liggur fyrir, fjallar um, að ríkissjóði sé aflað nauðsynlegra heimilda til lántöku á þessu ári.

Framkvæmdir hafa hafizt á þessari áætlun nú á þessu ári. Varðandi hafnarmálin var hægt að nota almenna heimild í hafnarlögunum til, að ríkissjóður tæki það lán, sem hér er um að ræða. En ekki var fyrr fengin formleg heimild fyrir ríkissjóð til þess að taka lán til vegagerðarinnar, þó að gert hafi verið ráð fyrir slíkri lántöku í vegáætluninni. En í vegáætluninni var gert ráð fyrir slíkri lántöku á þessu ári sem hér segir: Í Breiðadalsheiði 2 millj. kr. Í Örlygshafnarveg 0.5 millj. kr. Í Rauðasandsveg 0.2 millj. kr. Í Bíldudalsveg 1.5 millj. kr. Í Flateyrarveg 0.5 millj. kr. Í Djúpveg (Ísafjörður flugvöllur — Súðavík) 1.5 millj. kr. og í Bolungarvíkurveg 1 millj. kr. Þetta er samtals um 7 millj. kr.

Á þessu ári er svo gert ráð fyrir lánsfjármagni til flugvallargerðar að upphæð 5.8 millj. kr. í Patreksfjarðarflugvöll. Það hefur verið unnið að því mannvirki í sumar, og nú þessa dagana er verið að ljúka Patreksfjarðarflugveili, og er það mikil samgöngubót fyrir Patreksfjörð og nálægar sveitir. Hér er um mikið mannvirki að ræða, flugvöll með tveim flugbrautum, önnur 1400 m og hin 600 m. Þetta gjörbreytir viðhorfi til samgöngumála á þessu svæði. Á sama veg hefur í sumar, eins og ég gat um áðan, verið unnið að hafnarframkvæmdum og vegagerð samkv. framkvæmdaáætluninni. Það er vegna þess, að framkvæmdir voru þegar hafnar í sumar, sem nauðsynlegt var að afla ríkissjóði þeirrar heimildar til lántöku til þessara framkvæmda, sem farið er fram á í þessu frv.