22.03.1966
Efri deild: 54. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 874 í B-deild Alþingistíðinda. (813)

160. mál, tollskrá o.fl.

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Um s.l. áramót var því lýst yfir af hálfu ríkisstj., að hún mundi vilja beita sér fyrir því, að auðvelda innflutning á tilbúnum húsum og húshlutum á þann hátt að lækka, svo sem auðið væri, tolla af slíkum varningi. Frv. það, sem hér liggur fyrir, er fyrst og fremst flutt til efnda á þessu fyrirheiti. Það eru að vísu allmörg fleiri atriði í frv., en þau atriði, sem máli skipta, snerta fyrst og fremst það, sem ég hef hér greint frá, og leiðir það að sjálfsögðu af sér, að breyta þarf allmörgum númerum tollskrárinnar, þar sem alls konar slíkur varningur fellur undir.

Ástæðan til þess, að ríkisstj, ákvað að beita sér fyrir þessari breytingu á tollskránni og auðvelda innflutning tilbúinna húsa og húshluta, er tvíþætt. Annars vegar er um að ræða að stuðla að lækkun byggingarkostnaðar með þessum hætti varðandi þá aðila, sem geta hagnýtt sér slíkan innflutning og þar sem það þykir hagkvæmt, og hins vegar, sem má, einnig segja, að geti á vissan hátt stuðlað að lækkun byggingarkostnaðar, að draga almennt úr hinni mjög miklu spennu, sem er í byggingariðnaðinum og hefur leitt til margvíslegra vandkvæða og í mörgum tilfellum óhæfilegs aukakostnaðar í sambandi við húsbyggingar nú síðustu árin. Þetta er öllum hv. þdm. svo kunnug , að ég þarf ekki um það fleiri orðum að fara. En það var von ríkisstj. og tilgangur hennar, að með því að auðvelda innflutning tilbúinna húsa á þennan hátt og húshluta mundi vera hægt að ná fram lausn á þessu tviþætta vandamáli, bæði draga úr hinni óhæfilegu þenslu, án þess þó að nokkur hætta væri á, að atvinnuleysi skapaðist í byggingariðnaðinum, og þá um leið að stuðla að því, að auðið væri að byggja með ódýrari hætti.

Það, sem sérstaklega hvatti til þess, að gripið var til þessara úrræða, má segja, að hafi verið hin sérstöku byggingaráform, sem ríkisstj. hefur átt hlut að í sambandi við samninga við verkalýðsfélögin, þar sem beinlínis var lögð áherzla á það, að reynt yrði, m.a. með innflutningi húsa og húshluta, að stuðla að sem hagkvæmustum og ódýrustum byggingum fyrir meðlimi verkalýðsfélaganna. Sú byggingaráætlun varðandi Reykjavík er þegar komin í gang, og hefur margháttaður undirbúningur verið unninn í því sambandi, og við setningu tollákvarðana þessara hefur m.a. verið haft nokkurt samráð við nefnd þá, sem skipuð hefur verið til þess að hafa framkvæmdir þessara bygginga með höndum.

Vitanlega er það miklum takmörkunum háð, hvað hægt er að gera í þessu efni varðandi tollalækkanir, því að hafa verður að sjálfsögðu hliðsjón af þeim tollum, sem eru á hráefnum, þ.e.a.s. í þessu tilfelli byggingarefni almennt, og miðað við, hversu geysilegan tekjustofn er þar um að ræða fyrir ríkissjóð, var ekki auðið að lækka hráefnið, heldur varð að miða lækkun hins tilbúna við það, sem fært þætti eð hliðsjón af eðlilegum möguleikum hins innlenda iðnaðar til þess að starfa áfram þrátt fyrir þennan innflutning.

Í meginefnum eru breytingarnar í frv. fólgnar í því, að lækkaður er í 40% tollur af tilbúnum húsum og húshlutum úr 50—60% hvað snertir tilbúin hús, en hins vegar voru húshlutar að sjálfsögðu í mismunandi tollflokkum, eftir því sem háttað var gerð þeirra. Það þótti hins vegar nauðsynlegt að reyna að hafa þetta allt í sama tollflokki, og miðað við það, að timbur og byggingarvörur almennt eru í 35% tolli, þótti ekki auðið að fara neðar með hina tilbúnu húshluta og hús en í 40%. Engu að síður er hér um töluverða lækkun að ræða. En lækkunin er þó enn þá meiri varðandi innréttingar í hús, fastar innréttingar, því að þar er um að ræða tollalækkun úr 90% niður í 60%.

Með hliðsjón af þessum tollabreytingum var óumflýjanlegt, enda þótt það hefði í för með sér töluverða tekjurýrnun fyrir ríkissjóð, að lækka ýmiss konar varning í sambandi við húshluti og er þar stærsti liðurinn lásar og skrár, úr 70% niður í 40%, til þess að ekki yrði þar um öfuga tollvernd að ræða, þ.e.a.s. ef þetta væri innflutt í hurðunum tilbúnum, hefði það ella orðið ódýrara en fyrir innlendan iðnað, sem framleiddi slíka vöru, ef þessum tolli hefði ekki verið breytt.

Loks er í þriðja lagi um það að ræða, að lækkaður er tollur af sementi úr 35% í 20%. Tollur á sementi var hækkaður mjög verulega við heildarbreytinguna á tollskránni 1962. Áður mun tollur hafa verið að innflutningsskatti meðtöldum eitthvað nálægt 20%. Þessi tollvernd þykir óeðlileg og skapar sementsverksmiðjunni tollvernd, sem ekki sé eðlileg, því að að sjálfsögðu hefur alltaf verið að því stefnt, að hún gæti framleitt sement með sem ódýrustum hætti, og vitanlega hefur hún mjög verulega vernd í því, að það er mikill kostnaður og dýrt að flytja sement til landsins, þannig að það verður að telja, að þrátt fyrir það, að þessi tollur sé lækkaður í 20%, geti það ekki orðið til hindrunar neinni eðlilegri starfsemi sementsverksmiðjunnar, heldur aðeins verki sem aðhald fyrir hana um það að halda sementsverðinu innan sem þrengstra marka.

Þetta eru þær breytingar sem varða það stefnuatriði, sem ég áðan gat um. Í frv. er svo að finna allmargar aðrar breytingar, sem eru flestar eða raunar allar til komnar vegna nauðsynjar á samræmingu og til staðfestingar á úrskurðum, sem fjmrn. hefur orðið að gefa út, síðan síðasta tollskrárbreyting var gerð. Það eru að sjálfsögðu að koma til sögunnar stöðugt ný vandamál og viðfangsefni, sem í bili verður að beita úrskurðarheimildum til þess að ákvarða, en að sjálfsögðu er eðlilegt, að sé sett inn í tollskrá. Sums staðar hefur það komið í ljós, að við síðustu tollabreytingar hefur gleymzt að lagfæra viss atriði, þannig að óeðlilegt ósamræmi hefur skapazt, og er hér um það að ræða í þessu frv. að lagfæra þau atriði. Tekin eru jafnframt inn í frv. heimildarákvæði þrenns konar: Í fyrsta lagi varðandi aðflutningsgjöld af kvikmyndasýningarvélum fyrir samkomuhús. Það ákvæði hefur verið að undanförnu í fjárl. hverju sinni, en er að sjálfsögðu algerlega óeðlilegt að sé þar og eðlilegt að taka inn í tollskrána, úr því að reynslan sýnir, að Alþ. hefur ítrekað lýst yfir þeirri skoðun sinni, að þetta ætti að gilda. Í öðru lagi er tekin upp bein heimild til að fella niður gjald af ýmiss konar sölumerkjum góðgerðarfyrirtækja. Það er eilíf ásókn í þetta í rn., og stundum hefur þetta verið gefið eftir, án þess að bein heimild væri fyrir hendi, og það er skoðun rn., að miðað við það, að hér er ekki um nein veruleg tollatriði að ræða og hér er eingöngu um að ræða fjáröflunaraðferð fyrir ýmiss konar menningarfyrirtæki og góðgerðarstofnanir, þá sé eðlilegast að hafa beina heimild í þessu efni. Og í þriðja lagi er heimilað að endurgreiða gjöld af efni til uppsetningar á vatnsúðunarkerfum í kartöflugarða, allt að 10%, sem er hinn almenni tollur, sem vélar til landbúnaðar eru í, þannig að þar er um samræmingu að ræða. Hins vegar er hér um tæki að ræða, sem útilokað er að setja í ákveðinn tollflokk til að byrja með, vegna þess að það er ekki hægt að aðgreina þetta frá ýmsum öðrum tækjum, pípum og ýmsu öðru, þannig að það verður að hafa þá aðferð við þetta að heimila endurgreiðslu tollsins.

Ég held ekki, að sé ástæða til, nema tilefni gefist til, að ég fari að rekja að öðru leyti þær einstöku breytingar, sem hér er um að ræða. Þær eru, eins og ég sagði, mjög veigalitlar og eru allar gerðar til samræmingar. En það hefur ekki verið farið út í það í þessu frv. að gera neinar breytingar á tollamálum iðnaðarins almennt eða nokkrar almennar tollabreytingar umfram þá byggingarvörutolla, sem ég hef hér getið um. Vitanlega koma til greina mörg atriði í því sambandi, sem vafalaust koma upp í hugum þm., og fyrir hafa legið mörg erindi varðandi beiðni um ýmiss konar breytingar, sem ekki þótti rétt á þessu stigi að taka inn í þetta frv., heldur yrðu þær teknar til meðferðar í sambandi við þá heildarathugun á tollskránni, sem ég mun síðar víkja að. Ég skal sérstaklega geta þess hér, að það kom, um það bil sem verið var að ljúka þessari endurskoðun, ósk um það, að vísinda- og kennslutæki yrðu undanþegin tolli, og er vitnað í alþjóðasamþykktir í því efni. Hér er um töluvert víðtækt vandamál að ræða. Eins og sakir standa, er heimilað að endurgreiða toll af slíkum tækjum allt niður í 35%, þegar þau fara yfir þann toll. Við athugun hefur komið í ljós, að hér er um mál að ræða, sem þarfnast þáð rækilegrar athugunar og grípur inn í svo mörg tollskrárnúmer, að rn. telur ekki mögulegt að taka það til meðferðar nú. En ég tel sjálfsagt, að við framhaldsathugun tollskrárinnar verði þetta tekið til rækilegrar athugunar, hversu langt væri hægt að ganga í þessu efni.

Það má jafnframt minna á tvö önnur vandamál. sem gera má ráð fyrir, að sú n., sem fær þetta mál til meðferðar, fái erindi um, og hins vegar hafa verið til athugunar hjá rn. og í tollanefnd og eru hvort tveggja þess eðlis, að nauðsynlegt er að koma þar á lagfæringum, en þurfa nánari athugunar við. Það er annars vegar vandamálið varðandi bókaútgáfu, en eins og sakir standa nú, eru tollfrjálsar innfluttar bækur, en hins vegar greiddur tollur af bókaefni til innlendrar bókagerðar, þannig að hér er um öfuga tollvernd að ræða, ef svo má segja, og er að sjálfsögðu nauðsynlegt að taka til rækilegrar athugunar og hefur þegar nokkuð verið skoðað, hvaða úrræði væri hægt að hafa í þessu efni, til þess að innlend bókagerð byggi ekki við óeðlilega þröngan kost. Og í annan stað er um að ræða umbúðavandamál. Það eru margþætt atriði í sambandi við umbúðir utan um margvíslegar vörur. Þær eru í ótal tollflokkum, og hafa komið fram beiðnir úr ýmsum áttum um breytingar á því. Þetta mál þarf að taka til rækilegrar athugunar, en er hins vegar þess eðlis, að það var ekki talið auðið að taka það inn í þetta frv., eins og það liggur fyrir nú, með hliðsjón af þeim megintilgangi, sem hér var hugsað að ná, og þar sem þetta frv. er sem sagt undirbúið með tiltölulega mjög stuttum fyrirvara.

Á undanförnum árum hafa verið gerðar viðtækar breytingar á tollskránni og margvíslegar umbætur á því sviði. Það hefur verið framkvæmd heildarendurskoðun tollskrárinnar í samræmi við svokallaða Brüssel-tollskrá, og reynt hefur verið síðan að fylgjast með breytingum á þeirri tollskrá, þannig að það geti verið samræmi í túlkunum a.m.k. á Norðurlöndunum varðandi tollflokkun sömu vara í þessum löndum. Það var mikil breyting út af fyrir sig til bóta, þegar sameinaðir voru í einn toll. verðtoll, þeir þrír innflutningstollar, sem þá voru til, verðtollurinn, vörumagnstollurinn og innflutningssöluskatturinn, og stefnt hefur verið að því með tollabreytingum undanfarinna ára að lækka hátollana í áföngum. Hefur þegar áunnizt mikið á þeim vettvangi, því að tollar gátu áður náð allt að 300%, en nú eru hæstu tollar 125%. Þá hefur lækkun vélatolla í þágu útflutningsframleiðsluatvinnuveganna einnig verið mjög veruleg og haft mikla þýðingu. Engu að síður er sjáanlegt, að við þurfum að taka tollakerfið allt til miklu rækilegri athugunar. Svo sem öllum hv. þdm. er mjög kunnugt, eru miklar hreyfingar í þessum efnum víðs vegar um heim.

Tvenns konar bandalög hafa þegar verið mynduð í Evrópu, Efnahagsbandalagið og Fríverzlunarbandalagið, sem m.a. leggja á það höfuðáherzlu og eru þegar langt komin að því marki að afnema alla tolla milli aðildarríkjanna, og jafnframt hefur verið að því unnið innan alþjóðatollamálastofnunarinnar í hinum svokölluðu Kennedy-viðræðum að reyna að finna grundvöll til þess að fá samvinnu milli þessara bandalaga og annarra, sem utan standa, m.a. Bandaríkjanna, og þá að sjálfsögðu mundi það velta á miklu, að Ísland gæti komizt þar að vegna sinna miklu hagsmuna sem mikill aðili að utanríkisviðskiptum. Í hvaða formi það verður, er ekki auðið að segja, en það eitt er ljóst, að aðflutningstollar hér á Íslandi eru með því hæsta sem þekkist, og hvað sem líður aðild okkar að þessum bandalögum í einu eða öðru formi. er það ljóst, að við verðum að stefna í þá átt að lækka þessa tolla mjög verulega til þess að geta átt þess kost eða haft möguleika til í rauninni að hafa nokkurn viðræðugrundvöll við aðrar þjóðir um að fá fríðindi fyrir okkar innflutningsvörur, þar sem margar hverjar njóta nú orðið mjög óhagstæðra tollakjara, eftir að þessir innbyrðis tollar þessara tveggja efnahagsbandalaga sérstaklega, þar sem meginhluti okkar viðskipta er, eru úr sögunni.

Á þessu stigi er ekki hægt að segja um það, hver verður okkar stefna varðandi aðild að efnahagssamtökum annarra þjóða. Það hefur mikið verið rætt um hugsanlega aðild okkar að Fríverzlunarbandalaginu. Um það skal ég ekki segja á þessu stigi. Það þarf miklu nánari athugunar við. En hvað sem því líður, er það alveg ljóst, að við verðum að taka tollakerfi okkar til heildarendurskoðunar með það fyrir augum að lækka hina háu tolla og skapa þannig grundvöll að því, að við getum tekið þátt í eðlilegum viðræðum við aðrar þjóðir varðandi tolla þá, sem þær leggja á okkar vörur.

Með hliðsjón af þessu hefur ríkisstj. talið nauðsynlegt að leggja grundvöll að því að marka heildarstefnu í tollamálum og reyna nú á þessu ári, eins og ég segi, hvað sem líður aðild okkar að EFTA, þá verði engu að síður að því unnið að gera heildarathugun á aðstöðu okkar varðandi lækkun innflutningstolla. Hér kemur að sjálfsögðu margt til greina, sem þar að hafa í huga. Ég hef þegar getið um það, sem neyðir okkur til þess að vinna að slíkri tollalækkun, sem er sú þróun, sem er í heiminum almennt og hlýtur að leiða af sér, að við verðum að vera hlutgengir í því efni, ef við eigum að eiga samvinnu við aðra, sem við neyðumst til að eiga í einhverju formi. En vandamálin innanlands eru hins vegar tvíþætt. Annars vegar eru hagsmunir íslenzks iðnaðar, sem verður mjög endilega að gæta að, og hins vegar, sem ekki er kannske minna atriði, er fjáröflun ríkissjóðs. Einmitt hinir háu aðflutningstollar eru geysilegur þáttur í tekjuöflun ríkissjóðs, þannig að í árl. ársins 1966 eru aðflutningsgjöld alls áætluð 40.7% af tekjum ríkissjóðs. Það er því sjáanlega hér um mikið vandamál að ræða, hvernig á að mæta þessum tekjumissi, ef til verulegra tollbreytinga kemur. Þetta þarf því allt að skoðast mjög vendilega.

En þó að þessir erfiðleikar séu fyrir hendi, eru rökin fyrir því að kanna málið til hlítar svo brýn, að ríkisstj. hefur ákveðið að láta fram fara heildarathugun á þessu máli nú á þessu ári. Og hún hefur nú fyrir skömmu falið annars vegar tollanefndinni, sem hefur með höndum heildarathugun tollamálanna og tollskrárinnar, og hins vegar svokallaðri GATT-nefnd, sem hefur fylgzt með þróun viðræðna innan Alþjóðatollamálastofnunarinnar, að framkvæma á því athugun á þessu ári, þannig að því verði lokið fyrir næsta haust, hvort auði sé að stefna að því að lækka á næstu 4—5 árum aðflutningstolla um allt að 50%, þannig að 10% lækkun kæmi til framkvæmda á hverju ári. Og í þessu sambandi hefur þessum tveimur nefndum verið falið sérstaklega að athuga: Í fyrsta lagi, hvaða áhrif slíkar tollalækkanir hefðu á tekjur ríkissjóðs og hvernig mætti bæta ríkissjóði tapið, t.d. með því að leggja einhvern toll á vörur, sem nú eru tollfrjálsar eða lágtollaðar, og enn fremur með því að draga úr niðurgreiðslum. Í öðru lagi, hvaða vernd þyrfti að veita ákveðnum iðngreinum, t.d. með því að lækka strax um 10% hráefnistolla, en ekki fyrr en ári síðar tolla á þeim fullunnu vörum, sem hér eru framleiddar. Í þriðja lagi, hvaða áhrif tollbreytingar hefðu á verðlag og vísitölu framfærslukostnaðar. Og í fjórða lagi, hvaða vörur ætti að undanskilja hinni almennu toll lækkunaráætlun. Gæti þar verið um að ræða vörur, sem á að lækka lítið eða ekkert tolla á, svo og vörur, sem á að lækka tolla á fyrr en ætlunin gerir ráð fyrir.

Hér er sem sagt gripið á öllum þeim vandamálum, sem þarf að taka til athugunar í sambandi við tollabreytingarnar, þar sem rætt er um möguleikana á að lækka niðurgreiðslur til þess að bæta að einhverju leyti ríkissjóði tekjumissi. Það byggist á þeirri forsendu, a við almennar tollabreytingar eða tollalækkanir ætti að sjálfsögðu að gera ráð fyrir, að margar vörutegundir lækkuðu í verði, þannig að lækkun niðurgreiðslna þyrfti ekki að hafa í för með sér beinar verðhækkanir af þessum ástæðum. Þá er jafnframt lögð á það áherzla, að þessi athugun feli í sér rannsókn á aðstöðu iðhaðarins og m.a. verði það kannað, hvort hægt er að tryggja viðhlítandi aðlögunartímabil fyrir iðnaðinn, þannig að hann fái fyrst viss fríðindi varðandi sitt hráefni og tollabreytingarnar til lækkunar komi þá ekki til framkvæmda fyrr en alilöngum tíma eftir að þessi umþóttunartími iðnaðarins hefur hafizt.

Þetta er efni þeirrar athugunar, sem ríkisstj. hefur nú falið tollanefnd og GATT-nefnd að annast, og er að því stefnt, eins og ég áðan sagði, að þessi athugun geti legið fyrir það tímanlega, að ríkisstj. hafi getað áttað sig á þessum niðurstöðum n., áður en næsta Alþ. kemur saman.

Ég tel ekki ástæðu, herra forseti, til þess að ræða þetta nánar, en taldi nauðsynlegt í sambandi við þetta frv., að þessi meginsjónarmið kæmu fram af hálfu ríkisstj. varðandi hennar viðhorf í tollamálunum almennt, miðað við það mikla vandamál. sem hér er um að ræða og öllum hv. þdm. er fullkunnugt um, að er ofarlega á baugi meðal flestra eða allra okkar nágrannaþjóða í dag. Í því efni sem sagt tjóar ekki það eitt að fylgjast með, heldur þurfum við einnig að gera ráðstafanir til þess eða a.m.k. að gera okkur grein fyrir því, hvernig við getum mætt þeim vandamálum, sem skapast af aðgerðum annarra þjóða í þessu efni, auk þess að sjálfsögðu sem það skiptir meginmáli, að reynt sé að hafa sem mest samræmi í vöruverði hér innanlands og erlendis. Og tvímælalaust getur stefnan í tollamálum haft mjög verulega þýðingu fyrir kjaramál almennings almennt og því skylt að rannsaka til hlítar, hvað hægt er að gera í þessum efnum, einmitt með þessi sjónarmið í huga, að tryggja sem bezt aðstöðu okkar út á við viðskiptalega og inn á við að skapa hinum almenna borgara sem bezt viðskiptakjör.

Ég legg svo til, herra forseti, að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. fjhn.