31.03.1966
Efri deild: 58. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 883 í B-deild Alþingistíðinda. (816)

160. mál, tollskrá o.fl.

Helgi Bergs:

Herra forseti. Ég skal nú ekki lengja umr. mikið, það er líðið á fundartímann og sýnilegt, að hv. þm. vilja nú gjarnan fara að ljúka fundi, og þó að ræða hv. frsm. hefði getað gefið tilefni til umr., skal ég láta það kyrrt liggja að sinni og láta við það sitja að gera grein fyrir fyrirvara hv. 1. þm. Norðurl. e. og mínum, en við höfum skrifað undir álit n. með fyrirvara, gera grein fyrir fyrirvara okkar og brtt.

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, fjallar fyrst og fremst um það að lækka tolla á tilbúnum húsum og húsahlutum, og hv. frsm. meiri hl. gerði grein fyrir því, að það væri gert í því skyni að lækka byggingarkostnað og auka framkvæmdir. Um það er að sjálfsögðu ekki nema gott að segja, að þetta hvort tveggja sé gert, svo sem frekast er kostur. Og þegar þannig er ástatt, eins og nú er á okkar framkvæmdamarkaði, að við komumst ekki yfir allt, sem við ætlum að gera, er í sjálfu sér sízt við því að amast, þótt við fáum eitthvað af því, sem við komumst ekki yfir hvort eð er, gert erlendis. En til þess að þessi markmið náist, virðist okkur, sem skrifum undir nál. með fyrirvara, ekki nauðsynlegt að raska þeirri tollvernd verulega, sem innlendur byggingariðnaður nýtur. Við höfum þess vegna álitið, að það eigi um leið að lækka tolla á algengustu byggingarvörum nokkuð til samræmis við hina lækkuðu tolla á fullunnum húsum eða hálfunnum byggingarhlutum, og brtt. okkar, sem við leggjum fram á þskj. 412, lúta að þessu.

Hv. frsm. meiri hl. nefndi það hér áðan, að í skjóli haftabúskaparins, eins og hann orðaði það, hefði risið hér upp ýmiss konar iðnaður. Ég geri nú ráð fyrir því, að hv. þm. hafi ekki átt við það, að byggingariðnaðurinn væri út af fyrir sig óheilbrigður iðnaður, sem hér hefur vaxið upp í skjóli haftabúskapar, því að það getur ekki verið meining hv. þm. En það er þó alveg ljóst, að ýmis iðnaður, sem okkur er nauðsynlegur og hér er heilbrigt að starfrækja, þarf nokkra tollvernd, og það er eðlilegt, að hann hafi nokkra tollvernd. Við höfum þess vegna talið rétt, að sú tollvernd, sem byggingariðnaðurinn nýtur, sé ekki rýrð að sinni, ekki sízt vegna þess, að á öðrum vígstöðvum er tollvernd innlendra atvinnuvega, innlendrar framleiðslu sífellt að minnka vegna þeirrar röskunar á innlendum tilkostnaði, sem á sér stað vegna dýrtíðarþróunarinnar. Við höfum líka á undanförnum árum haft af því reynslu, sem ekki er í alla staði æskileg, hvernig minnkuð tollvernd, bæði af hálfu löggjafans í formi breytinga á tollskránni sjálfri og eins sú minnkun tollverndarinnar, sem á sér stað við dýrtíðarþróunina. hefur leikið sumar iðngreinar í landinu, og teljum ekki, að sú reynsla bjóði til þess, að því sé haldið áfram að sinni. Það er rétt, sem kom hér fram hjá hv. 8. þm. Reykv. áðan, að minni hl., eins og hann nefndi það, a.m.k. Framsfl.. hefur ekki lagt stein í götu þess, að sú stefna hæstv. ríkisstj. fengi framgang, að tollverndin væri nokkuð minnkuð í því skyni að samræma verðlag innanlands erlendu verðlagi. En við höfum á hinn bóginn lagt áherzlu á það, að til þess að það gæti gerzt farsællega, þyrfti að efla samkeppnisgetu iðnaðarins með ýmsu öðru móti, til þess að hann geti aðlagað sig nýjum skilyrðum. Það sjónarmið hefur að vísu verið viðurkennt, en þær ráðstafanir, sem gerðar hafa verið í þessu skyni, hafa ýmist ekki verið nægilegar eða þær hafa eyðilagzt í dýrtíðarflóðinu.

Ég held, að ég geti látið þetta nægja til skýringar á heim brtt., sem við flytjum á þskj. 412 og fela í sér lækkun á tolli á algengasta húsasmiðatimbri, mótatimbri, ofan í 20%, sem er það sama og sementstollur á nú að fara í, og sömuleiðis fela brtt. okkar í sér lækkun á steypustyrktarjárni ofan í 20% líka. Við höfum kosið að flytja ekki að þessu sinni aðrar brtt. en þær. sem snerta það grundvallaratriði, sem stjfrv. felur í sér.

Ég vil hins vegar ekki láta hjá líða að minna á það í þessu sambandi, að við höfum talið nauðsynlegar breytingar á tollskránni, ekki sízt í því skyni. sem ég var áðan að nefna, að efla samkeppnisaðstöðu innlendrar framleiðslu með því að fella niður tolla af vélum til framleiðslunnar. Í fyrra voru þeir tollar lækkaðir nokkuð, — úr 35% niður í 25% fyrir flesta innlenda framleiðslu, fyrir flestar vélar, sem framleiða fyrir innlendan markað, og lækkað meira fyrir vélar til útflutningsiðnaðarins. Við fluttum þá brtt. um frekari lækkun í þessu skyni og teljum þær enn nauðsynlegar, þó að við höfum kosið að flytja ekki brtt. um það að sinni, til þess að láta málið snúast um það grundvallaratriði, sem hér er um að ræða. Sama máli gegnir um till., sem við höfum áður flutt og álitum enn tímabærar. Á ég þar við till. um lækkun tolla á heimilistækjum, sem við höfum einnig flutt hér áður, þegar tollskráin hefur verið til meðferðar, úr 80% ofan í 50%. En sem sagt, að þessu sinni munum við ekki taka þær till. upp, það verður þá að bíða annars tíma til að drepa ekki því máli á dreif, sem hér er um fjallað.

Ég vænti þess, að hv. dm. sjái sér fært að samþykkja þessar brtt. okkar á þskj. 412, sem miða að því að lækka byggingarkostnaðinn í landinu á öðrum byggingum en þeim, sem fluttar eru inn fullbúnar eða hálfsmiðaðar, sem auðvitað er og verður meginþorri bygginganna í landinu, og í öðru lagi lúta að því að koma til móts eða jafna nokkuð metin fyrir innlendan byggingariðnað vegna þeirrar lækkunar á tilbúnum húsum og hálfbúnum, sem þetta frv. felur í sér.