31.03.1966
Efri deild: 58. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 885 í B-deild Alþingistíðinda. (817)

160. mál, tollskrá o.fl.

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Það voru aðeins nokkur orð. Ég vil fyrst og fremst þakka hv. n. fyrir afgreiðslu þessa máls og sérstaklega það, að n. hefur haldið sig við það viðfangsefni, sem þessu frv. var ætlað að þjóna, og kom það fram í ræðu hv. 6. þm. Sunnl., sem hér var að ljúka sínu máli, og ég er honum þakklátur fyrir, að það hefur ekki verið farið út í það að drepa málinu á dreif með því að flytja við það brtt. um ótalmarga hluti, sem menn kynnu að hafa áhuga á og ekki varða þetta sérstaka viðfangsefni. Ég þarf naumast að taka það fram, því að það mun áreiðanlega vera ljóst hv. 6. þm. Sunnl. og þeim flm. þeirrar brtt., sem hér er um að ræða, að það er auðvitað ekki með nokkru móti auðið að samþykkja þær till. af þeirri ástæðu, að hér er um að ræða mjög stórfellt tekjutap fyrir ríkissjóð, sem er ekki hægt, eins og nú standa sakir, að mæta nema þá með því, að menn séu reiðubúnir til þess að afla fjár til ríkissjóðs með öðrum hætti. Þetta er ljóst mál, að hér er um að ræða innflutning, sem er svo mikill á ári hverju, að þarna er um að ræða mjög verulegar fjárhæðir. Ef það væri ekki, hefði vafalaust áður verið farið inn á þær brautir að lækka aðflutningsgjöld af byggingarefni og þessum almennu vörum, því að það hefur mönnum vitanlega alltaf verið ljóst að það væri úrræði til að lækka byggingarkostnað að lækka þessa tolla, og er það út af fyrir sig ekkert nýtt mál. Hitt álit ég, að þurfi ekki að óttast, enda kom það skýrt fram í ræðu hv. 6. þm. Sunnl., að enda þótt sú breyting sé gerð á tollskránni, sem hér er gert ráð fyrir, vofir enginn ótti yfir innlendum byggingariðnaði af þeim sökum. Það þarf auðvitað ekki að taka það fram, sem hann raunar sagði, að það dettur auðvitað engum 5 hug, að það eigi að fara að vega að innlendum byggingariðnaði. Hann hefur sínu mikilvæga hlutverki að gegna. En miðað við þá geysilegu þenslu, sem hv. 6. þm. Sunnl. réttilega benti á, að nú væri til staðar í byggingariðnaðinum, þarf áreiðanlega ekki að óttast það, þó að þessar ráðstafanir séu gerðar að sinni, að það skapi neina erfiðleika í þeim iðnaði.

Eins og ég sagði í frumræðu minni, hefur að öðru leyti verið ákveðið og það er þegar komin í gang athugun á því að framkvæma nú á þessu sumri heildarathugun á möguleikum mjög víðtækra tollalækkana á næstu árum, sem að sjálfsögðu einnig nær þá til þessara vara sem annarra, og með hliðsjón af því tel ég ekki nauðsynlegt á þessu stigi eða æskilegt að gera aðrar breytingar á tollskránni en menn hafa hér komið auga á, að auðið væri að gera til þess að létta af þessari spennu í byggingariðnaðinum og auðvelda innflutning þeirra tilbúnu húshluta, sem hér er um að ræða. Byggingarefnið kemur þá til athugunar á sínum tíma ásamt auðvitað ótalmörgum vöruflokkum, sem við vitum öll, að má segja, að séu hér óeðlilega háir tollar á, sem stafar ekki hvað sízt af því, sem hv. frsm. fjhn. hér tók fram eða fjhn. hélt fram, að hér er um að ræða geysiháa tekjustofna fyrir ríkissjóðinn, þar sem aðflutningsgjöldin nema í heild næstum helmingi af öllum tekjum ríkisins.

Ég vildi láta þetta aðeins koma hér fram. Það er ekki vegna þess, að ég raunverulega sé andvígur því, að það væri hægt að lækka tolla á byggingarvörum, ef auðið væri, því fer fjarri, heldur hygg ég, að raunverulega geri allir menn sér grein fyrir því, einnig flm till., að það er vitanlega ekki auðið að samþykkja þær tollalækkunarbreytingar, eins og sakir standa nú.