12.04.1966
Neðri deild: 68. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 887 í B-deild Alþingistíðinda. (823)

160. mál, tollskrá o.fl.

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Því var fyrir nokkru lýst yfir af hálfu ríkisstj., að hún mundi beita sér fyrir því að lækka tolla af tilbúnum húsum og húshlutum í þeim tvíþætta tilgangi að lækka annars vegar byggingarkostnað og hins vegar að létta á þeirri miklu spennu, sem er á byggingarmarkaðinum. Það er öllum hv. þdm. fullkunnugt, hvernig ástatt er í þeim efnum, að þar er þensla hvað mest í þjóðfélaginu og raunar framkvæmdir á því sviði miklum mun meiri en vinnuafl leyfir. Af þessum sökum þótti nauðsynlegt að gera ráðstafanir í þá átt, sem ég hef hér getið um, og m.a. var það þáttur í viðræðum. sem áttu sér stað í sambandi við þær sérstöku framkvæmdir, sem undirbúningur er hafinn að í samræmi við samkomulag við verkalýðsfélögin, að byggja í stórum stíl íbúðir fyrir meðlimi verkalýðsfélaga, reyna þar í senn að hagnýta hina fullkomnustu tækni og finna úrræði til þess, að þær byggingar gætu orðið sem ódýrastar.

Frv. það til breytinga á tollskránni, sem hér liggur fyrir, er fyrst og fremst flutt til þess að fullnægja þessari yfirlýsingu ríkisstj., og er því meginkjarni frv. sá, að lækkaðir eru tollar á tilbúnum húsum, sem nú eru ýmist í 50—60% tolli eftir því, úr hvaða efni þau eru byggð, og niður í 40% toll, og jafnframt er lækkaður tollur af föstum innréttingum í hús, sem nú er 90% tollur af, en lagt til, að verði 60% tollur. Það var svo nauðsynlegt um leið að gera nokkrar tollalækkanir á einstökum vörum til húsbygginga, einkum lásum og skrám, til þess að bar yrði ekki um öfuga tollvernd að ræða, og hafa ýmsar smávörur í sambandi við byggingar í þeim tollflokki verið lækkaðar úr 70 í 40% Þá er jafnframt gert ráð fyrir því, að tollur af innfluttu sementi lækki úr 35% í 20%. Það er nokkuð svipað því, sem gilti um sement fyrir nokkrum árum, en var síðan hækkað, þegar tollskráin var síðast endurskoðuð. Sú hækkun þykir ástæðulaus, og hér sé um nægilega tollvernd að ræða fyrir innlenda sementsgerð, enda aldrei gert ráð fyrir öðru en hún yrði samkeppnisfær við erlenda sementsframleiðslu, og því er lagt til, að tollur á sementi verði lækkaður sem þessu nemur.

Svo sem hv. þm. sjá, eru allmörg atriði önnur í þessu frv., en þau atriði eru almennt þess eðlis. að hverju sinni koma fram ýmis atriði. sem koma í ljós við nánari athugun, eftir að tollskrá er samþ. Annaðhvort er um að ræða nýjar vörur eða þá að óeðlilegt ósamræmi hefur af gáleysi skapazt á milli einstakra vöruflokka, og allar þær breytingar aðrar, sem hér er um að ræða í þessu frv., eru þannig til komnar. Það er ekki um að ræða, að hér sé farið inn á þær brautir að raska neinum tollum, sem neinu máli skipta, og m.a. ekki varðandi iðnaðinn, hvorki hráefnatollum né tollum á tilbúnum vörum. Það er stærra mál, sem að sjálfsögðu þarf nánari athugunar við og ég mun víkja að síðar.

Vitanlega hefur það komið fram í sambandi við þetta frv., sem gengið hefur í gegnum hv. Ed., að það eru ýmis atriði, sem þm. hafa í huga og gjarnan vildu fá breytt. Það var hins vegar samkomulag um það í Ed., sem ég vona. að geti einnig orðið hér, að inn á þær brautir verði ekki farið, heldur að menn í sambandi við þetta frv. haldi sér að þeim meginatriðum, sem frv. fjallar um, þ.e.a.s. byggingarvörunum.

Við undirbúning frv. kom í ljós, að það eru ýmis atriði, burtséð frá því sérstaka vandamáli. sem er hin almenna tollastefna, er þarf að taka til athugunar og mun verða gert við undirbúning næstu breytinga á tollskránni, og skal ég þar einkum víkja að þremur atriðum, sem kann að vera, að komi upp við athugun málsins í n. í þessari hv. deild.

Það eru í fyrsta lagi vísinda- og kennslutæki. sem hafa komið fram ákveðnar óskir um, að tollar verði felldir niður á. Á vísindatækjum er heimilt að lækka tolla niður í 35%. eins og nú standa sakir, og hefur sú heimild verið notuð. Hins vegar er hér um mjög víðtækt vandamál að ræða og yfirgripsmikið, þannig að við nánari athugun þótti sýnt, að ekki væri auðið að framkvæma þá heildarathugun á tollskránni, sem þyrfti að fara fram til þess að gera sér grein fyrir öllum slíkum tækjum og hvaða afleiðingar það kynni að hafa, ef almennt væru felldir niður af þeim tollar. Ég tel hins vegar rétt og það mun verða að því unnið af rn. og tollskrárnefnd að kanna þetta mál nánar, því að það er ljóst, að það þarf að finna betri lausn á tollamálum varðandi þessi tæki heldur en þegar er gert með þeirri heimild. sem ég hef áður getið um.

Þá er enn fremur um þann vanda að ræða. sem lengi hefur verið um rætt, en menn ekki fundið lausn á til þessa, en það er varðandi íslenzka bókagerð, sem má segja, að njóti öfugrar tollverndar, ef má nota svo slæmt hugtak, þar eð innfluttar bækur eru tollfrjálsar, en bæði pappír og ýmislegt annað efni til innlendrar bókagerðar er tollað. Þetta er mál. sem er mjög nauðsynlegt einnig að taka til rækilegrar athugunar og finna á því viðhlítandi lausn, því að þetta ástand getur að sjálfsögðu ekki varað.

Í þriðja lagi er vandamál, sem upp hefur komið og má gera ráð fyrir, að einhverjir kunni að hreyfa, og það er í sambandi við umbúðir um ýmsar vörur. Það er mikið ósamræmi í tollum á margvíslegum umbúðum og efni í umbúðir og það kom til álita að taka það nokkuð til athugunar í sambandi við þessa tollskrárbreytingu. En þar sem ekki var hafizt handa um þessa breytingu fyrr en nú eftir áramót, var ekki heldur auðið að framkvæma þá athugun, sem þarf til þess að gera sér grein fyrir, hvernig þetta umbúðavandamál verði leyst.

Varðandi undirbúning þessa tollskrárbreytingafrv. að öðru leyti skal það svo tekið fram, að það var ekki auðið að taka upp neinar breytingar, sem málí skiptu, sem leiddu af sér tolltekjumissi fyrir ríkissjóð. Fjárlög hafa þegar verið afgreidd. Svo sem hv. þdm. er kunnugt, voru þau afgreidd án nokkurs greiðsluafgangs og því ekki auðið að missa tolltekjur á miðju ári, ef hefði átt að fara út í veigamiklar breytingar. Það er ekki talið, að það, sem hér er um að ræða, valdi neinum verulegum áhrifum í þá átt. Þó að einn líður, sem ég nefndi, lækkun á lásum og skrám og ýmsum smávarningi, sem þar fylgir til bygginga, nemi nokkrum millj. kr. á ári, sá innflutningur, þá er ekki ástæða til þess að álita, að það hafi neina verulega tekjurýrnun í för með sér, þegar á allt er litið.

Í heimildarákvæði tollskrárinnar, sem eru í þessu frv., eru tekin inn þrjú atriði. Tvö þeirra eru hv. þm. vel kunn, vegna þess að þau hafa áður verið afgreidd í sambandi við fjárlög frá ári til árs. Það er að endurgreiða aðflutningsgjöld af kvikmyndasýningavélum fyrir samkomuhús í sveitarfélögum. Það er að sjálfsögðu mun eðlilegra að hafa það í tollskrá, úr því að það hefur verið ítrekað endurtekin sú heimild í fjárl. Og í öðru lagi er mál, sem hefur í praxís verið framkvæmt þannig, þó að heimild hafi verið mjög vafasöm, að gefa eftir gjöld af ýmsum sölumerkjum, sem góðgerðafélög hafa flutt inn til þess að selja í fjáröflunarskyni fyrir viðkomandi félagssamtök. Rn. hefur oft gefið eftir þessi gjöld, þó að, eins og ég segi, sé mjög hæpin heimild fyrir því. En ég geri ráð fyrir, að allir þdm. séu sammála um, að það sé ekki eðlilegt, að það sé verið að tolla slík merki, sem út af fyrir sig eru verðlaus, en hafa aðeins verðgildi að því leyti, að þau eru notuð til sölu í fjáröflunarskyni fyrir þessi góðgerðafélög.

Og þá er enn fremur í þriðja lagi heimild til þess að endurgreiða gjöld af efni til uppsetningar á vatnsúðunarkerfum í kartöflugörðum, þ.e. að það verði innheimtur af því 10% verðtollur, svo sem er af flestöllum tækjum til landbúnaðarins. Það verður að hafa það form á að endurgreiða þennan toll, vegna þess að hér er um vörur að ræða, sem annars væri hægt að nota til ýmissa annarra hluta, og því ekki hægt að fella tollinn niður með öðrum hætti.

Á undanförnum árum hafa verið gerðar allverulegar breytingar á íslenzkum tollalögum og allar í þá átt að lækka tolla og samræma. Stærsta breytingin á því var gerð, þegar Brüssel-tollskráin var innleidd og heildarendurskoðun gerð á okkar tollskrá í því sambandi. Þá voru einnig sameinaðir þeir aðflutningstollar, sem áður voru í þrennu lagi, bæði verðtollur, vörumagnstollur og innflutningssöluskattur, í einn verðtoll, og hátollar hafa verið lækkaðir í áföngum. Þeir voru áður allt að 300%, en eru nú hæst 125%. Þá hafa enn fremur á undanförnum árum verið gerðar mjög veigamiklar lækkanir á vélatollum í sambandi við framleiðsluatvinnuvegina.

Ég skal ekki hér fara langt út í að ræða tollamálin almennt, en svo sem öllum er kunnugt, eru þau mál öll mjög í deiglunni hjá flestum nálægum löndum. Sérstök efnahagsbandalög hafa verið mynduð, sem hafa haft það að stefnumiði að fella niður alla tollmúra milli meðlimalandanna, og þetta leiðir að sjálfsögðu af sér margvísleg vandkvæði. Þau lönd, sem utan þessara bandalaga standa, og raunar bandalögin hver um sig hafa svo leitazt eftir að finna úrræði til þess, að ekki verði tollastyrjöld milli þessara bandalaga, og veigamesti þátturinn í þá átt hafa verið hinar svokölluðu Kennedy-viðræður, sem undanfarið hafa átt sér stað og að því hafa miðað að reyna að koma á tollasamkomulagi milli allra þessara aðila, sem að sjálfsögðu yrði í því fólgið að lækka almennt aðflutningstolla. Hvað sem verður um okkar þátttöku í efnahagsbandalögum, er alveg ljóst, að við verðum á næstu árum að ganga enn lengra í þá átt að breyta okkar tollkerfi og hverfa meira frá aðflutningstollum en nú er. Aðflutningstollar eru nú rúmlega 40% af öllum tekjum ríkissjóðs, og gefur auga leið, hversu erfitt vandamál það er fyrir ríkissjóðinn að eiga að mæta þeim vanda að afla fjár með öðrum hætti, ef í tollalækkanir þessar verður ráðizt. Það er jafnframt annar þáttur þessa vandamáls, sem er kannske ekki minni og það er það, sem snýr að íslenzkum iðnaði. Margvíslegur iðnaður hefur vaxið upp að sumu leyti í skjóli hárra verndartolla, og aðstaða ýmiss þessa iðnaðar verður mjög erfið, ef skyndilega ætti að hverfa frá þeirri tollvernd, sem verið hefur. Þetta eru tvö stærstu vandamálin, sem við augum blasa í sambandi við lausn þess vanda að lækka aðflutningsgjöldin, þannig að við verðum hæfari til þess að taka þátt í þeirri samvinnu, sem kann að verða um tollamál, og raunar þó að við tökum ekki þátt í henni, neyðumst við óbeinlínis til þess að gera þetta til þess að skapa okkur samningsaðstöðu varðandi okkar útflutningsvörur, sem ella mundu að sjálfsögðu búa við mun óhagstæðari tolla, ef við ætluðum að beita viðskiptalönd okkar mjög þungum tollum á móti. Þetta hefur leitt til þess, að ríkisstj. hefur þótt nauðsynlegt að hefjast handa um heildarathugun á tollastefnunni og leita eftir því, hvort hægt mundi vera með tiltækum ráðum að stefna að því að framkvæma 50% tollalækkun á næstu 5 árum í áföngum, þannig að 10% tollalækkun ætti sér stað á hverju ári, ekki endilega jöfn í öllum greinum, en að meðaltali yrði um slíka lækkun að ræða árlega. Í samræmi við þetta hefur ríkisstj. nýlega falið tollanefndinni og GATT-nefndinni að framkvæma á því athugun nú fyrir næsta haust, hvort tiltækilegt mundi verða að marka einhverja heildarstefnu í þessa átt, og var þá n. sérstaklega í því sambandi falið að athuga: Í fyrsta lagi, hvaða áhrif slíkar tollalækkanir hefðu á tekjur ríkissjóðs og hvernig mætti bæta ríkissjóði tapið, t.d. með því að leggja einhvern toll á vörur, sem nú eru tollfrjálsar eða lágt tollaðar, og enn fremur með því að draga úr niðurgreiðslum. Í öðru lagi, hvaða vernd þyrfti að veita ákveðnum iðngreinum, t.d. með því að lækka strax um 10% hráefnistolla, en ekki fyrr en ári síðar tolla á þeim fullunnu vörum, sem hér eru framleiddar. í þriðja lagi, hvaða áhrif tollabreytingar hefðu á verðlag og vísitölu framfærslukostnaðar. Og í fjórða lagi, hvaða vörur ætti að undanskilja hinni almennu tollalækkunaráætlun. Gæti þar verið um að ræða vörur, sem á að lækka lítið eða ekki tolla á, svo og vörur, sem á að lækka tolla á fyrr en áætlunin gerir ráð fyrir. Það er hugmyndin, að þessari athugun verði lokið það snemma, að hún geti legið fyrir um það bil, sem næsta Alþ. kæmi saman. Það er ljóst, að það liggur á að hraða slíkri athugun, því að það kann að því að koma, að við verðum að gera upp okkar hug, Íslendingar, um það, hvort við ætlum að taka einhvern þátt í annaðhvort takmörkuðu eða allsherjar samkomulagi um tollamál, og dugir því ekkí annað en að hafa markað sér einhverja stefnu í þeim efnum.

Þetta þótti mér vert, að kæmi fram í sambandi við þetta frv. til skýringar á því, að það er ekki víðtækara en það er á þessu stigi, en jafnframt það, að áfram er unnið í þeim anda að marka framtíðarstefnuna í tollamálunum í heild.

Ég legg svo til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjhn.