26.04.1966
Neðri deild: 79. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 891 í B-deild Alþingistíðinda. (829)

160. mál, tollskrá o.fl.

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Það er vegna þess, að ég hef ásamt hv. 1. þm. Norðurl. v. leyft mér að flytja örfáar brtt. við þetta frv., sem ég kveð mér hér hljóðs við 3. umr., en ég var ekki viðstaddur, þegar 2. umr. fór fram, og dró þess vegna till. til baka til 3. umr. Með því að fundartími er mjög takmarkaður, skal ég reyna að stytta mál mitt mjög, en mér þykir þó hlýða að gera grein fyrir þessum brtt. með aðeins örfáum orðum.

Við höfum skrifað undir nál. með fyrirvara, við þessir tveir þm., sem ég áður gat um, og ég vil gera grein fyrir því hvers vegna.

Þetta frv. um breytingar á tollskránni fjallar fyrst og fremst um það að lækka tolla af tilbúnum húsum og húshlutum. Ástæðan fyrir því, að þetta frv. er flutt, er svo sem fram hefur komið af málflutningi hæstv. fjmrh. og þeirra annarra, sem túlkað hafa málið af hálfu ríkisvaldsins, sú, að það á að lækka með þessu byggingarkostnaðinn og auka framkvæmdirnar við byggingar. Ég geri ráð fyrir því, að það sé góðra gjalda vert að freista þessarar tilhögunar til þess að lækka byggingarkostnaðinn, sem er eitt af mestu vandamálum, sem við höfum hér við að glíma nú á þessum árum. Það sýnir náttúrlega ástandið á þessum atvinnumarkaði, sem við búum hér við, að menn skuli ekki sjá önnur ráð til þess að koma upp nauðsynlegum híbýlakosti fyrir landsmenn en að flytja inn tilbúin hús frá öðrum löndum og kaupa þannig vinnuna að. Það hefur áður verið reynt að lækka byggingarkostnað og hagnýta sér þessa leið, að flytja inn tilbúin hús. Sú aðferð hefur, eftir því sem ég veit bezt, fram undir þetta gefizt illa. Þau hús, sem hafa verið reist hér tilbúin og aðflutt, hafa reynzt illa, og ég vona, að á því geti orðið breyting nú, því að það eru vissulega vafasöm kaup að kaupa tilbúin íbúðarhús, ef þau reynast ekki betur en raun hefur borið vitni til þessa. En ég get nú ekki varizt því, að mér finnst, að í þessari leið að flytja inn tilbúin hús og húshluta, þó að ég sé út af fyrir sig ekki að mæla því í gegn, felist nokkur uppgjöf hjá þeim, sem átt hafa að framkvæma lög um húsnæðismálastofnun ríkisins. Eins og kunnugt er, er hlutverk húsnæðismálastofnunar tvíþætt. Það er annars vegar að skipta því fjármagni, sem ríkisvaldið lætur af mörkum hverju sinni til þess að lána til húsbygginga. Það er í sjálfu sér ekki vandasamt verk og ætti að vera hægt að vinna að mestu leyti í vélum, og þyrfti ekki margmennar nefndir til þess að sjá um það. En annað meginhlutverk húsnæðismálastofnunar er samkv. 3. gr. l. þar um að vinna að umbótum í byggingarmálum og lækkun á byggingarkostnaði með ýmsum þeim ráðstöfunum, sem taldar eru upp í nokkrum liðum þessarar 3. gr. laganna. Mér finnst, að það hafi ekki verið unnið nægilega skipulega að því að framkvæma þessa 3. gr.

Ég hef oft áður gert þetta hér að umtalsefni á hv. Alþ., og ég skal þess vegna stytta mál mitt mjög um það efni. En það eru taldar upp nokkrar leiðir, sem átti að fara til þess að lækka byggingarkostnaðinn. Þær hafa ekki gefizt betur en svo, að nú er helzta ráðið, sem menn sjá til þess að lækka byggingarkostnað, að flytja inn tilbúin hús. Ég hefði fyrir mitt leyti viljað, að a.m.k. jafnframt þessari lausn hefði verið haldið áfram að leggja áherzlu á í ríkara mæli en gert hefur verið að framkvæma 3. gr. l. um húsnæðismálastofnun ríkisins, því að ég tel það í sannleika sagt varhugaverða stefnu, ef það verður nokkurt verulegt framhald á því, að allir Íslendingar verði vinnukraftur við öflun hráefna. Það má vel vera, að það sé þjóðhagslega hagkvæmast, að við séum allir uppteknir við það að draga fisk úr sjó og flaka hann og vinna hann í frystihúsum okkar. En ég hygg, að það sé ekki hollt fyrir þá stefnu, sem við vissulega allir viljum fylgja, að byggja hér sjálfstætt þjóðfélag. Ég vil þess vegna leggja áherzlu á það, að jafnframt þessari leið, sem nú á að reyna og ég er út af fyrir sig ekki að mæla gegn, sé reynt að ná þessu markmiði án þess að raska nokkuð verulega þeirri tollvernd, sem innlendur byggingariðnaður hefur notið. Ég álit því, að um leið og þessi leið er farin, eins og ég áðan sagði, væri æskilegt, ef hægt væri að lækka tolla á algengustu byggingarvörum nokkuð til samræmis við lækkaða tolla á fullunnum húsum eða hálfunnum byggingarhlutum.

Ég hygg, að það sé almennt skoðað eðlilegt, að við Íslendingar byggjum sem mest okkar hús sjálfir og byggingariðnaðurinn sé heilbrigð atvinnugrein og það ætti frekast að koma til móts við samtök byggingariðnaðarmanna, sem hafa margsinnis látið frá sér fara óskir um stærra átak í þá átt að auka fjöldaframleiðslu og lækka byggingarkostnaðinn á þann hátt og margan annan, sem þeir hafa nánar greint og oft hefur komið til umr. hér á hv. Alþ. Þetta er þeim mun nauðsynlegra, að lækka byggingarefnið að mínum dómi, sem vitað er, að vaxandi dýrtíð hefur gert aðstöðu þessarar iðngreinar mjög erfiða, og menn verða að athuga það, að í sambandi við gengisskráningu, ef hún er ekki alls kostar rétt, versnar hlutur íslenzkra iðngreina mjög í samanburði við erlenda framleiðslu. Þess vegna höfum við hv. 1. þm. Norðurl. v. og ég leyft okkur að bera fram þær brtt., sem ég er hér að mæla fyrir. En þær fela það í sér, að algengasta húsatimbur, mótatimbur fyrst og fremst, krossviðarplötur og fleira slíkt, sem notað er í innréttingar, svo og steypustyrktarjárn verði lækkað þannig, að tollurinn breytist úr 35% í 20%.

Þessar till. skýra sig algerlega sjálfar og ég skal ekki fara um þær fleiri orðum. Ég vil aðeins bæta því við, að við höfum tekið þann kost nú að flytja ekki fleiri brtt. við tollskrána til þess að koma til móts við þá áherzlu, sem hæstv. fjmrh, hefur lagt á það, að þetta væri aðalefni þeirra breytinga, sem hér um ræðir. Við teljum eftir sem áður fyllstu ástæðu til þess að gera frekari breytingar á tollskrá í samræmi við þær brtt., sem við höfum áður flutt. Ég leyfi mér t.d. að minna á tolla af heimilistækjum, sem við höfum margflutt till. til lækkunar um, ýmsar lækkanir á vélum til iðnaðar, sem við höfum einnig flutt till. um. Það hefur nokkuð verið komið til móts við þær, en að okkar dómi ekki algerlega nóg.

Ég vænti þess, að hv. þdm. sjái sér fært að samþykkja þessar brtt. okkar, sem miða að því, eins og meginefni þessa frv., sem hér um ræðir, að lækka byggingarkostnaðinn í landinu, lækka hann á þeim byggingum, sem íslenzkir iðnaðarmenn smíða, til samræmis við þá lækkun, sem nú verður samþ. á innfluttum húsum og húshlutum. Þetta hefði mikil áhrif fyrir byggingarkostnaðinn, því að ég geri ráð fyrir því, og það hefur raunar komið hér fram í málflutningi hjá fleirum, að eftir sem áður verði meginþorri bygginga hér byggður af íslenzkum iðnaðarmönnum sjálfum og fyrir efni, sem þeir flytja inn sem byggingarefni.

Ég veit, að það hefur verið talað um það, að ríkissjóður mundi ekki geta verið án þeirra tekna, sem nú eru teknar af byggingarefni. Ég skal viðurkenna það, að ég hef ekki reiknað eða látið reikna fyrir mig, hversu miklu tekjutap ríkissjóðs af þeirri tollalækkun, sem hér er um að ræða, mundi nema. En ég hygg, að með skírskotun til þeirra ástæðna, sem ég hef reynt að gera hér grein fyrir í eins stuttu máli og ég taldi mér frekast fært, sé það atriði, sem horfast verður í augu við, til þess að það samræmi milli bygginga innlendra iðnaðarmanna og innflutnings tilbúinna húsa, sem ég tel æskilegt, geti haldizt.