15.04.1966
Efri deild: 64. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 906 í B-deild Alþingistíðinda. (840)

119. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð út af brtt. þeirri, sem hv. 9. þm. Reykv. hefur hér flutt um að breyta skiptingu landsútsvara þannig, að helmingur þeirra falli til viðkomandi sveitarfélags í stað 1/4 nú, og rýra að þessu leyti hlut jöfnunarsjóðsins. Eins og ég gat um, þegar þetta frv. var lagt fram, er það flutt í nánu samráði við Samband ísl. sveitarfélaga, enda hefur fulltrúaráð þess mælt með samþykkt frv.. Ég efnislega er það um það, að varðandi tiltekin fyrirtæki skuli gilda sams konar skattaálagning og á sér stað um skattlagningu einkafyrirtækja eftir almennum reglum, en hins vegar ekki í neinu breytt þeim grundvallaratriðum, sem nú gilda varðandi jöfnunarsjóð og skiptihlutföll í sambandi við hann. Sú brtt., sem hér er um að ræða, felur hins vegar í sér að gera mjög veigamikla breytingu í því efni, þannig, eins og ég áðan sagði, að taka þarna helming landsútsvara í stað 1/4 nú og láta renna til viðkomandi sveitarfélags. Þetta atriði hefur verið til sérstakrar athugunar hjá Sambandi ísl. sveitarfélaga. og það hefur ekki á þessu stigi máls a.m.k. talið eðlilegt að taka upp þessa skipan mála, og hygg ég, eða ég hef a.m.k. ekki heyrt, að það hafi verið þar neinn ágreiningur um það efni. Ég mundi þess vegna fyrir mitt leyti telja það mjög miður farið, ef Alþ. samþykkti þá grundvallarbreytingu, sem hér er um að ræða í till. hv. Þm., án þess að fyrir liggi, að Samband ísl. sveitarfélaga, sem að sjálfsögðu þetta mál fyrst og fremst varðar, hafi tekið jákvæða afstöðu til þess máls, og það liggur ekki fyrir í dag. Hvort það kann að vera, að breyting verði á því viðhorfi, skal ég engu spá um. En ég legg á það mikla áherzlu, að varðandi útsvarsmál verði ekki gerðar veigamiklar efnisbreytingar á þeim hér á Alþ., án þess að haft hafi verið um það fullt samráð við sveitarfélögin og landssamtök þeirra. Ég get því á þessu stigi málsins ekki annað en lagt mjög eindregið gegn því, að þessi brtt. verði samþ.